Sunnudagur 12.06.2011 - 12:12 - Lokað fyrir ummæli

Á Hvítasunnu….!

Það þýðir lítið að tala um Hvítasunnudag og ræða bara um lærsveinana sem gripnir voru af heilögum anda og fóru að tala tungum – eða föðurinn á himnum sem mun tryggja það að við munum lifa og sendi heilagan anda sinn til okkar.  Það þýðir ekkert að víkja sér undan því að íslenska kirkjan á bágt.  Þetta fyrirkomulagt þ.e. net kirkna um allt land þar sem presturinn er í flestum tilfellum tiltölulega normal persóna sem gegnir oftast ágætu hlutverki í samfélagi sínu í kirkju sem er trúarlega mjög breið og opin er út af fyrir sig ágætt.  Kirkjan hefur að vísu verið einkavædd mikið á undanförnum áratugum en það má spyrja að því hvort að það hafi nokkuð verið jákvætt. Hefði ekki verið betra að hafa hana meira undir verndarvæng ríkisins.  Fer ekki fyrir henni eins og bönkunum eftir einkavæðingu að hún missir fótana.  Að vísu var samkrullið ekki alltaf upp á það besta frekar en annað í íslensku samfélagi.  Það verður að segjast eins og er og var ekki tekið á því í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem nú liggur fyrir en verður sjálfsagt  farið fram á það.

Að mörgu leyti er Strandarkirkja táknræn fyrir allar kirkjur.  Hún sprettur upp af trú.  Hún verður til í örvæntingarfullri leit mannsins að æðri máttarvöldum.  Leit sem fylgir hverjum manni, hverjum tíma. Leit sem aldrei lýkur.  Og Strandarkirkja er eins og kirkjan stóra.  Hún er á köflum feyskin og fúin.  Hún er á tímum við það að láta undan fyrir sandroki og særoki.  Prestarnir og biskuparnir vilja gjarnan flytja hana á þægilegri og öruggari stað, heim til sín.  En það vill ekki fólkið, það vill hana sína kirkju þó vanrækt sé og að falli komin en alltaf koma nýjar og nýjar kynslóðir og bjarga kirkjunni sinni.  Laga hana á sama grunninum eða byggja hana upp á sama grunninum.  Prestar, prófastar og biskupar koma og fara en alltaf stendur kirkjan studd af nýjum og nýjum kynslóðum sem aftur vanrækja kirkjuna, finnst fátt um hana, hata hana jafnvel, flykkjast í vantrú, mæta samt í hana af og til en svo koma kynslóðir sem hressa upp á kirkjuna sína, sýna henni virðingu, byggja hana upp á nýtt.  Og Jesú kallinn stendur þetta allt af sér.  Hangir á krossinum á á misjafnlega burðugum ölturum.  Hann er fyrir löngu kominn út og yfir tímann og eins og hann sjálfur hangir hanga  orð hans yfir mönnunum.

Þannig er með kirkju landsins.  Hún hefuer eins og Strandarkirkja fylgt okkur í 1000 ár.  Stundum við hraklegar aðstæður – stundum hefur lýðurinn verið drykkfelldur og syndugur, kirkjustaðir  undist upp í fátækt og hirðuleysi en á öðrum tímum hefur fólk flykkst að kirkjunni, þar hefur orðið geymst, hægt að ganga að því, misjafnir og jafnvel ömurlegir prestar hafa engu breytt- enginn kemst að upp með það að afflytja orðið eða skemma boðskapinn til lengdar.  Hann er þarna í hinni skældu bók sem liggur á sjúskuðu altari í kirkju sem að falli kominn eða fallegu kirkjunni á góðæristímum sem er á leið til þess að verða ekki sinnt.

Og stundum er eins og moldin ein geti jafnað deilur, átök og meiningar, stundum þarf kynslóðir til þess að menn jafni sig.  Og það er nú það fallega í þessu öllu saman. Við erum öll forgengileg en kirkjusamfélög og öll samfélög lifa og endurnýjast.  Slík er nú fegurð sköpunarinnar.  Hugsið ykkur ef við værum öll ódauðleg.  Hversu risavöxnum hæðum Sturlungaöld hefði náð.  Vegna þessa mun kirkjan okkar ná sér að fullu og það getur við þakkað moldinni sem jafnar allt, breiðir yfir allt eins og kærleikurinn er sagður gera en má ekki gera.

(drög að prédikun í Strandarkirkju. Aths. er hægt að gera á facebook)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur