Föstudagur 27.11.2009 - 09:54 - 18 ummæli

Svona á að byggja í 101

Þegar hugmyndir um uppbyggingu lóðanna á horni Túngötu og Aðalstrætis voru kynntar spunnust nokkrar umræður um þá nálgun og þá lausn sem þar var fundin.

Mönnum þótti að þarna væri um hallærislegt afturhvarf til fortíðar að ræða.

Um þetta var fjallað í blöðum, útvarpi og sjónvarpi. Yfirleitt töluðu menn máli nútíma arkitektúrs og vildu að allar framkvæmdir endurspegluðu það menningarstig og tíðaranda á þeim tíma sem húsin eru byggð, hvar svo sem þau standa. Þetta er auðvitað rétt að hluta. Meginatriðið er þó það að það skiftir lykilmáli hvar husin standa og í hvaða samhengi.

Menn höfðu einkum það við þessi hús að athuga að þau voru hönnuð í anda löngu liðins tíma.

Haldinn var eftirminnilegur fundur um málið í Arkitektafélaginu þar sem höfundarnir Grétar Markússon og Stefán Örn Stefánsson vörðu verk sitt.

Þetta var á margan hátt sérkennileg umræða vegna þess að á sama tíma átti sér stað uppbygging í einu úthverfa borgarinnar, Bryggjuhverfinu við Grafarvog þar sem þess var krafist í skipulagsskilmálum að húsin bæru keim af „anda“ Reykjavíkur fyrir um100 árum þar sem nú er póstnúmer 101.

Enginn gerði athugasemd við það.

Á sama tíma og þetta var í undirbúningi var verið að rífa heildstætt hverfi norðan Lindargötu þar sem áttu að rísa framandi hús sem hönnuð voru af erlendum arkitektum án þess að menn væru sérstaklega að ræða það eða hafa áhyggjur af því. Þarna standa nú hús sem eru ekki í neinu samhengi við umhverfið og anda Reykjavíkur. Og enginn segir neitt og enginn virðist hafa skoðun á þessu.

Nú þegar frá er liðið og hugsað er til baka, þá er ég þakklátur þeim sem stóðust gagnrýnina og byggðu hús í anda Reykjavíkur við elstu götu bæjarins í stað þess að fá þarna hús á borð við nýju húsin í Skuggahverfinu.

Ég er þess fullviss að eftir 100 ár, árið 2109, standa húsin við Aðalstræti enn og verða talin mikil borgarprýði meðan háværar umræður verða um hvort ekki eigi að rífa háhýsin við Skúlagötu, ef ekki verður þá löngu búið að því.  Það er líka athyglisvert að nýtingarhlutfall á lóðunum við Aðalstræti er hærra en í Skuggahverfi þar sem hús eru tæpar tuttugu hæðir. Nýtingarhlutfall segir okkur hversu mikið er byggt miðað við stærð lóðarinnar.

Ég held að hugmynd, sem nefnd var í opnu húsi í Hagaskóla s.l. þriðjudag, um hverfaskipulag ætti þarna vel við og ætti að nota við endurskoðun skipulagsins innan Hringbrautar. Þá yrði meginmarkmiðið að endurskapa og styrkja anda Reykjavíkur, hugsanlega með svipuðum þankagangi og var í Aðalstræti.

Ég er á þeirri skoðun að svona eigi að byggja í 101, innan gömlu Hringbrautar. Þar eiga eldri húsin að móta þau nýju.  Það á að vera innilegt samtal milli nýrra og eldri húsa í þessum elsta hluta borgarinnar. Svo geta húsbyggjendur og arkitektar þeirra fengið nánast takmarkalaus tækifæri til þess að sýna frumlegheit sín utan þessa svæðis.

 

Rúmmynd sem sýnir húsaþyrpinguna ofanfra úrsuðaustri.

Lárétt lína og mismunandi efnistök draga úr hæð hússins. Litir og þakefni húsanna tveggja, nýbyggingarinnar og Hjálpræðishersins kallast á.

Húsið til vistri er að stofni til frá um 1760 meðan byggingin til hægri er endurgerð á gafli Fjalarkattarins sem var rifinn fyrir mistök.

Húsin taka mið af umhverfinu hér sést upp í grjótaþorpið þar sem er að finna heillega manneskjulega byggð.

Turnar Hjálpræðishersins og nýbyggingarinnar heilsast kankvíslega. Þarna var áður húsið Uppsalir en á því var einnig turn. Þetta er gott dæmi um hvernig farið er fyrir horn í borgarmyndinni.

Nýbyggingin er til vinstri og hún er tengd þeirri eldri til hægri um glersund.

