Miðvikudagur 29.06.2011 - 09:55 - Lokað fyrir ummæli

Mismunun í Bláa lóninu?

,,DV sendi sjö spurningar á innanríkisráðuneytið vegna málsins…Ráðuneytið vísaði á iðnaðarráðuneytið, sem vísaði hins vegar aftur á innanríkisráðuneytið“

Í nær öllum 47 ríkjum Evrópuráðsins er aðili sem almenningur getur snúið sér til telji hann sig verða fyrir mismunun vegna uppruna, litarháttar, þjóðernis, trúar etc.  Mælt er með því (ECRÍ) að umboðsmaður þessi, eins og embættið kallast alla jafna, einbeiti sér að þessu einu en einnig þekkist það að embættið sinni kvörtunum af öðrum toga. Víða hefur umboðsmaður þessi aðeins áhrifavald (eins og umbi alþingis) en sums staðar getur hann sjálfur lögsótt fólk og fyrirtæki sem grunuð eru um að beita misrétti.  Sáttaleiðin er þó algengust og farsælust.  Til embætta þessara leitar fólk sem telur sig verða fyrir mismunun á vinnustað vegna ofnagreinds eða fólk sem þarf að borga meira í sundlaugar eða lón vegna ofangreinds eða fær ekki inngöngu á skemmtistað eða klúbb eða verður fyrir meintu misrétti af hálfu stjórnvalda vegna ofangreinds o.s.frv. o.s.frv. Embætti þessi hafa yfirleitt mikið að gera.  Ýkja vandann? Nei, tilvist þeirra gerir  vandann sýnilegan. Þá kynna embætti þessi lagaákvæði og reglugerðarákvæði sem eiga að vernda fólk gegn mismunun.

ECRI (European Commission against Racism and Intolerance) sem vinnur á grundvelli Mannréttindasáttmála Evrópu hefur ráðlagt íslenskum stjórnvöldum að koma á þessum farvegi og mun halda því áfram af vaxandi ákveðni. Mér sýnist að með tilliti til fámennis okkar geti svona farvegur þróast í skipulagstengslum við umboðsmanns kynjajafnréttis. Það verður þó að vera sér stakkur í því embætti þar sem vinna manneskjur sem hafa sérstaka þekkingu á viðfangsefninu og ástríðu fyrir því.

Dæmi um mismunun vegna þjóðernis í Bláa lóninu og víðar hafa sannfært undirritaðan um nauðsyn þessa embættis hér.  Í tilvitnun upphafs pistilsins má sjá að stjórnsýslan veit ekki sitt rjúkandi ráð.

 Athugasemdir má gera á Facebook

Áframsendist á ráðherra og alþingismenn og stjórnlagaráðsmenn

Undirritaður hefur unnið við gerð leiðbeininga á þessu sviði á vegum Evrópuráðsins

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur