Sunnudagur 21.10.2012 - 20:35 - Lokað fyrir ummæli

Viljum breytingar í stað stöðnunar!

Sú staðreynd að Þjóðkirkjan skyldi haldast inni í hinni ráðgefandi atkvæðagreiðslu gefur til kynna að það hafi ekki verið róttækingarnir sem héldu á kjörstað heldur góður þverskurður af þjóðinni og  ekki síst sá hluti hennar sem heldur uppá gömul og góð gildi. Það ætti að vera þeim umhugsunarefni sem sífellt hafa allt á hornum sér þegar kemur að breytingum á stjórnarskrá.

Jafnmikið gleðiefni og niðurstöðurnar voru þeim sem vilja lifa tíma breytinga í stað stöðnunar þá er það erfitt að horfa upp á menn og flokka sem móast í sífellu við.  Það er held ég ömurlegt  hlutskipti að kjósa sér.  Er nú ekki tíminn til þess að endurhugsa lýðræðið, tryggja þjóðareign á auðlindum, festa í sessi trúfrelsi, læra af fortíðinni og líta til framtíðar.  Sem betur fer virðast flestir á þeirri skoðun.

Hvað varðar Þjóðkirkjuákvæðið er nauðsynlegt að mínum dómi að árétta það í stjórnarskrá að önnur trúfélög og lífskoðunarfélög en þjóðkirkjan skuli studd með sambærilegum hætti og hún og trúfrelsisákvæðið ber að árétta og virða.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur