Mánudagur 14.5.2012 - 09:38 - Lokað fyrir ummæli

Stund milli stríða í sjoppum!

Í sandstormi á Skeiðarársandi og Mýrdalssandi. Stund milli stríða í sjoppum. Tvisvar komu menn upp að mér með gamalkunnugt blik í auga. Hann var flottur forsetinn á Bylgjunni í morgun. Gamli Ólafur kominn aftur. Sá lét ÞÁ heyra það. Sennilega veit minn gamli tutor hvað hann er að gera. En mér finnst að vinstrið ætti að taka Ólaf á orðinu. Kvótann í þjóðaratkvæði.  Ekki bara frumvarpið sem nú liggur fyrir heldur meginlínur.  Það ætti að vera allra vilji og hagur. Bæði þeirra sem eru sakaðir um að vilja rústa landsbyggðinni og hinna sem vilja standa vörð um lítt breytta skipa og eru sakaðir um að hafa hag sinn en ekki þjóðar að leiðarljósi.  Meini menn eitthvað með lýðræðishjali sínu þá fylgja þeir lausn á borð við þessa.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 12.5.2012 - 11:54 - Lokað fyrir ummæli

Tímabærar breytingar á stjórnarráði!

Kominn tími til að fækka ráðuneytum og endurskipuleggja innviði stjórnarráðsins.  Svo einkennilega sem það hljómar þá þandist báknið út á tímum hægri stjórna. Nú bregður svo við að barist er af krafti gegn breytingum. Að hluta til er þetta sama fólkið og barðist gegn því að kvöldfréttir yrðu færðar til og móast gegn öllum breytingum en að hluta til harðsvíruð stjórnarandstaða sem leggst gegn öllu sem kemur frá ríkisstjórninni.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.5.2012 - 14:04 - Lokað fyrir ummæli

Er Selfoss höfuðstaður Suðurlands?

Selfyssingar hyggjast segja sig úr Skólaskrifstofu Suðurlands, sameiginlegri skólaskrifstofu fjórðungsins staðsett á Selfossi.  

Undanfarna áratugi hefur Selfoss verið að byggjast upp sem höfuðstaður Suðurlands og notið þar miðlægrar staðsetningar sinnar. Þar eru flestar stofnanir sem þjóna öllum fjórðungnum svo sem sjúkrahús, lögregla, vegagerð já og samtök sveitarfélaga og skólaskrifstofa. Er þá fátt eitt talið. Þá er þar miðstöð verslunar og þjónustu fyrir fjórðunginn allann.  Selfoss og fólkið þar byggir tilveru sína mestanpart  á þessu höfuðstaðarmiðjuhlutverki sínu.

Það kemur því í besta falli undarlega fyrir sjónir að þeir treysta sér ekki til að vera með í skólamálum.  Á því sviði er einmitt þörf á samstöðu og forystu.  Segi Selfoss  sig frá þáttöku eru þeir í raun að  afsala sér forystuhlutverki sínu almennt talað því að enginn vill púkka upp á þann sem bara vill vera með þar sem hann sjálfur græðir.

En kannski hugsa þeir sig betur um.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.5.2012 - 11:08 - Lokað fyrir ummæli

Málþófsandlit!

Það er undarlegt að vitibornir þingmenn láti etja sér út í málþóf.  Þeir sem tóku þátt í málþófinu tóku það að sér að verða andlit hins vonlausa Alþingis, andlit vondra vinnubragða, andlit þeirra sem eru úr takti við tímann. Málþófsandlit.  Menn gera kannski sitthvað fyrir forystu flokka sinna með von um ávinning síðar en það er dýrkeypt að verða fyrir vikið andlit þess sem við viljum gjarnan losna við. Málþófsandlit.  Þeir sem halda um spottana koma svo lítið nálægt slíku sem von er.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.5.2012 - 18:33 - Lokað fyrir ummæli

Hin nýja Viðreisn Jóhönnu!

Þegar ég lít til baka virðist mér að Viðreisnarstjórnin (1959-1971) hafi verið ein besta ríkisstjórn lýðvelisins. Hún valdi samningaleið til þess að binda enda á deilur við Breta. Hún opnaði landið með þátttöku  í Fríverslunarsamtökum Evrópu. Stjórnarandstaðan Framsókn og Alþýðubandalag börðust með oddi og egg gegn opnun landsins og friðsamlegum lausnum á deilumálum.  Sennilega hefur Bjarni heitinn Benediktsson verið bæði framsýnn og vitur og ekki má gleyma Gylfa Þ. Gíslasyni og öðrum Alþýðuflokksmönnum en Kratar hafa ávallt verið fylgjandi frjálsræði og friðsemd.

þá finnst mér ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur með þeim bestu einfaldlega vegna þess að hún afgreiddi okkur hratt og vel upp úr hruninu.  Hún minnir óneitanlega á Viðreisn en Sjálfstæðisflokkur hins nýja Bjarna Benediktssonar hefur tekið sér sviplíka stöðu og Framsókn og Alþýðubandalagið höfðu á sjöunda áratugnum. Í því hlutverki er Bjarni þó langt í frá sannfærandi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.5.2012 - 19:18 - Lokað fyrir ummæli

Skandall í Héraðsdómi!

Ef frétt sjónvarpsins um flóttabörnin sem dæmd voru í fangelsi fyrir að framvísa fölsuðum skilrïkjum  er rétt ættu Íslendingar að skammast sín. Um meðferð á flóttabörnum eru í gildi sáttmálar og íslensk stjórnvöld hafa fengið í hendur leiðbeiningar um meðferð slíkra mála þar sem aðstæður barnisins eru í forgrunni. Íslensk stjórnvöld hafa einnig, minnir mig, verið beðin um að fræða dómara betur um alþjóðleg viðmið í þessum efnum. Virðist ekki veita af. Að öðru leyti vísast til síðustu færslu minnar og Braga Guðbrandssyni skal hrósað fyrir það að andæfa þessum skandal.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.5.2012 - 09:48 - Lokað fyrir ummæli

Það sem þér viljið að aðrir…..um flýjandi börn!

Nú virðist ekki ljóst hvort setja eigi 15 ára flóttamenn í fangelsi. Forstjóri Barnaverndarstofu telur það óásættanlegt.  Auðvitað er það óásættanlegt. Hafi einhverjum  embættismanni eða dômara dottið annað í hug þá er um að ræða óásættanlega heimsku.

Annars þurfa Íslendingar  ekki að finna upp hjólið í þessum efnum.  Evrópuþjóðir hafa í sameiningu komið sér saman um hvernig fara eigi með börn sem koma flýjandi. Í stuttu máli þá eigum við að fara með þau eins og við vildum að farið yrði með okkar börn í samskonar aðstæðum.  Í skýrslum ECRI er að finna ráðleggingar í þessum efnum.  Við eigum einfaldlega að fylgja þessum reglum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 2.5.2012 - 09:35 - Lokað fyrir ummæli

Eflum Mannréttindadómstól Evrópu!

Íslendingar áttu að vera í hópi þeirra þjóða er  vildu efla Mannréttindadómstól Evrópu á árunum fyrir hrun en voru það ekki. Íslendingar hefðu átt að vera í hópi þeirra þjóða sem vildu einfalda málsmeðferð stólsins en voru það ekki og lögðust þar á sveif með Rússum.  Ég skil málin þannig að hægri sinnuð íslensk stjórnvöld hafi aldrei verið hrifin af yfirþjóðlegu dómsvaldi.  Vonandi hafa mannréttindasinnuð íslensk stjórvöld breytt um kúrs. Nú hrúgast mál upp fyrir dómstólnum og kemur m.a. niður á Íslendingum sem vilja skjóta málum sínum þangað. Reynslan sýnir einnig að framfarir í mannréttindamálum verða til vegna dómsins og raunar á flest það er til framfara horfir í réttindamálum upptök sín í fjölþjóðlegum fyrirbærum.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.4.2012 - 10:10 - Lokað fyrir ummæli

Mismunun í körfubolta?

Ég sé að körfuboltamenn ætla að takmarka það hve margir erlendir leikmenn megi vera inná í einu í leikjum. Tveir. Vonandi gæta þess þeir í regluverki sínu að frjálst flæði vinnuafls er innan Evrópska efnahagssvæðisins og þess að engum má mismuna á grundvelli þjóðernis.  Fái erlendur maður, sama hvaðan er, að dvelja á landinu fæ ég ekki séð hvernig hægt er að meina honum að vera í körfuboltaliði? Ríkisborgararéttur er ekki almennt skilyrði.  Ennfremur fæ ég ekki séð í fljótu bragði að reglur um að skipta mönnum útaf og inná eftir þjóðerni standist. Við lifum á tímum þar sem íslenskt og útlenskt er ekki jafn einfalt og áður. En kannski hafa körfuboltamenn tekið tillit til alls þessa. En eitt enn: Mismunandi reglur í karla og kvennabolta ögra enn einni nútímahugsuninni. Konur eru settar á par við stráka í næstefstu deild hvað reglur varðar.

Höfundur er unnandi og stuðningsmaður körfubolta.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 23.4.2012 - 23:25 - Lokað fyrir ummæli

Hatur og illindi grafa um sig!

 Öllum má ljóst vera að hér á landi eiga sér stað harðvígustu hagsmunaátök síðan á landnámsöld.  Það er  tekist á um Ísland af fullri hörku og ekkert gefið eftir.  Hatur og illindi grafa um sig og dómurinn yfir Geir Haarde og einkum viðbrögðin við honum bæta gráu ofaná svart og gefa innsýn inn í  tilfinningar sem skera og særa fjölskyldur og vinahópa enda var tekist á um æru manns.  Aðdragandi hrunsins og hrunið sjálft  er orsakavaldur þessarar þjóðarógæfu og í dag er ljósar en fyrr að okkur hefur ekki tekist að vinna úr afleiðingum þess með skaplegum hætti.  Staffírugastir eru þeir sem mesta ábyrgð bera á því hvernig fór og sennilega er þjóðin of lítil og með of misvísandi og margklofna hagsmuni til þess að hún geti nokkurn tímann unnið úr málum sínum.  Þegar betur er að gáð hefur hinum norsku flóttamönnum og mannræningjum sem hingað komu aldrei tekist að byggja hér upp viðunandi samfélag. Leit reyndar vel út um hálfrar aldar skeið þegar við skiptum út Dönum og fórum undir verndarvæng Bandaríkjanna en á þeim tíma gróf um sig klíkuskapur og flokksdindlastarfssemi sem steypti okkur í þá ógæfu sundurlyndis, haturs og illinda hvar við erum nú stödd.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur