Laugardagur 05.03.2011 - 14:44 - Lokað fyrir ummæli

Málflutningur Þorgerðar Katrínar….

Eins og ég upplifi málflutning Þorgerðar Katrínar og Ragnheiðar Elínar þingkvenna þá telja þær að mikil umræða hafi farið fram um staðgöngumæðrun innan og utan Alþingis.  Margt gott hafi komið fram í umræðunni annað síðra og nú sé bara að drífa sig í að samþykkja málið svo að fólk þurfi ekki að bíða.   Alveg er horft fram hjá því að niðurstaða ætti í siðuðu lýðræðisríki að vera í samræmi við umræðuna.  Umræðan á að leiða til niðurstöðu sé allt með felldu. Þetta á ekki að vera eins og tíðkast hefur á Alþingi að mál eru rædd og rædd og síðan samþykkt án tillits til umræðunnar en í slíku andrúmslofti hafa þær stöllur auðvitað verið allt of lengi.  Rétt er að minna á að 13 af 15 umsagnaðilum um málið mæltu gegn þingsályktunartillögu um að leyfa staðgöngumæðrun þegar Alþingi leitaði umsagna: mannréttindasamtök, samtök kvenna, læknar, þjóðkirkjan eða allir(eða nær allir) umsagnaraðilar sem ekki voru stofnaðir beinlínis til framgöngu þessa máls.  Öll helstu rök í málinu mæla gegn samþykki þess. Staðgöngumæðrun á ekkert skylt við önnur þau  úrræði sem barnlausu fólki standa til boða í okkar frjálslynda samfélagi. Niðurstaða umræðunnar er því miður alveg skýlaus. Staðgöngumæðrun er óásættanleg lausn.

Hvort sem Alþingi samþykkir eitthvað í þessa veru eða ekki er kominn tími til að stofna siðfræðiráð sem fjalli um þau siðferðilegu málefni sem fyrir Alþingi koma. Það er ekki víst að fólk sem kosið er á Alþingi vegna áhuga á atvinnumálum t.d. sé fært um að taka á erfiðum siðferðilegum álitaefnum og er ég þá ekkert að vísa sérstaklega til þesara tilteknu þingkvenna en þessi háttur er hafður á í Danmörku.  (Þar sitja siðfræðingar eins og ég). 

Grein Þorgerðar:http://www.pressan.is/pressupennar/LesaThorgerdi/segjum-ja-vid-stadgongumaedrun

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Páll J.

    Þessi málflutningur er nú ekki alveg heiðarlegur. Þessar þrettán neikvæðu umsagnir voru fráleitt allar andstæðar staðgöngumæðrun sem slíkri heldur töldu þörf á mun meiri umræðu um fyrirbærið í þjóðfélaginu áður en ákvörðun væri tekin.

  • Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

    Hinn þýski MEINTI ritþjófur Guttenberg var neyddur til þess að segja af sér embætti varnarmálaráðherra.

    Hinn íslenski DÆMDI ritþjófur Hannes Hólmsteinn Gissurarson var ekki einu sinni áminntur af rektor Háskóla Íslands og situr sem fastast í prófessorsembætti sínu.

    Þrátt fyrir skandalinn var rektorinn endurkjörinn !!!

    Ísland á verulega bágt !!!!

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Já, Baldur. Ég er að öllu leyti sammála þér í þessum pistli en velti upp þeirri spurningu, þar sem karlmönnum er ómögulegt að ganga með börn, hvort þessi umræða eigi heima að verulegu leyti hjá og meðal kvenna.

    En svo má líka velta því fyrir sér hvort framganga þeirra stallsystra, sem hafa farið allgeyst í þessu máli réttlæti slíka spurningu?

    Svei mér, ef ég get svarað fyrir mig. Þetta er flókið mál á allan hátt.

Höfundur