Miðvikudagur 14.10.2009 - 10:57 - 15 ummæli

Háskólatorg.

 

Að frumkvæði Páls Skúlasonar rektors og með stuðningi Háskólasjóðs Eimskipa hefur nú risið miðstöð stúdenta og starfsfólks Háskóla Íslands.

Skólinn samanstendur af mörgum deildum í mismunandi byggingum sem sköruðust lítið. Þverfagleg samskipti nemenda voru í lágmarki.

Með Háskólatorgi hefur þetta breyst. Götur stúdenta úr öllum deildum krossast í þessum byggingum þegar þeir sækja fyrirlestra, bóksölu stúdenta eða sameiginlegt mötuneyti skólans m.m.

Mikilvægur þáttur þessarrar velheppnuðu byggingar er verk Gylfa Guðjónssonar og félaga sem gerðu deiliskipulagið. Þar náðist að koma miklu byggingarmagni fyrir þannig að góðar  tengingar náðust við helstu byggingar Háskólans án þess að skyggja á það sem fyrir er. Þetta er gott dæmi um hvað deiliskipulagið skiptir miklu máli ef vel á að fara. Bílar eru hvergi sjáanlegir.

Nýbyggingin, sem er í raun tvær byggingar, eru teiknaðar af Teiknistofu Ingimundar Sveinssonar og Hornsteinum. Byggingarnar falla vel að aðliggjandi húsum, bæði starfrænt og hvað varðar útlit og samspil við nærliggjandi merkishús.

Á hjálögðum myndum má sjá að annað húsið er dökkt og dregur sig til hlés milli aðalbyggingar Háskólans og Lögbergs meðan hin hefur yfir sér aðra ásýnd milli Lögbergs og Gamla Garðs. Gul keila dregur athyglina að höfuðbyggingunni og inngangi  og hinni er skipt í tvo hluta, lárétt skipting, dökk að ofan og ljós að neðan til þess að draga úr ásýnd hennar í þessu gamla, þekkta og  geðþekka umhverfi. Aðalinngangur er frá göngustígnum eða trjágöngum, sem tengir göngukerfi  háskólasvæðisins saman.

Þetta er vel heppnað. Gott deiliskipulag, góð forsögn og góður arkitektúr.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.10.2009 - 15:04 - 23 ummæli

“Vegasjoppa” í Borgartúni

 

Að mínu mati skila íslenskir arkitektar frá sér, að mestu, ágætri byggingalist miðað við  nágrannalöndin. Ég hef þá tilfinningunni að það séu fleiri góð hús hér á landi á hverja 1000 íbúa en víða annarsstaðar. 

Öðru máli gegnir um skipulagið.  Þar sýnist mér við vera eftirbátar nágrannaþjóðanna. Það má segja að við höfum verið óheppin í skipulagi undanfarin 25 ár á höfuðborgarsvæðinu og sérstaklega í Reykjavík. 

Dæmin blasa við hvar sem farið er. 

Ég vil taka lítið dæmi af Borgartúni í Reykjavík. Þar standa margar glæsihallir í röð. Sum húsanna eru góð og önnur ágæt.

Það mætti halda að einu skipulagsákvarðanirnar í Borgartúninu hafi verið lóðamörk og nýtingarhlutfall.  Bilið milli húsanna, er óskipulegt, bílastæði og húsahæðir virðast tilviljunum háð. Ekki hefur verið hlúð að útisvæði fyrir þann fjölda fólks sem þarna starfar. Það er eins og húsin rísi uppúr skipulagslausu bílaflæmi og fáir sjást á gangi þegar hugsað er til þess hvað byggingamagnið er mikið og margir starfa þarna. 

Og svo rúsínan í pylsuendanum er „vegasjoppan“. Að hugsa sér að af einhverjum óskiljanlegum ástæðum lendir vegasjoppa þarna í miðju fjármálahverfinu.  Þetta er frumleg nýjung, sem ekki hefur sést annarstaðar og verður spennandi að sjá hvort New York borg fari að okkar fordæmi og byggi vegasjoppu í Wall Street eða það komi ein slík í City í London! 

