Föstudagur 14.09.2012 - 22:54 - 10 ummæli

Rammaskipulag hafnarinnar – bakgrunnur og hugmyndir

 

Í  rammaskipulaginu sem kynnt var í borgarráði í fyrradag komu fram nokkur atriði sem hafa áhrif á nálgunina og lausnina. Í fyrsta lagi er það  sögulegt samhengi hlutanna sem hafa afgerandi áhrif eins og lesa má um í síðustu færslu og í öðru lagi óskin um að tengja höfnina betur miðborginni og blása meira lífi í svæðið.

Búið var að byggja gjá milli miðborgarinnar og hafnarinnar með ýmsum aðgerðum, t.a.m. Geirsgötu sem er fráhrindandi hraðbraut sem ekki á að eiga heima í nokkurri miðborg.

Rammaskipulagið gerir ráð fyrir að breyta þessu  og færa miðborgina og höfnina nær hvorri annarri bæði starfrænt og myndrænt  eins og var á árum áður. Þá er sóst eftir að styrkja sjónása til sjávar sem eru með sterkari einkennum gatnaskipulags Reykjavíkur inan Hringbrautar.

Hjálagt eru nokkrar myndir sem skýra þetta betur en mörg orð. Efst er mynd sem sýnir nánast allt svæðið. Þar sést slippurinn og sundstaður við hafflötinn ásamt líflegri hafnarstarfsemi. Hafa ber í huga að þetta eru skipulagshugmyndir sem eiga eftir að fá hús sem væntanlega falla betrur að borginni og starsseminni þegar frá líður.

 

Það sem einkennir gatnakerfi Reykjavíkur er að það opnar með reglulegu millibili útsýn til sjávar og til Esjunnar.  Þessir sjónásar eru einkennandi í mörgum hafnarborgum á Norðurlöndum. Myndin að neðan er frá Stokkhólmi en sú efri frá Klapparstíg.

 

 

Í hugmyndafræðinni er lögð áhersla á að hafnarstarfssemi verði mikil á svæðinu. Höfn án skipa er ekki höfn. Margir telja til dæmis að höfn Kaupannahafnar sé ekki lengur höfn heldur „waterfront“ . Höfundar skipulagsins og Faxaflóahafnir eru meðvituð um þetta. Á Miðbakka verður ekki sportbátalægi heldur er ætlast til þess að stærri skip leggi þar upp, ísbrjótar, skólaskip, minni skemmtiferðaskip og rannsóknarskip.

 

Hér er mynd sem sýnir svipað fyrirkomulag og stefnt er að nema að ekki verður hraðbraut sem skilur milli hafnarinnar og byggðarinnar.

 

Hér er mynd af  hafnarbaði í Kaupmannahöfn svipuðu og lagt er til að verði í Reykjavíkurhöfn. (laugin er eitt af fyrstu verkumstjörnuarkitektsins Bjarke Ingels nú hjá BIG, áður PLOT).

Takið eftir að þarna eru engin skip. Það voru hræðileg og ófyrirgefanleg mistök að úthýsa skipum úr höfninni þar á bæ. Það vissu allir að steft var í ranga átt. Arkitektarnir Halldor Gunnlögsson prófessor og Jörn Utzon vöruðu við þessu. En stórfyritæki sem vildu byggja höfuðstöðvar sínar á svæðinu höfðu betur.

 

Yfirlitsmynd yfir miðborgina. Fara ber ofurvarlega hvað varðar allar skipulagsákvarðanir innan Hringbrautar og sérstaklega á viðkvæmasta staðnum, Reykjavíkurhöfn og Kvosinni.

Hugmyndin er að í skipulaginu verði lítil borgartotg af svipaðri stærp og gerð og myndin að ofan lýsir.

Að ofan er ljósmynd tekin norður Mjóstræti í Grjótaþorpi . Þar eru húsin tveggja til fjögurra hæða svipað og stefnt er að á Miðbakka þar sem húsin verða tveggja til fimm hæða. Göturnar á Miðbakka verða álíka breiðar og þar sem Mjóstræti er þrengst. En á móti kemur að á Miðbakka verða lítil borgartorg með jöfnu milllibili.

 

Gert er ráð fyrir að bifreiðastæðin á svæðnu sé max eitt á íbúð og öll niðurgrafin að fullu eða hálfu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Samúel Torfi Pétursson

    Er verið að slaufa núgildandi deiliskipulagi sem Björn Ólafs hefur unnið og vann í kjölfarið á sigurtillögu sinni fyrir svæðið, eða er bara verið að aðlaga það nýjum forsendum? Það skipulag fannst mér alltaf mjög gott og byggði einmitt á því að framlengja gatnakerfi vesturbæjar áleiðis niður á höfn með því að framlengja sjónása og byggðamynstur eftir Bræðraborgarstíg og Seljavegi niður á höfn. Jafnvel þótt sleppt verði því að leggja umferðina í stokk undir svæðið (og er yfirgnæfandi líklegt) ætti að vera vel hægt að aðlaga það nýjum aðstæðum.

  • Þetta er svo mikil óskhyggja hvað bílaumferð varðar að það er eins og að menn líti ekkert á það hvernig ástandið er í eldri hverfum í miðborginni. Það að segja „einn bíll per íbúð“ mun ekki gera það að raunveruleika. Í staðinn verður lagt þarna upp á gangstétt og í götujöðrum eins og annarsstaðar.

    Og hvert er hugmyndin að beina umferðinni um Geirsgötuna?

    Flottar tillögur og mjög fallegt útlit en maður er ansi hræddur um að þetta sé engan veginn praktískt.

  • Kristján Arngrímsson

    Það er töluverð hætta á að þetta verði sama martröðin og Ingólfstorgið – þarna verði hlaðið niður húsum sem eru úr öllu samhengi við næsta nágrenni, þ.e. gamla Vesturbæinn. Alveg furðulegt að ekki sé vilji til að teikna hús sem kallast á við nágrenni sitt. Veit ekki, finnst arkitektum það kannski hallærislegt?
    Auk þess ástæða til að taka undir ábendingar að ofan um afleiðingar þess að þrengja að Geirsgötu. Það er ekki bara spurning um umferð í Vesturbæ heldur líka og ekki síður umferð út á Seltjarnarnes.

    • Sammála. Það er eins og menn séu að leika sér að kubbum og með því að setja léttklætt fólk inn á myndirnar finnnist þeim að þetta sé gott skipulag.

  • Þetta er fínt skipulag og ástæðulaust að hafa áhyggjur af umferðinni. Eitt stæði á íbúð er meira en nægilegt. Gestir leggja bara í bílastæðahúsum undir Seðlabanka, á Hverfisgötu og Bergstaðastræti.

    Helsti gallinn á skipulaginu er sá sem Magnús Skúlason og fl. nefndu í síðustu færslu.

    Gallinn er að þessi skipulagshugmynd á ágætlega við á Miðbakka en ekki í Mýrargötu. Það er vegna þess að á þessum tveim stöðum eru gjörólíkar aðstæður sem kalla á gjörólíkar lausnir.

    Sama skipulagshugmyndin á ekki við á áðum stöðunum og vísa ég í Menningarstefnuna í því sambandi.

    En í lokin vil ég segja að þetta skipulag er í hæsta gæðaflokki miðað við hryllingin og vanmáttinn vil LSH þar vinnnur gj0rsamlega vanfært fólk eða hitt að það séu bara málaliðar á ferðinni í skipilagsmálum sem gera bara það sem þeim er borgað fyrir.

  • Steinarr Kr.

    Til viðbótar, myndir og teikningar sýna alltaf mannlíf að sumri, þessa fáu daga þegar hlýtt er. Það er aldrei tekið tillit til nóvember eða febrúar, þegar það er +/- 1° og slydda. En það kanski selur illa.

  • Steinarr Kr.

    Það er greinilegt að þessar hugmyndir eru runnar undan rifjum þeirra sem hata einkabílinn og halda að þeir geti losnað við hann með því að gera fólki erfitt um vik að nota hann.

    Það eru tveir meginásar fyrir umferð úr og í vesturbæinn, Geirsgata og Hringbraut. Með því að skáka Geirsgötu úr leik er líklegast ætlast til þess að umferðin færist á Hringbraut, sem nú þegar er orðin torfær á álagstímum.

    Tala nú ekki um vitleysuna með max eitt stæði á íbúð, en sú hugsun er svo röng. Er ekki gert ráð fyrir að fólk sem þarna býr fái gesti?

    Byggingarmagnið er líka umtalsvert og sýnist mér að það eigi að vera elítulið sem þarna kaupir sér íbúðir sem eigi að njóta útsýnis til hafnar og fjalla.

    Punktar Sigurborgar hér að ofan eru mjög réttmætir og væri gaman að sjá umræðu um þá.

    Held að í þessu dæmi sé betur heima setið en af stað farið.

  • Sigurborg

    .
    Í Kaupmannahöfn tóku aðilar með sérhagsmuni skipulagsvaldið á svipaðan hátt og virðist stefna í varðandi deiliskipulag landspítalans. Þess vegna fór svona illa í CPH.

    Annað sem ég vil spyrja um.

    Eru engar sérfræðingar í arkitektastétt?

    Mér er það óskiljanlegt að sömu ráðgjafarnir séu fengnir til þess að skipuleggja úthverfi og að skipuleggja reitina í hverfunum innan Hringbrautar. Hafnarsvæði og sumarbústaðasvæði.

    Þessi viðfangsefni eru svo gjörsamlega ólík. Þetta eru eins og ólíkar íþróttagreinar á borð við fótbolta og kúluvarp. eða svo tekið sé dæmi úr listum; eins og myndlist og ballet. En sumir halda að þeir hafi jöfn tök á öllu sem þeir taka sér fyrir hendur. Stenst það? Svona er þetta ekki hjá læknum, verkfæðingum eða jafnvel hjúkrunarkonum.

    • Hilmar Þór

      Þetta sem Sigurborg nefnir þarna hef ég aldrei hugleitt, þó ástæða sé til.

      Maður sér að sömu aðiar deiliskipuleggja nýju úthverfin og fara svo i deiliskipulag innan Hringbrautar eins og það sé sjálfsagt mál.

      En ég hef ekki tekið eftir því að þeir sem hafa sérhæft sig í eldri hverfum sé falið að skipuleggja nýju hverfin.

      Ég tek dæmi af deiliskipulagi Grjótaþorps.

      Ég man ekki eftir að arkitektastofunum Argos eða Gullin snið (Stefán Örn og Grétar Markússon annarsvegar og Hjörleifur Stefánsson hinsvegar) hafi verið beðnir um að skipuleggja ný úthverfi. Þeir hafa reyndar ekki heldur verið beðnir um að skipuleggja eldri hverfi síðan þeir luku Grjótaþorpsskipulaginu fyrir einum 30 árum.

      Þrátt fyrir að ráðist var í skipuleggja tugi reita í miðborginni á fyrsta áratug þessarrar aldar haf þeir eða aðrir sem sérstaklega hafa áhuga á eða vinna með eldri byggð veri falin verkefni á þessum svæðum.

      Hjörleifur hefur skrifað heila bók um staðaranda innan Hringbrautar en samt hefur hann ekki skipulagt einn einasta reit.

  • Gunnar Friðriksson

    Þessar myndir gefa von um virkilega gott hverfi með fallegu mannlífi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn