Mánudagur 10.10.2011 - 15:10 - 17 ummæli

Vill nýtt kort af höfuðborgarsvæðinu

.

Sveitarfélagið Álftanes skuldar um sjö og hálfan milljarð króna.

Í tengslum við endurskipulagningu á fjárhagi Álftaness  hefur  Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagt að hann vilji sjá höfuðborgarsvæðið stokkað upp. Þetta er eitthvað sem allir sem hugsa um skipulagsmál hafa rætt áratugum saman.

Það eru góð tíðindi að ráðherrann skuli beina augum manna að þessu.

Ögmundur Jónasson segir að byrja skuli á að sameina Álftarnes við annað sveitarfélag.

Leggja þarf áherslu á að það á ekki að sameina sveitarfélögin á fjármálalegum forsendum, heldur ekki á landfræðilegum forsendum og alls ekki á pólitískum forsendum.

Það á að sameina sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu á skipulagslegum forsendum. 

Núverandi skipting í 7 sveitarfélög hafa valdið okkur miklu tjóni hvort sem litið er til skipulagsmála eða hreinna fjárhagslegra hagsmuna sveitarfélaganna eða þeirra sem þar búa.

Það má leiða líkum að því að meginorsök vandræðagangsins í skipulagmálum á höfuðborgarsvæðinu sé  af þessum rótum ásamt sundurlyndi og hreppapólitík í sveitarfélögunum sjö.

Hefði eitt sveitarfélag verið á höfuðborgarsvæðinu öllu frá upphafi væru umferðamál með öðrum hætti en nú er og almenningssamgöngur virkari. Það má leiða að því líkum að Háskólanum í Reykjavík hefði ekki verið fundinn staður á einu fallegasta og besta útivistarsvæði borgarinnar. Það má líka gera ráð fyrir að umræðan um að flytja Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýrinni hefði aldrei kviknað. Efra Breiðholt hefði sennilega ekki verið byggt. Líklegt væri að umræðan um staðsetningu Landspítalans væri með öðrum hætti og svo má lengi halda áfram.

Nú er bara að vona að innanríkisráðherran taki skrefið til fulls til þess að finna þessu máli farveg öllum til heilla, fylgi málinu eftir og láti kjósa um það í næstu sveitarstjórnarkosningum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Þorgeir Jónsson

    …eigum við ekki að losa okkur fyrst við gerspilltar bæjarstjórnir áður enn við sameinumst þeim…..
    Hinir spilltu munu alltaf koma í veg fyrir alla sameiningu.

  • Það ætti ekki að þurfa að kjósa um þetta, heldur ætti þetta að vera hluti af algjörlega nýjum sveitastjórnarlögum. Sveitarfélögin ættu t.d. að hreynlega skiptast eftir sýslumörkum, sem eru söguleg þingskipting landsins. Höfuðborgin (öll) gæti þar myndað eitt sveitarfélagana sem áður var Kjósasýsla. Gullbryngusýsla gæti þá náð yfir öll suðurnesin.
    Það er nánast öruggt að ef hvert sveitafélag færi að kjósa um allar sameiningahugmyndir, þá mun öll framþjóun í þessum málum stöðvast eins og hefur gerst hingað til.

  • Þessi pistill gefur tilefni til að rifja upp að á árunum 1980 – 1987 var starfandi Skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins, stofnuð að frumkvæði samtaka sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu.
    Forstöðumaður var Gestur Ólafsson skipulagsfræðingur.

    Illu heilli var stofnun þessi lögð niður að frumkvæði þáverandi borgarstjóra, eftir að hafa unnið mikið og gott starf, og hefði áframhaldandi starsemi getað komið í veg fyrir mörg mistök í skipulagsmálum sem leitt hafa okkur í öngstræti og gert það að verkum að við búum nú í „kaótiskri“ tilviljankendri borg.

    Margar af tillögum og þeim málum sem stofnunin starfaði að sjá menn fyrst nú að þau voru í raun tímabær þá.

  • Steinarr Kr.

    Höddi – MR og Kvenó eru í 101 og læknadeild HÍ. Restin af skólunum eru í öðrum hverfum.

  • Anna Th. Rögnvaldsdóttir

    Það er búið að ræða það fram og aftur, áratugum saman, að langskynsamlegast væri að sameina öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu í eitt, m.a. annars út af skipulagsmálum. En allir eru sannfærðir um að það sé ekki vinnandi vegur að hrófla við smákóngaveldunum hér á suðvesturhorninu. Flokkshagsmunir og sérhagsmunir ýmiss konar (í skjóli flokka) eru fyrirstaðan. Þetta er beinhörð staðreynd og blasir við öllum. Sama hvað innanríkismálaráðherra segir.

    Helst þyrfti að fjölfalda Jón Gnarr og koma Besta í ráðandi stöður í öllum sveitarfélögunum sjö, þá væri kannski séns að brjóta upp þetta mosavaxna mynstur.

    En það er líka hægt að líta á málið frá allt öðru sjónarhorni.

    Hætta að vera endalaust að hugsa um að sameina marga ólíka hluti í eina ómannlega stóra heild og þess í stað fara að huga að því að skipta stórum einingum niður í smáar til að gera þær mannlegri.

    Gunnar Helgi Kristjánsson stjórnmálafræðingur varpaði fram þeirri athyglisverðu hugmynd í útvarpsviðtali fyrir ca 2 árum að skipta Reykjavíkurborg upp í smærri stjórnsýslueiningar (nú er ég semsagt ekki lengur að tala um höfuðborgarsvæðið í heild heldur bara Reykjavík). Reykjavík er alveg tröllslega stór miðað við önnur sveitarfélög á landinu. Það vita allir. Sem þýðir m.a. að hinn venjulegi Reykvíkingur (og ég er Reykvíkingur) er í órafjarlægð frá sínum fulltrúum á sveitarstjórnarstiginu sem og sínum þingmönnum (miðað við fólk í velflestum öðrum sveitarfélögum á landinu).

    Ef ég skil Gunnar Helga rétt þá er hann að tala um að umbylta stjórnsýslunni hér á suðvesturhorninu og innleiða fullkomlega nýtt kerfi. Að komið verði upp einni „yfirborgarstjórn“ fyrir höfuðborgarsvæðið allt, en sú stjórn myndi fyrst og fremst láta sig skipulagsmál varða, eða þau mál er varða heildarhagsmuni svæðisins.

    Síðan væru margar smærri stjórnsýslueiningar (kjördæmi?) sem að einhverju leyti væru undir „yfirborgarstjórninni“ komnar. En þær einbeittu sér meira að nærhagsmunum íbúa.

    Þetta finnst mér mjög aðlaðandi hugmynd (þótt hún sé óravegu frá því að vera útfærð af hendi Gunnars Helga).

    „Kópavogur“ héldi þá áfram að vera til. Kópavogsbúar héldu áfram að vera Kópavogsbúar, Mosfellsbæingar Mosfellsbæingar o.s.frv. Öll þessi byggðarlög, sem hvert um sig hefur sína sögu og sína menningu (liggur mér við að segja), héldu áfram að vera stjórnsýslueiningar og hafa sitt nafn. Og nytu einhvers konar (takmarkaðs) sjálfstæðis.

    Það þyrfti þá um leið að skipta Reykjavíkurborg upp í smærri (stjórnsýslu)einingar sem væru eitthvað á pari við önnur sveitarfélög á landinu, t.d. Kópavog eða Akureyri.

    En hvaða einingar væru það þá og hversu stórar? Það er góð spurning.

    Persónulega finnst mér Reykjavík detta í fjóra hluta, bæði frá náttúrunnar hendi og sögulega séð. Hver eining væri að vísu tröllslega stór, miðað við bæjarfélög úti á landi, bæði hvað landflæmi varðar og íbúafjölda. En hvað um það. Mér finnst að það megi vel skipta Reykjavík upp í smærri stjórnsýslueiningar.

    Hérna eru þessir fjórir hlutar.

    25 ÞÚSUND MANNS búa í 101 & 107. Þetta er gamla Reykjavík. Kvosin, Þingholtin, Flugvallarsvæðið, Öskjuhlíð, Skerjafjörðurinn, Grímsstaðaholtið, Melarnir, Grandasvæðið, gamli Vesturbærinn.

    40 ÞÚSUND MANNS búa á svæðinu milli Snorrabrautar og Elliðaár (vestur-austur). Frá norðri nær þetta svæði frá Sundunum (eða frá Viðey) og suður í Fossvogsdal. Allur jarðhiti í Reykjavík virðist vera samankominn á akkúrat þessu svæði.

    32 ÞÚSUND MANNS búa milli Elliðaár og Grafarvogsár (eða hvað þessi á heitir). Hér erum við að tala um Höfðann, Ártúnið, Breiðholt, Selin og heilmikið af einhverju dularfullu og sennilega óbyggjanlegu landsvæði sem nær langt inn í land til suðurs og austurs. En perlan á þessu svæði er Elliðaá og umhverfi.

    23 ÞÚSUND MANNS búa þarna fyrir norðan: Grafarvogurinn, Grafarholtið, Úlfarsársvæðið, Korpúlfstaðasvæðið. Svæðið nær til bæjarmarka Mosfellsbæjar en síðan skoppaði Reykjavíkurborg yfir Kollafjörð og nam land þar.

    Þetta eru fjögur mjög ólík svæði, landafræðilega og í mörgu öðru tilliti.

    Ég spyr: af hverju ekki að auka sjálfstæði þeirra, gefa þeim hverjum og einum ákveðið sjálfdæmi? Innan marka auðvitað, innan þeirra marka sem „yfirborgarstjórn“ setur.

    Og ég spyr líka, af hverju fæ ég ekki þingmann? Ég hef búið ýmist í 101 eða 107 alla mína ævi — 25 þúsund manna samfélagi — og ég hef aldrei haft þingmann til að væla utan í.

  • Gæti aldrei hugsað mér að sameinast Reykjavík. Það þarf ekki nema að horfa á pólitíkina þar og þá gubbar maður þó ég sé í Kópavogi. Auðvitað þarf að sameina en alls ekki allt í eitt sveitarfélag. Það þurfa að vera andstæðir pólar á milli sveitarfélaga til þess að eitthvað gerist. Þetta væri fínt í tveimur eða þremur sveitarfélögum.
    Eins og allir vita þá stendur Reykjavík á Seltjarnarnesi og er öll í Seltjarnarneshreppi hinum forna, eins og Kópavogur, Garðabær og Álftanes.

  • Hugsið ykkur, eftir 50 ár munum við kannski segja frá þessu svona: „Vissirðu að einusinni var Kópavogur SJÖ sveitarfélög?“

    Nei, segi svona 🙂

    Takk kærlega fyrir frábært blogg!

  • Pétur Örn Björnsson

    Góður og þarfur pistill.

  • Útvarp Matthildar

    Stefán, sá gamli reynslubolti skilgreinir vandann með beittum húmor! Við lifum í smákóngaveldi þar sem góðir hlutir gerast ekki hægt heldur bara alls ekki. Það þarf að koma valdboð að ofan ef eitthvað á að rerast i þessu nauðsynlega máli.

  • stefán benediktsson

    Eitt sveitarfélag, gott mál, en lítil von að það gerist nema að tillagan komi frá þingmönnum svæðisins og njóti fulltingis allra formanna íþróttafélaga.

  • Jón Sigurðsson

    Í upphafi skyldi endinn skoða. Hákon Hrafn spyr hvort einhver geti fært rök fyrir því af hverju Seltjarnarnes sé sér sveitarfélag. Menn mega ekki gleyma því að Kópavogur og meginhlutir Reykjavíkur tilheyrði Seltjarnarneshreppi hinum forna. Frá því um 17xx var byrjað að milja Seltjarnarneshrepp í sæmrri einingar og með endingu með lögum 1948 var Kópavogur aðskilinn Seltjarnarneshreppi. Sameiginlega eiga nefnd sveitarfélög lönd upp á Sandskeið og ekki svo langt síðan að Gvendarbrunnar tilheyrðu Seltjarnarnesi og Viðey einnig. Ég hef verið fylgjandi því til margra ára að sameina þessi sveitarfélög í eitt sveitarfélag. Það hljóta að vera til margar góðar fyrirmyndir erlendis hvaða stjórnskipulag myndi henta best við þessar aðstæður. Sveitarstjórum myndi fækka úr 7 í 1. Ég hygg að margt myndi breytast til batnaðar með sameiningunni.

  • Þórdís Bachmann

    Ég er Reykvíkingur (af Óðinsgötu) sem bý í Kaupmannahöfn, hvar reyndar margir okkar beztu arkitekta lærðu.
    Þar er statistíkin svona, fyrir eitt sveitarfélag:

    Københavns Kommune er Danmarks folkerigeste kommune. Den omfatter den centrale del af landets hovedstad, København, inklusiv store dele af Amager.
    Pr. 1. juli 2011 var 541.989 indbyggere.
    Sjá: http://da.wikipedia.org/wiki/K%C3%B8benhavns_Kommune

  • Hefði viljað Háskólann í Reykjavík í Garðabæ eða fyrir austan Elliðár…Nú er allt æðra skólastig í 101 ,góð umferðarpólítík ?
    ÖLL HÁSKÓLAMENNTUN höfuðborgarsvæðisins þjöppuð í 101 RVK Vegna samþjöppunar vinnu og þjónustu og menntunar í 101. Verður þá kannski að breyta Miklubraut í tímaskipta einstefnuakstursbraut 08 00 -10 00 ( opið í vestur)og svo „omvendt“15 00- 17 00.(opið í austur) ?

  • Hákon Hrafn

    Gríðarlega gott blogg. Ég hef sjálfur bent á þetta lengi. Það má skoða hinn endann á þessum sameiningarmálum sveitarfélaga, semsagt þegar fámennum sveitarfélögum er skipað á sameinast. Norðurþing er dæmi um það, þekur um 4 % af landinu og vegalengdin á milli staða eru yfir 100km. Fyrst það er hægt þá er alveg eins hægt að sameina öll þau sveitarfélög sem eru á sama atvinnusvæðinu.

    Af einhverjum ástæðum trúa íbúar hvers sveitarfélags á höfuðborgarsvæðinu því að það sé „best“ í þeirra sveitarfélagi og vont að búa í hinum. Getur einhver fært rök fyrir því t.d. að Seltjarnarnes sé sér sveitarfélag?

  • Þá er lag að gera brú frá Skerjafirði í Bessastaðanes með viðkomu í Kársnesið 😀

  • Jón Stefánsson

    Það græða allir á þessu nema Seltjarnarnesbær sem verða á móti þessu mikilsverða máli

  • Steinarr Kr.

    Ekki er ég tilbúinn að sameina sveitafélögin til þess eins að fá betri vegi eða blokkarhverfi á nýjum stöðum.

    Getur ekki stór hluti þessa vanda sem þarna er lýst legið í því að ríkið hefur aldrei gert almennilegar stofnbrautir í og í gegn um höfuðborgarsvæðið. Það hefur verið gutlað með alls konar hluti, en aldrei neitt klárað. Svo er skipulagt í kring um hugmyndir sem aldrei verða að veruleika og þá þarf að byrja allt upp á nýtt.

    Sundabraut, Fossvogsbraut, jarðgöng undir Öskjuhlíð, samgöngumiðstöð og ég veit ekki hvað?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn