Mánudagur 29.11.2010 - 11:48 - 11 ummæli

Þórshöfn í Færeyjum

Guðmundur skrifar athugasemd við síðustu færslu mína og bendir á Þórshöfn í Færeyjum og segir að við ættum að taka hana okkur til fyrirmyndar.  

Hann segir “….höfnin þar er enn skemmtileg, veitingastaðir og hótel allt um kring, en höfnin þó full af bátum og skipum og líf á hafnarbakkanum, stundum markaðir og uppákomur. Þar er smábátalægi innst í höfninni og stór skip utar”.

Ég hef aldrei til Færeyja komið en skoðaði skipulagið og svæðið á netinu og sé að þarna er lifandi höfn eins og Guðmundur bendir á. Þarna eru dráttarbrautir alveg i miðbænum. Gott lægi fyrir stór og smá skip.

Höfnin í Þórshöfn hefur greinilega mikið aðdráttarafl sem byggist fyrst og fremst á hafnarstarfseminni sjálfri.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.11.2010 - 09:29 - 5 ummæli

Framtíð Reykjavíkurhafnar

 

Undanfarin ár hefur átt sér stað umbreyting hafna í allri Evrópu og víðar. Enginn annar staður í borgarlandslaginu hefur tekið jafn miklum og hröðum breytingum og hafnirnar.

Flutningagámar, þjónusta skipa og útgerða, kranar, ferjubryggjur og verksmiðjur eru á brott og í þeirra stað hafa komið íbúðir, höfuðstöðvar stórfyrirtækja, hótel og menningarbyggingar.

Spurningum á borð við, hvernig á að nota gömlu hafnarsvæðin? hversu mikið á að byggja? fyrir hverja á að byggja? eða á eitthvað að byggja? hefur ekki verið svarað. Hér, eins og stundum áður, virðist atburðarásin hafa tekið völdin.

Hvert stefnir þróunin hér í Reykjavík?  Er borgin að feta svipaða slóð og Kaupmannahöfn?

Kíkjum á stöðuna í dag.

Á  Austurbakkanum er að rísa tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa.  Sunnan Hörpu eiga að rísa tvö stórhýsi.  Annarsvegar hótel og hins vegar skrifstofubygging.  Næst miðbænum er gert ráð fyrir bankabyggingu (höfuðstöðvum Landsbankans) og fjölbýlishúsi.

Á Miðbakka liggja ekki fyrir breytingar ef skoðuð er heimasíða borgarinnar .

Við Suðurbugt og á Slippasvæðinu liggur fyrir deiliskipulag sem í aðalatriðum gengur út á að breyta svæðinu úr slippasvæði í íbúðar- og þjónustusvæði. Þarna hefur farið fram slippastarfsemi í meira en 100 ár.

Við Ægisgarð hefur farið fram undirbúningsvinna vegna byggingar hótels.

Rífa á tæplega helming verbúðanna grænu sem hafa fengið kröftuga andlitslyftingu undanfarið með sjávarréttarstöðum og fl. Til að rétta Myrargötuna af og breikka hana. Slippastarfsemin er lögð niður.

Af þessu má ætla að höfnin sé að þróast á svipaðann hátt og höfnin í Kaupmannahöfn.

Fyrir réttu ári lágu fyrir úrslit í hugmyndasamkeppni um framtíð Reykjavíkurhafnar. Í vinningstillögunni (frá Graeme Massie Architects) kom fram skemmtileg hugmynd um að framlengja götur niður að höfn þannig að þær endi í bryggju. Þetta er snjöll tenging hafnarinnar inn í borgina. Höfundar gerðu líka ráð fyrir að slippurinn yrði áfram. Hvort tveggja sjálfsögð atriði sem allir sjá að eru til góðs eftir að búið er að benda á þau.

Það sem eftir stendur af tillögunni er hinsvegar eitthvað sem þarf að staldra við og skoða betur. T.d. að fjarlægja eitt stærsta útvegsfyrirtæki landsins, HB-Granda úr Örfirisey. Svo er það  fleygur sem rekinn er inn milli hafnarinnar og gömlu miðborgar sem er einkennilegur og treystir ekki samband gömlu miðborgarinnar og hafnarinnar. Að síðustu virðist sá arkitektúr sem sýndur er á tölvumyndum verðlaunatillögunnar ekki gefa fyrirheit um umhverfi í anda staðarins.

Höfnin, ásamt flugvellinum og sjálfum miðbænum, er ein þriggja helstu stoða sem uppbygging borgarinnar hefur byggst á um áratuga skeið. Þessar stoðir þarf að huga að og rækta, því án þeirra er Reykjavíkurborg ekki svipur hjá sjón.

Verkefnið, að finna gömlum höfnum nýtt hlutverk, hefur verið viðfangsefni skipulagsarkitekta og borgarstjórna víða um heim síðustu 3-4 áratugi.

Þegar skipin hættu að leggja upp á suðurhluta Manhattan voru pakkhúsin í fyrstu notuð fyrir óskylda starfsemi. Flestir þekkja hugtakið “loft” sem voru risastórar íbúðir sem innréttaðar voru í þessum húsum. Menn komu heim til sín um vörulyftu.

London Docks, The Docklands, varð að meiri háttar viðskiptahverfi. Höfnin í Cape Town breyttist eins og aðrar hafnir og er nú ein skemmtilegasta höfn sem ég hef heimsótt.  Þar ægir saman skipum og mannlífi.

Skoðið höfn Cape Town á Google Earth.

Austurhöfnin með Hörpu, hóteli og aðalstöðvum stórfyrirtækja.  Svo er þarna eitthvað sem kallað er “Reykjatorg”  Engu skipi er lagt við Austurbakka, Miðbakka eða Ingólfsgarð en einhverjir skemmtibátar eru þarna. Þetta virðast stórkallalegar byggingar sem vindar munu nauða um.

Suðurbugt og Slippasvæði.  Slippurinn er ekki þarna lengur en vel er séð fyrir legusvæða smábáta, Óðinn bundinn við bryggju sem safn og hvalbátarnir fara hvergi.

Verðlaunatillaga í hugmyndasamkeppni gerir ráð fyrir að HB-Grandi víki fyrir íbúðabyggð og að gamli miðbærinn sé skorinn frá höfninni með  íbúðarbyggð sem nær á haf út. Slippurinn og gömlu verbúðirnar við Ægisgarð eru þarna áfram. Götur sem liggja norður-suður enda í bryggju sem mun styrkja tengsl miðbæjarins við hafnarsvæðið.

Þeir sem vilja kynna sér málefni Reykjavíkurhafnar nánar er bent á þessar slóðir:

Slippasvæðið:

http://arcims.rvk.is/website/skipulagssja/upplysingar/DSK_PDF/Slippa_Ellingsenreitur_20070605.pdf

Austurhöfnin:

http://arcims.rvk.is/website/skipulagssja/upplysingar/DSK_PDF/TRH_2006.pdf

Vinningstillaga hugmyndasamkeppni:

http://www.worldarchitecturenews.com/index.php?fuseaction=wanappln.projectview&upload_id=13029

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.11.2010 - 16:03 - 4 ummæli

Höfnin í Kaupmannahöfn

Höfnin í Kaupmannahöfn hlaut slæm örlög.  Hún er nú einhvers konar bryggjuhverfi án skipa. Þar sem höfnin var áður eru nú  menningarhús, stjórnsýsluhús, skrifstofur og eitthvað af lúxus íbúðablokkum.

Þegar ég bjó í Kaupmannahöfn var hún iðandi af lífi. Brýrnar Langebro og Knippelsbro gengu upp og niður allan daginn. Nýhöfn skiptist í “den pæne side” og “den anden side” På den anden side voru knæpur, rónar og gleðikonur. På den pæne side var einn besti veitingastaður bæjarins, listaskálinn Charlottenborg og Konunglega danska Listaakademían.

Vandamál hafnarinnar í Kaupmannahöfn var fyrirséð. Miklar umræður voru um hvað gera skyldi þegar vöruflutningar hafnarinnar voru aflagðir. Til hvers átti að nota pakkhúsin og hvernig skildi byggja í skörðin? Hvaða starfsemi ætti að vera þarna?  En umræðan náði ekki til borgarbúa og var einangruð í tiltölulega litlum hópi. Margar greinar voru skrifaðar í fagtímaritin. Arkitektarnir Jörn Utzon, prófessor Tobias Faber og prófessor Halldor Gunnlögsson voru meðvitaðir um þetta og lögðu mikið til málanna en umræðan náðist ekki á flug.

Í raun var ástandið verra í Kaupmannahöfn en Reykjavík vegna þess að þar var ekki  fiskiskipahöfn að marki heldur  flutningahöfn, farþegaskipahöfn og höfn sjóhersins.

Byrjunin á hnignun hafnarinnar í Kaupmannahöfn gerðist þegar ráðuneytin voru byggð þar og í grenndinni. Hin rómaða bygging “Den sorte Diamant” sem var byggð skömmu fyrir síðustu aldarmót bætti ekki ástandið. Eftir það komu íbúðahús á borð við hin svokölluðu bryggjuhverfi á höfuðborgarsvæðinu, skrifstofubyggingar, Óperuhús Hennings Larsen o.fl.

Efst er gamalt málverk sem sýnir höfnina og áhugasamt fólk sem fylgist með skipaferðum.

Þeir sem vilja kynna sér þróunina í Kaupmannahöfn sérstaklega er bent á bókina “Byliv og Havnefront” eftir Nicolai Carlberg & Sören Möller Christiansen sem gefin var út af Köbenhavns Univeristet í samvinnu við Museum Tusculanums Forlag árið 2005

Fyrir dyrum stendur að byggja þarna enn eitt kúltúrhúsið “Bryggehuset“. Húsið er hannað af stjörnuarkitektinum Rem Koolhas sem  segir að byggingin sé innblásin af sögulegri skírskotun. Húsið hefur form sem minnir á stæður af skipagámum. Þess ber þó að geta að á þessu svæði var aldrei gámahöfn. Den Sorte Diamant eftir SHL er fjær og Brygghuset eftir REM nær.

Ný hús og gamlar byggingar í Cristianshavn mætast

Nýbyggingar í Sluseholmen

Gamlar búðir sem áhugamenn um báta og viðhald þeirra hafa notið sín um áratuga skeið. Nú er þessi tómstundastarfssemi víkjandi.

Nýbynningar við höfnina

Óperuhús Hennings Larsen

Den Sorte Diamant eftir SHL. Það glittir í gömul pakkhús frá tíma Christian 4.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 22.11.2010 - 13:59 - 4 ummæli

Áhrif Óperunnar í Sydney

 

Þann 13. maí árið 1787 hélt Arthur Phillip með 11 skipa flota sinn áleiðis til Ástralíu með 800 dæmda menn auk 200 kaupmanna og 450 menn úr sjóhernum. Rúmum átta mánuðum síðar sigldi hann inn í Botany Bay á austurströnd Ástralíu þar sem honum hafði verið ráðlagt að taka land. Phillip leist ekki á staðinn og sigldi spöl norðar þar sem hann kom að næsta vari sem var kallað Port Jackson.

Þar tók hann land á stað þar sem var að finna ferskvatnsá og eyju sem gengt var út í um eiði. Eyjuna notaði Phillip til þess að geyma búfénað.  Seinna var eyjan fasttengd meginlandinu og úr varð nes sem kallað er Bennelong Point eftir innfæddum þjóni leiðangursstjórans.

Svæðið var nefnt Sydney eftir greifa nokkrum með sama nafni. Á Bennelong Point var í byrjun nítjándu aldar byggt virki sem hét Fort Macquarie. Landmegin við Bennnelong Point var garður sem heitir Royal Botanic Garden. Árið 1902 var virkið lagt niður og í þess stað byggt einfalt skýli fyrir sporvagna. Þarna var ekki mikið skipalag en einhver hafnarbakki.

Þegar umræða um byggingu óperuhúss fór af stað þótti upplagt að reisa hana á lóð sporvagnanna sem stóð til að leggja niður. Lóðin var nálægt miðbænum í góðum tengslum við gatnakerfið og í góðum tengslum við sjóinn og Royal Botanic Garden.

Þetta er í stórum dráttum sagan um lóðina sem varð fyrir valinu fyrir Sydney Opera House.

Efrtirmálann þekkja flestir. Danski arkitektinn Jörn Utzon vann alþjóðlega samkeppni um bygginguna.

Opera Utzons er yfirburðabygging af mörgum ástæðum og er orðin helsta kennileiti heillar heimsálfu. Allir sem eitthvað vita um byggingarlist þekkja húsið. Staðsetning hennar á lóð sporvagna Sydneyborgar hefur orðið til þess að viðhorf margra til hafnarsvæða hefur breyst.

Það má leiða líkur að því, að ef niðurstaða samkeppni um Óperuna í Sydney hefði skilað af sér byggingu af meðalgæðum væri Harpa ekki að rísa á Austurbakkanum í Reykjavík, Óperunni í Kaupmannahöfn hefði líklega verið valinn annar staður og ekki er víst að Menningarhúsið á Akureyri hefði risið þar sem það nú stendur.

Höfnin var ekki ástæða fyrir staðarvali Óperunnar í Sydney enda eiga hafnir og óperuhús fátt sameiginlegt og enginn augljós ávinningur fyrir höfnina að fá óperuhús eða öfugt. Hinsvegar fólust viss arkitektónisk tækifæri í staðsetningunni sem Utzon hafði skilning á og hæfileika til að framkvæma. Óperunni í Sydney var fyrst og fremst valin staður á lóð sporvagna borgarinnar af skipulagslegum ástæðum.

Bennelong Point skömmu áður en tekið var til við að rífa skýli fyrir sporvagna borgarinnar

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.11.2010 - 09:53 - 5 ummæli

Reykjavíkurhöfn

 

Þegar ég var drengur var oft farið  niður á höfn. Höfnin var spennandi staður þar sem mikið var um að vera. Höfnin var helsta tenging við atvinnulífið og veröldina utan Íslands.

Á austurhöfninni var kolakraninn og hafskipahöfn með vörumóttöku. Vestar var bátabryggja, fiskiskipahöfn og slippurinn. Gengið var eftir eiði út í Örfirisey. Eimskipafélagshúsið var nánast á hafnarbakkanum og svo kom Hafnarstræti sem manni fannst ekki fínasta gata bæjarins með verkamannaskýli og litlum kaffistofum sem seldu verkamönnum og öðrum kaffi á brúsa.

Hafflöturinn var dökkur með smá olíubrák og mikið af fiski. Bæði kola og marhnút sem strákarnir veiddu í nokkru magni af bryggjunni.

Höfnin var full af lífi. Þarna voru skip af öllum stærðum og gerðum. Flutningaskip Eimskipa, Ríkisskipa og Sambandsins. Togarar og smábátar, varðskip og snekkjur. Vörur voru fluttar til landsins í lausu. Gámavæðingin var einhvers staðar í framtíðinni. Þarna voru verkamenn og sjómenn, vörubílar, leigubílar og dráttarvagnar.

Farþegaskipin voru þarna, Dronning Alexandrine og Gullfoss og ekki má gleyma stranferðaskipunum Esjunni, Heklu, Skjaldbreið og Herðubreið.  Farþegar að koma og fara út á land og til og frá útlöndum. Bæjarbúar gerðu sér erindi til þess að fylgjast með hverjir væru að fara í siglingu og hverjir væru að koma. Ekki man ég eftir portkonum eins og maður hafði heyrt að væru algengar á svona stöðum í útlöndum. En þarna voru samt bæði Hafnarfjarðar-Gullý og Vestmannaeyja-Anna.

Reykjavíkurhöfn var fiskiskipahöfn, farþegaskipahöfn, flutningahöfn, iðnaðarhöfn, höfn Landhelgisgæslunnar og skemmtiskipahöfn.

Það var líf við höfnina og þangað lögðu flestir leið sína til þess að upplifa það sem þar fór fram. Höfnin var nátengd miðborginni og var miðstöð og orkugjafi hennar. Höfnin var mikilvægt bakland og styrkti stöðu miðborgarinnar. Reykjavík naut einnig flugvallarins sem styrkti miðbæinn á sama hátt og járnbrautarstöðvar hafnarborga Evrópu.

Svona voru hafnir alls staðar um mest alla heimsbyggðina.

En svona er þetta ekki lengur. Með gámavæðingunni hentuðu gömlu hafnirnar ekki lengur til vöruflutninga og sú starfsemi var flutt annað.

Hafnarsvæðin tæmdust. Við það varð til landrými sem þurfti að finna nýtt hlutverk.

Reykjavíkurhöfn breyttist eins og aðrar hafnir. Eftir að Hafskip hætti rekstri dó Austurhöfnin. Hún varð lífvana geymslustaður fyrir óselda bíla. Við vissum ekki almennilega hvernig ætti að nota hana. Höfnin var í limbói milli lífs og dauða. Höfn er ekki höfn nema þar séu skip og bátar. Austurhöfn er að breytast úr höfn í “Waterfront”. Vildu borgarbúar það? Var þetta meðvituð ákvörðun eða tók atburðarásin völdin þarna í skipulagi Reykjavíkur eins og víða annars staðar?

Gullfoss býr sig til brottfarar

Smábátarnir í landlegu

Myndirnar eru fengnar af vef Ljósmyndasafns Reykjavíkur

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.11.2010 - 14:24 - 5 ummæli

Grín og gæði í byggingalistinni

Innra skipulag verslunarmiðstöðvarinnar Palladíum í Prag (sjá síðasta pistil) var á margan hátt einstakt.

Skipulag og fyrirkomulag innandyra er einfalt og rökrétt en um leið  einkenndist það af óreglu af sama toga og gatnakerfi borgarinnar. Þetta virðist vera mótsögn en þannig upplifði ég heimsókn mína í verslunarmiðstöðina.  Það var auðvelt að rata en samt var þetta ruglingslegt með fjölbreytilegum rýmismyndunum.

Þarna eru margir spennandi vinklar og smáatriði sem gleðja augað og upplifunina og sumt var beinlínis fyndið.

Dæmi um fyndið smátriði eru veggir á karlasnyrtinngunni. Eins og sjá má á meðfylgjandi ljósmynd eru myndir á veggjunum af ungum konum sem stillt er þannig upp við þvagskálarnar að þær virðast vera að athuga hvernig karlmennirnir eru vaxnir niður. Ein stúlkan notaði smásjá og önnur sjónauka. Þá sér maður vinkonur ræða saman um áhugamál sitt og velta því fyrir sér.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 14.11.2010 - 15:26 - 6 ummæli

Palladium, verslunarmiðstöð í Prag

Í stað þess að byggja verslunarmiðstöð í útjaðri borgarinnar á svipaðan átt og tíðkast í Bandaríkjunum og hér á Höfuðborgarsvæðinu ákvað borgarstjórnin í Prag að skapa aðstöðu fyrir stóra „kringlu“ í miðborginni. Þetta var auðvitað gert til þess að styrkja miðborgina og auka verslun og þjónustu þar. Verslunarmiðstöðin í Prag heitir Palladium og hýsir um 200 verslanir auk 30 veitingahúsa. Þarna er einnig komið fyrir 900 bifreiðastæðum neðanjarðar. Verslunarmiðstöðin sem er um 115 þúsund fermetrar var opnuð í október á því herrans ári 2007.

Verslunarmiðstöðvar, „Moll“, eru allstaðar eins hvar sem er í heiminum. Þessi í Prag sker sig úr fyrir þriggja hluta sakir. Í fyrsta lagi er hún í hjarta borgarinnar. Í öðru lagi hefur arkitektunum tekist að koma fyrir 115 þúsund fermetrum af verslunar- og þjónustuhúsnæði í þröngu viðkvæmu umhverfi miðborgarinnar, án þess að rífa hafi þurft eitt einasta hús í götulínu. Og að lokum er bílastæðafjöldi í lágmarki eða um eitt stæði á hverja 130 fermetra húsnæðis að mér var sagt. Til samanburðar var Kringlan um 30 þúsund fermetrar upphafi og í tengslum við hana voru útveguð um 1200 stæði sem aukin voru upp í 1600 ári eftir opnun. Það gerir tæpega eitt stæði á hverja 20-25 fermetra verslunarmiðstöðvarinnar. Ég man að Ragnari Atla Guðmundssyn framkvæmdastjóra Kringlunnar þótti þetta naumt skammtað. Þetta var eflaust rétt mat hjá honum miðað við aðstæður og skipulag Reykjavíkur sem bílaborg. Þegar  ég sé þessar tölur verð ég að viðurkenna að ég dreg minni mitt í efa.

Ég dvaldi í Prag í nokkra daga nýverið. Þetta er þriðja sinn sem ég kem þangað og ég geri mér sífellt betur ljóst hvílík gersemi borgin er hvað varðar byggingar, skipulag og húsaverndun. Þarna hafa verktakar, arkitektar og fjárfestar haft skilning og þroska til að sjá verðmætin í sögunni og  því sem fyrir er.  Án þess að ég hafi sérstaklega kannað það þá grunar mig að víða sé í borginni svokallaður „fasadismi“  þar sem ytra byrði er látið halda sér eða endurbyggt í gömlum stíl eða ekki í takti við það sem innifyrir er.

Í samkeppni um nýbyggingu fyrir Listaháskóla Íslands sem var haldin árið 2008 voru flestar tillögurnar því marki brenndar að höfundar gengu útfrá að  um hundrað lengdarmetrar af gömlum húsum í götulínu væru látin víkja. Sennilega að óþörfu.

Inni í verslunarmiðstðinni eru gömlu útveggir randbyggðarinnar áberandi.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.11.2010 - 07:19 - 1 ummæli

„Fast News“ – „Fast Architecture“

Í gærkvöld sat ég kvöldverð þar sem saman var komið fólk frá ýmsum löndum. Umræður við borðið voru málefnalegar og uppbyggjandi þar sem ekkert var um sleggjudóma og enginn endurtók sig. Enginn reyndi að sannfæra neinn um neitt og allir höfðu skoðun og létu hana i ljós. Við mitt borð sátu 12 manns, allt hámenntað fólk og virkt í umræðunni.

Rætt var um ýmis mál, „issues“ m.a. trúnað og traust fjölmiðla og neytenda þeirra. Blaðamaður frá New York  nefndi orðasambandið „Fast News“ samanber „Fast Food“, eða skyndibiti.

Fast Food, skyndibiti, er yfirborðskennd máltíð sem er almennt talin óholl sem tekur ánægju við eldamennsku frá fólki auk þess sem hún stuðlar að fábreyttu fjölskyldu og félagslífi.

„Fast News“  er yfirborðsleg frétt af sama toga og „Fast Food“ Þetta minnir á lestur bakhlið bókar sem setur mann inn í efni bókarinnar án þessað nauðsynlegt sé að bókin sé lesin.

Blaðakonan frá New York nefndi Hahiti og spurði hvort einhver við borðið hefði heyrt fréttir nýverið af því hvernig gengi þar núna? Mér datt í hug fréttir af hönnun fangelsis á Hólmsheiði sem var í fréttum nýverið. Hefur einhver frétt meira af þeim málum?

Í framhaldinu var rætt um „Fast Art“ og „Smart Fast Art“ og að lokum „Fast Architecture“

Við horfum fram á „Fast“ allskonar: Fast Food, Fast News, Fast Art og Fast Arcitecture. Hér í Prag var dómkirkjan í smíðum í ein sexhundruð ár. Varla telst það „Fast Architecture“.

Hugleiðum „Fast Architecture“ og „Fast“ allskonar.

Við þekkjum „Slow Food“ og skulum hugleiða „Slow News“, Slow art“ og ekki síst „Slow Architecture“

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.11.2010 - 08:37 - 12 ummæli

Fangelsi á Hólmsheiði

Síðastliðinn föstudag  skrifaði ég færslu sem var byggð á upplýsingum á heimasíðu danskra arkitekta þar sem þeir kynna hönnun sína á nýju fangelsi á Hólmsheiði. Ég sagði í færslunni að það hlytu að vera á þessu einhverjar skýringar sem ekki liggja í augum uppi. Nú hefur ráðherra svarað í fyrirspurnartíma Alþingis og embættirmenn Dóms- og mannrétindaráðuneytisins gefið út yfirlýsingu vegna málsins.

Ég er þeirrar skoðunnar að framkoma ríkisins við hina atvinnulausu stétt arkitekta sé hér vægt sagt ámælisverð. Pukur og ógagnsæi eins og hér hefur verið viðhaft er ekki sæmandi í opnu, lýðræðislegu upplýsingasamfélagi.  Þessi vettvangur, blogg um arkitektúr, skipulag og staðarprýði er ekki staðurinn fyrir umræður af þessu tagi en ekki er undan því komist í þetta sinn.

Á heimasíðu sinni kynntu dönsku arkitektarnir uppdrætti sem virðast vera á forhönnunarstigi sem er næsta stig á undan aðaluppráttum í vinnuferli arkitekta.  Á því stigi er hönnunin nokkuð langt komin, nokkuð lengra en skilja má af athugasemd embættismanna sem hér fylgir.  

Það er mér bæði ljúft og skilt að birta athugasemdina hér. Það verður þó að nefna að eðli málsins samkvæmt hljóta embættismennirnir að gera minna úr málinu en meira, vegna þeirrar vandræðalegu stöðu sem upp kom.

„Athugasemd frá dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu vegna umræðna um fangelsisbyggingu

Vegna umræðna um aðkomu danskra arkítekta að undirbúningi nýrrar fangelsisbyggingar vill dómsmála- og mannréttindaráðuneytið taka eftirfarandi fram:

  • Íslensk yfirvöld hafa unnið að hugmyndum um uppbyggingu í fangelsismálum um árabil. Árið 2008 var unnið að byggingu nýs móttökuhúss að Litla Hrauni í samræmi við þágildandi áætlun um uppbyggingu fangelsa. Þá var ákveðið að fá að verkinu erlenda ráðgjafa til að aðstoða við frumathugun vegna hússins. Fyrir valinu varð danskur ráðgjafi, Sten Ostenfeld arkitekt hjá Alex Poulsen Arkitektkontor. Þótti takast vel til við þessa vinnu, en af framkvæmdum varð ekki vegna efnahagshrunsins.
  • Á vegum vinnuhóps dómsmála- og mannréttindaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Fangelsismálastofnunar hefur verið unnið að frumathugun fyrir nýtt fangelsi. Ákveðið var að í tengslum við frumathugun yrðu gerðir frumuppdrættir til að varpa ljósi á stærð mögulegs fangelsis og lóðar auk innbyrðis tengsla fyrirhugaðrar starfsemi. Er slík vinna í samræmi við verklagsreglur fjármálaráðuneytisins um tilhögun frumathugunar. Var Sten Ostenfeld, sem er einn reyndasti ráðgjafi á Norðurlöndunum á sviði fangelsibygginga, falið að vinna frumuppdrætti og leggja jafnframt mat á forsendur í þeirri húsrýmisáætlun sem lögð var til grundvallar. Þá hefur Ostenfeld gert drög að kröfu- og þarfalýsingu fyrir byggingu og lóð, einkum með tilliti til öryggismála og þeirra sérstöku og sérhæfðu krafna sem fangelsi fylgja. Samið var um þetta verk í júní sl. Ostenfeld er hins vegar ekki arkitekt bygginganna heldur hefur aðeins unnið ofangreind verkefni.
  • Samningsfjárhæð í samningi við Alex Poulsen Arkitektkontor jafngildir um 4,8 milljónum íslenskra króna á núverandi gengi. Gert er ráð fyrir að hönnunarkostnaður nýs fangelsis geti numið allt að 120 milljónum króna og að vinna arkitekta geti numið allt að 50 milljónum af því.
  • Frá upphafi hefur verið við það miðað að útboð á hinu nýja fangelsi næði bæði til hönnunar og framkvæmda. Með þeirri tilhögun að fá afmarkaða sérfræðiráðgjöf við gerð frumáætlunar er stuðlað að því að hönnun hins nýja fangelsis geti almennt verið í höndum íslenskra arkitekta og verkfræðinga í stað þess að treysta á að verksali leggi til vinnu arkitekta með reynslu af sambærilegum byggingum.
  • Af ofangreindu er ljóst að það er rangt að af hálfu ráðuneytsins hafi verið unnið að því að hönnun nýs fangelsis yrði alfarið eða að mestu leyti unnin erlendis.“

Athugasemdina má lesa á heimasíðu ráðneytisisn. Slóðin er:

http://www.domsmalaraduneyti.is/frettir/nr/7711

Myndin sem fylgir færslunni er af styttu Magnúsar Tómassonar listamanns og heitir „Óþekkti embættismaðurinn“

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 6.11.2010 - 19:39 - 5 ummæli

MANNGERT LANDSLAG

Þessi texti eftir Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt er skrifaður í tengslum við sýninguna ManMadeEnviroment sem haldin var í Osló fyrir nokkru. Umfjöllunarefni Einars á fullt erindi í umræðu um náttúru og landslag.  Ég birti hann hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

MANNGERT LANDSLAG – TIL GAGNS OG GAMANS

Einkenni  umræðu um stöðu landslagsarkitektúrs á Íslandi er að manngert umhverfi – LANDSLAG – stendur í miklum skugga af ímynd hinnar ósnortnu náttúrur landsins.   Landslag/náttúra í hug flestra Íslendinga er eitt og það sama.                                                   

Ferðaþjónustuaðilar keppast við að halda þessari ímynd við og markaðssetja landið sem ósnorna náttúru og landslag. Útlendingum er jafnvel selt Bláalónið sem íslensk náttúra.  Manngert landslag er af þeim sem móta viðhorf ekki hátt skrifað.  Það sama á við um þá sem hæst hafa um umhverfisvernd.  Opinber byggingarlistastefna var gefin út af Menntamálaráðuneytinu árið 2007 í samstarfi við Arkitektafélags Íslands.  Landslagsarkitektar voru ekki kallaðir að því borði.  Það er því engin opinber stefna um mótun landslags/manngerðs umhverfis.  Um  „Sambýli manns og náttúru“ segir:  „Mikilvægt er að gæta að því landslagi sem ekki hefur verið numið undir manngert umhverfi.  Með vaxandi ferðamennsku og útivist er aðkallandi að móta stefnu gagnvart mannvirkjagerð á lítt snortnum eða óspjölluðum stöðum utan hefðbundinnar byggðar.  Stjórnvöld bera ríka ábyrgð á því hvernig hið manngerða umhverfi þróast og vex og eru í einstakri stöðu til að hafa áhrif til góðs og leggja áherslu á tillitssemi við náttúrulegt landslag og viðkvæma staði.”   Stefnan er í fullu samræmi við hugmyndir okkar um landslag/náttúru. Einskonar EKKI MÁ móta umhverfið/landslagið.  Mætti lesa að landslagið/ náttúruna mótuð til gagns og gamans sé eyðilegging. 

Fjölmiðlaumræða um mannvirki  á Íslandi ber þess oft merki þess að hún er hvorki fagleg eða byggð á þekkingu. Þegar fjallað er um nýbyggingar þá er nærri því regla að arkitekts, landslagsarkitekts eða annara hönnuða sé ekki getið.  Hinsvegar fjallað ítarlega um hver var byggingameistari, múrari og eða pípulagningamaður os.frv. Íslendingar sem hafa ríka bókmenntahefð og bera mikla virðingu fyrir höfundarrétti í bókmenntum.  Ef slík fjölmiðlaumræða yrði heimfærð upp á bókaútgáfu og ekki væri fjallað um höfund bókarinnar heldur um hver hafi prentað, litgreint eða ljósmyndað, þá myndi jafnvel almenningur bregðast hart við.

Félag ísl. Landslagsarkitekta hefur látið þýða “ Evrópski landslagssamningurinn”,  samning sem skilgreinir hugtakið LANDSLAG.  Landslagsarkitektar glöddust því þegar í stjórnarsamningi ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms vorið 2009 var gefið fyrirheit um að samningurinn verði staðfestur af íslenskum yfirvöldum.  Túlkun samningsins nær bæði til landslags/náttúru sem er ósnortin einnig til landslags sem maðurinn hefur mótað og segir “ „Landslag“ merkir svæði sem fólk sér og fengið hefur ásýnd og einkenni vegna samspils náttúrulegra og/eða mannlegra þátta.”   Vonir standa til að skilgreing samningsins rati í íslensk lög þegar hann hefur verið innleiddur.

Á afmælisári  FÍLA í maí 2008  var í samstarfi Listasafn Reykjavíkur og styrktaraðila ráðist í að fá landslagsarkitektinn og listamanninn Matrha Swartz frá Bandaríkjunum  með sýningu á Listahátíð sem hét “alimlunat /I hate nature”.           Í sýningarskrá eru hugleiðingar hennar um viðhorf Bandaríkjamanna til náttúru og landslags. “ Bandaríkjamenn telja landslag og NÁTTÚRU vera eitt og hið sama.  Afleiðingarnar eru sú skoðun að öllu tilbúnu landslagi beri siðferðileg skylda til að sýna NÁTTÚRUNA (svo framarlega sem trén þvælast ekki fyrir þegar horft er á húsið). Flestir Bandaríkjamenn trúa því að „gott landslag sé landslag þar sem mannshöndin er hvergi sýnileg“.

Það má fá mosa til að vaxa á steyptumvegg og tókst vel á Ráðhúsinu í Reykjavík einnig klæða byggingar með stuðlabergi eins og Hof á Akureyri. Jafnvel móta hugmynd af stórvaxinni nútímabyggingu úr steinsteypu í Miðborginni og setja síðan jarðvegshól upp á þak og skreyta hann með nokkrum (torf)húsum má kalla STEF sem sótt eru í náttúruna/umhverfið en umbreytt við nýja notkun.

Að mótað umhverfi er frá sjónarhóli landslagsarkitekts meir en náttúruábreiður. Byggingarefni landslagsarkitekta er að hluta lifandi og tíminn er þáttakandi í mótun þess frá upphafi. 

-EES

Slóðin að heimasíðu Landmóta sem er teiknistofa Einars er þessi:

 http://landmotun.is/

Myndin efst er af fjárrétt í Skagafirði sem sýnir hvernig manngert umhverfi og náttúra fléttast saman. Myndin að neðan er af tjörn í Kópavogsdal sem hönnuð er á teiknistofu Einars, Landmótun.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn