Föstudagur 29.04.2011 - 09:17 - Lokað fyrir ummæli

Í klóm hagsmunasamtaka

Jóhanna Sigurðardóttir er ekki gallalaus einstaklingur. Hún er eins og aðrir barn síns tíma. Þannig henti hún undirrituðum út úr launalausri nefnd um aðlögun vinnutilskipana ESB vegna þess eins að hann var í upphafi tilnefndur í nefndina af Framsóknarflokknum (það var þá).  Ég hafði lagt einna mest til í nefndinni enda þarna sem sérfræðingur í misréttisákvæðum.  Eftir sátu  fulltrúar verkalýðsforystu og atvinnurekenda enda dagaði nefndin uppi og tilskipanirnar eftir því sem ég best veit út á túni. Óháð þessu hefur mér alltaf blöskrað hvernig talað er um og til Jóhönnu sem forsætisráðherra og gengur þar fremstur í flokki ósvífinn talsmaður Landssambands íslenskra útvegsmanna.  Reyndar er ósvífnin gagnvart þessari ríkisstjórn með ólíkindum eins og Teitur Atlason hefur bent á.  Blásið er í allar flautur, spilað á alla strengi, leikið á allar tilfinningar til þess að koma málum og málatilbúnaði stjórnarinnar fyrir kattarnef og eins og fyrri daginn bila einhverjir yst til vinstri í nafni hugsjóna og skoðanafestu. Vonandi stendur stjórnin galdrafárið af sér en það versta er að við fáum aldrei að vita hvernig þjóðinni hefði gengið ef stjórnin hefði komist sæmilega vel áfram með málatilbúnað sinn.  Vonandi komumst við sem fyrst úr klóm hagsmunasamtaka. Þegar öllu er á botninn hvolft er  lýðræðið á Íslandi og þingræði í fjötrum hagsmunasamtaka og hefur alltaf verið líklega.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Ég ætla að leyfa mér að vona að ríkisstjórnin standist þessar stöðugu og grímulausu árásir „eigenda“ Íslands, þar sem embættismenn ríkisins eru miskunalaust notaðir og hagsmunum Íslands hiklaust fórnað í vonum að komast sem fyrst atur til valda. Veikleikinn liggur vissulega hjá stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar eins og þú bendir á og þegar hafa 3 brotnað.

  • Haukur Kristinsson

    Vel mælt Baldur.

  • Dapurt að horfa uppá ríkisstjórnina gefast upp fyrir LÍÚ liðinu. Nú þarf að taka höndum saman um að koma í veg fyrir uppgjöf í kvótamálinu.
    Verði samningurinn við LÍÚ að veruleika er það glæpur gagnvart þjóðinni.

  • Er Teitur Atlason góður álitsgjafi um það hvernig fólk úti í bæ eigi að koma fram við stjórnmálamenn? Hvaða strengi og hvaða flautur voru notaðar fyrir bara nokkrum mánuðum til að koma þáverandi ríkisstjorn frá? Ekki minnir mig að menn á borð við Teit Atlason hafi verið að nota eitthvert teprumál þar? Þá var fólk hangandi á rúðuþurrkum ráðherra til að ná athygli. Ekki hefur nú áróðurinn í dag skilað sér það langt að þeir sem vilja fanga athygli stjórnmálamanna hangi á rúðuþurrkum ráðherrabíla til að ná athygli?

    Ef einhver er að spila á tilfinningar, leika leiki, búa til spuna, þá er það PR deild samfylkingar á Hallveigastígnum. Það er víst fölmennur her þar á bæ sem er að búa til alls kyns dótarí sem er svo spilað á.

    Ekki koma með svona samanburð Baldur, hann er í besta falli hlægilegur. Ef einhverjir hafa verið með málatilbúnað, spilað á tilfinningar fólks o.s.frv. þá er það einmitt ríkisstjórnin. Það er hins vegar að koma í bakið á þeim núna, þar sem efndirnar eru í engu samræmi við það sem hefur verið lofað. Fólk er líka búið að fá leið á sömu gömlu rullunni um að allt sé einhverjum öðrum að kenna en þeim sem fara með stjórn landsins s.s. þeim sem eru í minnihluta á þingi. Það hlustar enginn orðið á svoleiðis útúrsnúninga.

Höfundur