Sunnudagur 23.10.2011 - 19:05 - 14 ummæli

Skipulagshugmyndir – Landnotkun


Fyrir einum 35 árum var Gestur Ólafsson skipulagsfræðingur og arkitekt að endurskipuleggja eldri hverfi Reykjavíkurborgar.  Gestur sem er mikill fræðimaður í skipulagsgerð  lagði til að landnotkun væri ákveðin öðruvísi en tíðkaðist.  Það er að segja að hann taldi að það ætti ekki að flokka borgina eftir landnotkun í eins miklu mæli og gert er.

Það áttu ekki að vera 10 hektarar  fyrir atvinnustarfssemi hér,  3 hektarar fyrir stofnanir þar,  5 hektarar  fyrir verslun og þjónustu annarsstaðar.  Og svo bjó fólk á fjórða svæðinu og loks  útivist og íþróttum  safnað á fimmta svæðið.

Hann taldi að það ætti að blanda þessu meira saman en gert hafði verið.

Hann var til dæmis með hugmyndir um að landnotkun miðborgarinnar yrði ákveðin lóðrétt.  Hann vildi ákveða í skipulagi að verslun yrði á jarðhæð,  þjónusta á 2- 3 hæð.  Það sama átti við um stofnanir og svo kæmu íbúðir efst og eða inni á milli og á jöðrum miðborgarinnar.

Af einhverjum ástæðum hættu skipulagsyfirvöld að leita í smiðju Gests þó svo að hann byggi yfir mikilli menntun og reynslu á sviði skipulagsmála.

Þetta kom mér í huga þegar ég var að skoða  gamlar teikningar eftir arkitektinn Léon Kríer sem var umsvifamikill og flinkur arkitekt á sínum tíma þó ég hafi ekki verið aðdáandi hans.  Krier er fæddur í Luxemburg og menntaður í Þýskalandi.

Teikngarnar sína tvennskonar borgarskipulög.  Annarsvegar þar sem borginni er skipt svæði eftir landnotkun.  Krier kallar þá nálgun  “ The ANTI-CITY  of  funktional zones”  eða  “ekki borg sem skipt er niður eftir starfssemi borgarhlutanna”.  (Sjá efst í færslunni)  Á þeirri mynd eru teiknaðar stórar umferðaæðar milli borgarhlutanna með miklum mislægum gatnamótum svipað og við þekkjum á höfuðborgarsvæðinu.

Hinsvegar er teikning af borg sem hann kallar ”The CITY of urban communities” (sjá að neðan)  eða “borg samfélaga” . Þar eru engar hraðbrautir innan borgarinnar, allt er fléttað saman og stuttar vegalengdir milli heimilis, þjónustu, verslunar o.s.frv.  Svo neðst er skissa þar sem hann líkir þessu við skákborð þar sem öllum svörtu reitunum er safnað saman á einn stað.

Þegar þetta er skoðað vaknar spurningin af hverju  fræðileg nálgun í skipulagsmákum varð undir.  Af hverju var skynsamlegum og reyndum lausnum í skipulagi ekki haldið að stjórnmálamönnum og þeim sem mestu réðu?   Hvar var og hvar er umræðan og aðhaldið þegar skipulagsmál eru annarsvegar?.

Mér finnst eins og  skipulagsákvarðanir hafi verið teknar undanfarna áratugi án upplýstrar opinberrar umræðu.

Af gefnu tilefni er bent á að ef smellt er tvisvar á myndirnar þá verða þær stærri og skarpari.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Pétur Örn Björnsson

    Ég veit ekki heldur hvar þetta verðlaunaða torg er.

    Verður maður kannski að fljúga hátt til að sjá þetta torg?

    Fyrirgefiði mér … ég sem ferðast bara á jörðinni
    hef ekki enn séð dýrð hinna háfleygu og hvað þá
    skjólið í nokkrum grjóthnullungum út á götu og tilgerðarlega setta ofan í sjávarmalarbeðin og í baksýn ryðgaða hörpustrengi. Er það svona „shared space“ … fyrir hverja?

