Sunnudagur 15.05.2011 - 11:06 - Lokað fyrir ummæli

Hörpuhátíð og íslenskt snobb!

Harpa er stórglæsilegt hús og allir Íslendingar hafa lagt fram fé til þess. Sumir af digrum sjóðum sínum. Aðrir af skorti sínum og þá á ég við skattgreiðendur á lágmarkslaunum.  Þeir eru miklu merkilegri en hinir skv. ritningunum t.d. sbr. söguna um fátæku ekkjuna. Fiskvinnslukonurnar sumar þeirra ekkjur, íslenskar sem tailenskar ,voru hins vegar ekki við opnunarhátíðina.  Þeim var hins vegar boðið að koma daginn eftir en fengu ekki einu sinni að setjast í fína salnum en urðu að troðast og standa þreyttar og lúnar á göngunum sem fína fólkið, sem ekki þarf að standa alla vikuna,  notar til að komast í boðssæti sín.

10-15% af þjóðinni eru tiltölulega nýkomin til landsins. Fulltrúar þess hóps voru í myndarlegri karnivalgönguhátíð í Reykjavík í gær og guði sé lof fyrir innflytjendur segi ég, hvílíkt  sem þeir hafa auðgað litbrigðalítið íslenskt samfélag.  Innflyjendur voru  heldur ekki á opnunarhátíðinni.  Það er ekki vegna kynþáttafordóma þeirra sem sömdu boðsmiða heldur vegna þess að útlendingar eru í illa launuðum og erfiðum störfum í íslensku samfélagi .  Hafa  ekki hlotið eðlilegan framgang í störfum sínum eða ráðið í áhrifastöður. 

Þeir sem sömdu boðsmiða hafa enga fordóma gagnvart misheppnuðum bisnissmönnum og pólitíkusum. Þarna var gamla Ísland, eilífðarísland, lifandi dautt komið.  Þarna misfórum við með gullið tækifæri til þess að hefja nýtt líf enda höfum við sem þjóð ekki farið í neina meðferð.  Þeir sem settu hér allt  á hausinn og  eru enn  að skella hurðum eða að skríða úr skjóli sínu voru þarna í tugavís.  En hvað áttum við að gera?  Við áttum að halda tíu jafngildar opnunarhátíðir og bjóða öllum þeim sem vildu koma og sækja miða sína fyrir tiltekinn dag. Jafnframt hefði verið sett sú áætlun upp að allir Íslendingar  hefðu komið í Hörpu og nútímamarkaðsfræðum beitt til  þess að örvar fólk til að koma.

Ef einhver hópur hefði átt að hafa forgang þá er það tónlistafólk; píanóleikarar en ekki prelátar, banjóleikarar en ekki bisnissmenn, hörpuleikarar en ekki háir herrar, organistar en ekki prestar.

Ég er hins vegar í hópi þeirra sem þakka fyrir þetta hús, íslensku láglaunafólki.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

Höfundur