Byggingar í Skuggahverfi sem hannaðar eru af erlendum arkitektum. Vandséð er tenging byggingalistarinnar við Reykjavík eða Ísland. Þessi hús gætu eins verið í Shangai eða úthverfum Vínarborgar. Þessar byggingar voru hannaðar á sama tíma og húsin á horni Túngötu og Aðalstrætis. Þarna er nýtingarhlutfallið lægra en í Aðalstræti. Húsin eru enn í byggingu.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.11.2009 - 10:23 - 18 ummæli

Vesturbærinn á dagskrá

 

 

 

Ég var á fundi í Hagaskóla í gærkvöldi þar sem Skipulagsráð boðaði til opins húss í mínu hverfi  „Þar sem íbúar Vesturbæjar geta sett fram hugmyndir sínar um hvað betur megi fara í skipulagsmálum í hverfinu. Þetta er næst síðasta opna húsið af alls tíu sem Skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkur efnir til í öllum hverfum borgarinnar í tilefni af endurskoðun aðalskipulags Reykjavíkur”, eins og sagði í fundarboði.

 

Eftir stutta framsögu voru þeim Vesturbæingum sem þarna mættu boðið að setjast við þemaborð sem hétu: samgöngur, íþróttir, hjartansmál, kjarninn o.fl. og svo fluttu menn sig milli borða eftir svona 20 mínútna setu og umræður.

 

Þetta var afskaplega vel heppnað og augljóslega var þarna kominn saman stór hópur fólks sem var annt um hverfið sitt og hafði áhuga á skipulagsmálum.

 

Það er skemmst frá því að segja að Vesturbæingar mættu undirbúnir og hugmyndirnar flugu milli manna. Sérstakur ritari var við hvert borð sem skráði niður það sem fram kom.

 

Ég settist við tvö borð þar sem fjallað var annarsvegar um samgöngur og hinsvegar kjarnann.

 

Í samgönguhópnum komu fram hugmyndir á borð við að mjókka akbraut Hofsvallagötunnar um svona 4 metra og nota landrýmið fyrir gangandi, hjólandi og gróður. Taka framhjáhlaup við gatnamót Hofsvallagötu og Ægisíðu af. Þetta tvennt átti m.a. að stuðla að því að menn notuðu ekki Hofsvallagötu sem tengibraut á leið sinni út á Seltjarnarnes.

 

Það komu einnig fram hugmyndir um að Hofsvallagata, Birkimelur og Suðurgata yrðu aðalleiðirnar inn í vesturbæ sunnan Hringbrautar en hlutverk þeirra sem tengibrautir yrðu nánast lagðar af. Suðurgatan yrði gerð að vistgötu á kafla til þess að tengja háskólasvæðið betur saman og auka öryggi stúdenta.

 

Í hinum hópnum sem nefndist “Kjarninn” voru áherslurnar aðrar. Þar vildu menn að verslunin yrði færð utan úr Örfirisey inn í íbúðahverfin. Matvöruverlun kæmi í verslunarhúsnæði við Dunhaga ásamt áfengisverslun m.m. Hverfisverslun kæmi við Hjarðarhaga þar sem 10/11 er nú.

 

Fólkið vildi að bensínstöðvum yrði fækkað. Stöðin við Ægisíðu þótti barn síns tíma og ætti að víkja. Sama ætti við um stöðina við Birkimel. Bensínstöðvar eiga ekki að vera í íbúðahverfum sagði einhver.

 

Svo var mikil samstaða um að sameina lóðir Hagaskóla, Neskirkju og Melaskóla í eina lóð. Það muni auka sveigjanleika og öryggi til mundi auk þess sem allt yrði manneskjulegra. Hagatorgið yrði þá ekki hringur heldur hálfhringur.

 

Þetta er bara örlítill útdráttur af því sem ég upplifði þarna. Auðvitað var fjallað um Vesturbæ norðan Hringbrautar og tengingar þar á milli og margt, margt fleira, sem ekki er tækifæri til að gera grein fyrir hér.

 

Þessi fundur var upplifun fyrir fólk sem hefur fylgst með skipulagsmálum undanfarna áratugi vegna þess að áður var eins og aðalskipulagið kæmi frá Guði. Það var órannsakanlegt og ekki til umræðu. Borgarbúar fengu tækifæri til þess að mótmæla nánast orðnum hlut þegar skipulagið var auglýst.

 

Nú eru borgarbúar kallaðir til í upphafi vinnunnar.  Vinnuferlið hefur verið gert gagnsætt og borgarbúum boðin þáttaka í mótun skipulagsins þegar á frumstigi. Tilfinningin gagnvart skipulagsyfirvöldum breytist úr tortryggni í traust við þetta verklag.

 

Þau Ólöf Örvarsdóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson reifuðu hugmynd um millileik milli aðalskipulags og deiliskipulags, sem þau kölluðu hverfaskipulag. Vonandi verður þeim að ósk sinni og við fáum að sjá vinnu við hverfaskipulag borgarinnar fara af stað.

 

 

Einhver hópur óskaði eftir grenndarverslun í hverfinu og svo naut hugmyndin um sameiningu skóla- og kirkjulóðar fylgis.

 

Bensínstöðin við Ægissíðu var fundinn þessi staður vegna þess að á þeim árum var þetta nánast þjóðvegur sem lá út á Seltjarnarnes og var kallaður Nesvegur. Nú er þetta íbúðabyggð.

Fólk talaði um að fá matvöruverslunina aftur inn í íbúðahverfin.  Nú er mesti hluti matvöruverslunnar Vesturbæjar á hafnar og iðnaðarsvæði.  Gamla skipulagið gerir ráð fyrir stórum matvörubúðum við Dunhaga og Hjarðarhaga. Fólk vill geta gengið fallegar götur til  innkaupa þar sem þeir hitta sína næstu nágranna.

………….

 

Fyrsta myndin er tekin uppúr 1960 um um það bil sem verslunarkjarni við Dunhaga var opnaður. Þar var skósmiður, fiskbúð, KRON og fl.  Göturnar ómalbikaðar og sprautubíllinn fór um tvisvar á dag þegar vel viðraði. Takið eftir að þarna er enginn trjágróður.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.11.2009 - 15:30 - Rita ummæli

Space is process

Ég hef haldið því fram áður að Ólafur Elíasson hugsi eins og arkitekt. Einn helsti aðstoðarmaður hans undanfarin mörg ár hefur verið Einar Þorsteinn Ásgeirsson arkitekt.

Á hjálögðum hreyfimyndum “SPACE IS PROCESS” og “PLAYING WITH SPACE AND LIGHT” talar hann um rými, hlutföll og fl.

Hann segir frá reynslu sinni af íslenskum fossum og hvernig fallhraði og -tími vatnsins hjálpar honum til þess að skynja stærð og hlutfall landslagsins.

Þetta er lærdómsríkt.

og

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 23.11.2009 - 11:21 - 6 ummæli

Jörn Utzon

 

Manni getur dottið í hug að frægasta verk Jörn Utzons, Óperuhúsið í Sidney hafi þvælst fyrir honum. Hefði hann ekki unnið samkeppnina um óperuhúsið hefði hann hugsanlega haft mun breiðari og meiri áhrif á byggingarlistina en raun varð á.

Óperan vakti slíka athygli að hún varpaði skugga á önnur verk Utzons. Hafa skal í huga að hann var aðeins 38 ára þegar hann vann samkeppnina.

Hefði hann ekki unnið Sidney Óperuna hefði hans nafn verið skráð í flokk brautryðjenda (trendmakers) á borð við Alvar Aalto, Gunnar Asplund og Arne Jacobsen og hann hefði hugsanlega haft breiðari áhrif.

Það hefði hann gert vegna sérstakrar næmni hans fyrir staðnum. Byggingar hans spruttu upp úr því umhverfi og þeirri menningu þar sem þau voru reist.

Hann horfði í kringum sig áður en hann setti blýantinn á blaðið. Þetta er eitthvað sem minni áhersla er lögð á nú á dögum í byggingarlistinni en æskilegt væri.

Jörn Utzon er fæddur 1918 og gekk á Akademíunni í Kaupmannahöfn á stríðsárunum og lauk ekki prófi með toppárangri. Hann var lesblindur.  Að ljúka prófi með góðum árangri  í arkitektaskóla getur verið vísbending um að maður hugsi ekki eins og kynslóðin á undan manni en það er ekki endilega merki um að maður standi þeim á sporði.

Kannski og sennilegast var Utzon sterkari og víðsýnnni en dómararnir, þó að ég þekki það ekki. Hann var undir áhrifum af Gunnari Asplund og vann um tíma á teiknistofu Alvars Aalto.

Þetta átti að vera stutt færsla með fjölda mynda en hún verður aðeins lengri.

Mig langar nefnilega til þess að segja eina sögu af Jörn Utzon sem var auðvitað óþekkur. Það er þannig að þýðlindar geðluðrur sem dansa eftir almenningsálitinu ná sjaldan toppárangri í listum. En þeir geta náð árangri í bissniss eins og dæmin sanna. Sjáið bara Mozart og Björk í tónlistinni, Picasso í myndlistinni sem var kominn á toppinn á bláa tímabili sínu en sneri af tómri óþekkt við blaðinu og málaði myndina af stúlkunum frá Avignon. Svona má lengi telja.

Jörn Utzon og Tobias Faber (sem síðar varð rektor Konunglegu Listaakademíunnar) voru félagar á Akademíunni. 

Meðan Danmörk var hersetin af Þjóðverjum datt þeim félögum, Tobiasi og Jörn í hug að fanga dúfur og mála á þær merki breska flughersins og sleppa þeim lausum á flugi út yfir Kongens Nytorv fyrir augum þýskra hermanna, gráum fyrir járnum. 

Þeir fönguðu 40-50 dúfur og máluðu á þær merkið og slepptu lausum yfir Kaupmannahöfn út um glugga á Charlottenborg, höllinni við Kongens Nyrtorv þar sem skólinn var til húsa. Þetta var  gjörningur sem þeir félagar vissu ekki einusinni að væri gjörningur.

Þetta hafði eftirmála innan dyra skólans en komst ekki í hámæli. Enda hefði hvorugur þessarra heiðurmanna sennilega lokið námi ef upp hefði komist. 

Hjálagt eru svo nokkrar myndir af verkum Jörns Utzon, Fredensborg húsin 1962 á Sjálandi, Can Feliz á Mallorca1994, Bagsværd kirkju 1976 á Sjálandi, Þinghúsið í Kuweit 1982, Can Lis 1973  á Mallorca sem skírt var eftir eiginkonu hans.

Heimili Utzons á Mallorca Can Lis byggt árið 1973. Glerið er í ramma utan við steininn og lítur þá út eins og óglerjað sé.

Verönd við Can Lis

 

Seinna hús Utzon á Mallorca Can Feliz, byggt 1994. Þar notar hann sömu aðferð til þess að glerja. Áhrifin eru eins og sést á myndum af Can Lis hér að ofan.

Fredensborg húsin frá 1962

Fredensborghúsin eru byggð úr sjálönskum gulum múrstein með „löberforbant“. Sami litur er á „vingetegl“ sem notað er á þökum. Hefðbundið danskt handverk með heðbundin form, en húsin nútímaleg.

Húsunum er þjappað saman til þess að auka opið landrými. Ekki ósvipað og í tillögu Högnu Sigurðardóttur um orlofsbúðir Landsbankans.

Húsgagna og hönnunarmiðstöðin Paustian frá árinu sem hefuir verið í byggingu undanfarin ár.

 

Bagsværd Kirke frá árinu 1976

Altari Bagsværd Kirke

Bagsværd Kirke  þykir sérstök í útliti en upphafin og andleg rýnmismyndun þegar inn er komið.

Þinghúsið í Kuweit frá árinu 1982

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.11.2009 - 11:09 - 19 ummæli

Bíllaus borg

Ég hef nefnt það áður að nýtt vinnulag hefur verið tekið upp vegna undirbúnings að endurskoðun aðalskipulags borgarinnar.

 

Áður var þetta þannig að skipulagið var unnið af stjórnmálamönnum og sérfræðingum, mest í kyrrþey, og svo var það opinberað og auglýst. Án nokkurrar umræðu sem heitið gat. Þeir sem gerðu athugasemdir voru álitnir andstæðingar borgarskipulagsins.

 

Í gær voru arkitektar boðaðir til morgunfundar þar sem farið var yfir samgöngumál í borginni. Það átta sig kannski ekki allir á því hversu samgöngumál eru mikilvæg.

 

Þau eru lykilþáttur.

 

Það vakti einkum athygli mína að fenginn var fyrirlesari sem talar í aðra átt en stefnt hefur verið að í borginni undanfarin 25 ár. Það var Sigrún Helga Lund frá samtökunum um Bíllausan lífsstíl.

 

Þarna er enn brotið blað með nýjum og betri vinnubrögðum við undirbúning að gerð aðalskipulags þar sem óskað er eftir gagnrýni og viðbrögðum þegar í upphafi vinnunnar.

 

Sigrún Helga sýndi fram á hvað þjónustan við einkabílinn skekkir samkeppnisstöðu annarra kosta. Þar nefndi hún “ókeypis” bílastæði, kröfur um lágmarksfjölda bílastæða í byggingareglugerð, sífellt fleiri og stærri “ókeypis” umferðarmannvirki, skattfrjálsir bílastyrkir og margt fleira.

 

Einkabíllinn er óhemju dýr og óheppilegur ferðamáti í borgum. Það sjá allir um leið og málið er skoðað enda eru flestar borgir Evrópu að hafna einkabílnum

 

Því hefur verið haldið fram að í hvert sinn sem fjölgar um einn einkabíl í landinu þurfi að útvega honum 7 bílastæði. Hvert bílastæði tekur að minnsta kosti 25 fermetra lands. Það er að segja að hver bíll þarf um 175 fermetra lands bara í bílastæði. Öll þessi stæði þarf svo að byggja og þeim þarf að halda við, bíleigendum að “kostnaðarlausu”.

 

Ég man eftir því að fyrir 10-15 árum héldu menn því blákalt fram að Íslendingar væru búnir að velja hvernig þeir vildu ferðast og það væri með einkabílnum. Þetta er auðvitað vitleysa. Skipulag borgarinnar og þjónustan er þannig að það er ekkert val. Þetta þekki ég á eigin skinni. Ég bjó erlendis í 8 ár og saknaði aldrei einkabílsins. Ég hugðist taka upp sama lífsstíl þegar heim var komið en gafst upp eftir viku vegna þess hvað borgin var illa skipulögð og hvað almenningssamgöngurnar voru lélegar.

 

Það hefur lengi verið vitað að einkabíllinn er óheppilegt samgöngutæki í borgum. Kaupmannahöfn gerði Strikið að göngugötu fyrir tæpum 50 árum. Fyrir um tuttugu árum fór Kaupmannahöfn að setja kröfur um hámarksfjölda bílastæða.

 

Kollegar mínir voru að hanna lúxusíbúðir í miðborg Kaupmannahafnar og vildu hafa tvö bílastæði neðanjarðar fyrir hverja íbúð. Því var hafnað af yfirvöldum sem sögðu það stefnuna að fækka stæðum í miðborginni, m.a. vegna þess að verið væri að leggja áherslu á almenningssamgöngur, Metro o.fl.

 

Arkitektarnir og verkkaupar þeirra gáfu sig en töldu að íbúðirnar mundu vart seljast án þess að óskinni um tvö bílastæði á hverja lúxusíbúð yrði fullnægt. Þeir sögðu að þeir sem þarna flyttu inn mundu aka á tveimur BMV og að konurnar gengu í pelsum. Þetta væru íbúðir fyrir ríkt fók sem vildi lúxus.

 

Niðurstaðan varð eitt stæði á íbúð og allar íbúðirnar runnu út.

Á þessari loftmynd af KTH, tækniháskólanum í Stokkhólmi sést að þar er ekki einu tré fargað fyrir bifreiðastæði. Takið eftir að járnbrautarstöðin er ekki langt undan.

Því hefur verið haldið fram að ekkert bifreiðastæði þurfi, eða eigi að vera, við háskóla. Háskóla eigi að staðsetja þannig að stúdentar komist allra sinna ferða gangandi eða með almenningssamgöngum.

Þetta er loftmynd af svæði Háskóla Íslands. Háskólinn býr ekki við bifreiðastæðavanda, heldur samgöngu- og skipulagsvanda.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.11.2009 - 23:47 - 5 ummæli

Högna Sigurðardóttir.

Á Kjarvalsstöðum stendur nú yfir sýning á nokkrum vel völdum verkum Högnu Sigurðardóttur arkitekts.

Líkan á sýningu á Kjarvalsstöðum. Hér er „Hafsteinshús“ við Bakkaflöt í Garðabæ.

 

Þetta er mjög áhugaverð sýning á helstu verkum eins af færustu arkitektum Íslands. Einungis verk hennar á Íslandi eru þarna til sýnis en verkum t.d. í Frakklandi er ekki gerð skil  að þessu sinni.

 

 

 

Verk Högnu bera slík höfundareinkenni að það dylst engum hver hélt þar á blýantinum og gyldir einu hvort horft er á grunnmyndir, efnistök, form eða  funktion.

 

Grunnmyndir húsanna eru sérlega áhugaverðar aflestrar og efnistök einstök og mjög íslensk. Sennilega er Högna ”íslenskastur” allra íslenskra arkitekta þrátt fyrir að hafa búið fjarri föðurlandinu alla sína starfsævi.

 

Manni dettur í hug hús Jörn Utzons á Mallorca þar sem efnistök eru sprottin úr umhverfinu með eftirtekarverðum hætti á Miðjarðarhafseyjunni. Utzon er spánskari en nokkur spánverji í sínum arkitektúr. Það er samsvörun milli verka danans Utzons og íslendingsins Högnu á fleiri sviðum.

 

Sumarbúðir fyrir Landsbankann við Álftavatn í Grímsnesi frá árinu 1964, sker sig úr verkum á sýningunni vegna þess að það er eina verkið sem ekki er í skipulagðri borgarbyggð. Í tillögu sinni að bygggðinni er skipulagið meginverkefnið og lausnin helstu gæði verksins. Híbýlin standa þétt þannig að opin svæði verða meiri. Bílum er ekki hleypt inn á svæðið og húsin fléttast inn í landslagið.  Náttúran hefur forgang.

 

Ég hef stundum farið á málþing þar sem fjallað er um verk einstakra listamanna.  Það sem einkennir þau er að framsögumenn mæra listamanninn eins og hann eigi stórafmæli.  Það liggur stundum við að manni finnist menn vera að lesa upp úr minningargreinum. Mærðin er svo mikil.

 

Það örlar ekki á spurningum eða efasemdum um nálgun eða hugmyndir listamannanna.

 

Á laugardag var málþing um verk Högnu Sigurðardóttur. Þar voru flutt fjögur ágæt erindi sem voru bæði skemmtileg og fróðleg, en voru sama marki brennd hvað mærðina varðar.

 

Ég hefði viljað fá umfjöllun um nánast það eina sem mér finnst orka tvímælis í verkum Högnu. Það eru steypt húsgögn í híbýlum fólks. Það er auðvitað í lagi að steypa húsgögn í hotel eða hús þar sem starfsemin er mjög vel skilgreind og fólk staldrar stutt við.

 

En þegar kemur að híbýlum orkar það af ýmsum ástæðum tvímælis að hafa húgögn föst og jafnvel steinsteypt þó það henti vissulega sumum.

 

Arkitektar eiga að skapa ramma um líf fólks en ekki að ákveða hvernig líf þess á að vera. Það þarf að skapa svigrúm þannig að mæta megi duttlungum einstaklingsins sem þar býr. Það þarf að vera rými til að fullnægja eignagleðinni og fyrir erfðagripi m.m.

   

Þetta er eitthvað sem ég hefði viljað fá umfjöllun um á málþinginu á laugardag. Þessi hugmynd um föst húsgögn eiga sér auðvitað skýringar sem ég hefði verið þakklátur fyrir að heyra umfjöllun um.

 

Þó ég segi þetta hér má ekki skilja það sem svo að ég sé að kasta rýrð á verk Högnu.

 

Ég er þess fullviss að ég er alls ekki síðri aðdáandi Högnu Sigurðardóttur en þeir sem þarna töluðu. Þessi hugleiðing leitar bara á mig og ég hefði viljað fá umfjöllun um þetta og fl. á málþinginu.

 

Ég mæli eindregið með sýningunni sem er opin til 31. janúar 2010.

 

Lesa má að húsið við Bakkaflöt sæki í íslenska torfbæjinn. Þarna er útsýni lítið en birtan innandyra mikil og henni stýrt.

Íslenski torfbærinn að Keldum

 

Orlofsbúðir Landsbankans við Álftavatn í Grímsnesi er það besta skipulag sem ég hef séð af þessum toga hér á landi

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 16.11.2009 - 15:16 - 23 ummæli

Landspítalinn Háskólasjúkrahús – Viðbót.

Kort sem tengist umferðaspá 2012. Þarna sést hvar viðamestu krossgötu borgarinnar er að finna. 

Þessa dagana er mikil umræða um staðsetningu Landspítalans. Guðrún Bryndís Karlsdóttir fjallaði um staðsetningu LSH í Silfri Egils á sunnudaginn fyrir viku,  Gestur Ólafsson skipulagsfræðingur og Árni Gunnarsson skrifuðu grein um málið í Morgunblaðið s.l. fimmtudag; Sturla Snorrason hefur sett fram hugmyndir um staðsetningu spítalans á bloggsíðu sinni undanfarið; 37 ummæli komu í framhaldi af færslu minni um efnið s.l. miðvikudag.

Þau hafa nánast öll miklar áhyggjur af staðsetningu spítalans og færa góð rök fyrir sjónarmiðum sínum.

Auðvitað eru líka gild rök fyrir staðsetningu spítalans við Hringbraut. En við heyrum þau ekki. Maður veltir fyrir sér hver ástæðan sé.

Það heyrist ekki mikið frá þeim sem umboðið hafa og eiga að taka ákvörðun fyrir hönd okkar sem fengum þeim valdið. 

Björn Zoega forstjóri LSH lætur hafa eftir sér ummæli um val á staðsetningu í Morgunblaðinu í morgun þar sem hann í afar stuttu máli færir rök fyrir niðurstöðunni.

Það eru breyttir tímar í Reykjavíkurborg.  Borgin óskar eftir viðbrögðum við skipulagshugmyndum. Þessar vikurnar er hún með fundarröð í hverfum borgarinnar þar sem óskað er eftir afskiptum almennings af skipulaginu í upphafi vinnu við nýtt aðalskipulag.

Reykjavíkurborg er að opna umræðuna um skipulagsmál.

Af þessum ástæðum þurfa menn að vera virkir í umræðunni og það á ekki síður við um fulltrúa stofnana eins og LSH. Það fólk þarf að sannfæra borgarbúa um að verið sé að fara rétta leið. Tími fyrirbyggjandi aðgerða vegna skipulagsslysa er gengin í garð og ég þakka skipulagsráði fyrir sinn þátt í því.

Ég hef fengið á netfang mitt viðbrögð frá fólki sem þekkir vel til þessarra mála. Þakka ég öllum sem tjá sig um þetta mikilvæga mál. 

Ég birti hér hluta athugasemdar eins þeirra, Ingólfs Þórissonar framkvæmdastjóra eignasviðs Landspítalans.  Ég veit að Ingólfur er mjög vel að sér um þessi mál.

Í tölvupósti vitnar hann í færslu mína og segir svo:

„………. Þar nefnir þú að forsenda fyrir staðsetningu Landspítala sé flugvöllurinn.

Hér er einhver misskilningur á ferðinni.  Það breytir engu um staðarvalið, hvort flugvöllurinn fer eða verður. 

Staðarvalið byggir á þremur megin stoðum.

Í fyrsta lagi er meginþorri starfsemi Landspítala við Hringbrautina.  Það á að flytja starfsemi Borgarspítalans á lóðina við Hringbraut.  Það er ekki verið að byrja frá grunni við Hringbrautina heldur að þróa svæðið og ná því faglega og rekstrarlega hagræði sem sameining skilar.  Ef menn vilja byggja starfsemina frá grunni annars staðar þá er það miklu stærra og dýrara verkefni.  Það þarf að byggja allt nýtt, barnaspítala, kvennadeild, geðdeild, eldhús ofl. ofl.  Kostnaður 2-3 sinnum meiri.

Í öðru lagi er engin lóð á höfuðborgarsvæðinu betur tengd almenningssamgöngum.   Það eru 7 strætisvagnaleiðir sem koma við á lóðinni.  Mjög stór hluti íbúa Reykjavíkursvæðisins getur tekið strætó án þess að skipta um vagn beint inn á lóðina.  Þá býr helmingur starfsmanna Landspítala í göngu- og hjólafæri við lóðina (minna en 14 mínútur).

Í þriðja lagi er Landspítali háskólasjúkrahús.  Á lóðinni fer fram menntun heilbrigðisstétta, þ.e. heilbrigðisvísindasvið Háskólans.  Það svið er svo aftur í samstarfi við aðra hluta háskólans svo sem náttúruvísindi og raunvísindadeild.  Nálægð deilda Háskólans skiptir skólann miklu máli. 

Umræða um nauðsynlegar vegaframkvæmdir fyrir Landspítala svo sem Holtsgöng og að setja Nýju Hringbraut í stokk er óskiljanleg og á ekki við rök að styðjast“.

Ingólfur sendi mér viðamikla og vel unna úttekt á aðgengi að spítalanum við Hringbraut um almenningsvagnakerfið, gangandi og hjólandi. Því miður kann ég ekki að setja það hér í færsluna.

Af skrifum Ingólfs má lesa að uppbyggingin við Hringbraut kalli ekki á umsvifamiklar vegaframkvæmdir með göngum í gegnum holt og hæðir og að nálægðin við flugvöllin vegi nánast ekki neitt þegar sjúkrahúsinu er valinn staður. 

Þetta eru hvorutveggja nýjar upplýsingar fyrir mig enda hefur öðru verið haldið fram í umræðunni.

 Þetta opnar tækifæri til nýrrar nálgunnar og annarrar umræðu að mínu mati.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.11.2009 - 04:14 - 3 ummæli

Wien

Ég hef verið í Vínarborg alla vikuna. Heimsótt tvær arkitektastofur og arkitektaskólann í TU. Fékk leiðsögn af atvinnumönnum sem sýndu mér gamlar byggingar og nýjar m.a. eftir Coop Himmelblau, Hans Hollein, Jean Nouvel og fl.

 

Það sem vekur sérstaklega athygli í borginni er öll hámenningin. Hún blómstrar hér á öllum sviðum og hefur gert um aldir. Og nú njótum við hennar. Snobbið borgar sig.

 

Í hinum stóra heimi er það einkum tónlistin sem borgin er fræg fyrir. Þess vegna kom það mér á óvart hvað myndlist er hér umfangsmikil. Það eru myndlistargalleri út um allt. Ég er búinn að sækja meira en 10 sýningar og eru þær hver annarri betri.

 

Það eru hundruð verka hér eftir Miro, Ernst, Picasso, Braque, Chagall, Renoir, Monet , Rembrant , Ruben og alla sem máli skifta. Og svo sáum við verk eftir Ólaf Elíasson, einn íslendinga.

 

Ein stórbrotnin sýning Egon Schiele varð á vegi okkar. Schiele var bæði skáld og myndlistarmaður. Hann dó aðeins 28 ára gamall árið 1918 úr spönsku veikinni.

 

Hann hefur verið ótrúlega flinkur og afkastamikill. Ég hef ekki heyrt hans getið áður. Með færslunni fylgja nokkrar myndir hans.

 

Hér fylgja einnig myndir af verkum stjörnuarkitekta sem er auðvitað ósanngjarnt vegna þess að þeir móta ekki anda borgarinnar. Það gerðu gömlu mennirnir sem unnu fyrir keisarana og yngri menn á borð við Wagner.

 

Það er athyglistvert að nefna það að einn ágætur arkitekt, kunningi minn, sem býr í Wien og rekur hér arkitektastofu með nokkrum umsvifum, á engan bíl. Hann segir það ekki borga sig. Hann fer með allra sinna ferða með ágætu almenningsflutningakerfi borgarinnar.

 

Ef hann þarf að fara út fyrir bæinn tekur hann bílaleigubíl og ef almenningflutningar henta ekki í önnum dagsins þá tekur hann leigubíl. Það borgar sig ekki að eiga einkabíl fyrir hann.

 

Ég mundi vilja eiga heima í slíkri borg. Borg þar sem afnot af einkabíl er ekki forsenda búsetu.

Inngangurinn i Albertina eftir Hans Hollein

Lexus center eftir Burgstaller

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 11.11.2009 - 09:50 - 38 ummæli

Landspítalinn Háskólasjúkrahús

 

Forsendan fyrir staðsetningu Háskólans í Reykjavík er að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni.

 

Ein af forsendunum fyrir stækkun Landspítala Háskólasjúkrahúss við Hringbraut er að flugvöllurinn verði um alla framtíð í Vatnsmýrinnni.

 

Veit hægri höndin ekki hvað sú vinstri er að gera?

 

Ég skil þetta ekki.

 

Skilur einhver þetta?

 

Flugvalladeilan er eins og heit kartafla sem hent er upp í loftið og enginn grípur vegna þess að enginn vill brenna sig.

 

Kartaflan lendir í gólfinu og er ónýt.

 

Þetta er það sem er að fara að gerast með flugvöllinn og Vatnsmýrina ef fram heldur sem horfir.

 

Það þarf að koma hreyfingu á umræðuna með einhverri nýrri nálgun.

 

Hugsanlegt væri t.d. að setja saman 6-10 teymi sem væru fengin til þess að leggja fram svæðaskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið með áherslu á flugvöllinn í Vatnsmýrinni, staðsetningu Háskólasjúkrahúss og að koma HR í ásættanlega tengingu við borgarumhverfið.

 

Vestfirðir, Eyjafjörður og Austfirðir skipuðu eitt teymi hver og höfuðborgarsvæðið restina. Keyptir yrðu svona 150-200 tímar af hverju teymi.

 

Þetta yrði ekki samkeppni heldur upplýst hugmyndavinna arkitekta sem ekki hafa komið að skipulagsvinnu fyrir þessa aðila áður. Ég er þess fullviss að niðurstaðan muni setja nauðsynlega hreyfingu á málið.

 

Nú er óróleiki í allri umræðunni vegna stefnuleysis. Eða kannski er það frekar stöðnun sem hrjáir umræðuna vegna stefnuleysis.

 

Nýtt skipulagsslys er í uppsiglingu við Hringbraut. Atburðarrásin er að taka völdin enn einu sinni og við sitjum hugsanlega uppi með Háskólasjúkrahús á kolröngum stað.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.11.2009 - 08:25 - 9 ummæli

“Arkitektafyrirtæki”

Aðalsteinn Snorrason arkitekt, skrifaði ágæta grein í Morgunblaðið í sumar þar sem hann fjallaði um “Arkitektafyritækin” og starfsumhverfi þeirra á krepputímum.

Áður voru þetta “arkitektastofur” sem reknar voru af einstaklingum, einum eða fleirum, sem höfðu ákveðið viðhorf til byggingalistarinnar.

Stofurnar höfðu ákveðna nálgun hvað varðar verkefnin og af niðurstöðunum mátti oftast sjá sterk “höfundareinkenni”.

Höfundareinkennin voru yfirleitt svo sterk að kunnáttumenn sáu strax á verkunum hver hafði hannað hvað.

Auðvitað voru stofurnar fyrirtæki þegar kom að bókhaldi, Hagstofunni, fyrirtækjaskrá o.þ.h. En þetta voru fyrst og fremst skapandi vinnustofur þar sem byggingalist var framin.

Eigum við ekki að leggja “arkitektafyrirtækjunum” og endurvekja “arkitektastofurnar” þar sem vinna 2-10 starfsmenn.

Er ekki tími stóru arkitektafyrirtækjanna með 20-60 starfsmönnum liðinn. Voru þeirra dagar ekki taldir haustið 2008 eða fyrr?

Ég hef þá tilfiningu að það séu ekki mörg verkefni arkitekta hér á landi sem 5-10 manna arkitektastofur geta ekki sinnt svo sómi sé að.

Stórar arkitektastofur og verkfræðistofur geta líka skapað vanhæfi á ýmsum sviðum í litlu þjóðfélagi eins og hugsanlega hefur gerst með stóru lögfræði- og endurskoðunarfyrirtækin undanfarið.

Fyritæki eru vinnustaðir þar sem framleidd er vara, seld þjónusta eða hlutirnir afgreiddir með hagnaði að markmiði. Oftast skilgreina forsvarsmenn fyrirtækja sig sem bissnissmenn.

Arkitektar vinna samkvæmt siðareglum og metnaði sem á oft ekki samleið með bisnisshugsjóninni. Þeir skilgreina sig sem arkitekta, en ekki bisnissmenn, þó arkitektúr geti verið góður bissniss.

Listamenn skilgreina sig ekki sem fyrirtæki. Svo dæmi sé tekið af J.K.Rowling sem ritaði Harry Potter bækurnar. Hún skilgreinir sig sem rithöfund þó hún eigi fyrirtæki, sem stofnað er til þess að halda utan um rekstur sem veltir miljörðum. Sama má segja um tónskáld, leikara og myndlistarmenn; Paul McCartney, Brad Pitt eða Ólaf Elíasson. Þeir skilgreina sig ekki sem fyritæki.

Myndin að ofan sýnir einn afkastamesta arkitekt síðustu aldar, Le Courbusier, við störf.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn