Mánudagur 23.04.2012 - 23:25 - Lokað fyrir ummæli

Hatur og illindi grafa um sig!

 Öllum má ljóst vera að hér á landi eiga sér stað harðvígustu hagsmunaátök síðan á landnámsöld.  Það er  tekist á um Ísland af fullri hörku og ekkert gefið eftir.  Hatur og illindi grafa um sig og dómurinn yfir Geir Haarde og einkum viðbrögðin við honum bæta gráu ofaná svart og gefa innsýn inn í  tilfinningar sem skera og særa fjölskyldur og vinahópa enda var tekist á um æru manns.  Aðdragandi hrunsins og hrunið sjálft  er orsakavaldur þessarar þjóðarógæfu og í dag er ljósar en fyrr að okkur hefur ekki tekist að vinna úr afleiðingum þess með skaplegum hætti.  Staffírugastir eru þeir sem mesta ábyrgð bera á því hvernig fór og sennilega er þjóðin of lítil og með of misvísandi og margklofna hagsmuni til þess að hún geti nokkurn tímann unnið úr málum sínum.  Þegar betur er að gáð hefur hinum norsku flóttamönnum og mannræningjum sem hingað komu aldrei tekist að byggja hér upp viðunandi samfélag. Leit reyndar vel út um hálfrar aldar skeið þegar við skiptum út Dönum og fórum undir verndarvæng Bandaríkjanna en á þeim tíma gróf um sig klíkuskapur og flokksdindlastarfssemi sem steypti okkur í þá ógæfu sundurlyndis, haturs og illinda hvar við erum nú stödd.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur