
Í sumar hefði Gunnlaugur Halldórsson arkitekt orðið 100 ára. Hann var fæddur í Vestmannaeyjum 6. ágúst 1909.
Gunnlaugur var einn merkasti arkitekt á Íslandi á síðustu öld.
Hann útskrifaðist með sæmd frá Konunglegu Listaakademíunni í Kaupmannahöfn vorið 1933 aðeins 23 ára gamall. Yngstur allra.
Gunnlaugur var heiðursfélagi í Arkitektafélagi Íslands og vann til fjölda verðlauna í fagi sínu og voru verk hans með því besta sem gerðist um hans daga og jafnvel þó leitað væri langt út fyrir landsteinana.
Hann rak eigin teiknistofu alla sína tíð og hannaði mörg meistaraverk. Verk hans einkenndust af hinum „mjúka norræna funktionalisma“ þeim hinum sama og Gunnar Asplund, Arne Jacobsen, Vilhelm Lauritzen og feiri aðhylltust.
Sem dæmi um verk Gunnlaugs má nefna verkamannabústaði við Hringbraut (Sólvelli), S.Í.B.S. á Reykjalundi, Tryggingastofnun, Amtsbókasafnið á Akureyri, Englaborg, hús Jóns Engilberts Búnaðarbankann, Háskólabíó og mörg fleiri
Þetta eru allt fyrsta flokks verk sem menn ættu að skoða.
Þá teiknaði hann Búnaðarbankabygginguna í Austurstræti, sem er einstök og með því allra besta sem byggt var á Norðurlöndum um þær mundir. Þar stofnaði Gunnlaugur til merkilegs samstarfs með skólafélögum sínum frá Akademíunni, listamönnunum Sigurjóni Ólafssyni og Jóni Engilberts ásamt Skarphéðni Jóhannssyni húsgagnaarkitekt, sem seinna varð þekktur arkitekt. Hinn heimsfrægi danski húsgagnaarkitekt, Börge Mogensen kom einnig að verkinu og hannaði ýmsa lausamuni sérstaklega fyrir bankann.
Háskólabíó sem Gunnlaugur teiknaði ásamt Guðmundi Kr. Kristinssyni er tvímælalaust með best hönnuðu kvikmyndahúsum frá öndverðu fram á okkar dag, arkitektúr í hæsta gæðaflokki hvernig sem á er litið.
Gunnlaugur vann sjálfstætt og engum háður allt frá því að hann kom heim frá námi, til dauðadags.
Hörður Ágústsson, fræðimaður og myndlistarmaður, sagði um Gunnlaug: „Hann skapar ekki aðeins fullburða verk rúmlega tvítugur að aldri heldur brýtur hann með þeim blað í íslenskri sjónlistarsögu. Ég kem ekki auga á annan jafn ungan listamann sem slíkt afrek hefur unnið. Og það sem meira er, með þessum verkum skipar Gunnlaugur sér sess sem fyrsti íslenski sjónlistamódernistinn, um áratug á undan Svavari Guðnasyni.“
Teiknistofa okkar Finns Björgvinssonar arkitekts átti því láni að fagna að vinna með Gunnlaugi nokkur síðustu starfsár hans. Eitt sinn spurði ég Gunnlaug, hvaða ráð hann gæti gefið ungum arkitekt sem væri að hefja starfsferil sinn. Hann svaraði að bragði: „Hann á að finna sér verndara“.
Ég skildi svarið ekki strax, en áttaði mig á því seinna.
Gunnlaugur vann, eins og margir aðrir arkitektar á þeim tíma, í skugga Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins, sem er af sumum álitinn besti, en jafnframt ofmetnasti arkitekt Íslands.
Guðjón vann að margra mati í skjóli Jónasar frá Hriflu og fékk fleiri tækifæri en nokkur annar íslenskur arkitekt hefur nokkurn tíma fengið eða mun að líkindum nokkurn tíma fá. Hann hannaði flestar opinberar byggingar á Íslandi sem byggðar voru á fyrri hluta síðustu aldar í embætti Húsameistara ríkisins samtímis með því að hann tók að sér verkefni á einkastofu sinni.
Þeir sem vilja kynnast Gunnlaugi Halldórssyni, ævi hans og verkum nánar er bent á fyrirlestur Péturs H. Ármannssonar í Norræna húsinu n.k. mánudagskvöld 5. október kl. 20.00.
Myndin af Gunnlaugi sem fylgir er fengin að láni frá vef Hönnunarmiðstöðvar Íslands.

Búnaðarbanki Íslands í Austurstræti

S.Í.B.S. Reykjalundur hannaður í upphafi í samstarfi við Bárð Ísleifsson

Háskólabíó eftir þá Gunnlaug Halldórsson og Guðmund Kristinsson er sennilega eitt besta hús á íslandi og hefur algera sérstöðu hvað form og funktion varðar.