Það er til einföld leið til þess að draga úr hættunni á því að Islamskir öfgaklerkar festi rætur hér. Það má gera þá kröfu að forstöðumaður trúfélags og þar með forstöðumenn mosku hérlendis séu með gráðu í guðfræði frá Háskóla Íslands. Það gæti lífgað mjög guðfræðiskor H.Í. ef þangað sæktu nám auk kristinna, búddar, íslamstrúar, ásatrúarmenn og guðleysingjar ef út í það er farið. Þannig er það í guðfræðideildum heimsins og örugglega nú þegar í einhverju mæli hér. Ef fimm ára háskólanám yrði gert sem skilyrði til að standa fyrir trúfélagi myndi ruglukollunum fækka eða réttara sagt það væri búið að gera heiðarlega tilraun til þess að afrugla þá.
Þetta með innlent háskólanám og moskur er ekkert grín. Þetta hefur verið innleitt t.d. i Svíþjóð og rætt víða.
Hvers konar fordómar eru þetta í þér Baldur. Öfgamenn meðal múslima? Nú held ég að þú ættir að sápuþvo lyklaborðið.
Eruð þið séra Bjarni búnir að græja ykkur upp í að innrétta íslömsku menningarmiðstöðina? Þessa sem að Salman Tamimi vill ekki sjá hér á landi.
Mín skoðun er sú að þann dag sem Háskóli Íslands útskrifar menn til e.k. embættisprófs í órum múhameðs „spámanns“ þá sé sá dagur runninn upp að legga megi stofnunina niður.
Frábær umræða, menn eru sumir meira að segja upp úr skotgröfum sínum. Tek undir með Stefáni að menn verða að gera sér grein fyrir því hvað háskólanám er og hugmyndin um það hefur kannski farið svolítið á flakk í nútímanum.
Og þetta er rétt hjá Helga. Guðfræðin er móðir allra vísinda. Guðfræðinám er merkilegt nám og á lítið skylt við Biblíufræðslu og er ekki það sama og trúariðkun. BKv. baldur
Er „guðfræðiskor H.Í. “ alfa og omega sannleikans, ekki veit ég. En þar er merkilet nokk kennd latína, gríska og hebreska. Þeir mega eiga sem gott gera.
Góðan daginn,
Mér finnst margt gott og slæmt í tillögum Baldurs. Það má velta því fyrir sér hvort ekki sé vegið að trúfrelsinu ef löggjafinn ætlaði sér að setja trúfélögum skorður um menntun. Á móti kemur að gagnrýnin hugsun er gríðarmikilvæg og ekki síst hjá þeim sem gegna áhrifastöðum í samfélaginu. Forstöðumenn trúfélaga eru meðal þeirra sem hafa mikil áhrif á gildismat og viðhorf annars fólks. Ef til vill væri rétt að gera greinarmun á trú- og lífsskoðunarfélögum annars vegar og trú- og lífsskoðunarfélögum sem hafa formlega stöðu gagnvart ríkisvaldinu (mega t.d. sinna löggerningi eins og hjónabandi) hins vegar. Mér finnst rétt að hætta að tala eingöngu um trúfélög og tel að lífsskoðunarfélög eins og Siðmennt, sem sinnir ritúali og samfélagi fyrir sína félagsmenn, s.s. borgaralegri fermingu eigi að hafa formlega stöðu samkvæmt ríkisvaldinu eins og trúfélögin, þ.e.a.s kjósi lífsskoðunarfélagið það að hafa slíka stöðu. Sömuleiðis ætti ríkisvaldið að innheimta félagsgjöld fyrir lífsskoðunarfélag eins og trúfélög.
Það eru að mínum dómi að verða til kjöraðstæður í samfélaginu fyrir uppgang fasisma og glæpasamtaka, vegna efnahagsástandsins og dvínandi trausts fólks á stofnunum samfélagsins. Við þær aðstæður er mikilvægt að þeir aðilar sem leggja rækt við mannréttindi og lýðræði geti talað saman og unnið saman á faglegum nótum og á grundvelli gagnrýninnar hugsunar. Ég myndi fagna því ef trúarbragðafræði, heimspeki-, guðfræði- og siðfræðikennsla yrði efld við þær aðstæður bæði í framhaldsskóla og háskóla af þar til bærum aðilum.
Munur guðfræði og trúarbragðafræði fjallar ekki fyrst og fremst um kristni annars vegar og önnur trúarbrögð hins vegar, heldur mismunandi aðferðafræði hugvísinda og félagsvísinda. Ég kenndi sem lektor við guðfræði- og trúarbragðadeild í Bretlandi í eitt ár og þar var sami núningur milli aðferðafræði upp á teningnum. Aðferðafræði er eins og tungumál og þau sem nota sömu tólin eiga auðveldara með að tala saman. Guðfræði er gjarnan kennd sem hugvísindafag þar sem rýni og túlkun texta er í fyrirrúmi eins og í öðrum hugvísindum. Félagsvísindin eru uppteknari af megindlegum og eigindlegum rannsóknum. Allar þessar aðferðir eru mikilvægar við öflun, miðlun og úrvinnslu þekkingar. Til eru kristnir, gyðinglegir og múslimskir guðfræðingar sem rannsaka textasögu og hefðir síns siðar úr frá aðferðum hugvísindanna og einnig fræðimenn sem rannsaka þessar hefðir út frá aðferðafræði félagsvísinda. Það er hins vegar flóknara að ætla að hugsa sér búddískan guðfræðing, vegna þess að guðshugtak skipar ekki sess í búddisma á sama hátt og í hinum abrahamísku trúarbrögðum. En vissulega eru til búddískir hugvísindamenn.
Þetta eru áhugaverðar pælingar hjá ykkur.
Kveðja, Sigríður