Miðvikudagur 09.11.2011 - 10:00 - 34 ummæli

Skipulagsslys-könnun

Af tilefni alþjóðlega skipulagsdagsins, 8. nóvember, efndi Skipulagsfræðingafélag Íslands (SFFÍ) til hádegisfundar um skipulagsmál á höfuðborgarsvæðinu.

Á fundinum sem haldin var í gær í Þjóðarbókhlöðunni voru flutt tvö erindi.

Annað hét “Veðjað á vöxt”, var flutt af Salvöru Jónsdóttur og  Ásdísi Hlökk Teódórsdóttir.

Hitt hét “Skipulagsmistök á höfuðborgarsvæðinu-Niðurstöður viðhorfskönnunar” sem flutt var af Agli Þórarinssyni meistaranema í skipulagsfræðum við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Fundurinn vel sóttur og erindin áhugaverð.

Egill Þórarinsson MS nemi  fór í sínu erindi yfir könnun sem hann gerði í vor um skipulagsslys/framkvæmdir. Það má deila um hvort hugtakið ”skipulagsslys” eigi rétt á sér vegna þess að  slys  gera ekki boð á undan sér en það gera skipulagsáætlanir

Hann spurði forvalinn hóp sérfræðinga, hvað þeim dytti fyrst í hug þegar hugtakið skipulagsslys er nefnt?

Í úrtakinu  voru  félagar í Arkitektafélagi Íslands, Félagi Íslenskra Landslagsarkitekta,  Skipulagsfræðingafélagi Íslands,  Samtökum tæknimanna sveitarfélaga og Félagi skipulagsfulltrúa.

Markmiðið var að skoða hvernig  umdeildar skipulagsáætlanir/framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu gátu orðið að veruleika. Það var einnig markmið meistaranemans að fá aðila sem koma að skipulagi til að tjá sig um skipulag höfuðborgarsvæðisins á gagnrýnan hátt.

Þetta var afar áhugaverð könnun.  Einkum vegna þess að svo virðist sem sérfræðingar séu nánast gagnrýnislausir hvað skipulag varðar og leggja lítið fram í opinberri umræðu.

Eftir að hafa hlustað á erindin og umræðuna í kjölfarið fékk ég það á tilfinninguna að skipulagsákvarðanir réðu sér sjálfar á sama hátt og hlutabréfamarkaðurinn.  Eða að atburðarrásin taki stundum völdin í skipulagsmálum líkt og á hlutabréfamörkuðum.  Enda er gengi hlutabréfa og skipulagsmál mjög tengd hagsveiflum.

Umræðan minnir mig á starfsmenn geriningardeilda bankanna fyrir hrun sem sögðu okkur hvað getur gerst á markaðnum og svo síðar skýra þeir út af hverju það gerðist ekki.  Sérfræðingar greiningardeildanna höfðu lítil áhrif á framvinduna eins og sérfræðingar í skipulagsmálum.

Það vakti athygli að enginn viðstaddra sá ástæðu til þess að verja þau átta  verk sem voru talin stærstu slys skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu með nokkrum hætti. Það má telja fullvíst að mörg þeirra sem þarna sátu hafi komið að ráðgjöfinni.  Maður veltir fyrir sér hver ástæðan sé.  Sennilega er hún sú að enginn viðstaddra taldi sig bera professional ábyrgð á þessum framkvæmdum.

Þetta er virkilegt vandamál.

Það ber að fagna könnun Egils Þórarinssonar sem vonandi stuðlar að virkari og opnari umræðu um skipulagsmál og fær fleiri til að hlusta og fleiri til að tala.

Efst er graf sem sýnir hvað svarendur töldu helstu skipulagsmistök á höfuðborgarsvæðinu. 

Þar trónir Höfðatorg hæst, næst koma Skuggahverfi sem var skipulagt fyrir um 20 árum og í sama sæti er Háskólinn í Reykjavík. Sennilega er Háskólinn í Reykjavík skólabókardæmi um hvernig skipulagið ákveður sig sjálft útfrá einhverjum forsendum sem alls ekki eru skipulagslegar. Þarna kom upp kapphlaup sveitarfélaga um að færa menntastofnuninni land sem lygtaði með lausn sem er í 2-4 sæti í könnun Egils um helstu skipulagsmistök á höfuðborgarsvæðinu.

Neðst er svo flokkun mistaka þar sem sést að álitsgjafar álíta háhýsi lang verst og svo koma opinberar byggingar og verslunarkjarnar nokkuð jöfn í öðru og þriðja sæti.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (34)

  • Sveinn Stefán

    Það kann að vera að gæði könnunarinnar sé eitthvað ábótavant en hún er ekki gagnrýnd faglega. það efast enginn um að HR er slýs sem jafnvel má telja skemmdarverk. Fallegt útivistarsvæði var lagt í rúst.
    Ég sting uppá ráðstefnu þar sem frummælendur væru þeir sem telja sig bera ábyrgð á þessum slysum

  • Hilmar Gunnars

    Ég dreg gæði könnunarinnar í efa, átti þetta að vera 🙂

  • Hilmar Gunnars

    Raunverulega vandamálið er pólitík og peningaöfl. Það er enginn skortur á hæfu fagfólki.

    Það er eðlilegt að fólk líti til höfuðborgarinnar þegar svona er spurt. Skipulagsslysin eru út um allar trissur. Ég er uppalinn í Hafnarfirði og bý þar núna. Mér verður bara illt hversu hrappalega er búið að slátra annars fallegum bæ; Norðurbakki og Vallarhverfið…

    Ég gæði könnunarinnar í efa.

  • stefán benediktsson

    Ég er alveg forviða að þegar „sérfræðingar“ eru spurðir um skipulagsslys skuli þeir bara tala um hús. Stóra slysið er að of lítil áhersla (mannafli-peningar) hefur verið lögð á „spá“ í framtíðarþróun mannlífs (eins og Gestur bendir á) á höfuðborgarsvæðinu eða Hvítársvæðinu (Borgarnes-Selfoss). Hluti af því er að vísu nokkuð rótgróin tregða stjórnmálahreyfinga til alvöru áætlanagerðar og svo ótti sérfræðinganna við höndina sem fæðir.

  • Árni Ólafsson

    Í sambandi við sameiningu fagfélaga má líta til Svíþjóðar þar sem arkitektar með og án forskeytis voru sameinaðir í eitt félag árið 2002.
    Sjá: http://www.arkitekt.se/s4330

  • Óskar Örn Gunnarsson

    Ég er svo innilega sammála Hrafnkeli hér að ofan. Ég hef einnig lengið talað fyrir því ,innan Skipulagsfræðingafélags Íslands, að það þyrfti að koma á meira samstarfi á milli fagfélaga. Einhverskonar regnhlífarsamtök félaga sem sinna hinu byggða umhverfi væri ákjósanlegur vettvangur. Félögin eru í dag of föst í fjötrum eiginhagsmuna og samstarf oft á tíðum mjög takmarkað. Kominn var vísir að slíku samstarfi fyrir nokkru þegar Verkfræðingafélagið, Arkitektafélagið, Skipulagsfræðingafélag Íslands og Félag íslenskra arkitekta voru með aðstöðu undir sama þaki að Engjateigi en því miður þá náði það ekki að ganga lengra.

  • Helga Jónsdóttir

    Mér finnst alltaf jafn grátbroslegt að sjá Smáralindina – lága byggingu sem breiðir sig út um allt – rétt hjá turninum háa. Það er eins og menn hafi fyrst talið að þeir hefðu allt heimsins jarðnæði en svo – allt í einu – var það að klárast og þá þurfti að byggja upp í loftið.

  • Gestur Ólafsson

    Það er dapurlegt að búa í þjóðfélagi þar sem flestir skipulagsfræðingar, skipulagsfulltrúar og aðarir sem gefa sig í að skipuleggja og eru á launum hjá okkur hinum til þess að koma einhverju viti og þekkingu í þessa þróun sem er að eiga sér stað skríða bara þegjandi í holurnar sínar, undir einhverja steina, þegar misvitrir stjórnmálamenn stappa niður fæti. Hver ætli sé líka ástæðan fyrir því að engin heildstæð „up to date“ stefna sé til um framtíðarþróun Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins grundvölluð á einhverjum vitlegum forsendum? Allt þetta fólk er jú í vinnu hjá okkur til að hafa þessi mál í lagi og koma í veg fyrir fleiri „skipulagsslys“.

  • Hrafnkell Á. Proppé

    Ég er sammála þeim sem telja uppbyggingu bílaborgarinnar vera mesta skipulagsslysið. Finnst hins vegar full mikil einföldun að kenna útlendingum um slæmt skipulag. Skipulag er pólítisk ákvörðun sveitarfélaga og í sveitarstjórnum sitja íslendingar. Auðvitað geta skipulagsráðgjafar haft áhrif bæði góð og slæm, en ákvörðunin er hjá sveitarstjórnun.

    Á fundi SFFÍ voru haldin tvö erindi eins og fram kemur í pistli Hilmars. Ásdís Hlökk lýsti rannsókn HR á forsendu skipulagsákvarðana í stór-höfuðborgarsvæðin á árunum 2000-2010. Talaði meðal annars um þann þrýsting sem skipulagsyfirvöld sveitarfélagana verða fyrir. Það kom fram í erindi Egils að draga mætti þann lærdóm að það skorti skilning á hvað séu skipulagsleg gæði hjá þeim sem taka ákvarðanir.

    Þetta leiðir hugan að þeim leiðbeingum sem sveitarstjórnarmenn hafa aðgang að hjá Skipulagsstofnun. Þær snúast um lögformlega ferla. Einhvernvegin hafa lögfræðingarnir tekið að sér að móta áherslur í skipulagsmálum. Við sjáum það eiginlega best á því að ábendingar um hvernig vinna eigi skipulag taka venjulega mið af föllnum úrskurðum ÚSB.

    Á meðan skiptum við sem höfum fengið faglega menntun í skipulagsmálum niður í okkar sérfélög sem hvert um sig reynir að draga fram sína sérstöðu og mikilvægi. Mig grunar að mest orka þessarar félaga (SFFÍ, FÍLA og AÍ) fari í löggildingarmál.

    Er ekki komin tími til að við lyftum okkur upp úr löggildingunni og sameinumst í að draga fram og upplýsa um hvað byggðarleg gæði snúast? Ég hef stungið uppá því áður að þessi félög myndi með sér n.k. regnhlífarsamtök þar sem áherlsa væri lögð á gæði hins byggða (mótaða) umhverfis. Ekki hef ég orðið var mið miklar undirtektir og kannski er hugmyndin of flókin til að komast nokkurntíman í gagnið.

    Er vistbyggðaráð kannski rétti vettvangurinn? Þar er að störfum hópur um vistvænt skipulag. Hvaða leið sem er farin þá tel ég mikla þörf á að við sameinu krafta okkar því það er augljóslega þörf á leiðbeingingum um hvað séu byggðarleg gæði og að þau skipti máli.

  • Einar Ólafsson

    Árni er með þetta. Stærsta slysið er aðalskipulagið frá 1962.
    Það var gert af útlendingum. HR var líka gerður af útlendingum, það sama á við um Skuggahverfið og Hörpu

  • Pétur Örn Björnsson

    Enn má koma í veg fyrir fyrirhugað Hátækniskrýmslið við Hringbrautina. Hver er formaður skipulagsráðs?
    Páll minn, get a grip. Hver er borgarstjóri? Jón … Dagur B, get a grip.

  • Guðmundur St. Ragnarsson

    Skrýtið að öll skipulagsslysin eru í Reykjavík fyrir utan Smáralindina. Hvað finnst sérfræðingunum um „bryggjuhverfið“ í Hafnarfirði. Skrýtið að það fær ekki eitt atkvæði hvað þá meira. Mér finnst þetta umrædda hverfi klúður aldarinnar. Það sem hefði getað verið flottasta bryggjuhverfi landsins, fjölskylduvænt bryggjuhverfi með tengingu við Strandgötuna og miðbæinn er einhver steypuklessu ófreskja þar sem byggingarverktakar hafa augljóslega ráðið ríkjum. Allt of mikið byggingarmagn, húsin afburða ljót og öll ofan í hvert öðru.

    Svona ef ég væri spurður.

  • Einar Sigurjónsson

    Það er sennilega rétt mat hjá höfundi könnunarinnar að Höfðatorg kom fyrst upp í hugann hjá mörgum bara vegna stærðarinnar og hæðarinnar. Hún sést víða að. En hún er ekki illa staðsett útfrá skipulaginu og samgöngum. Hún er í góðum tengslum við fjármálahverfið a la Docklands í London eða La Defence í París og Örestaden í Kaupmannahöfn. Ég held eins og fleiri að það eigi eftir að verða almenn sátt um Höfðatorgið á flestan hátt þó það hafi verið gengið freklega á rétt húseigendur túnunum. Það var auðvitað mjög slæmt.

  • Árni Ólafsson

    Verst að missa af þessu – en Reykjavík er svo afskekkt!
    Skipulag annars vegar og byggingarlist hins vegar – þessu er sennilega blandað saman í einhverjum tilvikum. Arkitektar einblína gjarnan á byggingarnar.

    Álit á HR bendir til þess að þar sé það skipulagsþátturinn sem ráði því byggingin er afbragð út af fyrir sig – en á röngum stað – staðarvalið réðst víst af nálægð við mannlíf miðborgarinnar !!!

    Hins vegar ræður arkitektúrinn hugsanlega að hluta til afstöðu til Höfðatorgs. Vissulega er það skipulagsslys að sprengja mælikvarða umhverfisins og þá á ég ekki bara við turninn heldur “teflonbygginguna” meðfram Borgartúninu, sem hrindir öllu frá sér (undarlegt að setja upplýsingamiðstöð á bak við spegilgler) en eins og bent er á hér að ofan eru jákvæðir borgardrættir í verkinu.

    E.t.v. má líta á einstakar byggingar sem skipulagsslys – en er ekki meginuppbygging borgarinnar sem bílaborgar aðal slysið? Borg aðgreiningar og flokkunar. Borg með 50% malbiksyfirborði. Borg með umfangsmiklum einskismannslöndum sem aðgreina borgarhlutana. Smáralindin og Hringbrautin eru einu atriðin á topp-10 listanum sem heyra undir borgarskipulag í þeim skilningi eða mælikvarða – hitt eru allt byggingar og skipulag einstakra reita. Krepputorgið sem berst hérna í tal er skilgetið afkvæmi bílaborgarinnar og það skiptir í sjálfu sér litlu máli í þessu samhengi hvort byggingin sé ljót eða falleg. Það eru eiginleikar hennar og samhengi við borgarumhverfið (eða skortur á slíku) sem skipta máli.

    Það er hægt að byggja fallega/góða borg úr ljótum húsum – og á sama hátt er auðvelt að búa til ljóta/slæma borg með fallegum byggingum (les Borgartún með skrauthýsunum dýru).

  • Hákon Hrafn

    Einhverjir bera ábyrgð á þessu rugli og það er allt í lagi að spurja viðkomandi hvað þeim finnist um þetta.

    Getur verið að Dagur B. Eggertsson tengist nokkrum af þessum topp skipulagsslysum (t.d. sem formaður skipulagsráðs fyrir R-listann á sínum tíma) ?

  • Egill Þórarinsson

    Það er rétt að taka það fram að ekki voru gefnir upp valmöguleikar í könnuninni. Þátttakendur skrifuðu einfaldlega það sem þeim datt fyrst í hug. Því er kannski ekki skrýtið að margir nefndu háhýsi, þau eru áberandi í borgarlandslaginu og má sjá frá mörgum stöðum. Fólk er því mögulega líklegra til að muna eftir háhýsum heldur en öðrum afleiðingum skipulags. Því er ekki rétt að kalla Höfðatorg stærsta eða mesta skipulagsslysið, heldur mundu bara flestir þátttakendur eftir Höfðatorgi þegar þeir svöruðu.

    Varðandi þá gagnrýni sem sneri að Höfðatorgi þá voru byggingarnar að mestu gagnrýndar vegna stærðar. Helgi Hallgrímsson nefnir hér fyrir ofan einmitt algengar ástæður fyrir því að þátttakendum líkaði illa við Höfðatorg.

    Ég held að fáir séu á móti því að á reitnum sé þjónusta, verslun og vinnustaðir. Aftur á móti telja margir byggingarnar bara allt of stórar og þ.a.l. draga úr gæðum umhverfisins. Ég ímyndi mér að fólk sé einfaldlega óánægt með að ekki hafi verið gætt betur að gæðum nánasta umhverfis Höfðatorgs.

  • Sveinn í Felli

    Korputorg er bara enn ein skemman sem stendur við langstærsta skipulagsslysið, en það er *strengborgin* (string city) á milli Keflavíkur og Kjalarness. Aðrar skemmur á þessari leið eru m.a. álver og svínabú.
    Strengborgin umrædda er u.þ.b 70 km, með nokkrum útbyggðum hverfum og er þar gamla Reykjavík við endann á stærsta úthverfinu. Því fer fjarri að samgönguæðar eða dreifikerfi taki mið af eðli strengborgarinnar, þar af leiðir hlýtur kostnaður p.r. íbúa vegna þess arna að liggja í hærri kantinum.

    Það fyndna við skipulagsslysið strengborgina er að hún var aldrei beinlínis skipulögð (jú það hafa sést hugmyndir í þessa áttina), heldur varð þetta til við það að ósamstíga skipulagseiningar voru að rembast allan tímann við að skipuleggja eitthvað allt annað.

  • Jens Helga

    Samlíkingin við hlutabréfamarkaðin er alls ekki svo galin. Þetta Korputorgsdæmi styður það. Sama má segja um Skuggahverfið og Höfðatorg.

    Allt var þetta ofvaxið vegna væntinga sem einhverjir hagspekingar hafa búið til og gerfipeninga sem bankarnir lögðu til.

    Nákvæmlega eins og sérfræðingar greiningardeildanna fóru skipulagsfræðingar að skipuleggja samkvæmt hagspám til að þjóna fjármagninu, gefa ofgnótt fjár vinnu í stað þess að huga að fólkinu milli húsanna. Teikna hús sem njóta sín í augnhæð.

    Ég er sammála Andra Snæ og Einari Sigurjónssyni að Höfðatorgið er ekki eins slæmt og af er látið. Það á eftir að lagast með árunum. En HR og Korputorg. Guð hjálpi okkur!!!

    Ef enginn skipulagsfræðingur gengst við þessum króum tveim verður að játast að atburðarrásin stjórni skipulaginu á sama hátt og hún stjórna hlutabréfamarkaðnum.

  • Ég hafði mikla fordóma fyrir Höfðatorgi og það var skemmdarverk að rífa Ræsishúsið. En það verður að segjast að staðurinn ,,virkar“ öfugt við allt Borgartúnið og allt nýtt sem hefur verið byggt síðustu ár. Hornið við turninn liggur nálægt götu og strætó. Búllan er alltaf full af fólki og kaffitár er alltaf fullt. Þvert gegn vilja mínum fannst mér útsýnið mikilfenglegt og meira að segja Tokyolegt. Ef Borgartúnið væri framlengt niður Skúlagötu yrði til ein öflgasta gata í Reykjavík. Hins vegar tel ég að umræða um flugvöllinn sé á villigötum, framtíðarbyggingarland Reykjavíkur kæmist fyrir á bílastæðunum við HR.

  • Páll Jónsson

    Sem íbúi í „slumminu“ þarna rétt hjá Höfðatorgi þá skil ég ekki alveg þessa gagnrýni. Þessi turn er ekkert annað en skraut á þessu svæði, það er hrikalega dapurlegt fyrir utan Höfða sjálfan.

  • þorgeir jónsson

    Á ekki að bæta við Þorláksbúð á listann?

  • Steinarr Kr.

    Er ekki Korputorg bara svo ofboðslega misheppnað að fólk tekur ekki eftir því. Að byggja verslunarkjarna sem er það sem á ensku er kallað „Strip Mall“ úr alfaraleið og án aðkomu almenningssamgangna á þeim tíma sem svona verslunarkjarnar eiga undir högg að sækja annarsstaðar í heiminum er eiginlega fáviska, fyrir utan hvað húsið er allt of stórt og ljótt.

  • ahhh já Korputorg, ljótasta byggingin á Hb.svæðinu! Hvernig er hægt að gleyma því.
    p.s. skil ekki alveg þetta með nýju Hringbraut, einhvers staðar verða vondir að vera og miklu betra að hafa hana þarna lengra frá byggð en á gamla staðnum.

  • Finnur Birgisson

    Það er athyglivert að öll „stóru slysin“ hafa þegar átt sér stað, – eru eitthvað sem búið er að byggja, – nema Landspítalinn. Hann nær fimmta sætinu þótt hann sé bara í aðsigi ennþá. Menn geta þá rétt ímyndað sér hvaða árangri hann hefði náð ef hann væri risinn.
    -Þá er einnig eftirtektarvert að Korputorg skuli ekki hafa komist á blað meðal þeirra efstu.

  • Ég hefði raðað þessu svona:-

    1) Höfðatorg
    2) Færsla Hringbrautar
    3) Fyrirhuguð stækkun Landsspítala
    4) Skuggahverfið
    o. s. frv.

    Skipulag á Reykjavíkursvæðinu mótast meir af einhverjum pólitískum hagsmunum en af hagsmunum þeirra sem þar búa og starfa. Líklega hefði ég átt að setja fyrirhugaða stækkun Landsspítala í fyrsta sæti. Er fólki virkilega alvara með þessu skipulagi sen hefir næstum enga kosti – aðeins galla.

  • Það væri gaman að sjá til samanburðar andhverfan skala þ.e.a.s. EKKI skipulagsslys.

  • Hefði sett HR sennilega í efsta sæti þó mér sé frekar illa við Höfðatorg (alveg úti á túni bókstaflega, þ.e. uppí lágreista íbúðarhverfinu Túnunum… og vel á minnst skyggir líka á vita haha!). HR með sínum mannvirkjum og bílastæðaflæmi hefur eyðilagt möguleikann á því að gera útivistar og almenningsgarðasvæði á téðu svæði, sem ég vildi að hefði verið gert.
    Eitt gleymist, af því að flestir höfuðborgarbúar fara yfirleitt ekkert í Hafnarfjörðinn nema þeir séu Hafnfirðingar, en það er Norðurbakkinn, allt allt of mörgum blokkum hrúgað þarna upp í röð við gamalt og rótgróið hverfi, svakalega ljótt og skemmir hafnarbraginn, þarna hefðu mest mátt vera 3 blokkir.

  • Einar Sigurjónsson

    Það er nokkuð til í því sem Steinarr Kr. segir. Það er ekki búið að klára Höfðatorgið fyrir utan að það er í nágrenni fjármálahverfisins sem risið hefur í Borgartúni. Höfðatorgið er sennilega ekki eins slæmt og sýnist.

    Mér finnst Háskólinní Reykjavík sýnu verri. Sú bygging er gjörsamlega úr tengslum við borgina, sama hvernig á málin er litið. Það hljóta að vera einhver skipulagsleg, fagleg rök fyrir þeim ósköpum.

    Getur einhver skýrt þá óheillagjörð út fyrir okkur leikmönnum.

    Hugsið ykkur ef skólinn hefði verið byggður vestan við flugvöllinn nær HÍ þar sem er almenningsvagnakerfi, þjóðarbókhlaða, stúdentagarðar og fjöldamargir samnýtingarmöguleikar.

    Eða bara á Skúlagötusvæðinu sem hefur litið út eins og styrjöld hafi geysað í tvo áratugi!!! Eða Kirkjusandslóðin og svo má lengi telja.

    Hver ber faglega ábyrgð á HR staðsetningunni sem er algerlega út úr kú (þar til annnað kemur í ljós.)

  • Helgi Hallgrímsson

    Í tilefni athugasemdar Teits hér að ofan:

    Oft heyrir maður að nauðsynleg þétting byggðar er notuð sem rök fyrir háhýsum. Að mínu mati eiga háhýsi ekki heima á Íslandi þar sem þau draga að sér vind og varpa löngum skuggum mestan hluta ársins. Þar að auki verður mælikvarði byggðarinnar og bersvæðanna í kringum háhýsinn ómanneskjulegur.

    Vísa hér í fræga skýringarmynd frá Urban task force sem sýnir hvernig hægt er að ná sama þéttleika á mismunandi hátt.

    http://www.richardrogers.co.uk/render.aspx?siteID=1&navIDs=1,4,25,55&showImages=detail&imageID=3362&showParent=true

  • Steinarr Kr.

    Hefði Höfðatorg verið klárað gætu þessar niðurstöður verið aðrar. Núna eru bara komnar tvær bygginar af sex eða sjö. Það sem er ljótt er það sem eftir er. Nýmálaðir hjallar sem átti að rífa og grunnar fullir af vatni. Væri svæðið fullbyggt og fullnýtt væri allt annað uppi á teningnum.

  • Guðl. Gauti Jónsson

    Þetta er mjög áhugavert. Veistu hvort það hægt sé að nálgast þessi erindi einhversstaðar fyrir okkur sem ekki vorum viðstödd?

  • Höfðatorg er misheppnað, tómi turninn er einni hæð lægri í typpakeppni Villa og Gunnars. Borgartún 12-14 er jafn kuldalegt og Tempelhof flugstöðin sem Ernst Sagebiel teiknaði.
    Það að Reykjavíkurborg leigi húsið á uppsprengdu verði fyrir skipulags- og byggingarsvið er grátbroslegt en sýnir jafnframt ósvífnina í gjörspilltu sambandi stjórnmálamanna og byggingaverktaka.
    Af hverju á að fara í risaframkvæmdir við nýjan spítala núna?

  • Úffff erfitt að velja 🙂

  • Ég játa að ég er hrifinn af háhýsum og finnst þau setja borgarbrag á Reykjavik. Háhýsi eru einnig praktísk að því leyti að þau hefta útþennslu borga með tilheyrandi þörf fyrir umferðarmannvirki. Ég hef búið í háhýsi í Tokyo og þreyttist aldrei á stórkostlegu útsýninu sem ég hafði (og bjó reyndar ekki ofarlega í því). Mér finnast háhýsi ekki skipulagsslys og mér finnst Grand Hotel velheppnað. Himinlínan (e.skyline) í Perth finnst mér einstaklega flott en þar eru háhýsin líka öll í sama hverfinu og rísa hátt upp úr miðbænum. Hér er kannski galli að háhýsi eru reist hér og þar og lítil heildarmynd.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn