Þriðjudagur 28.06.2011 - 09:58 - Lokað fyrir ummæli

Ásakanir Guðjóns um rasisma!

„Ég veit ekki hvort dómurunum líkar ekki litarhátturinn á senternum mínum. Það er allavega geysilega mikið veiðileyfi sem fæst á þann mann. Hann er búinn að fá fjögur spjöld og það er búið að sparka hann niður síðan við byrjuðum mótið og það ætlar engan endi að taka.“

 Þessi ummæli Guðjóns Þórðarsonar ber að taka alvarlega.  Eru kynþáttafordómar í íslenskum fótbolta og þar með í íslenska samfélagi?  Málið er að vitaskuld eru þeir til staðar meðvitaðir eða ómeðvitaðir.  Þeir  leynast í rótinni, skjóta upp kollinum og heilbrigt samfélag þarf að vera á verði gagnvart þeim. Þess vegna á KSÍ að taka ummæli Guðjóns Þórðarsonar alvarlega.  Fá valinkunna spekinga helst erlendis frá til þess að meta það í leikjum sem þegar hafa verið leiknir, út frá myndböndum, hvort svartir fái aðra meðhöndlun hjá dómurum en hvítir eða þá erlendir menn aðra en innlendir menn.  Þetta er upplagt spekulasjónsdæmi sem gæti leitt okkur til aukinnar þekkingar á okkur sjálfum.

„Þessi ummæli dæma sig sjálf. Gunnar er drengur góður og þetta myndi aldrei koma til,“ segir Magnús Már Jónsson, dómarastjóri KSÍ.

 Þessi viðbrögð Magnúsar Más byggja á fljóthugsun.  Þetta hefur sennilega ekkert að gera með það hvort að Gunnar sé drengur góður.  Ef um er að ræða ójafna meðferð þarna er hún sennilega ómeðvituð.

„Þetta eru allt vandaðir menn,“ segir Magnús Már ennfremur.

Mikið eru menn ánægðir með sig í fótboltanum.

,,Það er almennt viðurkennt meðal siðaðra manna í íþróttum að kynþáttafordómar eru síðasta sort. Og að saka menn um slíkt því grafalvarlegt mál”  segir Röggi hér á Eyjunni.  Vissulega  rétt hjá Rögga en réttu viðbrögðin eru að skoða það vel hvort að fótur reynist fyrir ásökunum. Jafnvel þótt ásakandi sé  þekktur stórorðasmiður.

Við eigum ekki að henda þessu orði á milli okkar eins og ekkert sé.

 Tilvitnanir teknar af fótbolti.net og eyjunni.

Athugasemdir má gera á facebook

Áframsendist á KSÍ.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur