Laugardagur 24.12.2011 - 21:30 - Lokað fyrir ummæli

Prédikun á aðfangadagskvöld 2011.

Það eru rétt 100 ár síðan Stefán Sigurðsson frá Hvítadal í Saurbæ orkti þetta ljóð eða þennan sálm sem var inngöngusálmur okkar í dag og heitir einfaldlega Aðfangadagskvöld jóla 1912.  Uppfaf sálmsins er: Kirkjan ómar öll/býður hjálp og hlíf/þessi klukknaköll/boða ljós og líf.  Þessi einlægi og fallegi sálmur hins mikla skálds talar í einlægni sinni beint til okkar á aðfangadag jóla rètt hundrað árum síðar 2011.  

Söngvar förumannsins kom út 1918 og var talað um vorleysingu í íslenskri ljóðagerð þegar hún kom út og um svipað leiti fyrsta bók Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi (Svartar fjaðrir 1919). Kvað við nýjan tón í nýju formi hjá þeim skáldbræðrum – þeir ortu um gleðina, ástrina og trúna.  Í stað ættjarðarljóða koma tilbrigði við fögnuð og örvæntingu.  Viðkvæmni, óskhyggja og draumhneigð áberandi, geðhrif.  Og heilög kirkja er Stefáni  viðfangsefni.  Hann gekk til kaþólskrar trúar, trú hans var einlæg og fölskvalaus,  veiktist af berklum. Hann tók fótarmein og taka þurfti af honum fót ofan við ökkla.  Hann er skáldvinur Kiljans og Þórbergs í Unuhúsi, fer til Noregs til vinnu (eins og fleiri síðar) og verður einyrki vestur í Hvítadal þar sem hann var uppalinn að hluta.  Í lífi hans skiptast á gleði, vonbrigði, söknuður – hann er barnungur sendur í fóstur-. Og söknuður litar ljóðagerð hans og líf.  
En Enginn birtir þó gleði eins og hann:

Ég á gæfunnar gull/ég á gleðinnar brag./Tæmi fagnaðarfull./Ég gat flogið í dag
Eða þessa rómantísku gleði: Heyr mitt ljúfasta lag/þennan lífsglaða eld/um hinn dýrlega dag/og hið draumfagra kveld.

Stefán er ekki sáttur. Lífið uppfylti ekki drauma hans sem æskumans. Hann var fátækur og varð að vinna líkamlega erfið störf þrátt fyrir fötlun og skáldagáfu. Hann tjáir vel vonbrigði hins fullorðna sem harmar það að draumar bernskunnar rættust ekki.  En hann sættist við líf sitt:

Sestu æskuvon til valda/vorsins bláa himni lík./Ég á öllum gott að gjalda/gleði mín er djúp og rík.

Sáttin næst vegna þess að Stefán á sinn helgidóm:  Hvert hjarta á sinn helgidóm: 
Hvert göfugt hjarta á sér helgisdóm/þar anga skínandi eilífðarblóm….Þar alltaf í raunum athvarf var/þú hittir Guð á gangi þar.

Og við sem erum hér þá Inn er helgi hringd….

Höldum á sama fund og Stefán.  Við skynjum sama leyndardóm. Göngum að vöggu Jesúbarsins og lútum höfði fyrir hinu viðkvæma lífi.  Hlýðum á söguna sem felur í sér drauminn um sigur andvaldsins, söguna um skrefið frá dýri til manns…þar sem göfgin ræður, virðingin, umhyggjan, réttætið andstæð hinu grófa valdi hungurs og grimmdar, þar sem sálargáfur skilja á milli ekki vöðvakraftur eða ginvídd.  Og 2000 árum síðar erum við enn í þessu ströggli.  Heimur mannsins er bæði grimmur og góður eins og þá. Dæmin blasa alls staðar við’

Ofbeldið, grimmdin allsráðandi en sálargáfur, göfug hugsun setja því stöðug mörk í hinu eilífa tafli .

Meðal kristinna manna er nú fagnaðarhátíð hins góða og Jesúbarnið er tákn hins góða, hinnar björtu vonar þess eilífa meistara sem sagði þessu einföldu orð:  ,,Ég lifi og þér munuð lifa“

Margt hefur breyst frá Því að Stefán frá Hvítadal orkti ljóð sitt.  Þá var myrkur í íslenskum byggðum, kuldi og myrkur.  Oft tvísýnt um hvort menn og skepnur lifðu af veturinn. Fólk fór á vergang.  Fátæk heimili splittuð upp, harmur og kvöl. En líka hjartagæska, hlýja, samúð, nánd.  Efni voru yfirleitt af skornum skammti.  Ég ímynda mér að heimilisfólkið í Hvítadal hafi farið eina ferð út í Salthólmavík fyrir jólin.  Það var reyndar ekki eins langt og hjá sumu fólki.  Dagsferð fram og til baka.  Mestanpart lifði fólk á því sem búið gaf: mjólk, strokkað smjör, kjöt.  Föt spunnin úr ullinni.  Jólagjafir fáar og nytsamar.  Bæjarhúsin skreytt af nostursemi, skepnunum gefið exstra.  Þetta kvöldið loguðu ljós lengi frameftir á hverjum bæ.  Jólin færðu það sama og nú nánd og hlýju, tilbreytingu, gleði, börn og fullorðnir glöddust.  Já og farið var í messu þegar presturinn messaði en oft vildi jólamessa dragast fram á nýjárið.  Í heimild úr Ölfusinu segir að þegar út fyrir túnfót var komið stoppuðu menn og fóru með bæn. Karlar tóku niður pottlok. Þá í kirkju var komið hneigðu menn sig fyrir prestinum.  Í frosthörkum var gott færi, ísalagðar mýrarnar óþurrkaðar engir skurðir.  Verra í umhleypingum, blautt, forugt, þurfti að fara með fjallshlíðum.

Svona var þetta nú. Umgjörðin hefur svo sannarlega breyst en mannsjartað ekki svo mikið.  Enn eru særðar sálir, þyngdar lífsins þrautum og þá eins og nú gat gleðin og birta jólanna skotið  birtu í beygðar sálir.  Það er það góða við jólin…og gert okkur öll aðeins betri….eða minnt okkur á hið góða í okkur.  Sum okkar eru hrifnæm eins og skáldið frá Hvítadal. Þyngra í öðrum en varla er sú manneskja til sem jólaboðskapurinn hreyfir ekki við.

Á jólum brýst fram hin tregablandna gleði.  Til okkar koma allir sem okkur þykir vænt um lifandi sem dánir. Við þökkum Guði fyrir þau öll. Höfum það hugfast að Hlutirnir eru ekki eins og þeir eru.  Þeir eru eins og við sjáum þá.
Í dag horfum við á lífið og eilífðina frá vöggu Jesúbarnsins. Tökum gleðina á þetta. Þá mun sannast hið fornkveðna: Nóttin var svo ágæt ein. Hrærum vögguna og látum hana hræra í okkur.  

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

Höfundur