Föstudagur 13.05.2011 - 22:55 - Lokað fyrir ummæli

Um Kynþætti- berist til Illuga og Þorvaldar!

Ég les það að Stjórnlaganefndin ætli að taka út hugtakið ,,kynþáttur“ úr mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.  Ég þekki rökin þau að mannkynið sé einn kynþáttur, ekki margir. En þrátt fyrir það hafa mannréttindanefndir á heimsvísu ekki yfirgefið hugtakið.  Það er af mörgum ástæðum.  Hugtakið kynþáttur hefur fengið þá merkingu að það feli í sér uppruna/arfgerð/litarhátt, er e.k. regnhlífarhugtak yfir þetta allt saman.  ECRI, nefnd Evrópuráðsins, hefur rætt þetta í þaula og komist að þeirri niðustöðu að ekki sé rétt að leggja af hugtakið ,,race“ (á ensku) eða ,,kynþáttur“, en ástæða til að hafa það í gæsalöppum og það gerum við.  Það er fleira í þessu. Hvað ætlum við að gera við orðin ,,kynþáttaníð“, ,,kynþáttahatur“, ,,kynþáttahyggja“? Eru þau þá úrelt líka?  Verðum við að fara að tala um ,,arfgerðarhyggju“? ,,Arfgerðarníð“? Ég ítreka:  Það er klárt fyrir hvað þessi orð standa, hvað þau þýða.  Þessi orð eru baráttutæki, vísa til hyggju sem byggir á hópar fólks séu misjafnir eftir arfgerð, uppruna, litarhætti, þjóðerni og trú iðulega tekin þarna inn í.

Annað atriði líka:  Er ekki mikilvægt að stjórnarskráin kallist á við Mannréttindasáttmála Evrópu. Í 14. grein þar er hugtakið ,,kynþáttur“ og líka í viðauka nr. 12 og líka í Mannréttindasáttmála SÞ?  Kunna að vera einhver rök fyrir því að þessu hefur ekki verið breytt? Viðauki nr. 12 er nýlegur!  Er nauðsynlegt að Íslendingar skipi sér  í forystu í þessum málum?  Er það ekki oflæti? Útrásaroflæti?  Er Stjórnlagaráðið gáfaðra en alþjóðlegar nefndir?

Ég er ekki að segja að þetta kunni ekki að vera rétt. Og það er vissulega rétt út frá því séð að mannkynið er einn kynþáttur. En þá þurfa menn að absalútt öruggir á því að missir þessa hugtaks úr stjórnarskrá, þar sem það er nú, hafi ekki illfyrirsjáanlegar afleiðingar gagnavart refsilöggjöf landsins, gagnvart almennri löggjöf, gagnvart mannréttindadómstóli Evrópu, mannréttindasáttmálum, gagnvart fólki sem kynþáttaofstæki bitnar á?  Menn þurfa að vera absalútt pottþéttir á því að brottfallið veiki ekki með nokkrum hætti baráttuna gegn ,,kynþáttaníði“ og kynþáttafordómum“?

Ég hef, eins og svo margir aðrir,  mikla trú á Mannréttindaráði og fylgist spenntur með kommentum Þorvaldar og Illuga á facebook og beini þessu þess vegna til þeirra. Þið fyrirgefið áhuga minn auðvitað sem er mikill því að ég hef unnið með þetta hugtak æði lengi á vettvangi Evrópuráðsins.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Þorsteinn Vilhjálmsson

    Ég fór í fyrsta skipti til Bandaríkjanna árið 1977. Ég var þá spurður á eyðublaði af hvaða kynþætti ég væri. Af svarskostunum gat ég ráðið að ég átti að merkja við „caucasian“ og hafði þar með lært eitthvað sem ég vissi ekki áður. En þetta er dæmi um að hugtakið kynþáttur er illa skilgreint og teygjanlegt að tala um að einhverjir tveir menn séu af sama kynþætti eða ekki. Arfgerð sýnist mér miklu betra orð sem samsvarar því sem við köllum líka stundum „meðfætt“ eða áskapað og hefur því jafnframt víðari merkingu sem á vel við. — Við erum hætt að tala um negra og kynvillu og hví ættum við ekki að geta hætt þessu líka, smám saman?

Höfundur