Föstudagur 18.02.2011 - 11:10 - Lokað fyrir ummæli

,,Gömul vinnukona“ gaf orgel!

Var í svefnrofunum að hlýða á öndvegis samantekt um Björgvin Guðmundsson tónskáld sem uppi var í byrjun síðustu aldar og fór til Vesturheims en Íslendingar flýja þetta átaka og miréttis sker með reglulegu millibili og ekki að ástæðulausu.  Lesið var upp úr samtímasögum og ævisögum og fjöldi manna nafngreindur sem höfðu lagt gott eða illt til í sögu þessa snillings. Ein manneska virðist bera af í gæðum.  Gömul vinnukona kom á uppvaxtarbæ Björgvins og gaf ævisparnað sinn til þess að hægt væri að kaupa orgel handa hinum unga efnilega dreng.  Þetta var lesið upp úr gamalli bók.  Svona eru nú blessaðar fátæku konurnar hafðar nafnlausar í sögunni þó að þær séu hvað merkilegastar eins og tengdamóðir Péturs í Biblíunni sem hlúði að þeim en er ekki nafngreind þó taldir séu upp allir þeir karlar sem nutu góðs af.  Hver skyldi hún annars hafa verið þessi gamla vinnukona? Getur ekki einhver grafið það upp og borið þetta hugarfar saman við tja segjum hugarfar sjálfhverfra afskrifaðra manna nútímans sem tyllt var a efstu sillu og gáfu vissulega gjafir sem þeir að vísu áttu ekki en pössuðu upp á það að þeirra sjálfra væri kyrfilega getið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Fríða B Andersen

    Sæll vertu Baldur og takk fyrir hlý orð í garð afa míns Björgvins.
    Ég er sammá þér að skömm er að þegar þeirra er ekki getið sem mest eiga það skilið. Man satt að segja ekki hvort vinnukonan var nafngreind í útvarpsþættinum sem þú vísar í þó finnst mér það einhvernvegin. Hitt er annað mál að afi getur hennar í æfiminningum sínum Minningar (1950) bls. 94 og svo síðar í sambandi við orgelið bls. 146.
    Hún hét Ólöf Björnsdóttir, hafði verið í vist hjá Jóni frá Sleðbrjót en kom að Rjúpnafelli í maí 1903 og bjó þar næstu sex árin þar til hún lést 1909.
    vitna ég nú í Minningar:
    Fyrirvararlítið og óvænt breyttust nú aðstæður á þá leið að ég fengi svalað þeirri þrá minni að eignast stofuorgel. Var það mestmegnis að þakka góðvild Ólafar gömlu niðursettu, sem fluttist til okkar vorið 1903, sem fyrr greinir. Átti hún sextíu krónur í kistuhandraðanum en um það vissi enginn nema hún sjálf, þar til dag nokkurn, stuttu eftir jarðarför föður míns, að hún færir það í tal við Mömmu, að það sé annars ljótan, að ég skuli ekki geta eignast hljóðfæri og býður jafnframt þessar sextíu krónur að láni og skyldu þær endurgreiðast upp í útfararkostnað hennar, þegar þar að kæmi.
    Þannig hljóðar þetta nú og þykist ég vita að þetta sé heiðarlegur misskilningur eða jafnvel svefnrofanum um að kenna að þú misstir af nafni gömlu konunnar. Þó er aldrei að vita nema að hún hafi ekki verið nafngreind í útvarpsþættinum.
    Með vinsemd og kærri kveðju,
    Fríða B Andersen.

  • Baldur Kristjánsson

    Þakka fyrir Fríða. Það er ástæða til að halda nafni hennar á lofti. Ekki var hún nafngreind í þeim sögukafla sem ég heyrði lesinn en kannski á öðrum stað í þættinum. En aldrei hvarflaði að mér að það væri vanþakklæti um að kenna hvorki hins merka afa þins eða annarra. BKv. baldur

Höfundur