  • Árni. Skarplega athugað, þetta er ekki „torg“ heldur svæði sem er fullt af flottum smáatriðum en vantar tengingu við húsið. T. D. Innganga og stigakerfi borgarinnar

  • Árni Ólafsson

    Faglegt eða ófaglegt – unnið af hálfvitum eða vel menntuðum fagmönnum?
    Ég fæ ekki betur séð en mjög skýr heildarsýn hafi verið á bak við aðalskipulag Reykjavíkur 1963, sem hafði afgerandi áhrif á skipulagsmál á landinu öllu næstu áratugi. Nútímaborgarskipulag flokkunar og aðgreiningar allra hluta. Skýr og klár hugmynd. Byggð á kenningum og pælingum færustu fagmanna á þeim tíma og rökrétt viðbrögð við menguðum iðnaðarborgum og vaxandi einkabílaeign. Eða hvað?
    Afleiðingarnar þessara skipulagsaðferða leiddu af sér aðrar skipulagshugmyndir sbr. upprifjun á tillögum Gests í innleggi Hilmars og skipulagsumræðuna undanfarin ár. Vandamálið er að hluta innbyggð tregða í stjórnkerfinu sem kemur t.d. fram í lögum og reglugerðum, sem enn taka mið af flokkun og aðgreiningu.
    Þótt önnur sjónarmið séu ofan á núna, sem betur fer og samfélagið hafi vonandi lært sína lexíu á því að praktísera nútímaborgarskipulag, er ekki þar með sagt að allir hafi verið hálfvitar, sem að málum komu áður. Hver veit nema sú kynslóð sem talar fyrir samfelldri, blandaðri byggð með vistvænu ívafi o.s.frv. verði dæmd vanvitar af afkomendum sínum .

    Og meðal annarra orða – hvar er þetta torg við Hörpu, sem var verið að verðlauna????

  • Dittó nafni.

  • stefán benediktsson

    Þáttakendur í umræðum eins og hér verða að sýna málefninu þá virðingu að lesa sér til um efnið. Lesa greinargerðir aðalskipulagssamþykkta Reykjavíkur. Aðalskipulag Reykjavíkur hefur verið endurskoðað margsinnis síðan 1964. Það starf hefur endurspeglað viðhorfsbreytingar sem orðið hafa á þessum tíma. Hugmyndir Gests fyrir 35 árum stönguðust á við kreddur manna sem trúðu um of á „bílisma“.
    Auðvitað skipta ráðgjafar máli en benda má á að síðustu hálfa öld hefur Reykjavík haft aðgang að tugum og nú orðið hundruðum ráðgjafa, en aðalskipulag er alltaf endanlega áætlanir stjórnmálamanna sem menn kusu vegna pólitískra viðhorfa þeirra, m.a. til skipulags.

  • Guðrún Bryndís

    Skýrasta dæmið um skipulagsáherslur í borginni eru hugmyndir hverfisráðs Vesturbæjar – það vill svo skemmtilega til að flestir þeirra sem sitja í því ráði eru þrír í skipulagsráði borgarinnar (tveir kjörnir og einn til vara). Þrír úr skipulagsráði eru í hverfisráði Miðbæjar, síðan eiga Hlíðar, Laugardalur, Breiðholt og Grafarvogi einn fulltrúa í skipulagsráði – önnur hverfi eiga engan. Það má því velta fyrir sér hvernig áherslur eru í skipulagsmálum borgarinnar.
    Aðalskipulag Reykjavíkur sýnir önnur sveitarfélögi höfuðborgarsvæðisins sem skyggða fleti, því má búast við því að borgin sé skipulöggð án samráðs við þau. Þannig dúkka upp lausnir eins og að fella Fossvogsbraut út af aðalskipulagi og setja göng undir Kópavog í staðinn.
    Ofuráhersla er lögð á ‘góða nýtingu’ vegakerfisins. Góð nýting fæst með því að skipuleggja borgina þannig að sem flestir keyri á milli staða eða frá heimili sínu í vinnuna. Eins og borgin er skipulögð nú eru álíka mörg heimili fyrir austan og vestan Elliðaár (sem er landfræðileg skipting borgarinnar). En til að sem best nýting fáist á vegakerfið eru minna en 20% starfa í Reykjavík í austurhlutanum.
    Sem dæmi má nefna að 5 störf eru fyri hvert heimili í Miðbæ Reykjavíkur. Þar búa mun fleirri á aldrinum 17-34 ára en í öðrum hverfum borgarinnar, þ.e. fólk í skóla/háskólum og það má búast við því að þeir flytji þaðan að námi loknu/þegar fjölskyldan stækkar.

  • Guðjón Erlendsson

    Stefán hefur hér hárrétt fyrir sér, en þetta var dæmi um þessa zoning (svæðaskiptingu) í huga skipulagsyfirvalda. Þau töldu að það ætti að hafa stjórn á verslunarrekstri í miðborginni og settu upp mörk sem miðuðust við leifilegan heildar fermetrafjölda verslunar í 101. Hluti þessa held ég að hafi verið gamla haftarhugsjónin um að hafa stjórn á verslunarrekstri og þar með verslunarvilja borgarbúa. Síðan vildu yfirvöld ekki „þrengja að“ íbúðarhúsnæði í miðborginni, og að lokum vildu þau halda niðri bílaumferð um miðborgina. Engin sá hins vegar tengls úthverfabyggingarinnar og aukinnar einkabílaumferðar.
    En verslun fór einfaldlega að byggjast annarsstaðar, í hverfum sem skilgreind voru sem Iðnaðarhverfi, Skeifan var eitt slíkt.
    Þá sáu borgaryfirvöld að eitthvað þurfti að gera í verslunarmálunum, og ákváðu að byggja nýja og nýtísku miðborg Reykjavíkur (ekki þróa neitt, bara byggja eins og ég minntist á áður). Þetta átti að vera verslunarmiðstöð utan við miðborgarinnar í Amerískum anda, var byggð og heitir Kringlan. Engum datt í hug að taka einfaldlega þessari fermetraheftu af miðborginni og leifa henni að þróast eðlilega.
    Þegar starfsmaðurinn sagði okkur að þetta haft var enn til staðar fyrir ekki mörgum árum síðan, varð ég og nemendurnir sem með mér voru alveg hlessa.

    Enginn virðist hafa geta haft heildarsýn á skipulag borgarinnar. Á höfuðborgarsvæðinu hafa skipulagsyfirvöld aldrei getað séð skóginn fyrir öllum trjánum.

  • Stefán Guðmundsson

    Guðjón vitnar starfsmann borgarinnar sem á að hafa sagt að “takmörkun á heildar fermetrafjölda í miðbænum” hafi leitt til þess að verslun færðist í Skeifuna og síðar í Kringluna.

    Tilvitnunin er örugglega rétt hjá Guðjóni en svarið er ekki rétt. Það voru næg tækifæri til þess að byggja verslunarhús í tengslum við miðborgina. Það sést best á því sem síðar gerðist. Kringlan hefði getað komist fyrir í Kveldúlfsskálunum við Skúlagötu eða í nýbyggingu norðan Tolstöðvarinnar og/eða Hafnarhúss. Völundur og SS húsin hefðu hentað vel fyrir verslun og þjónustu.

    Málið er bara það sem Guðjón segir ef ég skil hann rétt; Hvorki ráðgjafar, embættismenn eða stjórmálamenn unnu faglega. En það er aldrei of seinnt að snúa við. Með hverfisráðum hefur athyglin beinst meira innávið eins og Sigurður bendir á að ofan. Það eru skref í rétta átt.

  • Guðjón Erlendsson

    Þetta er ekkert nýtt eins og þú minnist á. Gestur og fleiri arkitektar og áhugamenn um skipulag hafa barist fyrir þessum og öðrum breytingum á skipulagsleysi borgarinnar í marga áratugi, en ekkert breytist.
    Ég held að tvennt komi til. Annarsvegar eru margir embættismenn sem kannski byggja stöðu sína á lítilli þekkingu á þessum málum. Hins vegar sú almenna skoðun stjórnmálamanna að skipulag þýði ný hverfi, en að það sem uppbyggt er sé „búið“. Hver þekkir ekki stjórnmálamenn sem benda á hitt eða þetta hverfið og eigna sér eða sýnum flokki uppbygginguna?

    Völdin sem ráða borgini hafa lítinn áhuga á raunverulegri skipulagsstefnu, eða að framfylgja henni. Stjórnmálamenn leita eftir vinsældum, Ráðhús/ilströnd/sundlaug/nýtt úthverfi með útsýni = atkvæði. Embættismenn vilja hærri stöðu og margir þeirra byggja stöðu sína á stjórnmálaskoðunum eða frændsemi frekar en þekkingu. Þeir sem styrkja stjórnmálaflokkana vilja fá góða afgreiðslu fyrir sig og fyrirtækin sín. Sem dæmi, þá vildu þeir ekki að Reykjavíkurvlugvöllur yrði færður lengra í burtu og þau þyrftu að lenga einkaþotum sínum fyrir utan borgina.

    Þar fyrir utan er ekkert samræmi milli þessara 8 bæjarfélaga höfuðborgarinnar, sem gerir það að verkum að bæjarfélögin eru í fáránlegri samkeppni sín á milli um að byggja fleiri úthverfi og reyna að gera sitt bæjarfélag að „miðborg“ höfuðborgarinnar.

    Það er ekki flókið að skipuleggja vel smáborg fyrir 170.000 íbúa, en það er ekki hægt að gera í bók eftir Kafka.

    Ég mætti einusinni með hóp arkitektanema niður í borgarskipulag til að ræða skipulag borgarinnar. Þar sagði okkur einn starfsmaðurinn t.d. að miðborgin hefði ennþá þá takmörkun á heildar fermetrafjölda sem á sínum tíma leiddi til þess að verslun færðist í Skeyfuna og síðar í Kringluna.

    Skipulagssaga Reykjavíkur er kannski frekar eins og skrifuð af Jaroslav Hašek.

  • Sigurður

    Skipulagsmál hafa verið falin í umræðunni með velþóknun þeirra sem að komu. Nú sér maður að breyting er að eiga sér stað eins og sjá má i Vesturbæ á framtaki Gísla Marteins og vhverfisráðs. Þetta blogg er heldur ekki lítill þáttur i þróuninni til upplýstrar umræðu

  • Það voru fjögur hjól undir bílnum sem tóku völdin. Kannski er þeim farið að fækka eins og Ómar söng um forðum.

  • Pétur Örn Björnsson

    Hvenær „eignast“ Reykjavík td. sitt fyrsta „normal“ torg?

  • Pétur Örn Björnsson

    Varðandi Gest, þá má líka minna á drífandi tilraun sem hann og fleiri stóðu að varðandi markaðstjöld á Lækjartorgi … fyrir langa löngu og sem tengist reyndar nýlegum matarmarkaðspistli Hilmars með vísan í blogg Sigurveigar K.

    En varðandi Krier, Venturi, Graves (um tíma) ofl.ofl., þá er synd hvað Post Modern Classicism var haugað hratt út af taflborðinu. Stakir glerbellir rufu allt í einu sjóndeildarhringinn og sýndarmennskan tók við.
    En tískan fer alltaf í spíral svo kannski … hver veit hvað næst?

    Hvenær verður Reykjavík, Ó, Reykjavík að heilbrigðri og „normal“ borg? Hvenær hefst „heilunin“?

  • Egill Jònsson

    Þeir voru (eru?) tveir bræður Rob og Leon Kriger og höfðu verulegt að segja ì arkitektùr. Það var sagt að það var meira hermt eftir þeim en hvað þeir gerðu sjálfir. Það er alveg timabært að minna á þá. Einkum teorìur Leons sem voru mjög spennandi. Gaman væri að sjá fleiri teikningar Leons, en þær mættu vera betri og skarpari 🙂

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn