Fyrir nokkru var birt niðurstaða í samkeppni um nýtt hjúkrunarheimili á Eskifirði.
Heimilið í Fjarðabyggð er það fyrsta sem hannað er í samræmi við nýja stefnu stjórnvalda. Stefnan byggir m.a. á rétti íbúanna til að lifa eðlilegu heimilislífi og njóta friðhelgi. Þetta er metnaðarfull áætlun sem horfir til mikilla framfara.
Hjúkrunarheimili aldraðra eru sérstakar byggingar. Þær eru á sama tíma stofnun fyrir sjúka aldraða og heimili þeirra. Svo eru hjúkrunarheimili líka vinnustaður.
Hagsmunir þeirra sem þar búa og þeirra sem þar vinna fara ekki alltaf saman.
Vistmennirnir, sjúkir aldraðir sem hafa staðist vistunarmat, vilja hafa tækifæri til að hreyfa sig innandyra og hafa ekki á móti því að ganga nokkurn spöl til matsala eða sameiginlegra setustofa. Heimilisfólkið vill ekki að það sé undir stöðugu eftirliti og yfirsýn starfsmanna, það vill eins og sagt er í stefnunni njóta friðhelgi einkalífs og hafa sína hluti í kringum sig. Skapa sér heimili á stofnuninni. Á hinn bóginn vill það fá góða þjónustu fljótt og vel þegar eftir henni er kallað.
Starfsfólk hjúkrunarheimila er einn notendahópur og heimilisfólkið annar.
Starfsfólkið vill að vinnustaðurinn sé þannig að hægt sé að veita þá þjónustu sem þarf fyrirhafnarlítið með stuttum gönguleiðum, yfirsýn o.fl. Það vill vinna kerfisbundið við góða aðstöðu eins og gerist á góðum sjúkrahúsum þar sem visst vinnuferli er stundað. Ekki ósvipað og færibandavinna þar sem eitthvað er framleitt. Á sjúkrahúsi kemur sjúklingurinn inn um einar dyr og fer vonandi heilbrigður út annars staðar eftir stuttan tíma. Á hjúkrunarheimili kemur heimilismaðurinn inn til þess að eiga þar heima þar til hann er kallaður til betri heima. Þetta er munurinn á sjúkrahúsi og hjúkrunarheimili fyrir aldraða.
Í fyrsta sæti samkeppninnar er dæmd tillaga sem unnin er af Einrúm arkitektunum Anders Möller Nielsen, Kristínu Brynju Gunnarsdóttur og Michael Blikdal Erichsen. Verðlaunatillagan virðist vera starfsmannamiðuð. Það er að segja, öll aðstaða starfsmanna er til fyrirmyndar á kostnað aðstöðu heimilisfólks. Vistmenn eru inni á lokuðum deildum og þannig búið um að þeir eiga ekki erindi um húsið utan sinnar deildar eins og gerist á sjúkrahúsum. Vistmenn þurfa einungis að ganga 3-4 metra frá einkarýmum sínum til að nálgast félagsrými og matsal. Ekki er gerður mikill greinarmunur á einkarýmum og almenningsrými deildanna, ef ég skil umsögn dómnefndar rétt. Deild heilabilaðra hefur eins konar vaktmannabúr svipað og er að finna á Litla-Hrauni þar sem friðhelgi einkalífsins er ekki meginmálið. Ekki er gert ráð fyrir að allir heimilismenn geti safnast saman á einum stað í húsinu þegar það á við.
Nokkrar íbúðir snúa til norðurs, sem ekki er í samræmi við byggingareglugerð. Það stafar sennilega af því að svigrúm hvað varðar stærð var afar takmarkað í keppnislýsingu. Örfáir aukafermetrar hefðu sennilega afstýrt þessu. Og svo er garðurinn nánast óhannaður.
Þetta virðist gott hús að vinna í en ekki eins gott að búa í. Þarna virðist dómnefnd hafa dregið taum starfsmanna á kostnað vistmanna. Þarna togast sjónarmið á. Dómnefnd hefur verið starfsmanna- og rekstrarmiðuð, sem auðvitað á fullan rétt á sér í bland við annað.
Þetta er samt skrýtinn dómur sem á sér vonandi eðlilegar skýringar sem eiga eftir að koma fram hér eða á rýnifundi með dómnefnd.
Til samanburðar sýni ég aðra tillögu sem unnin er af Gesti Ólafssyni og Zoltan V. Horvath arkitektum. Sú tillaga gengur út á að skapa þorpsmenningu með sameiginlegu miðsvæði, kjarna, þar sem fólk hittist líkt og þegar farið er í bæinn. Einkarýmin eru lokuð og persónuleg. Þar er hægt að taka á móti gestum og snæða allar máltíðir. Þar er friðhelgi eikalífsins virt og þar er heimili vistmannsins.
Mikill og skynsamlegur greinarmunur er gerður milli einkarýma og almenningsrýma heimilisins í tillögunni, alveg eins og í þorpunum. Þegar gengið er út úr einkarýminu er heimilismaðurinn kominn í almenningsrými eins og þegar hann gengur út úr húsi sínu í þorpinu. Allir gangar enda á áningarstað. Miðsvæðið rúmar alla heimilismenn eins og torgið rúmar þorpsbúa. Þarna á heimilismaður kost á að hreyfa sig og skipta um umhverfi. Verða fyrir örvandi áreiti og vera þátttakandi í stærra samfélagi. Þetta eru sérstaklega mikilvæg atrið þegar fjallað er um hjúkrunarheimili á landsbyggðinni.
Nokkrar tillögur voru með þessa nálgun en fengu hjá dómnefnd bágt fyrir þann afgerandi kost að bjóða upp á góðar gönguleiðir fyrir heimilisfólk innandyra. Skrítið.
Það vakti einnig athygli mína að dómnefnd flokkaði húsin eftir formi þeirra, ekki eftir starfrænni hugmyndafræði eða arkitektóniskri nálgun. Tillögurnar voru dregnar í fjóra dilka eftir fominu og kallaðir Fingurform, Y form, H form og O form eins og munur tillagnanna fælist helst í forminu.
Alls bárust 36 tillögur í þessa litlu byggingu sem segir nokkuð um ástandið hjá arkitektum nú um stundir. Teiknistofa mín var einn þátttakenda og get ég staðfest að vinnustundafjöldi hefur verið milli 300 og 500 tímar. Gera má ráð fyrir að í heildina hafi verið varið í tillögugerðina meira en 8 mannárum í arkitektaþjónustu.
Tillaga nr. 3 eftir Einrúm arkitekta þar sem deildirnar tvær eru sjálfstæðar og einangraðar. Setustofur veita innávið og stuðla þannig að fábreytni í upplifun hversdagsleikans.
Tillaga nr. 32 er unnin er af Gesti Ólafssyni og Zoltan V. Horvath arkitektum. Matsalur og félagsleg rými eru tengd inngangi með útsýni að innigarði og út fyrir húsið. Flæðið í húsinu er eðlilegt og örvandi sem stuðlar að betra lífi andlega og líkamlega. Gönguleiðir innandyra eru fjölbreytilegar og enda á áningarstöðum, með mismunandi útsýni og upplifun. Nokkrar tillögur af þessari gerð voru meðal þeirra sem lagðar voru fyrir dómnefnd en þær fengu almennt ekki góðar móttökur.