Föstudagur 19.03.2010 - 14:39 - 8 ummæli

Regionalismi

dzn_Niyang-River-Visitor-Center-by-Standardarchitecture-Zhaoyang-Studio-2[1]

Nútíma stefnur byggingalistarinnar eru margar og misjafnlaga mikilvægar. Ég nefni nokkrar af handahófi:

 • Funktionalismi
 • Brutalismi
 • Postmodernismi
 • Regionalismi
 • Metafysik
 • Minimalismi
 • Dekonstruktivismi
 • New Wave
 • Biomorf arkitektúr
 • Nýrationalismi
 • Internationalismi.

Sjálfsagt eru stefnurnar miklu fleiri og margar þeirra skarast nokkuð og líklega er ekki auðvelt að flokka allar byggingar og finna þeim stað í ákveðinni stefnu. En það er sammerkt með þeim flestum að þær standa á traustum stoðum funktionalismans.

Svo er það þannig að einn flokkar verk í einni stefnunni og annar sama hús í annarri.

Sú stefna sem mér finnst menn hafi ekki hugleitt nægjanlega mikið er regionalismi eða lokalismi sem eru andstæður internationalismans. Ég veit ekki hvernig á að íslenska orðið og nota hér danska orðið regionalisma sem er í raun svæðisbundinn arkitektúr.  Í allri glóbaliseringunni á ég von á að áherslur framtíðarinnar verði tengdar regionalismanum í vaxandi mæli. Og er það vel.

Þegar farið var um Jótland á árum áður þá skiptu húsin um lit þegar farið var um sveitir. Liturinn ákvarðaðist af lit leirsins á svæðinu sem múrsteinninn var brenndur úr.  Sum svæðin voru gul, önnur rauð. Þetta var svæðisbundið byggingarefni. Nú er þetta allt í rugli. Í Aberdeen í Skotlandi eru gömlu húsin byggð úr granitsteini meðan þau eru úr sandsteini eða skífum á Suður-Englandi. Allt eftir því byggingarefni sem fannst á staðnum. Fyrr á öldum voru húsin á Íslandi byggð úr torfi og grjóti sem stutt var með rekaviði.

Þessir tímar eru liðnir hér á landi en þeir sem hugsa um íslenska byggingalist sjá samt viss svæðisbundin einkenni.

Það þarf oft ekki mikið til að byggingalistin geti flokkast undir regionalisma. Ég birti hér myndir af nýrri byggingu í Tíbet sem ég leyfi mér að flokka undir regionalisma þó hún sé mjög nútímaleg og ekki í samræmi við þekktustu byggingar landsins í Lhasa, sem yfirleitt  er ímynd umheimsins á tíbeskri byggingarlist.

Það sem veldur því að ég flokka þessa byggingu undir regionalisma er byggingarefnið. Húsið er múrað upp úr steinum sem liggja þarna á jörðinni og í árfarveginum. Þetta er sama byggingarefni og húsin á svæðinu eru byggð úr. Það er einhver búddisk kyrrð yfir húsinu sem tengir það einnig Tíbet. Grunnmyndin og litavalið er hinsvegar aðflutt.

Húsið sem er um 400 m2 og er ferðamiðstöð sem teiknað er af  Zhaoyang Studio í Beijing.

dzn_Niyang-River-Visitor-Center-by-Standardarchitecture-Zhaoyang-Studio-3[1]

dzn_Niyang-River-Visitor-Center-by-Standardarchitecture-Zhaoyang-Studio-12[1]

dzn_Niyang-River-Visitor-Center-by-Standardarchitecture-Zhaoyang-Studio-13[1]

dzn_Niyang-River-Visitor-Center-by-Standardarchitecture-Zhaoyang-Studio-1[1]

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

 • Fallegur strúktúr og gaman að sjá hvernig málað er björtum litum yfir steinana. Manni þætti það hálfgerð synd að mála svona yfir steinana, amk á Íslandi.

  Einhvern veginn virðist vera þannig að arkitektastjörnurnar vaxa bara og vaxa sbr. Zaha Hadid. Ég er sammála þér að regionalismi mun halda áfram og tímanna tákn er einhvern veginn: anything goes, allt er í gangi á sama tíma.

  Áfram allskonar.

 • Við viljum meiri tengingu við staðinn.

 • Gunnlaugur

  Af hverju erum við að byggja þessi hús í internationalismanum hér á landi þegar við eigum að rækta okkar regionalisma?

  Hafa kjörnir fulltrúar enga skoðun á þessu?
  Hafa stjórnmálaflokkar sem bjóða fram til sveitastjórna enga skoðun á þessu?
  Hvað höfum við hér á landi að gera með byggingar eins og turninn við Smáralind?
  Eða Höfðaturninn hryllilega?
  Eða húsið sem kauphöllin er í?

  það er akkúrat ekkert íslenskt við þessi hús. Þau eru svo alþjóðleg að þau eiga hvergi heima.

  Eru einhverjir arkitektar hér á landi að hugsa um regionalisma?
  Er hann kenndur í listaháskólanum?

  Ég veit að hann er kenndur í flestum skólum erlendis þó með óbeinum hætti sé.

 • Dóra Ísleifsdóttir

  Local = staðbundið

 • Guðmundur

  Já, og talandi um regionalisma, þá er væntanlega ekki lengra komist en þetta 🙂

  http://www.simondale.net/house/index.htm

 • Guðmundur

  Þetta er flott bygging, sínir líka hvað byggingarefnið og áferðin hefur mikið að segja.

  En er þetta ekki eitthvað sem arkitektar eins og Giancarlo De Carlo hömpuðu mikið? Ég er búinn að skoða hann talsvert að undanförnu og hann gerði mjög áhugaverða hluti, t.d. í Umbrino.

 • Stefán Benediktsson

  Arkís taldi sig nú vera að tengja þjónustumiðstöðina Hellissandi , Guðmundur. Þessi tibeska lausn er flott og ég gæti vel hugsað mér byggingar í þessum anda í Skaftafelli eða Öræfunum. Nóg er af efni í söndunum. Byggingaraðferðin er vandinn. Gunnar Gunnarsson fór þessa leið að nokkru á Skriðuklaustri. Erfitt er að vera með „þurrhlaðna“ veggi, ekki hægt að vera með þá gegnheila. Líklega æskilegast að vera með tilbúna ytri klæðningu með álímdum steinum. Fyrirgefðu mér Hilmar……. allt í einu er ég búinn að draga flotta hugmynd á flugi niður í kanínuholu raunveruleikans. Segi ekki meir…….. eigðu góða helgi.

 • Guðbrandur.

  Þarna er komið inn á mikilvægt atriði. Í gamla daga voru árabátar með ýmist breiðfirsku lagi eða með Vestmannaeyjalaginu eða öðru staðbundnu lagi. Nú eru allir bátar með sama laginu og allt er eins.

  Þegar farið er um heimsbyggðina veit maður nú orðið nánast ekki hvar maður er staddur þegar horft er á arkitektúrinn.

  Teiknistofan Arkís er einmitt um þessar mundir að teikna ferðamannamiðstöð á Hellissandi. Þar er ekki að sjá neinn “regionalisma” á borð við ferðamannamiðstöðina sem kínverjarnir byggðu fyrir tíbeta. Hvar er Hellissandur í tillögum Arkís? (Sjá heimasíðu teiknistofunnar arkis.is)

  Arkitektar þurfa að kunna að skynja anda staðarins og leita að einkennum hans.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn