Þriðjudagur 19.04.2011 - 10:09 - Lokað fyrir ummæli

Sigrúnu í Skálholt

Tíðindi  aprílmánaðar í þjóðkirkjunni eru  að kona, Sigrún Óskarsdóttir, varð efst í vígslubiskupsforvali kirkjunnar.  Aðeins eitt atkvæði vantaði upp á það að önnur kona Agnes Sigurðardóttir kæmist einnig í úrslit .  Þær stöllur skákuðu Kristjáni Val Ingólfssyni helsta helgisiðasérfræðingi kirkjunnar og Karli Matthíassyni viðurkenndum og vinsælum vímuefnapresti sem  býr nú að því óvænta hlutskipti að verða fórnarlamb niðurskurðarhnífsins enda hefur drykkja minnkað í kreppunni og óþarfi að vera með einhverja  vímuvarnarsplæsingu og nær að huga að hátíðarmessum.

Það er sem sagt góður möguleiki  á því að kona setjist í hinn eftirsótta  vígslubiskupsstól í Skálholti.  Þetta er tækifæri sem kirkjan  má ekki láta fram hjá sér fara.  Jón Dalbú Hróbjartsson, sem varð annar í forvalinu og keppir til úrslita er hæfur maður og hann myndum við ef til vill kjósa ef hinir biskuparnir tveir væru konur. Biskupar eru hin opinberu andlit kirkjunnar – hennar logo- og það náttúrulega gengur ekki að biskupar hennar þrír séu allir karlar á virðulegum aldri  hversu ágætir þeir eru hver fyrir sig.

Að kjósa Sigrúnu í Skálholt er tækifæri sem kirkjan getur ekki látið fram hjá sér fara.  Fyrir utan það að Sigrún Óskarsdóttir er prýðilega hæf þá myndi kirkjan með því endurspegla samfélag sitt betur og leggja sitt dýrmæta lóð á þá vogarskál að börnin okkar, drengir og stúlkur alist upp í samfélagi þar sem konur og karlar eru jafngild.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Kristín Þórunn

    Hér hittir þú naglann á höfuðið Baldur. Sigrún er frábær kostur og góður leiðtogi kirkjunnar. Takk og amen!

  • „Karli Matthíassyni viðurkenndum og vinsælum vímuefnapresti sem býr nú að því óvænta hlutskipti að verða fórnarlamb niðurskurðarhnífsins enda hefur drykkja minnkað í kreppunni og óþarfi að vera með einhverja vímuvarnarsplæsingu og nær að huga að hátíðarmessum.“

    Það er broddur í þessu!

    Auðvitað átti Kalli vinur minn aldrei séns – enda ekki úr „verksmiðjunni“ eins og hann kallaði það – en hann hefði verið toppmaður í embættið. Enginn betri!

  • Það er samt alveg ótrúlegt í mínum huga að kirkjan sé ekki alvarlega að skoða að leggja þessi embætti vígslubiskupanna niður í staðinn fyrir að skera niður prestsembætti úti um land.

Höfundur