Mánudagur 26.08.2013 - 08:44 - 21 ummæli

Umræðan um aðalskipulag Reykjavíkur

 

A_1_1_-mynd10-regionplan_(Custom)

 

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 er mannanna verk sem gert er til áratuga.  Það kemur ekki frá Guði eins og margir virðast halda og fullkomlega eðlilegt að um það sé rætt og það gagnrýnt. 

Eins og önnur mannanna verk er það hlaðið eðlilegum mannlegum mistökum og þar er líka að finna ýmsa snilldartakta.

Aðalskipulag er mikilvægt plagg sem undirritað er af ráðherra og hefur því sem næst lagagildi.

Aðalskipulag er mikið hagsmunamál allra sem búa á því svæði sem það nær til og þeirra sem leið eiga þar um.

Því er þannig háttað að aðalskipulag veldur meiru um hag fólks en flestar þær ákvarðanir sem teknar eru af stjórnvöldum, hvort sem þær eru teknar á Alþingi eða í sveitarstjórnum. Flestar  deilur og umræður undanfarin ár um skipulagsmál hafa tengst minniháttar ákvörðunum t.d. í deiliskipulagi.

Stóru ákvarðanir eru næstum ekki ræddar.

Nú er nýtt aðalskipulag Reykjavíkur í kynningu, AR 2010-2030. Þetta er eitt það metnaðarfyllsta sem ég hef séð frá þeim bæ. Það á að breyta borginni á margvíslegan hátt. Flest til betri vegar.

Þrátt fyrir allt þetta er aðalskipulagið ekkert í umræðunni ef frá er tekið eitt mál, Vatnsmýrin. Ekki er mikið skrifað um aðalskipulagið í fjölmiðlum. Ég man bara eftir einni grein sem birtist í Morgunblaðinu s.l. laugardag eftir Gest Ólafsson arkitekt og skipulagsfræðing. Þá er það upp talið!

Hvers vegna logar samfélagið ekki í umræðu um þetta mikilvæga mál?

Er það vegna þess að það fjallar um fræðileg efni sem fólk lætur sérfræðingum eftir? Er það vegna þess að það varðar almannahagsmuni  en ekki einkahagsmuni með beinum hætti eins og oft í deiliskipulagi? Er það vegna þess að það er til langrar framtíðar og fólki finnst aðalskipulag ekki “interessant” þess vegna?  Treystir fólk stjórnmálamönnum og sérfæðingunum til þess að sjá um málið fyrir þeirra hönd? Lætur fólk allt yfir sig ganga án þess að kynna sér hvað er í boði og hverjar afleiðingarnar kunna að vera?

Heldur fólk (í ljósi reynslunnar) að skoðun þess skipti ekki máli?

Kannski er það svarið.

Og ef það er svarið þurfa borgaryfirvöld að taka sig á í þeim efnum og gefa fólki það á tilfinninguna að umræða og athugasemdir skipti máli.

Stofnað hefur verið til kennslu í skipulagsfræðum í sennilega fjórum æðri menntastofnunum hér á landi.: Háskóla Íslands, Listaháskólanum, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Hvanneyri.  Í þeim tveim síðastnefndu er þegar hafið  metnaðarfullt meistaranám í greininni.

Þrátt fyrir þetta er þáttaka fræðasamfélagsins í skipulagsumræðunni ósýnileg. Kannski treystir fræðasamfélagið sér ekki til að hefja umræðu um skipulagsmál og stefnir frekar að því að vera “spakt”.

Er fræðasamfélagið og skólarnir að bregðast?  Skortir þá frumkvæði og kjark?

Arkitektafélagið virðist ekki hafa burði til þess að vekja upp umræðu um þetta mikla hagsmunamál sem aðalskipulag er. Félagið hefur ekki einu sinni boðað til eins einasta félags- eða kynningarfundar um málið. Hvorki á vinnslustigi né nú eftir að skipulagið hefur verið auglýst. Það er eins og félagið vilji ekki ræða þessi mikilvægu mál. Sama á við um félag skipulagsfræðinga.

Og athugasemdarfrestur rennur út eftir rúmar 3 vikur. Eftir það teljast allir þeir sem ekki gera athugasemd samþykkir aðalskipulaginu.

Fjölmiðlarnir sinna þessu nánast ekki neitt ef frá eru taldar örfáar aðsendar greinar um Vatnsmýrina og ein sem birtiat í Morgunblaðinu í fyrradag eftir Gestur Ólafsson  arkitekt og skipulagsfræðing.

Mikið væri það góð hugmynd ef t.a.m. ríkissjónvarpið fjallaði um skipulg og  arkitektúr með reglulegu millibili. Þau gætu byrjað á Reykjavík þar sem aðalskipulagið er nú á dagskrá. Þetta væru svona 60 mínútna þættir  eftir 22 fréttir á virkum degi svona einu sinni í mánuði! Það mætti gera þetta að góðu og spennandi sjónvarpsefni með ýmsum aðferðum.

Mest er ég þó hissa á afskiptaleysi arkitekta almennt og þá einkum þeirra sem hafa haft skipulagsmál sem sitt sérsvið. Þeir eru sennilega áhugalausir um fag sitt og starfsvetvang. Fyrir þeim er þetta kannski bara „buisniss as usual“

Það er engin forsenda mikilvægari fyrir góðu skipulagi og arkitektúr en upplýstir og  kröfuharðir neytendur. Þeir verða ekki til nema þar sem opin og upplýsandi umræða á sér stað.

The bottom line is:  Skortur á faglegri umræðu um aðalskipulag Reykjavíkur er ærandi og við því verður að bregðast.

Hér er slóð að færslu sem heitir „Óskiljanlegt áhugaleysi fyrir arkitektúr“:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/02/08/oskiljanlegt-ahugaleysi-fyrir-arkitektur/

og önnur þar sem sagt er frá kynningu á aðalskipulaginu fyrir nokkru:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/06/27/kynning-a-adalskipulagi-reykjavikur-2/

og um svipað efni:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/09/13/kemur-adalskipulagid-fra-gudi/

Efst í færslunni er teikning sem sýnir höfuðborgarsvæðið allt. Bláa línan sýnir mörk þéttbýlis árið 2012. Rauðu fletirnir samþykkt byggðasvæði utan marka þéttbýlis og þau grænu helstu byggðasvæði innan marka. Ég vek athygli á Vatnsmýrinni. Þegar horft er á höfuðborgarsvæðið allt virðist hún ekki vera af þeirri stærðargráðu að hún sé örlagavaldur um framtíðaruppbyggingu höfuðborgarsvæðisins. Hinsvegar er það mín skoðun að ef flugvöllurin verður lagður niður mun það hafa veruleg áhrif á samkeppnisstöðu höfuðborgarsvæðisins í enn stærra samhengi.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (21)

 • Andrea Þormar

  Það er gert ráð fyrir því í þessu aðalskipulagi að byggja 5 hæða blokkir við Suðurlandsbraut, Laugardalsmegin, þ.e. að skerða eitt mikilvægasta græna útivistarsvæði okkar Reykvíkinga.
  Þetta þarf að kynna betur, það hefur alltaf verið mikil andstaða við að skerða Laugardalinn og í raun furðulegt að svo afgerandi mál fái að renna hljóðalaust fram hjá okkur.

 • Víðir Gíslason

  Mikið rétt Gunnar, þetta er ekki einfalt mál.
  En benda verður á, að ekki hefur fundist önnur lausn á því fjölþætta hlutverki sem Reykjavíkurflugvöllur gegnir í dag. Hólmsheiði og Löngusker eru steinbörn.

  Nú er það staðreynd að margir eiga tilvist flugvallarins líf sitt að launa. Kynntu þér málið hjá heilbrigðisstarfsfólki, áður en þú gerir lítið úr sjúkrafluginu.
  Stundum sagt að þeir sem minna á mikilvægi sjúkraflugsins noti “ tilfinningarök“.
  En eru slík rök ómerkilegri en hagræn rök þeirra sem tala fyrir „uppbyggingu á flugvallarsvæðinu“?

  • Víðir, fjölþætt hlutverk Vatnsmýrarflugvallar. Víst hefur verið bent á aðra lausn. Kennsluflugið getur vel farið annað sem og einkaflugið. Keflavík eða Tungubakkar svo eitthvað sé nefnt. Starfsemi LHG á vel heima í Keflavík. Nú allt millilandaflug á að sjálfsöðgu heima í Keflavíki.
   Þá er eftir innanlandsflug og sjúkraflug. Innanlandsflug er best fyrir komið í KEF með tengingu við millilandaflug. Innanlandsflugið mun auk þess víkja með bættum vegsamgöngum og styttingu leiða. Þannig hefur bara þróunin verið.
   Ég hef ekki gert lítið úr sjúkrafluginu. Bara bent á það að það er ekki fyrir alla. Ef þú veikist/slasast í Vík í Mýrdal, ertu þá fluttur með flugvél? Nei, alls ekki. Með bíl eða með þyrlu í neyðartilfelli ef um slys er að ræða. Bílferðin gæti tekið allt að 2 klst aðra leiðina. Spurning hversu fljótt bíllinn kæmist að, en kannski værum við að tala um 3-4 klst. Eða mun lengri tíma en að fljúga frá Akureyri og keyra þaðan. Jafnvel þótt flogið væri til Keflavíkur.
   Varaflugvöllur? Skv því sem ég heyri frá flugmönnum er Glasgow varaflugvöllur, líka Egilsstaðir eða Akureyri, fyrir millilandaflugið. En þarf varaflugvöll í nágrenni Keflavíkur? Það er spurning. En ef svo er, þarf hann þá að vera í hjarta Reykjavíkur til frambúðar? Að sjálfsögðu ekki. Þá mætti einmitt vel byggja hann annarsstaðar og margir staðir hafa verið nefndir. Ef ekki Hólmsheiði, hvað með Álftanes eða Hvassahraun. Eða lengra, Suðurlandsundirlendið. T.d. þar sem gamli herflugvöllurinn var settur niður.
   Enn og aftur ræðum málið með tilliti til staðreynda og virkilegra þarfa. Ekki einblína á flugáhugamenn og enn síður á einkaflugið. Það virðist vera málið í dag.

 • Víðir Gíslason

  „“Hann snýst um einkaflug, millilandaflug og kannski kennsluflug. Best bara að viðurkenna það”. Þetta er einmitt alveg rétt hjá þér og allir viðurkenna það og sjá.“

  Þetta er dálítið sérkennleg ályktun.
  Þið gleymið sjúkrafluginu, þjónustu innalandsflugsins og Landhelgisgæslunni?!!!
  Ætli þeir þættir vegi ekki hve þyngst í því að undirskriftasöfnun á lending.is gengur svo vel, sem raun ber vitni?
  Margir eru að átta sig á hvað það þýðir í raun, að ónýta þessa þjónustu eftir þrjú ár, þegar N-S brautinni verður lokað.

  Því eru síðustu forvöð að senda borgaryfirvöldum skilaboð, um hvers konar óhæfuverk það væri að leggja niður þessa þjónustu, si svona, án þess að önnur lausn hafi fundist.

  En takk annars, Hilmar, fyrir að hlúa að málefnalegri umfjöllun um þetta mikilvæga mál.

  • Ja, af hverju finnst þér þetta sérkennileg ályktun Víðir. Nú er það svo að ég hef búið í nágrenni flugvallarins nokkuð lengi og heyri alveg og sé hvaða vélar það eru sem valda mestu ónæði. Það er ekki Fokkerinn. Og einnig hef ég bent á það að sjúkraflugið er ekki það öryggi sem margir vilja meina, enda þarftu þá að veikjast eða slasast nálægt flugvelli ef þú ert utan höfuðborgarinnar. Flugið sem sagt nýtist alls ekki öllum, þótt það nýtist t.d. Akureyringum.
   Einnig hef ég bent á það að innanlandsflugið er alls ekki fyrir alla og alls ekki fyrir t.d. fleiri en tvo í bíl og þá alveg sama hvert þeir fara. Nú það nýtist heldur alls ekki fyrir Vesturland, Suðurland og Norðurland vestra sem áfangastaði frá Reykjavík.
   Nú starfsemi Landhelgisgæslu getur vel verið í Keflavík. Þar er góð aðstaða, bæði flugvöllur/vellir og góðar hafnaraðstæður. Fyrir utan að þar vantar fleiri atvinnutækifæri. Afhverju er starfsemin ekki flutt?
   Menn verða að geta tekið þessa umræðu án upphrópana og falsraka. Því málið er mikilvægt. En þessi tilfinningaumræða vegna sjúkraflugsins hefur að mínu viti bara skemmt fyrir. Og afhverju í ósköpunum er ekki hægt að ræða svona mál án þess að illa ígrunduð tilfinningarök, sem m.a. flugmenn nota, skjóta upp kollinum?

 • Hilmar Þór

  „Hann snýst um einkaflug, millilandaflug og kannski kennsluflug. Best bara að viðurkenna það“

  Þetta er einmitt alveg rétt hjá þér og allir viðurkenna það og sjá. Og þessi atriði auk innanlandsflugsins skipta máli fyrir borgina og samkeppnisstöðu hennar. „Þannig er það bara“.

  Varðandi einkabílismann þá er ég sammála öllusem þú segir þar og sennilega eru ekki margir sem hafa skrifað jafn mikið og ég um að „bílar í borg eru böl“ sem aðalsamgöngutæki í borgum. Þú segir mér ekkert nýt um það.(held ég).

 • Ef það hefur áhrif á samkeppnisstöðu Reykjavíkur í enn stærra samhengi að Vatnsmýrarflugvöllur verður lagður niður, þá er rétt að spyrja síðuhaldara, hvers konar flugstarfsemi viltu sjá á vellinum? Erlent flug til nálægra borga ? Er þetta sem sagt samkeppnisstaða miðað við borgir í Evrópu?
  Þegar menn koma með svona fullyrðingu verða þeir að skýra betur frá, greina markmiðið og hvert sé viðmiðið. Annars er þetta fullyrðing útí loftið.

  • Hilmar Þór

   Gunnar.
   Það er auðvitað augljóst að góðar samgöngur styrkja stöðu borga í samkeppni við aðrar borgir. Þá er ég að tala um vegakerfi, amenningssamgöngur, lestakerfi, hafnir, flugvelli og fl. Allt skiptir þetta máli þegar samkeppnishæfi er annars vegar. Þetta á líka við um menningu, listir og arkitektúr.
   Þetta er alls engin „fullyrðing út í loftið“, þvert á móti vel rökstudd og margsönnuð
   Annars legg ég það ekki í vana minn að eiga mikil samskipti við fólk hér á vefnum sem skrifar ekki undir fullu nafni þó athugsemdunum sé vel tekið.

  • Afsakið þetta með aðeins fornafnið, Hilmar. En efnislega skiptir umræðan mestu máli.
   Sérðu ekki að Reykjavík er bílaborg og miklu dreifðari en aðrir borgir með svipaðan íbúafjölda. Það eitt kostar mikið. Beinan kostnað er hægt að reikna, en óbeinn kostnaður felst í ýmsu öðru. Fyrir utan að umferðin verður alltof þung, þegar einkabílisminn er í hávegum hafður.
   Borgir verða líka samkeppnisfærar ef þær geta boðið uppá góðar almenningssamgöngur, innan borganna. Þá verður að vera ákveðinn þéttleiki þannig að borgi sig að halda út slíku.
   En Vatnsmýrarflugvöllur snýst alls ekkert um almenningssamgöngur innanlands. Þannig er það bara ekki. Hann snýst um einkaflug, millilandaflug og kannski kennsluflug. Best bara að viðurkenna það.

 • Þeim sem hafa áhuga á skipulagsmálum í Reykjavík og eru ekki of fótafúnir var í lófa lagt að leggja leið sína á Hlemm á menningarnótt. Þetta var væntanlega liður í því að ná til almennings og þó ég hafi stoppað stutt var þetta ágætis sýning.

  http://menningarnott.is/skipulagshlemmur

  „Reykvíkingum gefst tækifæri á að kynna sér skipulagsmál borgarinnar á skemmtilegri og fróðlegri sýningu á Hlemmi á menningarnótt. Nýjustu stefnur í aðalskipulagi verða kynntar ásamt því sem umfangsmesta skipulagsverkefni síðustu ára, svokallað hverfisskipulag, verður kynnt til sögunnar.“

 • Sammála því, það sárvantar umræðu. Formlegar kynningar eru ágætar en umræður meðal borgaranna eru mun árangursríkari. Skora á RUV og INN til vara til að gera fasta þætti um arkitektúr og skipulag.

 • Pétur Örn Björnsson

  Mjög góður pistill og svo sannarlega orð í tíma töluð.

 • Anna Th. Rögnvaldsdóttir

  Ja, flugvallarvinafélagið spratt upp vegna þessa aðalskipulags og hefur farið hamförum að undanförnu. En það er líka það eina, maður verður ekkert var við umræðu um neina aðra þætti málsins.

  Ég held að vandamálið sé ekki almennt áhugaleysi, ég held að vandamálið sé að reykvíkingar almennt treysta sé ekki til að brjótast í gegnum þessi flóknu gögn sem sérfræðingar leggja fram, hvað þá að mæta á sýningar á sterílum kortum og uppdráttum í Borgartúninu.

  Gerð aðalskipulags hlýtur að kosta skildinginn, þetta tekur mörg ár og margir koma að verki. Ég skil ekki af hverju er þá ekki hægt að splæsa á mannvinsamlega kynningu — og þá á netinu þar sem menn geta nálgast upplýsingarnar þegar þeim hentar. Þá er ég að tala um að setja saman teymi hugmyndasmiða, grafískra hönnuða og lipurra penna (úr röðum annarra en skipulagsfræðinga, arktitekta eða embættismanna) sem falið er að setja saman stuttar (umfram allt stuttar) kynningar á einstökum liðum þar sem aðalatriði málsins eru dregin fram og hlutir settir í samhengi.

  Það vantar einhverja svona matreiðslu. Fólk á að eiga þess kost að kynna sér aðalatriði nýs aðalskipulags á svona 5-7 mínútum. Svo að það geti verið nokkurn veginn slarkfært í samræðum. Þeir sem vilja kafa dýpra (sem er og verður alltaf minnihlutinn) geta svo hlaðið niður bæklingi eða eitthvað þvíumlíkt.

  Kynningar á nýju skipulagi eru enn alveg klossfastar á prentöld. Það er prentaður bæklingur og pdf. skrá skellt á netið.

  Kynningarbæklinginn er að finna hér: http://issuu.com/skipulag/docs/20130802_ar_a5_isl_vef

  Þetta er örugglega alveg fínelsins bæklingur en það er alveg svakaleg vinna fyrir leikmenn að vaða í gegnum 60 síður þéttpakkaðar upplýsingum. Bara þetta sérfræðingaorðfæri er fráhrindandi — og sennilega illskiljanlegt stærstum hluta borgarbúa.

 • stefán benediktsson

  „ef flugvöllurin verður lagður niður mun það hafa veruleg áhrif á samkeppnisstöðu höfuðborgarsvæðisins“ . Þetta er fullyrðing sem gott er að byrja á Hilmar. Þar skiptir líklega orðið „samkeppnisstaða“ mestu máli. Hver finnst þér vera rökin sem styðja fullyrðinguna?

  • Hilmar Þór

   Stefán.
   Vissulega er mikil samkeppni milli hinna ýmsu borga og bæjarfélaga um þjónustu margskonar. Samkeppnin er ekki bara milli bæja og bæjarfélaga innan landanna heldur líka þvert á landamæri og þá skipta fjarlægðir ekki höfuðmáli heldur aðgengi að samgöngunum, einkum flugsamgöngum hér á landi (engar lestar sem aka um á 300 km hraða).

   Ég trúi því sem sagt er að góðar og aðgengilegar flugsamgöngur séu mikilvægar fyrir borgir sem vilja standa í fremstu röð í viðskiptum, menntun, þjónustu, heilsugæslu, mennigu o.fl. og er þar bæði að líta til landsbyggðarinnar og til útlanda.

   Ég veit ekki hvort þetta eru rök en þetta er hugsunin að baki tilvitnunarinnar, enda stendur í aðalskipulaginu ARað eitt af markmium þess sé að styrkja samkeppnisstöðu Reykjavíkurborgar (ef ég men rétt)

  • stefán benediktsson

   Reykjavík er vissulega í samkeppni Hilmar. Aðallega líklega við útlönd. Ég álykta það af því að ef Reykjavík er í verulegri samkeppni innanlands, hefur hún augljóslega unnið þá keppni fyrir löngu. Flestir íbúar og flest fyrirtæki. Samkeppnin snýst jú aðallega um fyrirtæki og íbúa. Markmið AR er að fjölga fólki og fyrirtækjum á minna landrými en hingað til og með betri nýtingu innviða. Lækka kostnað og auka tekjur. Gjaldeyrishöft gera reyndar samkeppni okkar við útlönd erfið en þessvegna er enn meiri ástæða til að leysa skipulag bæjarins með hagkvæmustum hætti. Reykjavíkurflugvöllur bætir samkeppnisstöðu okkar innanlands á kostnað stórlega niðurgreiddrar starfsemi sem við berum að hluta til einir. Flugvöllurinn hefur lítil áhrif á fjölgun fyrirtæka og fólks erlendis frá.

  • Hilmar Þór

   Það er einmitt rétt að Reykjavíkurborg hefur yfirburði gagnvart landsbyggðinni. Það er m.a. vegna flugvallarins í Vatnsmýrinni. Höfuðborgarsvæðið allt hefur notið þess og vaxið vegna þess að þar eru aðstæður fyrir samgöngur í lofti. Án flugvallar í vatnsmýri undanfarin 70 ár væri borgin og höfuðborgarsvæðið ekki það sem þeð er í dag.

   Varðandi samkeppni milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um íbúa vil ég segja að mér finnst það ekki skipta máli. Þetta er engin íþrótta- eða vinsældakeppni. Þeir sem ekki fá lóð í sínu sveiratfélagi finna sér bara lóð í öðru. Það geta ekki allir boðið uppá alla hugsanlega búsetukosti. Þannig er það bara.

   Menn þurfa að líta á höfuðborgarsvæðið sem eina heild án hreppamarka.

   En varðandi samkeppni við aðrar borgur úti í heimi þá hlýtur það að vera öllum ljóst að aðgangur að flugvelli við bæjarhelluna hlýtur að vera sterkt vopn í samkeppni þeirra á milli.

  • Spurning hvort ég ætti að halda áfram að skrifa á síðuna, en reyni samt. „Reykjavíkurborg hefur yfirburði gagnvart landsbyggðinni. Það er m.a. vegna flugvallarins í Vatnsmýri“. Ha, á hvaða hátt yfir flugvöllurinn gert það að verkum að fólk hefur frá stríðslokum flutt í auknum mæli til borgarinnar? Þessi fullyrðing er án þess að bent sé á staðreyndir. Fólk hefur flust til höfuðborgarsvæðsins síðustu árin vegna þess að tækifærin hafa verið fleiri hér, þetta hefur gerst alveg frá stríðslokum og jafnvel nokkru fyrr. Vatnsmýrarflugvöllur hefur á engan hátt verið afgerandi í þessari þróun. Eins má færa fyrir því rök að fleira fólk hefði hugsanlega flutt til borgarinnar ef flugvöllurinn hefði verið fluttur til KEF eða á Álftanes um 1970, þegar Flugleiðir ákváðu að flytja meginflugreksturinn þangað. En ég hef engin haldbær rök fyrir því aðeins tilfinningu vegna aukins bygginarlands og þéttingu byggðar. Fólk vill jú búa í borg eftir allt saman. Og Vatnsmýrarflugvöllur skapar mikið ónæði fyrir þá sem búa í nándinni, eins og er með okkur Kópavogsbúa.
   Gæti ekki líka spilað inní að hafa KEF í seilingarfjarlægð á þar með lítið mál að skreppa í borgarferð?
   En réttilega bendir Hilmar á skipulagsleysið á höfuðborgarsvæðinu með svona mörg sveitarfélög. Það skipulagsleysi hefur alið af sér illa byggð hverfi, samgöngur án hugsunar um heildarhagsmuni og margt fleira.

 • Einar Jóhannsson

  Það þarf að færa bláu línuna þannig að Úlfarsárdalurinn sé innan marka þéttbýlis og klára skipulagsáætlanir þar áður en hafist er handa í Vatnsmýri. Annað eru svik við þá sem fjárfest hafa í Úlfarsárdal og búa þar!

  • Sigurður Ólafsson

   Sammála Einari. Það þarf og það verður að klára hafið verk í Úlfarsárdal!!!

 • Frábært efni fyrir INN eða líka N4

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn