Föstudagur 30.12.2011 - 21:00 - Lokað fyrir ummæli

Erfði gjaldþrota bú og spillt.

Ólst upp við að Viðreisnarstjórnin væri hörmuleg stjórn. Trúði Tímanum og þjóðviljanum, þórarni Þórarinssyni og Magnúsi Kjartanssyni. Allt var ómögulegt sem þessi íhaldsstjórn aðhafðist hvort sem það voru landráðasamningar við Breta, svik við verkalýðshreyfinguna, sífelld tilræðin við landsbyggðina, fólksflótti og hvaðeina. Seinna áttaði ég mig á að Viðreisnarstjórnin var ein besta ríkisstjórn lýðveldistímans, framfarastjórn.
Ég hygg að núverandi stjórn fái síðar meir ekki verri eftirmæli. Hún erfði gjaldþrota og gjörspillt bú og er langt kominn með að snúa taflinu við þrátt fyrir fúkyrðaflaum úr öllum áttum einkum frá hrunverjum, verndurum sérhagsmuna og öfgafullum andstæðingum ESB. Þrátt fyrir það að stjórnin sé að ná einstæðum árangri nær fúkyrðaflaumurinn nýjum hæðum. Ef ég væri ekki Íslendingur myndi ég halda að Íslendingar væru illyrtir kjánar en það erum við upp til hópa ekki.
Ég sé auðvitað eftir Árna Páli úr ríkisstjórninni en mér líst að mörgu vel á að setja jarðýtuna Steingrím J. Sigfússon yfir atvinnuvegaráðuneytin og Oddnýju Harðardóttur í fjármálaráðuneytið
Og það er gott að losna við Jón Bjarnason. Ég dreg þá ályktun af málflutningi hans að hann vilji þessa ríkisstjórn feiga.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Sigurður nikulásson

    Þú gleymir því að helmingur þessarar stjórnar var í þeirri síðari og aðhafðist ekkert

  • Sigurður Pálsson

    „Hún erfði gjaldþrota og gjörspillt bú“
    Stundum er það svo að menn sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Er hægt að erfa það sem maður á sjálfur? Spillingin sem nú grasserar í bönkum stútfullum af peningum er gríðarleg. Slitastjórnir og skilanefndir (nú sameinaðar) eru í sjálftöku við vinnu sína í hinum föllnum bönkum. Á sama tíma og enn er unnið úr gjaldþroti litilla Íslenskra banka er búið að ganga frá gjaldþroti eins stærsta banka í heimi, Lehman Brothers.
    Afskrifaðar eru milljarðaskuldir hjá hinum rétt tengdu, fyrirtæki seld á gjafvirði til réttu aðilana. Jóhanna og Steingrímur töluðu mikið um gagnsæi í aðdraganda kosninga, ég held að flestir séu sammála um að mikill leynihjúpur hvíli yfir öllu fjármálakerfinu í boði núverandi ríkisstjórnar.

  • Hvorugan stjórnarflokkinn hef ég kosið og hvorgugan býst ég við að kjósa meðan ég held sönsum en ég tek undir það sem hér segir um fúkyrðaflauminn. Ókurteisi, níð, illmælgi og ómálefnaleg stóryrði eru ljótur blettur á fjölmiðlunum og samfélaginu. Þeir sem hafa góðan málstað geta notað kurteislegt orðfæri og málefanleg rök. Hinir geta kosið þann góða kost að þegja.

Höfundur