Mánudagur 04.06.2012 - 14:32 - Lokað fyrir ummæli

Tröllið í hellismunnanum!

Ég hef ekki ánetjast neinum forsetaframbjóðenda.  Hoppaði ekki á Þóruvagninn og geri það tæpast úr þessu.  Gæti frekar hugsað mér Herdísi sem forseta vegan þekkingar hennar á mannréttindum, stjórnmálafræði, heimspeki og lögfræði. Góð menntun fer þar saman við, að því er virðist ágæta dómgreind og að því er séð verður þokkafullt útlit og ágæta framkomu.  Ég er líka svolítið skotinn í framboði  Ara Trausta.  Þar er minn Kristján Eldjárn, hæglátur, yfirvegaður og vel að sér um margt ekki síst íslenska menningu og íslenska jarðskorpu.  Ásamt sitjandi forseta finnst mér þau tvö koma helst til greina með fullri virðingu fyrir Þóru, Hannesi og Andreu.

Afleiðingin af  endurkjöri  Ólafs yrði auðvitað sú að að einhverju leyti myndi kosningapendúllinn leita miðjunnar með því að sveiflast til vinstri í næstu þingkosningum( frá því sem kannanir gefa til kynna).  Að sama skapi finnst mér margir Samfylkingarvinir mínir brattir að styðja Þóru jafn ákaft og þeir gera  því að kjör hennar myndi verka samsvarandi á kjósendur með öfugum formerkjum.

En því miður er slagurinn búinn.  Bloggarar og álitsgjafar hugsa ekki eins og fólkið í slorinu sem er búið að ákveða að Ólafur sé bestur.  Hann sé tröllið í hópnum og tilvera okkar sé öruggust með hann í hellismunnanum.  Hann verji okkur fyrir hvers kyns óvættum og setjist á óstýriláta hellisbúa. Við hin sem efumst getum samt huggað okkur við það að Bessastaðir eru enn eins og á tímum Jóns Hreggviðssonar svolítil dýflissa og sá sem er þar er um margt bundinn á höndum og fótum þó að Ólafur hafi verið furðu seigur að losa um reimarnar eftir að keppinautum hans hafði verið komið fyrir í sendiráðum eða í Fljótshlíðum eða á blaðsneplum og enginn hefur neitt í hann lengur.

En gaman væri nú ef ,,allri óvissu“ væri eytt innan skamms  og við gætum haft nýjar kosningar milli Herdísar, Þóru og Ara Trausta því að hvert þeirra um sig gæti orðið fyrirmyndarfangi á Bessastöðum.  Það er kominn tími á að gefa föllnum frambjóðendum framhaldslíf en kasta þeim ekki út á fertugt dýpi gleymskunnar eins og siður hefur verið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur