Þriðjudagur 17.05.2011 - 11:39 - Lokað fyrir ummæli

Kristinn Sigmundsson sjálfur…

Það var einhverju sinni að ég var fenginn til að skíra í parhúsi í Reykjavík og ekki svo sem í frásögur færandi nema á sama tíma var Vigfus þór Árnason stórprestur að skíra í hinum hluta parhússins. Við Vigfús höfðum hist fyrir utan og þótti þetta skondin tilviljun en ég man að ég fann mikið til smæðar minnar þegar þessi reyndi og vinsæli Reykjavíkurprestur bar með sér heljarmikið kassettutæki.  Þegar ég svo var að hefja skírnarundirbúning hjómaði þessi líka myndarlegi söngur –það var greinilegt að stofurnar lágu hvor að annarri-með þessum líka fína undirleik.  Ég sá að við myndum aldrei matsa þetta og okkar söngur yrði næsta  ámátlegur í samanburði, svona undirspilslaust.  Sá ég að fólkið leit á mig og spurði í huganum: Af hverju fengum við ekki þennan prest með kasettutækið?

En  kraftaverkin gerast enn.  þegar ég er að kanna hitastig skírnarvatnsins og svona,  birtist þá ekki Kristinn Sigmundsson í dyrunum.  Sá hinn sami og var að taka við viðurkenningu úr hendi forseta  Íslands í gær fyrir söng sinn.  Kristinn var skyldmenni barnsins og var mættur í skírnina. Breyttist nú allt andrúm.  Séra Vigfús gat vart haldið athygli fólks í stofunni sín megin meðan undurfögur rödd Kristins hljómaði  um hverfið í skírnarsálmnum Ó, blíði Jesú blessa þú…….. Hafði ég spurnir af því síðar meir að fólk hefði spurt hver hann væri þessi prestur sem  tæki  sjálfan Kristinn Sigmundsson með sér í skírnir…..

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur