Laugardagur 09.10.2010 - 16:48 - Lokað fyrir ummæli

Aðskilnaður.. út frá grein Friðriks Þórs

Þjóðkirkjufyrirkomulagið á sér langa sögu á Norðurlöndunum og samtvinnast lútherskunni sem gerir ráð fyrir því að kristninni sé ráðið innan landamæra furstans.  Þrátt fyrir þjóðkirkjufyrirkomulagið verður kirkjan e.k. ríki í ríkinu og telst árið 1907 eiga fjórðung allra jarðeigna landsins.

Ofanaf því höfum við verið að vinda, ef svo má segja, síðustu eitt hundrað árin með samningum milli ríkis og kirkju sem byggja allir á því að ríkið yfirtaki jarðirnar en en greiði kirkjunni um alla framtíð tiltekinn arð.  Í mannréttindastofnunum hefur þetta fyrirkomulag verið látið afskiptalaust af tveimur ástæðum(undirritaður er í einni slíkri). Fyrri ástæðan er:  Ekki er um að ræða fjárhagslegt misrétti heldur er um að ræða samninga milli ríkis og kirkju sem  átti lendur og tókst í öllu falli að semja um tiltekið uppgjör þegar hún lét þær af hendi.  Seinni röksemdin er óopinber:  Þetta er ekki ,, misrétti“ sem skiptir máli.  Ef við þurfum ekki að hafa áhyggjur af öðru þarna uppfrá þá getur við einbeitt okkur að öðrum svæðum í veröldinni (þægindarök).

En hvað um það : Aðskilnaður hefur ekkert með þjóðsöng eða fána að gera en kynni að hafa áhrif á frídaga til lengdar hugsað, eða af hverju á að gefa frí á jólunum frekar en á helgum dögum annarra en kristinna þegar (ef) ríkið verður hlutlaust í trúmálum (og varla höfum við efni á því að gefa öllum alltaf frí)?

Aðskilnaður, fullur aðskilnaður, yrði ekkert mál fyrir kirkjuna ef staðið yrði við samninga. Og verður ekki að standa við samninga við kirkjuna?  Uppá samninga skrifa ekki síðri lögfræðingar ríkisins megin en kirkjunnar megin.  Við verðum að reikna með því að dómstólar dæmdu kirkjunni í hag ef málið færi í hart.

Þá er í raun bara eftir spurningin sú hvort við vildum hafa ríkisvaldið hlutlaust í trúarefnum eins og er í Bandaríkjunum og Tyrklandi eða takandi beina afstöðu eins og er í Danmörku og Ísrael. (þriðju leiðina mætti hugsa sér þá að í 62. grein stjórnarskrár kæmi að ríkið styddi alla heiðarlega og skipulega trúarsöfnuði/siðafélög að uppfylltum vissum skilyrðum).

Það yrði óneitanlega verulegt högg fyrir þjóðkirkjuna ef hún yrði skilin eftir út á ísnum en hugsanlega bara gott fyrir hana ef ríkið stæði við samninga við hana(eða yrði neytt til þess).  Í þeirri stöðu mætti setja undir allt misrétti með því að ríkið greiddi samsvarandi til annarra trúfélaga í nafni jafnréttis.(Misréttið væri þá fólgið í því að forfeður manna hefðu átt aðild að jörðunum í fyrndinnióháð því hvort að fólk væri nú í þjóðkirkju eða ekki annarsvegar og hins vegar að fólk ætti ekki að gjalda þess að vera nýflutt til landsins en öll áunnin réttindi ,,langbúa“ eru vafasöm).  Þegar frá eru talin sóknargjöldin ,sem hvert trúfélag um sig myndi innheimta eða semja við innheimtuaðila eins og ríkið eða sveitarfélög að innheimta, yrðu það óverulegar upphæðir.

Aðskilnaður hefur orðið.  Við erum komin miklu lengra í þátt en Danir sem við hermum þó eftir í flestu. Mín niðurstaða er kannski fyrst og fremst sú að þetta sé ekki spurning um sparnað fyrir ríkið  heldur princíp. Kristin þjóð skv. stjórnarskrá eða hlutlaus?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (25)

  • Baldur Kristjánsson

    Tek undir það að þetta með frídagana er lítið mál en þó eitt af því sem rétt er að fara yfir eins og við höfum gert. Ég gæti vel hugsað mér að kjósa Friðrik Þór á stjórnlagaþing og hvet hann til að gefa kost á sér. Mæli reyndar einnig með Hjalta Hugasyni prófessor. Hann hefur rannsakað aðskilnaðarmál, 62. greinina etc. og yrði mjög þarfur yfirleitt en einkum og sérílagi þegar fjallað er um ríki og kirkju.

  • Í samningnum er hins vegar ákvæði um að greiddum launum fækki fækki í þjóðkirkjunni. Ef allir hætta þar fellur samningurinn um sjálfan sig. Ef helmingurinn hættir helmingast hann.

    Mér finnst makalaust að þú þekkir málið ekki betur séra Baldur.

    Hið rétta er að þó allir íslendingar segi sig úr ríkiskirkjunni yrðu rúmlega helmingur presta enn á launum hins opinbera! (Fyrir hverja 5000 sem fækkar í kirkjunni missir kirkjan laun eins prests: 300.000 / 5.000 = 60)… n.b. í raun eru um 240þ skráðir í kirkjuna en við skulum miða við alla þjóðina í þessu dæmi.

  • Enginn arður væri af þessum jörðum fyrir kirkjuna, nema kannski ef allir prestar væru bændur, enda enginn arður verið af landbúnaði alla síðustu öld.
    Sérstaklega hefur verið lítið varið í það að eiga jarðir til að leigja út, enda var komið á fót eiginlegri sjálfsábúðarstefnu frá 1904, sem speglaðist í sölu opinberra jarðeigna, ábúðarlögunum 1932 og óðalsjörðunum 1961. Jarðeignadeild ríkisins var rekin með tapi alla öldina, þrátt fyrir viðamikla jarðasölu, kannski meðfram vegna þess hversu jarðaverð var lágt (búið er að selja lungann af þessum jörðum í einkaeign).
    Hitt er annað mál að sjálfsagt er að styðja Þjóðkirkjuna með ríkisframlagi. T.d. er í stjórnarskrá Dana frá 1953, mælt fyrir um skyldu ríkisins að styðja við dönsku þjóðkirkjuna. Það er aðeins hálf hugsun að vilja kasta kirkjunni. Við erum kristið samfélag.

  • > Við erum kristið samfélag.

    Við erum líka hvítt samfélag.

    Óhugnaleg fullyrðing.

Höfundur