Fimmtudagur 02.06.2011 - 10:44 - Lokað fyrir ummæli

Blessaðir útlendingarnir!

Þessi fallegi dagur syngur Bubbi Morthens og gæti alveg átt við þennan dag sem er hlýr og kyrrlátur, bjartur, léttur skýjahjúpur yfir, grösin græn, fólkið í fallegum fötum, vel búið, tignarlegt, börnin hlaupandi um glöð og áhyggjulaus.  Skepnunum líður vel á þessum árstíma, kýrnar nýkomnar út þó lítið sé eftir af þeim hér um slóðir (Hveragerði, Ölfus), lömbin leika sér, nýfædd að venju, hestar  þessar goðsagnakenndu verur, í tugatali við hvert byggt ból – það ætla sér margir í útreiðar í sumar. Og meira að segja nágrannar okkar austur í Skaftafellssýslum una glaðir við sitt. Fengu hastarlega sýnikennslu í því hvernig fólki fyrri tíða leið til að mynda í móðurharðindunum þegar hvorki var hægt að horfa né anda.  Þá veslaðist upp fólk og skepnur úr vatnskorti og næringaskorti nú komu björgunarsveitarmenn með vatn í flöskum þar sem vatnsból höfðu mengast.  Sem betur fer stóð þetta stutt nú og vitrir menn eins og Vilhjálmur  á Hnausum, sem man Kötlugosið 1918, sáu ljósið í myrkrinu og bentu á að það góða við öskuna væri að hún dræpi grasmaðkinn.  Það er einmitt aðall hins kristna manns að sjá ljósið í myrkrinu og þarf ekki að kenna slíkum mönnum neitt en af þeim á að læra.

Ekki veit ég  hvaða húmoristi það var sem tileinkaði Uppstigningadag eldri borgurum eða öldruðum.  Það mun þó sennilega hafa verið hinn góðhjartaði biskup Pétur Sigurgeirsson, blessuð sé minning hans.  Á þessum degi fyrir all nokkru síðan skildist Jesú buru frá lærisveinum sínum og var upp numinn til himins ef marka má ritningarnar.  Sjálfsagt hefur hugmyndin með því að tileinka daginn öldruðum verið sú að styttra væri í það að þeir eldri stigu upp (eða dyttu niður eftir atvikum) en þeir yngri.  Það má nú kannski til sanns vegar færa en spurning hvort það sé ekki óþarfi að minna okkur á það.  Svo  er það nú líka, segja sérfræðingar, að þeir sem á annað borð eru lifandi og gamlir geta búist við því að lifa von úr viti.  Fólk stígur því miður upp til himna á öllum aldri og undanfarið höfum við upplifað í gegnum Kastljós fjölmiðlanna hvernig ungt fólk hefur dáið Drottni sínum eftir að hafa ánetjast eitulyfjum.  Það er þyngra en tárum taki hvað okkur hefur mistekist að halda eitulyfjavoðanum burtu frá okkur.  Í mjög mörgum okkar býr dópisti eða fíkill og þess vegna þurfum við sem börn og unglingar styrka leiðandi hönd foreldra.  Þetta var auðeldara á sveitabæjum hér áður fyrri- þó að margt ætti sér örugglega stað þar sem ekki þoldi dagsljós- en erfiðara þegar í þéttbýlið er komið og á því svelli sem þar er hefur mörgum orðið hált og það á ekki bara við núverandi  ungdóm.  Í Reykjavík millistríðsára og eftirstríðsára var gífurlegt fyllerí og margur góður maðurinn fór í ræsið.  Ég veit ekki hvort við erum eitthvað meiri fíklar íslendingar en aðrir en ekki erum við betri.

En eldri borgarar eru nú yfirleitt góðir og gegnir borgarar enda væru þeir ekki svona gamlir annars.  Við tökum að vísu ókjörin öll af pillum en það er nú bara til að styrkja hjartað og, liðamót og vöðva og við höfum ekkert minna tilefni en aðrir til að líta björtum augum fram á veginn.  Það eina sem við þurfum að óttast og kannski einkum fyrir hönd næstu kynslóðar eldri borgara, að það verði ekki nógu margir til að vinna fyrir okkur en vonandi koma blessaðir útlendingarnir til hjálpar. Það er nefnilega svo að viðkoman meðal vesturlandabúa er ekki nægileg og samfélögin þola ekki mikla fækkun m.a. vegna fjölda eldri borgara en þá kemur blessað fólkið sem iðulega er að flýja ömurlegar aðstæður í heimalandi sínu til skjalanna –  kemur og vinnur fyrir okkur oft á tíðum verst launuðu störfin og heldur samfélögunum þannig  gangandi.  Þetta skyldu þeir hafa í huga sem líta þessa þróun hornauga að hún er jafnnauðsynleg fyrir samfélögin okkar eins og hún er fyrir þá sem vilja skipta um heimkynni og þurfa þess.

Það hefur örugglega verið fallegur dagur í Betaníu þegar þeir horfðu á eftir Jesú upp til himins samkvæmt ritningunum.  Ef marka má ritningarnar hafði hann snert við þeim, kennt þeim margt. Fengið þá til að hugsa betur en áður.  Einhverjir urðu sjálfsagt betri menn fyrir vikið og á öllum tímum síðan og það á sjálfsagt við um okkur. Sögur hans margar hafa fylgt okkur alla ævi og þær og bænaversin fylgja okkur sjálfsagt alla leið, stundum er það bænamuldrið sem síðast heyrist í fólki sem komið er út úr heiminum að sagt er.  Allt er þetta gott og blessað og á örugglega mikinn þátt í því hvað samfélög okkar eru góð og manneskjuleg þrátt fyrir allt. En hvort að heimurinn hefur batnað mikið eða breyst í grundvallaratriðum það er önnur saga.  Hagsmunir varðir með átökum ráða mestu sem fyrr.  En eftir stendur þrátt fyrir allt sú fullvissa kristinna manna að Jesú Kristur dó og varð upprisinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.  Sumir lesa út úr þessu framhaldslíf þ.e. einhvers konar nýtt líf eftir dauðann og hafa fyrir því ýmis konar vitninsburði.  Aðrir eru Stóískari svo vísað sé í grískan speking sem hélt fram róseminni og vita sem er að okkur er ekki gefið að skilja né vita allt.  Við erum yndislegar verur, skemmtilegar og flottar og kunnum að baka góðar kökur eins og við munum komast að í kirkjukaffinu en hin hinstu rök verða okkur alltaf hulin.  Menn á öllum tímum hafa gert sér grein fyrir þessu og þess vegna tefldu þeir fram Guðum sem  varð með tímanum einn í okkar tilfelli. Guð almáttugur.

(Að stofni til prédikun í Hvergagerðiskirkju í messu tileinkaðri eldri borgurum á Uppstigningadag 2011)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Sighvatur Jónsson

    Það segir sig nú sjálft að útlendingarnir sem setjast hér að eldast líka og þá þarf fleiri útlendinga sem svo eldast líka o.s.fv. Í ofanálagt eru þetta oft á tíðum láglaunastörf sem gefa lítið í skatta og lífeyrissjóði. Ég fæ því ekki séð að erlent vinnuafl muni leysa þennan vanda með háan aldur þjóðarinnar. Nær væri að gefa fólki kost á því að vinna til t.d. 75 ára aldurs ef áhugi og heilsa eru til staðar.

Höfundur