Nei, þessi hugmynd borgarskipulagsins verður einsdæmi um víða veröld vegna þess að allstaðar sem ég þekki til er verið að bægja einkabílnum, hægt og rólega út úr miðborgunum með ýmsum aðgerðum. Öfugt við þá þróun sem manni sýnist hér vera við lýði. 

Það er án efa til skýringar á þessari staðsetningu sjoppunnar og skipulaginu öllu en þær blasa ekki við.

Hjálagt eru svo myndir af bensínstöð í miðborg Lisabon. Slíkar bensínstöðvar er að finna víða í borgum Evrópu. Húsakostur er ekki meiri en biðstöð strætisvagna og svo eru 2-3 stæði meðfram gangstétt tekin undir starfssemina.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 9.10.2009 - 08:59 - 12 ummæli

Eru of margir arkitektar á Íslandi?

 

Það er ljóst, að í því hallæri sem nú stendur yfir, er offramboð á arkitektum á Íslandi. Sennilega er nú allt að 80% atvinnuleysi í stéttinni, ef frá eru taldir þeir arkitektar sem vinna hjá ríki og sveitarfélögum. Samkvæmt iðnaðarráðuneytinu eru nú um 440 arkitektar á Íslandi með viðurkenningu á starfsheitinu og ætli það séu ekki eitthvað á annað hundrað í námi. 

Spurningin er hvort arkitektar séu of margir í eðlilegu árferði?

Samkvæmt upplýsingum frá anArchitecture (frá 2004) má lesa að meðalfjöldi arkitekta á hverja eitt þúsund íbúa í þeim löndum sem athugunin nær til er um 0,77. 

Á Íslandi er fjöldinn um 1,4 á hverja þúsund íbúa. Það er rúmlega 80% meira en meðaltal úttektar anArchitecture. 

Það kunna að vera einhverjar eðlilegar skýringar á því að tölurnar spanna svona breitt bil, sem er frá 0,26 til 1,73 arkitekta á hverja þúsund íbúa. Sennilega breytir þar mestu hvernig menn skilgreina „arkitekt“ í þessum mörgu mismunandi löndum.

Hvað sem því líður er hægt að draga þá ályktun að hér á landi sé töluvert offramboð á arkitektum. Sennilega er umframfjöldinn tæp tvö hundruð.

Ef mark má taka á úttektinni má ætla að þörfin fyrir arkitekta á Íslandi sé milli 280 og 320 eða 0,9-1.0 á hverja 1000 íbúa. Fróðlegt væri að sjá sams konar samanburð um fjölda verkfræðinga, lögfræðinga, lækna eða viðskiftafræðinga hér á landi.

*anArkitektur er ein sterkasta bloggsíða í heimi, sem fjallar um arkitektúr. Tengil á hana má finna hér til hægri á síðunni.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.10.2009 - 13:31 - 2 ummæli

Oscar Niemeyer brátt 102 ára.

Hver skyldi trúa því að Oscar Niemeyer skuli enn vera á lífi, næstum 102 ára gamall. Hann fæddist í Rio de Janeiro þann 15. desember 1907. 

Oscar skipulagði og teiknaði heila höfuðborg á sínum tíma. Höfuðborg Braziliu var látin heita Brasilia, með essi, og var reist á stóru auðu svæði inni í miðju landi.

Það tók Oscar Niemeyer, með aðstoð Lucio Costa, fjögur ár að hanna „hyperfunktional“ höfuðborg sem þeir gáfu form sem er eins og flugvél eða fiðrildi. Síðan eru liðin meira en 50 ár .

Uppúr 1950 kom Oscar að byggingu höfuðstöðva Sameinuðu þjóðanna í New Yourk ásamt fleiri arkitektum. Þeirra á meðal var Le Courbusier.

Oscar hafði mikinn áhuga á stjórnmálum gekk í kommúnistaflokks Brazilíu 1945 og var forseti hans um árabil. Einhvern tíma heyrði ég, að hann væri eini maðurinn utan Ráðstjórnarríkjanna sem hafi fengið Leninorðuna. Hann hitti marga leiðtoga kommúnista og varð persónulegur vinur þeirra. Samkvæmt Wilkipedia á Fidel Castro að hafa sagt „Niemeyer and I are the last Communists on the planet“

Byggingalist hans stóð á styrkum stoðum meginreglna byggingarlistarinnar og er laus við allt prjál og óþarfa sérvisku. Hús hans hafa fengið minni umfjöllun en þau eiga skilið. Oscar ber höfuð og herðar yfir flesta svokölluðu stjörnuarkitekta samtímans.

Oscar hafði gaman af konum. Hann teiknaði konumyndir og það má líka sjá vissar kvenlegar bognar og léttar línur í byggingarlist hans. Hann gifti sig 98 ára gamall. Ég veit ekki hvort það var fyrsta hjónaband hans en það má búast við að þau verði ekki mikið fleiri úr þessu.

Að neðan eru ljósmyndir af nokkrum verka hans, skissum af konum og einu húsgagna hans.

Svo er mynd af honum eins og hann er í dag. Hann lítur út eins og þreyttur rokkari sem kann að líkindum ekkert á tölvu og er vafalaust slétt sama um Revit og BIM, enda kann hann að teikna með höndunum og notar ekki þá hækju, sem tölvan er oft fyrir fólk með skerta rýmisgreind.

 

 

 

 

Metropolitan dómkirkjan í Brasilíu.

Nútímalistasafnið í Niteroi

Stjórnsysluhús í Brasilia

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.10.2009 - 10:34 - 23 ummæli

Nýbyggingar á Bifröst.

Eitthvert fegursta skólastæði á Íslandi er Bifröst. Þar er gríðarlega gott tækifæri til þess að skapa akademiskt umhverfi í náinni snertingu við náttúruna þar sem hún er fegurst. Þarna er skjólgott, gróðursælt, víðsýnt, stórbrotið og fíngert umhverfi, allt í senn.

 

Í fullu samræmi við þetta hvíldu fíngerðar byggingarnar í landslaginu þar sem bygging eftir Sigvalda Thordarson arkitekt, “Kringlan”,  stóð fremst sem ímynd og tákn staðarins og skólastarfsins í um 60 ár.

 

 

Húsaþyrpingin einkenndist af smágerðum fjölbreytileika sem var í fallegu samhengi við stórbrotinn fjallahring. Lítillátar byggingarnar sem þarna voru, hvíldu í landslaginu, hógværar og kurteisar gagnvart umhverfinu og þeim sem leið áttu hjá. Hæð bygginganna og bilið milli þeirra var í góðu samræmi og í sátt við umhverfið.  Þarna blasti við lítið mennta- og þekkingarþorp. Aðalbyggingin stóð fremst, hélt byggðinni saman og einkenndi hana.

 

Litirnir voru vel valdir hvort sem  þangað var litið að vetri til eða sumri. Þökin rauð og veggirnir gulir og hvítir.

 

Þetta er ekki svona lengur. Búið er breyta þessu og einhverjir framtakssamir menn hafa byggt fyrir þessa ásýnd og stillt upp húsum sem eru úr öllu samhengi við eldri byggingarnar og umhverfið. Þessar nýbyggingar eru gráar og fjöldaframleiðslulegar. Þær kallast ekki á við það sem fyrir er og gildir þá einu hvort er átt við eldri byggingar eða landslag.

 

Það er að mörgu að hyggja ef vel á að byggja, Allir þurfa að ganga í takt, stjórnmálamenn, höfundar deiliskipulags, höfundur húsanna, verkfræðingar, verktakar, landslagsarkitektar og ekki síst verkkaupinn. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.

 

Það þarf að fara varlega á þessu svæði, vanda alla skipulagsvinnu og húsahönnun eins og frekast er unnt.

Í eldri hluta byggðarinnar er að finna lágreist hús sem mynda vinaleg rými milli húsanna. Þetta er skipulagt sem göngusvæði líkt og bandaríska “CAMPUS” hugmyndin gerir ráð fyrir og einkabílum bolað út úr byggðinni. Húsin eru teiknuð af Þórarni Þórarinssyni og Agli Guðmundssyni arkitektum. Nostrað er við landmótun og frágang milli húsanna.

 

 

Nýbygging sem virðist hvorki vera í sátt við landslagið né þær byggingar sem fyrir eru. Spurningin, sem leitar á mann er, hvort hægt sé að mennta fólk í svona umhverfi?  Hvaða áhrif hefur umhverfið á þroska og tilfinningu fyrir samhengi hins mótaða og ómótaða umhverfis á þá sem þarna dvelja? Þetta er auðvitað sígild spurning og svo hin spurningin, Hvort er hér um  að ræða “skemmtilega fjölbreytni” eða  “sjónræn mistök “?.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 2.10.2009 - 13:41 - 10 ummæli

GUNNLAUGUR HALLDÓRSSON ARKITEKT

 

Í sumar hefði Gunnlaugur Halldórsson arkitekt orðið 100 ára. Hann var fæddur í Vestmannaeyjum 6. ágúst 1909.

Gunnlaugur var einn merkasti arkitekt á Íslandi á síðustu öld. 

Hann útskrifaðist með sæmd frá Konunglegu Listaakademíunni í Kaupmannahöfn vorið 1933 aðeins 23 ára gamall. Yngstur allra.

Gunnlaugur var heiðursfélagi í Arkitektafélagi Íslands og vann til fjölda verðlauna í fagi sínu og voru verk hans með því besta sem gerðist um hans daga og jafnvel þó leitað væri langt út fyrir landsteinana. 

Hann rak eigin teiknistofu alla sína tíð og hannaði mörg meistaraverk. Verk hans einkenndust af hinum „mjúka norræna funktionalisma“ þeim hinum sama og Gunnar Asplund, Arne Jacobsen, Vilhelm Lauritzen og feiri aðhylltust. 

Sem dæmi um verk Gunnlaugs má nefna verkamannabústaði við Hringbraut (Sólvelli), S.Í.B.S. á Reykjalundi, Tryggingastofnun, Amtsbókasafnið á Akureyri, Englaborg, hús Jóns Engilberts Búnaðarbankann, Háskólabíó og mörg fleiri

Þetta eru allt fyrsta flokks verk sem menn ættu að skoða. 

Þá teiknaði hann Búnaðarbankabygginguna í Austurstræti, sem er einstök og með því allra besta sem byggt var á Norðurlöndum um þær mundir. Þar stofnaði Gunnlaugur til merkilegs samstarfs með skólafélögum sínum frá Akademíunni, listamönnunum Sigurjóni  Ólafssyni og Jóni Engilberts ásamt Skarphéðni Jóhannssyni húsgagnaarkitekt, sem seinna varð þekktur arkitekt. Hinn heimsfrægi danski húsgagnaarkitekt, Börge Mogensen kom einnig að verkinu og hannaði ýmsa lausamuni sérstaklega fyrir bankann.

Háskólabíó sem Gunnlaugur teiknaði ásamt Guðmundi Kr. Kristinssyni er tvímælalaust með best hönnuðu kvikmyndahúsum frá öndverðu fram á okkar dag, arkitektúr í hæsta gæðaflokki hvernig sem á er litið.

Gunnlaugur vann sjálfstætt og engum háður allt frá því að hann kom heim frá námi, til dauðadags.

Hörður Ágústsson, fræðimaður og myndlistarmaður, sagði um Gunnlaug: „Hann skapar ekki aðeins fullburða verk rúmlega tvítugur að aldri heldur brýtur hann með þeim blað í íslenskri sjónlistarsögu. Ég kem ekki auga á annan jafn ungan listamann sem slíkt afrek hefur unnið. Og það sem meira er, með þessum verkum skipar Gunnlaugur sér sess sem fyrsti íslenski sjónlistamódernistinn, um áratug á undan Svavari Guðnasyni.“

Teiknistofa  okkar Finns Björgvinssonar arkitekts átti því láni að fagna að vinna með Gunnlaugi nokkur síðustu starfsár hans. Eitt sinn spurði ég Gunnlaug, hvaða ráð hann gæti gefið ungum arkitekt sem væri að hefja starfsferil sinn. Hann svaraði að bragði: „Hann á að finna sér verndara“.

Ég skildi svarið ekki strax, en áttaði mig á því seinna.

Gunnlaugur vann, eins og margir aðrir arkitektar á þeim tíma, í skugga Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins, sem er af sumum álitinn besti, en jafnframt ofmetnasti arkitekt Íslands.

Guðjón vann að margra mati í skjóli Jónasar frá Hriflu og fékk fleiri tækifæri en nokkur annar íslenskur arkitekt hefur nokkurn tíma fengið eða mun að líkindum nokkurn tíma fá. Hann hannaði flestar opinberar byggingar á Íslandi sem byggðar voru á fyrri hluta síðustu aldar í embætti Húsameistara ríkisins samtímis með því að hann tók að sér verkefni á einkastofu sinni.

Þeir sem vilja kynnast Gunnlaugi Halldórssyni, ævi hans og verkum nánar er bent á fyrirlestur Péturs H. Ármannssonar í Norræna húsinu n.k. mánudagskvöld 5. október kl. 20.00.

Myndin af Gunnlaugi sem fylgir er fengin að láni frá vef Hönnunarmiðstöðvar Íslands.

Búnaðarbanki Íslands í Austurstræti

S.Í.B.S. Reykjalundur hannaður í upphafi í samstarfi við Bárð Ísleifsson

bilde

Háskólabíó eftir þá Gunnlaug Halldórsson og Guðmund Kristinsson er sennilega eitt besta hús á íslandi og hefur algera sérstöðu hvað form og funktion varðar.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.9.2009 - 11:15 - 1 ummæli

“Your House” eftir Ólaf Eliasson

 

 

Mér hefur yfirleitt þótt Ólafur Elíasson hugsa eins og arkitekt. List hans gengur oft út á það sama og verk arkitektsins – að fanga rýmið.  Hann nálgast verk sitt eins og arkitekt. Það er því þroskandi og skemmtilegt að skoða list hans í því ljósi.

Sennilega á einn helsti aðstoðarmaður Ólafs einhvern þátt í þessari nálgun, en það er Einar Þorsteinn Ásgeirsson arkitekt.

Þó rýmismótun arkitekta sé oft á tíðum vel heppnuð þá vekur sköpun þeirra mun minni athygli en annarra listamanna. Sennilega sökum þess að rýmismótun arkitektanna er gerð á öðrum forsendum en verk listamanna eins og Ólafs.

Fyrir nokkrum árum gerð Ólafur bókina „Your House“ sem lýsir húsi hans í Kaupmannahöfn í mælikvarðanum 1:85. „Lesandinn“ flettir sig í gegnum húsið og skynjar rýmin sem er lýst á 454 síðum sem hver um sig færir hann til í húsinu um 2,2 cm í raun.

Bókin var gefin  út í 225 eintökum í stærðinni 27,4x43x10,5 og sýnd á MOMA í New York.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.9.2009 - 13:52 - 6 ummæli

TORG KVOSARINNAR.

 

Ég velti fyrir mér hvað Reykjavíkurborg hugsar sér með torg Kvosarinnar? Kannski eiga torgin ekki að hafa annan tilgang en þann að vera eins konar olnbogarými í gatnakerfinu og til þess að mæta tilfallandi þörfum líðandi stundar. 

 

Hugsanlegt er líka að gefa þeim ákveðið hlutverk í bæjarlífinu.  Hvernig á t.d. Ingólfstorg að vera í framtíðinni og hvað með önnur torg Kvosarinnar?  Hvert er hlutverk þeirra og hvaða hlutverki viljum við að þau gegni?

 

Til þess að skýra spurningarnar þá kem ég með hugsanleg svör:

 

Austurvöllur verði svipaður og hann er nú, grænn, sólríkur, skjólgóður  með veitingastöðum, turtildúfum, daðri, mótmælum og hátíðarstemningu. Á fyrstu tveimur hæðunum í húsunum vestan við torgið (hús Landsímans) verði listasafn í hæsta gæðaflokki. Þarna væri þá komið einhverskonar Place des Vosges Reykjavíkur, bara flottara en í París.

 

Lækjartorg verði staður til þess að hittast. Þar mætast akandi og gangandi ásamt yfirfullum strætisvögnum. Þar er staðarandinn annar. Ys og þys, svona annríkisstemming járnbrautarstöðvanna.

 

Ingólfstorg verði vetrartorg, þar sem væri kælt skautasvell minnst 8 mánuði ársins auk þess að vera staður þar sem mótórhjólatöffarar hittast til þess að dást að stálfákum sínum.  Götur umhverfis Ingólfstorg verði með víkjandi bílaumferð og engum bílastæðum. Yndislega hlaðið jólaskrauti, jólamarkaði og glæsilega skreyttu jólatré  á aðventunni. Nokkurs konar Rockefeller Center. Fjóra sumarmánuðina yrði þarna árstíðartengdur markaður. Fyrst grásleppa svo gulrætur, þá bláber og svo endar þetta með slátri á haustin. Og auðvitað veitingar, myndlist, og trúbadúrar.  Kannski smá Place du Tertre fílingur með matarmarkaði, en bara  fjóra sumarmánuðina.

 

Svæðið við Tjörnina sunnan við Iðnó yrði barna- og fjölskyldusvæði með ís, vöfflum, öndum, brauði, trúðum og candyflossi.

 

Svo bætast Mæðragarðurinn og Hljómskálagarðurinn við flóruna með sinn sérstaka sjarma.

 

Eitthvert  svona skipulag, þar sem komið er til móts við þarfir borgarbúa og mannlíf getur blómstrað á torgum borgarinnar allt árið. Ef borgin gæti sagt okkur til hvers torgin eiga að vera gætum við tekið þátt í upplýstri umræðu um framtíð og útlit torganna í Kvosinni.

 

Auðvitað hlýtur að liggja fyrir hjá borgarskipulaginu einhver áætlun um hvernig á að nota torg borgarinnar til næstu 20-30 ára.

 

Hér fylgja nokkrar gamlar myndir sem sýna annríki á Lækjartorgi um miðja síðustu öld og fólk skauta á Austurvelli fyrir um 100 árum. Myndirnar eru fengnar að láni af vef Ljósmyndasafns Reykjavíkur.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.9.2009 - 11:28 - 3 ummæli

Inside Pedway System.

 

 

Ég var í St. John í New Brunswick í Kanada í byrjun vikunnar. Þetta er lítill bær. Eitthvað um 150 þúsund íbúar með höfn, háskóla, ágætu myndlistarsafni og tónlistarhúsi með um 900 sætum. Svo er þarna lifandi miðbær, sem ekki er sjálfsagður hlutur í vesturheimi.

 

Í miðbænum er “inside connection pedestrian way system” sem tengir allar helstu byggingar miðbæjarins saman þannig að innangengt er um mesta hluta bæjarins um undirgöng, brýr og í gegnum byggingarnar.  Þeir kalla þetta til styttingar “The Pedway” og  er lituð gul á yfirlitsmyndinni hér að neðan.

 

Fólk leggur bílum sínum í bílastæðahúsum og gengur svo innandyra nánast um allan miðbæjinn. The Pedway tengir saman verslanir og stjórnsýslu, banka, skemmtistaði, 10 þúsund sæta íþrótta- og hljómleikahöll, 50 metra sundlaug, söfn og fl.

 

Margir íslendingar þekkja eitthvað svipað við Copley Place i Boston og í miðborg Halifax og víðar. Í Boston og Halifax er kerfið ekki valkostur vegna þess að allri gangandi umferð er beint inn á kerfið og nánast ekki gert ráð fyrir neinum gangandi utandyra eins og við þekkjum t.d. í Kringlunni hér heima. Það er verulegur galli. 

 

Í St. John er þetta sérlega vel heppnað vegna þess að líka er hlúð að götulífinu svo sómi er að. Gangstéttirnar iða af lífi þegar vel viðrar. Þar eru bekkir, myndastyttur, gróður og veitingahús og mjög lítil bifreiðaumferð. Stór hluti þjónustunnar sem er við götuna er líka opin inn að The Pedway.

 

Þetta er lausn vetrarborganna við veðurfarslegum vandamálum sem þar er að finna.

 

Í St.John er tengingin milli gamalla og nýrra bygginga. Í nýju byggingunum er strax gert ráð fyrir þessu frá upphafi þegar þær eru byggðar meðan gömlu byggingunum er breytt innandyra eða notað rými sem myndast þegar þök eru sett yfir bakgarða. Elstu byggingarnar við The Pedway eru yfir 130 ára gamlar eða frá því strax eftir brunann mikla þar í borg árið 1877.

 

Væri hægt að nýta sér eittvað af þessu í miðborg Reykjavíkur eða Akureyrar?  

 

Hér að neðan eru myndir sem sýna eitt innitorganna sem hefur myndast þegar gönguleiðin var hönnuð. Elsta byggingin við þetta innitorg er frá 1877. Svo eru myndir sem sýna andrúmsloftið utandyra.

 

 

 

 

 

 Gula línan sýnir hvar „The Pathway“ Liggur

 Byggingarnar til vinstri eru frá 1877 inngangurinn er nýr og svo má sjá eina göngubrúnna til hægri

Þrátt fyrir The Pathway iða gangstéttirnar utandyra með fólki myndlist og gróðri.

Hér má sjá hvernig bakgarður er yfirbyggður úr stáli og er með mikla dagsbirtu.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.9.2009 - 10:41 - 17 ummæli

Arkitektúr og myndlist

 http://www.ausl.mo.it/flex/images/8/b/8/D.7b805bdbe30417dc3ba1/L__enigma_20di_20una_20giornata_201914.jpg

Gamli prófessorinn minn á Konunglegu dönsku Akademíunni fyrir fagrar listir í Kaupmannahöfn, Jörgen Bo, byrjaði oft fyrirlestra sína með því að varpa mynd af málverki upp á vegg.

Bo var mikill áhugamaður um myndlist og teiknaði m.a. listasafnið fræga, Louisiana í Danmörku.

Jörgen Bo útskrifaði marga íslenska arkitekta. Má þar nefna Sverri Norðfjörð heitinn, Albínu Thordarson, Dagnýju Helgadóttur,  Þorstein Helgason og fl. auk undirritaðs. Stefán Thors skipulagsstjóri var einnig nemandi hans um tíma.

Ég ætla að byrja blogg mitt eins og prófessor Jörgen Bo byrjaði fyrirlestra sína, á málverki.

Ég vel málverk  eftir ítalann Chiroco, The Enigma of the day, (Gáta dagsins(!)) sem er metafysiskt, þar sem ríkja andstæður á borð við kyrrð, skugga, sól, stóriðju og hreyfingu.

Þegar horft er á myndina veltir maður fyrir sér hvað sé inni í húsunum og hvað handan hornsins? Hvert fór fólkið? Af hverjum er styttan og hvað er í kassanum? Hvað eru mennirnir tveir í fjarska að hugsa? Eru þeir að koma eða eru þeir að fara? Eða eru þeir að bíða eftir einhverju? Hvað er að fara að gerast þarna á torginu.

„Something is happening here but you don’t know what it is, do you, Mr. Jones?“

Skakkt perspektív myndarinnar gerir mann óöruggan.

Townscape, landscape og/eða mindscape, án vinda og án gróðurs?

En litirnir róa mann.

Þetta er málverk af óstaðbundnum og ótímasettum arkitektúr og einnig málverk af þeirri tilfinningu sem maður sem er að leggja af stað í bloggferðalag ber í brjósti.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn