Þriðjudagur 14.06.2011 - 20:55 - Lokað fyrir ummæli

Hver hefur sinn djöful að draga!

 Ekki líkur vanda kirkjunnar við þetta Kirkjuþing.  Kerfið er ekki nógu gott. Í upphafi flytur forseti þingsins, mætur maður og viðurkenndur lögspekingur, vel undirbúna ræðu þar sem hann leggur upp niðurstöðuna.  Síðan tekur sjálfur biskupinn við og lýsir góðum vilja sínum. Hierarkíið á fremsta bekk.  Allt öndvegisfólk.  Hver getur fengið að sér að spilla svona veislu, eyðileggja stemninguna.

En ég ætla ekki að fjalla um það –sjálfsagt hefði varðsstaðan um valdið orðið enn þá meiri ef ég hefði verið þarna.  Ég ætlaði að bera aðeins í bætifláka fyrir sjálfan mig í skýrslunni góðu:

 Rannsóknarnefndin tók það sem maður sagði upp á teip og maður átti ekki leiðréttingu orða sinna (ég fékk að vísu senda nokkrar blaðsíður en bara til að svara
tveimur spurningum og gerði ekki tilraun að leiðrétta orðalag og fékk auk þess ekki sent allt sem haft var eftir mér).  Ég sem mætti ekki með skjalamöppur og skiplega ræðu á fund nefndarinnar heldur bara prúðbúinn með mitt minni valdi ekki alltaf rétt
orð í stressinu sem fylgir mér eins og skugginn:

Ég segi á einum stað að Ólafur biskup  hafi ,,flúið“ land.  Það er ómaklega orðað en hann fór úr landi um tíma.  Ég er of gáleysislegur í garð prófastanna og sé eftir því. Þeir auðvitað voru í skelfilegri klípu en prófastarnir eru skv. skilgreiningu augu og eyru biskups og áttu örugglega eins og vel uppaldir prófastar erfitt með að bregða brigður á orð biskups.  Þá segi ég að Kirkjuráðmennirnir  Hreinn Hjartarsson, Helgi K. Hjálmsson og Gunnlaugur Finnsson hefðu stutt biskup á kirkjuráðsfundi  ,, af hjartans einlægni.“  Rannsóknarnefndin bað mig um  að reyna að muna þennan fund og mundi ég hann þannig, með þrjá spennta rannsóknarmenn fyrir framan mig, að þeir þrír hefðu (að því er mér virtist) trúað Ólafi  (af hjartans einlægni)fremur en Karl biskup sem átti ,,meira bágt.“ Eins og ég orða það svo fræðilega. 

 Með orðalaginu “ hjartans einlægni“ meina ég ekki nokkuð illt í garð þessara manna en bið forláts á þessu orðalagi sem í augum sumra kann að anga af kaldhæðni.  Það
var eki meiningin.  Allt voru og eru þetta góðir og gáfaðir menn og þrautreyndir félagsmálamenn. Ég útskýri svo í framhaldinu hvers vegna var erfitt fyrir þá að trúa ekki Ólafi. Mér hefur verið tjáð af afkomenda eins þeirra að ekki hafi nú allt verið sem mér sýndist í þessum efnum.

 Á einum stað tala ég um lögfræðingana Ragnar Aðalsteinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson. Ég hef ætlað að segja og Tryggva Gunnarsson.  Jón Steinar var mér að vísu ofarlega í huga vegna þess að hann hafði skrifað greinar í svipuðum dúr í
Morgunblaðið.

Þá bið ég í fylgiskjali Geir Waage forláts að hafa lagt honum orð í munn í frægum gangaslag þeirra Ólafs.  Eins og ég sagði í yfirheyrslum þá var þetta svona samkvæmt
mínu minni en ég tek fram í nefndu fylgiskjali að ég efist ekki um að versjón Geirs sé réttari en mín enda beinn þátttakandi.

 Að lokum vil ég taka það fram að ég ber ekki kala til nokkurs manns hvorki innan kirkju né utan nema þá helst þá til sjálfs míns en það er djöfull sem ég verð að draga
vonandi lengi enn.

 Að lokum.  Það var hnýtt svolítið í mig í kaffinu í dag í Grensáskirkju (ég frétti allt)
fyrir að vera í gaspa þetta í gær en hið óformlega plan var að menn biðu eftir viðbrögðum Biskups og Kirkjuþings.  Ég ætlaði bara í gærmorgun að gefa út smá yfirlýsingu um fjarveru mína á Kirkjuþingi og bjóst svo sem ekkert við því að á hana yrði minnst neins staðar.  Áður en ég vissi af var íslenska heimspressan kominn inn á
gafl hjá mér. Það var greinileg eftirspurn eftir fréttum.  Eftir að hafa hugsað málið ákvað ég að veita viðtöl. Komst að þeirri niðurstöðu að hönnuð málmeðferð á hálfu kirkjunnar minnti allt of mikið á það hvernig menn höguðu sér 1996.

 Höfum við ekkert lært eða hvað?

Ég við taka það fram að í sjónvarpsviðtalinu talaði ég fallega um Pétur Kr. Hafstein en það var klippt burt án þess thó ad texti minn væri nokkuð affluttur.  Þetta var út af fyrir sig ágætlega unnin frétt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur