Þriðjudagur 01.02.2011 - 14:19 - Lokað fyrir ummæli

Búrkur og annar sérútbúnaður!

Eitt megineinkenni vestrærænnar menningar er að hver einstaklingur fái að fara sínu fram án þess að það raski um of ró annarra. þannig megi hver og einn klæðast að vild innan striks sem markast af blygðunarsemi þeirra sem komnir eru af léttasta skeiði og aðhafast flest það sem ekki brýtur á frelsi annarra.  Oftar en ekki þurfa mál að fara í tiltekna ferla svo að tryggt sé að svo verði ekki.

Sumir segja að búrka sé dæmi um yfirráðavald og ætti því ekki að líðast.  Ekki er að mínum dómi  til önnur lausn á þessu en opið og frjálst samfélag frjálsra einstaklinga þar sem hver og einn ræður sínum hlutum. Samfélag boða og banna yfirráðastéttar er tæpast svarið við nefndum kvennakúgunarþræði.

Aðrir vilja sjá framaní alla.  Að hver beri fram sitt andlitsauðkenni.  Falleg hugmynd sem ég fell stundum fyrir en samt hugnast mér ekki að fara að setja margbreytileika mannlífsins skorður.  Að hver megi bera það fram sem hann vill með þeim hætti sem hann vill svo lengi sem það setur ekki lífi annarra skorður er sú leið sem mér hugnast best og er því sammála niðurstöðu okkar ágæta innanríkisráðherra.

Evrópuráðið, bæði þingið sjálft og í mynd ECRI er andvígt bönnum hvort sem er á búrkum eða öðrum sérútbúnaði.  Sjálfum finnst mér að það sama eigi að gilda innan veggja skóla og í öðru opinberu rými.  Ef fólk vill vita hverjir þar eru á ferli er hægt að skylda fólk til þess að bera nafnspjöld(e.t.v. með mynd).

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • Anna María Sverrisdóttir

    Bönnum skegg

  • Einar Þorbergsson

    Hvernig getum við skeggrætt málin ef við bönnum skegg

  • Gústaf Níelsson

    Af trúarlegum ástæðum finnst mér ástæðulaust að banna búrkur, eða yfirleitt trúartákn, sem fólk ber. Það er almennt ekki á vegum stjórnvalda hvernig fólk kýs að klæða sig. Hins vegar má líta á búrkur sem dularklæði, þar sem viðkomandi kýs að fara huldu höfði, svo ekki verði borin á hana (eða hann) kennsl. Varðar slíkt ekki við lög hér á landi? Ber fólki ekki skylda til að gera grein fyrir sér? Ef einhver vill banna búrku,væri trúlega réttast að banna hana af heilbrigðisástæðum, en þekkt er að múslimakonur þjást af alls konar húðkvillum og D-vítamíns skorti, vegna þess að sólarljósið nær ekki að leika nóg um kroppa þeirra vegna þessa furðuklæðnaðar.

    Okkar samtíð dettur í hug að banna eitt og annað af heilbrigðisástæðum, og búrkubann væri ábyggilega ekki það vitlausasta.

    Er ekki rétt að kærleiks- og umhyggjusjónarmið Vesturlanda, fyrir þegnum sínum, ráði för, Baldur?

  • Fulltíðakarlmaður með skegg og sólgleraugu ætti því að vera jafnbannaður. Ef mér finnst óþolandi að tala við fólk án þess að sjá í augun á þeim á þá að banna sólgleraugu?

    Hvað er það með fólk og boð og bönn? Aldrei hefur búrka farið í taugarnar á mér, man satt að segja ekki eftir að hafa hitt marga kvenmenn í slíkum klæðnaði. Eina skiptið sem klæðnaður kvenna fer í taugarnar á mér er þegar konur komnar af léttasta skeiði eru að reyna klæða sig eins og sautján ára smápíur en enda einhvernveginn eins og spægipylsur í spennitreyjum. En mér finnst samt ómögulegt að ætla að banna það.

Höfundur