Þriðjudagur 3.8.2010 - 09:17 - 15 ummæli

Hjúkrunarheimili á Eskifirði

isometrialett

Fyrir nokkru var birt niðurstaða í samkeppni um nýtt hjúkrunarheimili á Eskifirði.

Heimilið í Fjarðabyggð er það fyrsta sem hannað er í samræmi við nýja stefnu stjórnvalda. Stefnan byggir  m.a.  á rétti íbúanna til að lifa eðlilegu heimilislífi og njóta friðhelgi. Þetta er metnaðarfull áætlun sem horfir til mikilla framfara.

Hjúkrunarheimili aldraðra eru sérstakar byggingar. Þær eru á sama tíma stofnun fyrir sjúka aldraða og heimili þeirra. Svo eru hjúkrunarheimili líka vinnustaður.

Hagsmunir þeirra sem þar búa og þeirra sem þar vinna fara ekki alltaf saman.

Vistmennirnir, sjúkir aldraðir sem hafa staðist vistunarmat, vilja hafa tækifæri til að hreyfa sig innandyra og hafa ekki á móti því að ganga nokkurn spöl til matsala eða sameiginlegra setustofa. Heimilisfólkið vill ekki að það sé undir stöðugu eftirliti og yfirsýn starfsmanna, það vill eins og sagt er í stefnunni njóta friðhelgi einkalífs og hafa sína hluti í kringum sig. Skapa sér heimili á stofnuninni. Á hinn bóginn vill það fá góða þjónustu fljótt og vel þegar eftir henni er kallað.

Starfsfólk hjúkrunarheimila er einn notendahópur og heimilisfólkið annar.

Starfsfólkið vill að vinnustaðurinn sé þannig að hægt sé að veita þá þjónustu sem þarf  fyrirhafnarlítið með stuttum gönguleiðum, yfirsýn o.fl. Það vill vinna kerfisbundið við góða aðstöðu eins og gerist á góðum sjúkrahúsum þar sem visst vinnuferli er stundað. Ekki ósvipað og færibandavinna þar sem eitthvað er framleitt.  Á sjúkrahúsi kemur sjúklingurinn inn um einar dyr og fer vonandi heilbrigður út annars staðar eftir stuttan tíma. Á hjúkrunarheimili kemur heimilismaðurinn inn til þess að eiga þar heima þar til hann er kallaður til betri heima. Þetta er munurinn á sjúkrahúsi og hjúkrunarheimili fyrir aldraða.

Í fyrsta sæti samkeppninnar er dæmd tillaga sem unnin er af Einrúm arkitektunum Anders Möller Nielsen, Kristínu Brynju Gunnarsdóttur og Michael Blikdal Erichsen.  Verðlaunatillagan virðist vera starfsmannamiðuð. Það er að segja, öll aðstaða starfsmanna er til fyrirmyndar á kostnað aðstöðu heimilisfólks. Vistmenn eru inni á lokuðum deildum og þannig búið um að þeir eiga ekki erindi um húsið utan sinnar deildar eins og gerist á sjúkrahúsum. Vistmenn þurfa einungis að ganga 3-4 metra frá einkarýmum sínum til að nálgast félagsrými og matsal.  Ekki er gerður mikill greinarmunur á einkarýmum og almenningsrými deildanna, ef ég skil umsögn dómnefndar rétt. Deild heilabilaðra hefur eins konar vaktmannabúr svipað og er að finna á Litla-Hrauni þar sem friðhelgi einkalífsins er ekki meginmálið. Ekki er gert ráð fyrir að allir heimilismenn geti safnast saman á einum stað í húsinu þegar það á við. 

Nokkrar íbúðir snúa til norðurs, sem ekki er í samræmi við byggingareglugerð. Það stafar sennilega af því að svigrúm hvað varðar stærð var afar takmarkað í keppnislýsingu. Örfáir aukafermetrar hefðu sennilega afstýrt þessu. Og svo er garðurinn nánast óhannaður.

Þetta virðist gott hús að vinna í en ekki eins gott að búa í. Þarna virðist dómnefnd hafa dregið taum starfsmanna á kostnað vistmanna.  Þarna togast sjónarmið á. Dómnefnd hefur verið starfsmanna- og rekstrarmiðuð, sem auðvitað á fullan rétt á sér í bland við annað.

Þetta er samt skrýtinn dómur sem á sér vonandi eðlilegar skýringar sem eiga eftir að koma fram hér eða á rýnifundi með dómnefnd.

Til samanburðar sýni ég aðra tillögu sem unnin er af Gesti Ólafssyni og Zoltan V. Horvath arkitektum. Sú tillaga gengur út á að skapa þorpsmenningu með sameiginlegu miðsvæði, kjarna, þar sem fólk hittist líkt og þegar farið er í bæinn. Einkarýmin eru lokuð og persónuleg. Þar er hægt að taka á móti gestum og snæða allar máltíðir. Þar er friðhelgi eikalífsins virt og þar er heimili vistmannsins.

Mikill og skynsamlegur greinarmunur er gerður milli einkarýma og almenningsrýma heimilisins í tillögunni, alveg eins og í þorpunum. Þegar gengið er út úr einkarýminu er heimilismaðurinn kominn í almenningsrými eins og þegar hann gengur út úr húsi sínu í þorpinu. Allir gangar enda á áningarstað. Miðsvæðið rúmar alla heimilismenn eins og torgið rúmar þorpsbúa. Þarna á heimilismaður kost á að hreyfa sig og skipta um umhverfi. Verða fyrir örvandi áreiti og vera þátttakandi í stærra samfélagi. Þetta eru sérstaklega mikilvæg atrið þegar fjallað er um hjúkrunarheimili á landsbyggðinni.

Nokkrar tillögur voru með þessa nálgun en fengu hjá dómnefnd bágt fyrir þann afgerandi kost að bjóða upp á góðar gönguleiðir fyrir heimilisfólk innandyra. Skrítið.

Það vakti einnig athygli mína að dómnefnd flokkaði húsin eftir formi þeirra, ekki eftir starfrænni hugmyndafræði eða arkitektóniskri nálgun. Tillögurnar voru dregnar í fjóra dilka eftir fominu og kallaðir Fingurform, Y form, H form og O form eins og munur tillagnanna fælist helst í forminu.

Alls bárust 36 tillögur í þessa litlu byggingu sem segir nokkuð um ástandið hjá arkitektum nú um stundir. Teiknistofa mín var einn þátttakenda og get ég staðfest að vinnustundafjöldi hefur verið milli 300 og 500 tímar. Gera má ráð fyrir að í heildina hafi verið varið í tillögugerðina meira en 8 mannárum í arkitektaþjónustu.

 Grunnmyndcroppuðlettlettlett

 

Tillaga nr. 3 eftir Einrúm arkitekta þar sem deildirnar tvær eru sjálfstæðar og einangraðar.  Setustofur veita innávið og stuðla þannig að fábreytni í upplifun hversdagsleikans.

 Gesturlettlett

Tillaga nr. 32 er unnin er af Gesti Ólafssyni og Zoltan V. Horvath arkitektum. Matsalur og félagsleg rými eru tengd inngangi með útsýni að innigarði og út fyrir húsið. Flæðið í húsinu er eðlilegt og örvandi sem stuðlar að betra lífi andlega og líkamlega.  Gönguleiðir innandyra eru fjölbreytilegar  og enda á áningarstöðum, með mismunandi útsýni og upplifun. Nokkrar tillögur af þessari gerð voru meðal þeirra sem lagðar voru fyrir dómnefnd en þær fengu almennt ekki góðar móttökur.

 Tolvumyndlett

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 24.7.2010 - 22:59 - 10 ummæli

“Dýrðin á ásýnd hlutanna”

390_PK22[1]

Það varð á vegi mínum texti eftir Halldór Kiljan Laxness sem fjallar sennilega um arkitektúr og hönnun.  Hann er úr bréfi sem Halldór skrifaði til Jóns Sveinssonar árið 1925.

Textinn er svona með rithætti Halldórs:

“Ekkert snertir mig dípra en hið óbrotna og látlausa sem aðeins á stirk sinn í því að vera það sem það er”.

Þetta minnir á kennisetningu Ludwig Mies van der Rohe um að “Less is more”.

Svo heldur Halldór áfram og segir :

“Það er dírasta gáfa mín að hafa öðlast fagurskigna sál, hæfileikann til að geta miklað dírðina í ásínd hlutanna”

Ég velti því fyrir mér hvor hafi verið á undan, Halldór Kiljan eða Mies van der Rohe að átta sig á því að fegurðin er sterkari í einfaldleikanum en prjálinu. Þarna minnir Halldór á mikilvægi þess að hafa hæfileika eða þekkingu til að sjá og kunna að meta dýrðina í ásýnd hlutanna.

Ég gæti skrifað heila bók um þessa stuttu hugleiðingu Halldórs Laxness. Það býr í henni meira efni en nokkurn grunar. Prófessorinn minn Jörgen Bo taldi að byggingarlist væri list einfaldleikans. Allir funktionalistarnir og  fremstu arkitektar síðustu aldar höfðu þetta að leiðarljósi.

Gaman væri að vita hvað Nonni hugsaði þegar hann las þessar setningar í bréfi Halldórs.

Ég læt fylgja hér með mynd af stól eftir danska arkitektinn Paul Kjærholm, sem var lærimeistari og vinur Árna Þórólfssonar arkitekts. Paul glímdi við hið óbrotna og látlausa alla sína tíð. Hann hannaði hluti sem sóttu styrk sinn í það sem þeir eru.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 16.7.2010 - 08:44 - 15 ummæli

LSH samkeppni – Framhald

Þessari færslu fylgja afstöðumyndir allra tillagnanna í nýafstaðinni samkeppni um Nýtt Háskólasjúkrahús við Hringbraut.

Þetta er gert vegan óska lesenda síðustu færslu. Ég vil biðja lesendur um að skoða þessa færslu sem framhald þeirrar fyrri.

Það verður sífellt ljósara að hér er fyrst og fremst um skipulagssamkeppni að ræða þar sem skipulagshugmyndir réðu úrslitum. Afstaða höfunda til samþættingar spítalans til þess bæjarmynsturs sem hann tengist vegur þyngra en einstakir starfrænir þættir spítalans.

Enda er það svo að innri starfrænir þættir byggina er viðfangsefni sem ráðist er í að loknu deiliskipulagi. Þannig er það, þannig á það að vera og þannig hefur það hefur alltaf verið.

Ég efast ekki um að hanna má fullkomið starfrænt sjúkrahús inn í allar þær ágætu skipulagshugmyndir sem lagðar voru í mat dómnefndar í keppninni

Af gefnu tilefni er rétt að geta þess að af 34 ráðgjafafyritækjum sem lögðu hér hönd á plóginn eru 13 erlend.

Þau erlendu munu flest til komin til þess að fullnægja kröfum opinberra aðila til hönnunarteymanna í undangengnu forvali. Manni sýnist að fenginni niðurstöðu að þau hafi að mestu verið óþörf.

Þetta er umhugsunarvert.

 

Ef fólk vill kynna sér niðurstöðuna betur eru upplýsingar um allar tillögurnar að finna á eftirfarandi slóð: http://www.haskolasjukrahus.is/nyrlandspitali/islenska/framkvaemdin/byggingasagan/samkeppni_um_forhonnun/ NORÐURPÓLLINN

 

117649_fullbyggd[1]

POMONA

Arkitektar: Arkís, THG arkitektar Landslagsarkitekt: Landmótun Verkfræðiráðgjöf: Mannvit Samstarfsaðilar: Aarhus Arkitekterne, Rambøll Danmark, Torgið Teiknistofa, Veðurvaktin

900011_fullbyggd[1]

900011

Arkitektar: VA-arkitektar, Arkþing arkitektar, Úti og inni sf. Arkitektar, Arkitema Arkitektar Landslagsarkitekt: Landslag Verkfræðiráðgjöf: Verkís, Grontmijr Carl Bro. SPITAL

201007_fullbyggd[1]

SPITAL

Arkitektar: Ask arkitektar, Bjarni Snæbjörnsson arkitekt, Kanon arkitektar, Medplan, Teiknistofan Tröð Landslagsarkitekt: Landark Verkfræðiráðgjöf: Efla, Lagnatækni, Norconsult

378391_fullbyggd[1]

NORÐURPÓLLINN

Arkitektar: TBL arkitektar, John Cooper Architecture, Origo arkitektgruppe AS Verkfræðiráðgjöf: Ferill – verkfræðistofa, Raftákn, COWI A/S, Vinnuvernd HCP

160487_fullbyggd[1]

CORPUS

Arkitektar: Hornsteinar arkitektar, Arkitektur.is, Basalt arkitektar Verkfræðiráðgjöf: Almenna verkfræðistofan, Hnit verkfræðistofa, VSI öryggishönnun og ráðgjöf, Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar Samstarfsaðilar: Freyr Jóhannesson, byggingartæknifræðingur, Steinar Sigurðsson, arkitekt, Arup Amsterdam, dJGA, Tribal – Health

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.7.2010 - 10:50 - 11 ummæli

Gegnumgangur-LSH samkeppnin

 

 03-Landspitali-torglett

Í gærkvöld var svokallaður “gegnumgangur” hjá arkitektum þar sem farið var yfir tillögur í samkeppni um Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut.

Gegnumgangur er eins konar fundur þar sem tillögurnar eru rýndar og störf dómnefndar gagnrýnd. Oft er framkvæmd viðkomandi samkeppni til umræðu, forsögn og meðferð dómnefndar á henni. Þetta eru oftast líflegir, skemmtilegir og málefnalegir fundir, sem helst enginn vill missa af.  Á gegnumgangi gefst keppendum og öðrum tækifæri til þess að tjá sig um tillögurnar og dómnefnd fær tækifæri til þess að verja dóm sinn ef hann þykir ósanngjarn. Og auðvitað fá keppendur tækifæri til þess að svara gagnrýni dómnefndar.

Oftast sýnir sig að dómnefnd hefur staðið sig vel en stundum fær hún að finna til tevatnsins svo eftir er tekið. Þessir fundir veita dómnefndum aðhald. Ekki er látið kyrrt liggja hafi dómnefnd ekki dæmt samkvæmt keppnislýsingu eða góðum siðum.

Gegnumgangurinn nú var svipminni en búast mátti við þegar haft er í huga að hér er á ferðinni langstærsta arkitektasamkeppni sem haldin hefur verið hér á landi.

Það sagði nánast enginn neitt. Hugsanlega vegna þess að dómararnir rökstuddu niðurstöðu sína vel og hún var að mestu í samræmi við útboðslýsingu. Önnur skýring kann að vera sú, að aðalmálið var ekki til umfjöllunar, þ.e.a.s. staðsetning sjúkrahússins sem að stofni til var ákveðin fyrir meira en 80 árum.

Dómarar fóru vel yfir tillögurnar og það mátti heyra að megin verkefnið og helsti áhrifavaldur um niðurstöðuna var skipulagsþátturinn og hvernig hægt væri að koma fyrir þessu byggingamagni á þessum stað svo vel færi. Mér fannst ég skynja, að þetta væri fyrst og fremst skipulagssamkeppni þó ýmis atriði varðandi starfsemina hafi komið til umræðu. Einkum staðsetning bráðamóttöku og aðalinngangs. Þessi atriði má skilgreina sem skipulagsmál.

Ég ætla að gera hér að umtalsefni þá tillögu sem valin var til frekari útfærslu. Höfundur hennar er teymi hönnuða sem vinnur undir nafninu SPITAL. Í teyminu eru arkitektastofurnar ASK, Tröð, Kanon og Bjarni Snæbjörnsson ásamt RATIO, reyndum norskum arkitektum í sjúkrahúsbyggingum, landslagsarkitektum frá Landark og verkfræðistofunum Nordconsult,  Eflu og Lagnatækni.

Megin inntakið í tillögu Spital hópsins er að byggja spítala í borg. Það er að segja að gerð er tillaga að gatnakerfi sem er í eðlilegu samhengi við núverandi gatnakerfi í þessum hluta borgarinnar. Barónsstígur er látinn ganga alla leið niður að nýrri Hringbraut og gamla Hringbrautin látin halda sér að hluta ásamt að nýjum borgargötum sem bætt er við. Á þessum reitum er svo sjúkrahúsið byggt.  Þessi nálgun leiddi höfunda frá stórum gamaldags hugmyndum frá árinu 2007 niður í smærri og viðráðanlegri einingar sem hægt er að byggja og þróa á næstu árum og áratugum. Þarna er farin margreynd leið í formun (mótun?) bæja og borga þar sem byggðin er brotin upp í reiti með einföldu gatnakerfi með götum og torgum sem allir skilja. Þarna eru gömul góð gildi látin ráða ferðinni. Spítalinn tekur mið af borginni og fær við það nauðsynlegan sveigjanleika. Ég var ekki þátttakandi í samkeppninni en ég hef á tilfinningunni að Spital teymið hafi skilið verkefnið betur en það fólk sem skrifaði keppnislýsinguna.

Hinar tillögurnar fjórar litu á Landspítalann sem eyland í borgarlandslaginu, eyland sem lifir sínu sjálfstæða lífi. Lausn Spital teymisins vinnur á við kynningu. Á torginu sé ég fyrir mér matvöruverslanir, veitingastaði og þjónustu sem notað er af grenndarsamfélaginu ekki síður en af starsfólki þessa stærsta vinnustaðar landsins. 

Í ávarpi Helga Más Halldórssonar, arkitekts og verkefnisstjóra teymisins, kom fram að umræðan um staðarval hafði ekki farið framhjá höfundunum frekar en öðrum og í raun varð hún kveikjan að hugmyndinni sem leiddi þau frá stóra borgarsamhenginu niður í það smærra og að eindregin ósk Landspítalans um sveigjanleika.  Auðveld áfangaskiptingu framkvæmda hafi líka haft mikil áhrif og reitaskipulagið sem svarar ágætlega kalli spítalafólksins. Þetta var vel mælt og sýnir að gagnrýni og umræða leiðir fólk oftast til góðra verka. Helgi kom líka að atvinnuástandi arkitektastéttarinnar í ávarpi sínu og sagði.:

“Ég og er stoltur af því að tilheyra þeim hópi sem ég er fulltrúi fyrir og nefnir sig SPITAL-hópinn en hann mynda níu arkitekta- og verkfræðifyrirtæki. Fulltrúar flestra þeirra eru saman komnir hér á sviðinu, öflugur hópur sem verið hefur gaman og gefandi að vinna með undanfarna mánuði

Efnt var til samkeppni um nýjan Landspítala við aðstæður í okkar fagi sem eiga sér enga hliðstæðu. Samdrátturinn er slíkur að segja má að jörð sé sviðin í ákveðnum skilningi. Í slíku árferði hlýtur að mega taka Landspítalaverkefnið sem mikilvæg skilaboð fyrir byggingariðnaðinn í heild sinni og fyrir þjóðina alla. Það ríkir í raun harður vetur í okkar faggreinum, vonandi fer að vora.

Við gleðjumst vissulega yfir því að standa hér í þessum sporum en vitum líka af eigin reynslu að sárt er að ná ekki alla leið þegar menn leggja hart að sér. Ég þakka öllum keppinautum okkar fyrir keppnina nú að leikslokum og óska þeim velfarnaðar í baráttu okkar allra í óvissri framtíð í faginu okkar.”

Að lokum vil ég segja að það gladdi mig mikið að sjá þann öfluga hóp íslenskra arkitekta sem stóð á sviðinu og tók á móti þessu mikla verki á föstudaginn var.

Ég eins og fleiri óttaðist að þetta verk færi á hendur erlendra ráðgjafa eins og virtist vera stefnt að með óraunhæfum kröfum til þátttakenda. Það sýndi sig líka að engin íslensk arkitektastofa hafði burði til þess að taka þátt í samkeppninni óstudd samkvæmt forvalsgögnum. Sigurvegararnir samanstóðu af alls níu arkitekta- og verkfræðifyrirtækjum eins og fram kom í ávarpi verkefnisstjórans. Íslensku stofurnar brugðust við þessum óeðlilegu kröfum með samvinnu.

Ástæðan fyrir því að verkefnið fór ekki í hendur erlendra sérfræðinga er einkum slæmt gengi krónunnar og áræði, dugnaður og færni íslenskra arkitekta.

Ef gengi krónunnar hefði verið á svipuðu róli og árið 2007 hefðu erlendir ráðgjafar haft verk þetta í hendi sér eins og raunin varð á með THR og HR. Þegar gengi krónunnar var sterkt var íslenski markaðurinn áhugaverður fyrir erlenda arkitekta. Það er hann ekki lengur.

Ég óska hönnunarteyminu og dómnefndinni til hamingju með niðurstöðuna.

Ítarlega kynningu á tillögunni er að finna á þessri slóð:

www.spital.is

 

201007_fullbyggd[1]

 

04-Landspitali-torg-lett2

10-09-modelmynd-án-textax.pdf

 

 

 

 

 

 

 

spitalhopurinn_090710-m[1]

Hönnunarteymið Spital 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.7.2010 - 12:13 - 20 ummæli

Harpa

utlit

Hér eru nokkrar tölvumyndir af tónlistar og ráðstefnuhúsinu Hörpu ásamt teikningum og myndbandi.

Allir þeir sem hafa áhuga á arkitektúr og vilja kynna sér tónlistar- og ráðstefnuhúsið ættu að rýna í teikningarnar, myndirnar og myndbandið. Myndefnið segir meira en þúsund orð.

Það sem slær mig og vekur upp spurningar kemur fram í grunnmyndunum. Það er eins og Harpan snúi öfugt. Anddyrirð og aðkomusalirnir þar sem fól fær sér hressingu í hléum og á samskipti við annað fólk snúa að mestu til austurs að Seðlabankanum. Helsta tækifæri staðarins er útsýnið að höfninni og að hinum fjólubláu draumum.  En það er líklega skýring á þessu.

Vonandi verður ánægja með húsið þegar upp er staðið.

Myndbandið er rúmar fimm mínútur að lengd og fjallar eikum um útveggi þessa 28.000 m2 húss, anddyri og ásýnd þess.

Slóð myndbandsins er þessi:

Olafur Eliasson – Architecture – Glass facade on Harpa

http://www.youtube.com/watch?v=6OLnzjaCmHA&feature=player_embedded

1278089933-harpa-lead02-528x414[1]

Inni1

1278037132-676-koncerthus-reykjavik-level-2-528x373[1]

1278037135-676-koncerthus-reykjavik-longitudal-ee-528x373[1]

Utlit 2

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.6.2010 - 15:25 - 15 ummæli

Hella-Flatey, og sérkenni staðanna

IMG_6288létt Einkenni Flateyjar, lundi, Klausturhólar, Flateyjarkirkja og Bókhlaðan

Í þorpum Evrópu eru oftast tvær til þrjár byggingar sem skera sig úr. Þær gera það vegna þess að þær eru höfuðbyggingar og skipta meiru máli en önnur hús. Þetta getur verið kirkjan, skólinn og ráðhúsið eða einhver bygging stjórnsýslunnar. Kannski líka einhverjar byggingar sem hafa sérstöðu í bænum vegna sögunnar eða af öðrum ástæðum. Allir bera virðingu fyrir þessum byggingum og gæta þess að sýna þeim kurteisi og tillitssemi.  Þær móta oft bæinn og skapa anda hans og sérkenni. Sérkennin geta líka verið að finna í bæjarskipulaginu eða landslaginu. Þeir sem huga að framkvæmdum taka mið af þessum þáttum, sem móta oft anda staðarins. Þetta viðhorf er ekki algengt hér á landi og séreinkenni staðanna verða sífellt minna áberandi með hverri nýrri framkvæmd sem ráðist er í. En það eru til nokkrar undantekningar; Hofsós, Stykkishólmur, Skálholt og Flatey á Breiðafirði sem ég þekki vel. Í Flatey hafa á undanförnum 15 árum verið byggð 3 ný hús í anda staðarins. Engin tekur sérstaklega eftir þeim. Nýbyggingarnar hafa styrkt sérkenni staðarins. Höfuðbyggingarnar eru áfram Flateyjarkirkja, Bókhlaðan og Samkomuhúsið. Öll hin húsin eru víkjandi og taka hvort mið af öðru, landslaginu og náttúrunni. Flatey hefur sterka sjálfsmynd ef svo má að orði komast.

Á leið minni austur að Skógum nýverið vakti athygli nýbygging á Hellu og er hún tilefni þessara hugleiðinga. Mér hefur alltaf fundist Hella sjarmerandi  með fallegt bæjarstæði á sléttunum við Rangá. Það eru mikil tækifæri til þess að þróa fyrirmyndarþorp á Hellu. Ekki veit ég hvað umrædd nýbygging á að hýsa eða hvernig hönnuðurnir komust að þeirri niðurstöðu sem blasir við. En hún vekur athygli fyrir að vera í andstöðu við þær byggingar sem næst standa. Hún er hærri, húsdýptin meiri og efnisvalið af allt öðrum toga en maður á að venjast á landsbyggðinni. Byggingin sprettur ekki úr umhverfinu eða kallast á við það, er ekki í mælikvarða sveitaþorpsins. Hún segir okkur ekki að nú séum við stödd í sveitaplássi á Suðurlandi heldur frekar að þarna sé fyrirhugað að reisa fjármálahverfi verðandi stórborgar og allt annað muni víkja í tímans rás. Hella þarf, eins og fjöldi annara þorpa landsins, að greina sérkenni sín og byggja svo á þeim. Bærinn þarf að styrkja sjálfsmynd sína. Sérkennunum þarf að gefa merkingu og varða með þeim veginn til framtíðar. Eða skapa sérstöðu og styrkja hana með hverri byggingu og hverri nýrri framkvæmd.

Þetta er kannski verkefni fyrir “Design Down Process” þar sem hópur fólks sem hefur áhuga fyrir málinu væru þátttakendur eða verkefni fyrir íslenska arkitektaskólann.

Þegar Frank Lloyd Wright byggði sín “preríuhús” á sléttunum vestan við Chicago um aldamótin 1900 lagði hann áherslu á láréttar línur, Af hverju ætli hann hafi gert það?

Skipulagsslysin eiga sér ekki síður stað á landsbyggðinni en á Höfuðborgarsvæðinu. IMG_2155lett Nýbygging á Hellu á Rangárvöllum flatey_houses[1] Plássið í Flatey

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.6.2010 - 10:29 - 13 ummæli

Skipulagsmál nýja meirihlutans

n57343944712_8584[1]

Í samstarfsyfirlýsingu meirihluta Besta flokksins og Samfylkingar í Reykjavík er sérstakur kafli um skipulags- og samgöngumál. Þar kennir margra grasa sem eru áhugaverð fyrir þá sem hugsa um þessi mál.

Áhersla á að aukna samvinnu sveitarfélagana á höfuðborgarsvæðinu í skipulagsmálum vekja athygli mína.

Það hefur verið sýnt fram á það í merkum fræðilegum ritgerðum að allt svæðið frá Borgarnesi, austur að Árborg og suður í Reykjanesbæ er eitt atvinnusvæði þó það sé ekki skilgreint sem slíkt í skipulagi suðvesturhornsins.

Þá er ánægjulegt að sjá að stefnt er að verndun byggðamynsturs í miðborginni og ekki síður verndun strandarinnar.

Hér á eftir eru teknir saman og birtir orðrétt allflestir punktar samstarfsyfirlýsingarinnar sem fjalla um skipulagsmál:

  • Svæðiskipulagsráð eða annar sameiginlegur vettvangur sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins hafi vald til að móta og stýra stefnu á sviði landnotkunar, byggðaþróunar, samgangna- og umhverfismála.

 

  • Reykjavík eigi frumkvæði að því að unnið verði nýtt svæðisskipulag sem nái frá Reykjanesi í vestri, Árborgarsvæðinu í austri og Borgarnesi í norðri, og að til verði sameiginleg sýn á umhverfis-, atvinnu- og húsnæðismál á öllu svæðinu.

 

  • Réttur íbúanna á að vera skýr og öllum skiljanlegur. Þeim á að bjóðast ókeypis mat hlutlausra sérfræðinga á byggingarmagni, hæðum, nýtingarhlutfalli, skuggavarpi og umferðarspám. Málsmeðferð í skipulags- og byggingamálum verði einfölduð og þjónustumiðuð.

 

  • Hugað verði sérstaklega að sameiginlegum borgarrýmum, svo sem Hlemmi, Ingólfstorgi, Lækjartorgi, Óðinstorgi, Vitatorgi, Spönginni, Árbæjartorgi og fleiri.

 

  • Með betra borgarskipulagi, blöndun byggðar, styttingu á vegalengd milli heimila og vinnu, betri almenningssamgöngum og bættri aðstöðu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur verði dregið úr þörfinni fyrir sífellt stærri og dýrari umferðarmannvirki.

 

  • Færri mislæg gatnamót, fleiri einlæg gatnamót!

 

  • Hjólandi og gangandi njóti forgangs í umferðinni. Götur verði gerðar fallegri. Hjólreiðaáætlun verði unnin fyrir höfuðborgarsvæðið og hrint í framkvæmd í Reykjavík.

 

  • Auka skal ferðatíðni og bæta leiðakerfi strætós. Tryggt verði að strætó gangi alla daga ársins. Strætó fái forgang á stofnleiðum og leiðakerfið taki mið af því að börn komist milli heimila sinna og frístundastarfs.

 

  • Lögð verði áhersla á endurnýjun úr sér genginna iðnaðar- og verslunarsvæða og þéttingu byggðar. Áhersla verði lögð á endurskipulagningu Elliðavogs- og Höfðasvæðis. Skipulagi Mýrargötusvæðisins og Gömlu hafnarinnar verði lokið. Þegar fasteignamarkaður kemst í eðlilegt horf verði hafin uppbygging við Hlemm og á völdum svæðum í Vatnsmýri.

 

  • Við skipulag nýrra hverfa og endurnýjun gamalla hverfa verði stefnt að því að þar ríki félagslegur fjölbreytileiki. Leiguíbúðir verði minnst fimmtungur íbúða á nýjum byggðarsvæðum. Unnið verði að jöfnu aðgengi fyrir alla borgarana, innan húss sem utan.

 

  • Byggðamynstrið í miðborg Reykjavíkur verði verndað. Heildstæð húsverndaráætlun fyrir alla borgina verði hluti af nýju aðalskipulagi Reykjavíkur.

 

  • Gert verði ráð fyrir lestartengingu milli Vatnsmýrar og Keflavíkurflugvallar í nýju aðalskipulagi þar sem unnið verður að því að Vatnsmýrin byggist upp í áföngum.

 

  • Teknar verði upp viðræður um framtíð flugvallarsvæðisins í Vatnsmýri.

 

Svo er að finna allskonar og enn meira allskonar víða í yfirlýsingunni sem varða skipulagsmál.

 

  • Bílaumferð á tilteknum svæðum í miðborginni verði takmörkuð í tilraunaskyni.

 

  • Hálfbyggð skólahverfi verði kláruð. Útþensla borgarinnar verði stöðvuð.

 

  • Eigendur niðurníddra húsa í borginni verði hvattir til að koma þeim í viðunandi horf. Dagsektum verði beitt ef frestir til aðgerða eru ekki virtir.

 

  • Stutt verði við uppbyggingu þekkingar- og heilbrigðistengdra fyrirtækja með samstarfi um beina markaðssetningu á háskólasvæðunum í Vatnsmýrinni í samvinnu við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Landspítalann. Reykjavíkurborg greiði fyrir skipulagi stúdentaíbúða og annarra innviða sem stuðla að sömu markmiðum.

 

  • Áhersla skal lögð á að vernda ströndina þar sem hún er ósnortin og græna trefilinn umhverfis höfuðborgarsvæðið.

 

  • Stuðlað verði að fjölbreytileika í framboði á húsnæði og félagslegri fjölbreytni í hverfum.

 

Samstarfsyfirlýsingin er skemmtileg lesning þegar á heildina er litið. Málfarið og flokkunin er önnur en maður á að venjast. Hana er hægt að nálgast í heild sinni hér

http://bestiflokkurinn.is/ur-starfi-flokksins/samstarfsyfirlysing-besta-flokksins-og-samfylkingarinnar

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.6.2010 - 09:43 - 6 ummæli

Grænar og bláar útivistarleiðir

 

storakort-3d

Fyrir um 20 árum gerðu skógræktarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sér grein fyrir því  að með aukinni byggð og auknum þéttleika  eykst þörf fyrir stærri frístundasvæði í jaðri byggðar. Með hliðsjón af þessu, á árunum 1992-93, báðu skógræktarfélögin á höfuðborgarsvæðinu landslagarkitekta að vinna frumdrög að samanhangandi svæði í upplandi Höfuðborgarsvæðisins til útivistar.  Lögð voru drög að samræmdu umferðarkerfi á svæðinu jafnt fyrir gangandi, hjólandi, ríðandi sem akandi. Þetta átti einkum að þjóna fólki til útivistar og flétta því saman við skógræktaráætlun. 

Með skýrskotun til hlýrrar flíkur um hálsa höfuðborgarsvæðisins var verkefninu gefið nafnið ”Græni trefillinn”.

Í Græna treflinum hefur verið hönnuð göngu- og hjólaleið sem ber vinnuheitið ”Græni stígurinn”. Hann er um 50 km langur og liggur frá Esjurótum í norðri að Undirhlíðum við Kaldársel í suðri. Stígurinn þræðir áhugaverðar náttúruperlur og útivistarsvæði í skjóli vaxandi skógarteiga og er unnið að frekari þróun hans á vegum Skógræktarfélags Íslands.

Nú hafa landslagsarkitektarnir hjá Landslagi ehf haldið áfram með hugmyndina  og dregið á blað þrjá aðra stíga sem nefndir eru Rauður,Gulur, Grænn og Blár eftir hæð í landi.

 ”Blái stígurinn” sem liggur með strandlengjunni er hjóla- og göngustígur í byggð.  Hann liggur frá Straumsvík í suðri norður að Grundarhverfi á Kjalarnesi í norðri. Stór hluti hans er þegar byggður og er mikið notaður.

”Græni stígurinn” hefur þegar verið lagður að hluta en þó ekki í endanlegum gæðum og liggur hann í Græna treflinum um Heiðmörkina frá Kaldárbotnum norður að Mógilsá. Hann hlykkjast milli hæða og draga snertir fjölda fallegra vatna og skógarteiga.

Svo kemur ”Guli stígurinn” sem  liggur um heiðarnar og er hugsaður til 2-4 daga tjaldferðalaga. Guli stígurinn hefur sama upphaf og endi og græni stígurinn og liggur um heiðarnar ofan við Græna trefilinn.

Að lokum er það Rauði stígurinn sem er 3-5 daga trússleið um fjallahringinn umhverfis höfuðborgarsvæðið.  Hann hefur upphaf og endi á sama stað og sá guli og græni. Rauði stígurinn liggur frá Kaldárseli um Bláfjöll, yfir Hellisheiði og Nesjavelli og þaðan til Þingvalla, Skálafell, Móskarðshnúka, Esju og endar svo við Mógilsá.

Á kynningu sem Þráinn Hauksson landslagsarkitekt hélt nýverið sýndi hann myndir sem hann hafði tekið á þessum leiðum, sem hann hefur prufugengið. Hann sannfærði viðstadda um þau miklu gæði sem íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa aðgang að rétt við bæjarhelluna.

Hjálagt er kort sem sýnir aðstæður, Græna trefilinn og gönguleiðirnar fjórar auk mynda sem hann tók á Móskarðhnúkum á Jónsmessunótt fyrir nokkru. Hin ljósmyndin er einnig tekin af Þráni um miðja nótt á Þverfellshorni.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar á Jónsmessunótt eins og himaríki á jörð.

Thrainn

Þverfellshorn að næturlagi

http://landslag.is/frettir/gulur-raudur-graenn-og-blar

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 6.6.2010 - 15:47 - 7 ummæli

Gehry “farðu á eftirlaun”

1274759626-53810456-1-528x362[1]

Nýjasta verk Frank O.Gehry var opnað í síðasta mánuði. Það er heilsugæslustöð fyrir heilasjúka í Las Vegas.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef kostaði stöðin 100 milljónir dollara eða um 13 milljarða króna.

Í aðalatriðum skiftist Cleveland Clinic Lou Ruvo Center í tvo ólíka húshluta sem er túlkað sem hægra og vinstra heilahvel. Sá hluti sem hýsir skrifstofur er agaður og formfastur.  Hinn hlutinn, sem  hýsir skurðstofur og  þ.h er fjörugri í formi sínu svo vægt sé til orða tekið.  Styrkurinn og um leið vandinn fellst í því að blanda þessum ólíku hlutum hússins saman. Maður fer á milli húshlutanna á svipaðann hátt og maður notar heilahvelin, án þess að taka eftir því. Þessi nálgun er samt betur leyst hjá Gehry í Disney Consert Hall í Los Angeles, þar sem skrifstofuhlutinn er hefðbundin meðan sjálft tónlistarhúsið og anddyrið er organist í formi sínu og hentar starfsseminni fullkomlega.

Heilsugæslustöðin hefur fengið misjafna dóma. Þessa byggingu í Las Vegas hef ég ekki skoðað en mér sýnist það rétt mat gagnrýnenda að “starkitektinn” sé að tapa fluginu og missa fersleika sinn. Einn dóm sem ég las bað gagnrýnandinn Gerhy að drífa sig á eftirlaun. Ég tek ekki undir það þó maðurinn sé orðinn 81 árs. Það má skjóta því inn af þessu tilefni að það er almennt álitið að arkitektar verði betri og betri með aldrinum,  séu þeir góðir á annað borð.

Ég hef skoðað margar byggingar eftir Gehry, austan hafs og vestan.  Þær eru eðlilega hver með sínu lagi og sumar framúrskarandi góðar með sterkum höfundareikennum. Ég vonast til þess að fá tækifæri til þess að fjalla um þær hér á þessum vettvangi við tækifæri.

Hér má lesa umfjöllun Los Angeles Times um bygginguna:

http://www.latimes.com/entertainment/news/la-et-gehry-vegas-20100519,0,5357916.story

 1274787686-cleveland-clinic-1-528x347[1]

 1274787684-4575521164-51ee2391c8[1]

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.6.2010 - 14:46 - 2 ummæli

Finnska leiðin

Hanne_Granberg_20lett

Í dag eru hreinar iðnhönnunarvörur 25% af heildarútflutningi Finna og hönnun hefur komið að flestum öðrum útflutningsvörum þeirra  á einn eða annan hátt.  

 Þetta og margt fl. kemur fram  í fróðlegri grein sem Hjördís Sigurgísladóttir og Dennis Davíð Jóhannesson arkitektar skrifuðu á heimasíðu Hönnunarmiðstöðvar eftir ferð þeirra til Helsinki, þar sem þau vorum að kynna sér stöðu hönnunar og nýsköpunar í Finnlandi og hvernig Helsinki hefur tekist að ná þeim árangri að verða valin Hönnunarborg heimsins 2012.    

Eftir bankahrunið á Íslandi 2008 stendur atvinnu- og efnahagslíf Íslendinga á tímamótum nýrra tækifæra.  Með tíð og tíma tekst vonandi að byggja hér upp öflugt menningar- og atvinnulíf sem byggir í auknum mæli á hönnun og öðrum skapandi greinum.  Af 140 ára reynslu Finna geta Íslendingar ýmislegt lært m.a. það að uppbygging hönnunarsamfélags er langhlaup sem gerir kröfur um úthald, öguð vinnubrögð, aðhald, umræðu og gagnrýna hugsun.  

Ef rétt er haldið á málum bendir því margt til þess að hönnun og arkitektúr gætu skipað veglegri sess í íslensku samfélagi en verið hefur.  Í því felast miklir möguleikar fyrir útflutning landsmanna.

Til þess að það takist þarf að styrkja hönnunardeildir skólakerfisins frá grunnskólum og uppúr. Veita þarf Listaháskólanum nauðsynlegar fjárveitingar og ekki síður kröftugt faglegt aðhald.

Grein Hjördísar og Dennis má lesa í heild sinni á heimasíðu Hönnunarmiðstöðvarinnar:  http://www.honnunarmidstod.is/Greinarogvidtol/Grein/1957

Hjálagt eru nokkrar myndir af finnska skálanum í Shanghai eftir finnsku arkitektana JKMM sem unnu til verksins í kjölfar opinniar samkeppni.

Hanne_Granberg_21lett

Kari Palsila_648lett

Hanne_Granberg_22lett

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn