Þegar hugmyndir um uppbyggingu lóðanna á horni Túngötu og Aðalstrætis voru kynntar spunnust nokkrar umræður um þá nálgun og þá lausn sem þar var fundin.
Mönnum þótti að þarna væri um hallærislegt afturhvarf til fortíðar að ræða.
Um þetta var fjallað í blöðum, útvarpi og sjónvarpi. Yfirleitt töluðu menn máli nútíma arkitektúrs og vildu að allar framkvæmdir endurspegluðu það menningarstig og tíðaranda á þeim tíma sem húsin eru byggð, hvar svo sem þau standa. Þetta er auðvitað rétt að hluta. Meginatriðið er þó það að það skiftir lykilmáli hvar husin standa og í hvaða samhengi.
Menn höfðu einkum það við þessi hús að athuga að þau voru hönnuð í anda löngu liðins tíma.
Haldinn var eftirminnilegur fundur um málið í Arkitektafélaginu þar sem höfundarnir Grétar Markússon og Stefán Örn Stefánsson vörðu verk sitt.
Þetta var á margan hátt sérkennileg umræða vegna þess að á sama tíma átti sér stað uppbygging í einu úthverfa borgarinnar, Bryggjuhverfinu við Grafarvog þar sem þess var krafist í skipulagsskilmálum að húsin bæru keim af „anda“ Reykjavíkur fyrir um100 árum þar sem nú er póstnúmer 101.
Enginn gerði athugasemd við það.
Á sama tíma og þetta var í undirbúningi var verið að rífa heildstætt hverfi norðan Lindargötu þar sem áttu að rísa framandi hús sem hönnuð voru af erlendum arkitektum án þess að menn væru sérstaklega að ræða það eða hafa áhyggjur af því. Þarna standa nú hús sem eru ekki í neinu samhengi við umhverfið og anda Reykjavíkur. Og enginn segir neitt og enginn virðist hafa skoðun á þessu.
Nú þegar frá er liðið og hugsað er til baka, þá er ég þakklátur þeim sem stóðust gagnrýnina og byggðu hús í anda Reykjavíkur við elstu götu bæjarins í stað þess að fá þarna hús á borð við nýju húsin í Skuggahverfinu.
Ég er þess fullviss að eftir 100 ár, árið 2109, standa húsin við Aðalstræti enn og verða talin mikil borgarprýði meðan háværar umræður verða um hvort ekki eigi að rífa háhýsin við Skúlagötu, ef ekki verður þá löngu búið að því. Það er líka athyglisvert að nýtingarhlutfall á lóðunum við Aðalstræti er hærra en í Skuggahverfi þar sem hús eru tæpar tuttugu hæðir. Nýtingarhlutfall segir okkur hversu mikið er byggt miðað við stærð lóðarinnar.
Ég held að hugmynd, sem nefnd var í opnu húsi í Hagaskóla s.l. þriðjudag, um hverfaskipulag ætti þarna vel við og ætti að nota við endurskoðun skipulagsins innan Hringbrautar. Þá yrði meginmarkmiðið að endurskapa og styrkja anda Reykjavíkur, hugsanlega með svipuðum þankagangi og var í Aðalstræti.
Ég er á þeirri skoðun að svona eigi að byggja í 101, innan gömlu Hringbrautar. Þar eiga eldri húsin að móta þau nýju. Það á að vera innilegt samtal milli nýrra og eldri húsa í þessum elsta hluta borgarinnar. Svo geta húsbyggjendur og arkitektar þeirra fengið nánast takmarkalaus tækifæri til þess að sýna frumlegheit sín utan þessa svæðis.
Rúmmynd sem sýnir húsaþyrpinguna ofanfra úrsuðaustri.
Lárétt lína og mismunandi efnistök draga úr hæð hússins. Litir og þakefni húsanna tveggja, nýbyggingarinnar og Hjálpræðishersins kallast á.
Húsið til vistri er að stofni til frá um 1760 meðan byggingin til hægri er endurgerð á gafli Fjalarkattarins sem var rifinn fyrir mistök.
Húsin taka mið af umhverfinu hér sést upp í grjótaþorpið þar sem er að finna heillega manneskjulega byggð.
Turnar Hjálpræðishersins og nýbyggingarinnar heilsast kankvíslega. Þarna var áður húsið Uppsalir en á því var einnig turn. Þetta er gott dæmi um hvernig farið er fyrir horn í borgarmyndinni.
Nýbyggingin er til vinstri og hún er tengd þeirri eldri til hægri um glersund.
Byggingar í Skuggahverfi sem hannaðar eru af erlendum arkitektum. Vandséð er tenging byggingalistarinnar við Reykjavík eða Ísland. Þessi hús gætu eins verið í Shangai eða úthverfum Vínarborgar. Þessar byggingar voru hannaðar á sama tíma og húsin á horni Túngötu og Aðalstrætis. Þarna er nýtingarhlutfallið lægra en í Aðalstræti. Húsin eru enn í byggingu.