Fimmtudagur 07.10.2010 - 19:52 - Lokað fyrir ummæli

Öfgaklerkar og Háskóli Íslands!

Það er til einföld leið til þess að draga úr hættunni á því að Islamskir öfgaklerkar festi rætur hér. Það má gera þá kröfu að forstöðumaður trúfélags og þar með forstöðumenn mosku hérlendis séu með gráðu í guðfræði frá Háskóla Íslands.  Það gæti lífgað mjög guðfræðiskor H.Í. ef þangað sæktu nám auk kristinna, búddar, íslamstrúar, ásatrúarmenn og guðleysingjar ef út í það er farið.  Þannig er það í guðfræðideildum heimsins og örugglega nú þegar í einhverju mæli hér.  Ef  fimm ára háskólanám yrði gert sem skilyrði til að standa fyrir trúfélagi myndi ruglukollunum fækka eða réttara sagt það væri búið að gera heiðarlega tilraun til þess að afrugla þá.

Þetta með innlent háskólanám og moskur er ekkert grín. Þetta hefur verið innleitt t.d. i Svíþjóð og rætt víða.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (29)

  • Sigríður Guðmarsdóttir

    …og kennd af þar til bærum aðilum…vildi ég sagt hafa þarna um miðbik skrifa minna.

  • Gunnar Örn Stefánssson

    Sæl Sigríður,

    Þú segir: „Guðfræði er gjarnan kennd sem hugvísindafag þar sem rýni og túlkun texta er í fyrirrúmi eins og í öðrum hugvísindum.“

    og svo: „Til eru kristnir, gyðinglegir og múslimskir guðfræðingar sem rannsaka textasögu og hefðir síns siðar úr frá aðferðum hugvísindanna og einnig fræðimenn sem rannsaka þessar hefðir út frá aðferðafræði félagsvísinda.“

    en bætir svo við: „Það er hins vegar flóknara að ætla að hugsa sér búddískan guðfræðing, vegna þess að guðshugtak skipar ekki sess í búddisma á sama hátt og í hinum abrahamísku trúarbrögðum.“

    Ég sé ekkert í texta þínum sem skýrir hvers vegna Búddískur guðfræðingur sé eitthvað ólíklegra en Abrahamískur. Allavega get ég ekki séð að hann eigi erfirðari með að „rannsaka textasögu og hefðir síns siðar“ út frá aðferðum hugvísindinna eða félagsvísindanna, né heldur að rýna og túlka texta.

    Hins vegar er auðvelt að skilja hvernig Búddískur guðfræðingur færi að ef guðfræði er skilgreind sem rannsókn á guði – þá skiptir máli hvaða sess guðshugtakið hefur i Búddískum sið.

    Ef hin nútímalegri skilgreining, sem þú notar fyrst í póstinum, er hin rétta, þá finnst mér eðlilegt að námsefni guðfræðis sé kennt á vegum bókmenntafræði, sögu, mannfræði og félagsfræði. Saman gætu þær deildir háskóla boðið upp á guðfræðileið til náms, ef eftirspurn væri. Hins vegar, ef hin seinni, sem virðist vera fólgin í athugasemd þinni um Búddíska guðfræðinginn, er rétt, þá ætti að leggja niður guðfræðideild. Punktur.

    Kveðja,
    Gunni

  • Gunnar Örn Stefánssson

    Leiðrétting: Í næstsíðustu málsgrein á „auðvelt“ að vera „erfitt“.

  • Sigríður Guðmarsdóttir

    Fín athugasemd Gunnar Örn og takk fyrir hana. Ég er eiginlega að glíma við orðið sjálft „guðfræði“ og hvað felist í því orði . Guðfræði- og trúarbragðadeild er þegar orðin deild innan hugvísindasviðs og skipað þar á bekk með tungumálum, heimspeki, sagnfræði, bókmenntum osfrv. Heimspeki og trúfræði eru t.d. nátengd fög, enda trúfræðin byggð á verufræði og heimsfræðikenningum þess tíma og nútíma heimspekingar, sérstaklega póststrúktúralistar hafa aftur mikinn áhuga á guðfræðitextum.

Höfundur