Sunnudagur 9.1.2011 - 14:28 - 4 ummæli

Silfrið: Beið eftir Bítlunum..!

Virkilega góð útvarpsprédikun hjá Sigrúnu Óskarsdóttur presti í Árbæjarkirkju í útvarpinu í morgun.  Kristur í prédikuninni vappandi um á meðal vor í mynd kærleika og umhyggju.  Engra lykilorða krafist, opið öllum.  það eru nokkrir athyglisverðir prestar uppi nú um stundir.  Við þurfum einn af þeim í Skálholt. Sigrún væri eftirtektarverður kandidat í það embætti.  Notalegt að sjá Eið Guðnason og Svavar Gestsson í Silfrinu.  Ég fylltist af nostalgíu og beið eftir Bítlunum og Rolling Stones.  En ég þakkaði fyrir að vera laus við Framsóknarflokkinn þegar fulltrúi hans byrjaði að tala í ESB umræðu um útlensk glæpagengi. Hó, Hó er ekki Frjálslyndi flokkurinn dottinn út af þingi?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.1.2011 - 16:48 - 10 ummæli

Hallærisgangur í VG

Orðhengilsháttur fulltrúa VG þessa dagana þegar þeir eru að reyna að fela vandræðagang sinn fyrir kjósendum er hallærislegur.  Þeir fara undan spurningum í flæmingi eins og hræddir ófleygir fuglar. Annars a allt í pólitíkinni á að vera fyrir opnum tjöldum. Þingfundir eru opnir. Bæjarstjórnarfundir eru opnir. Það eiga þingnefndarfundir líka að vera.  Flokksráðsfundir eiga að vera opnir.  Þingflokksfundir sömuleiðis.  Hvað er fólk að fela með öllum þessum lokuðu fundum?  Hörð skoðanaskipti. Ríkisleyndarmál?  Nei, það er að undirstrika vald sitt. Lokaðir fundir eru í ætt við fornar launhelgar trúarbragðanna og eiga ekkert skylt við ,,nýtt Ísland“ eða betri siði í stjórnmálum.  Það sem ekki má segja fyrir opnum tjöldum eiga kjörnir fulltrúar ekki að segja.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.12.2010 - 14:52 - 15 ummæli

Fólk ársins: Steingrímur og Jóhanna!

Ég held mig enn við það að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sé ein sú besta sem við höfum haft lengi.  Ofaní allt rausið og nokkra heilaga anda yst á öðrum kantinum er henni að takast hægt og örugglega að mjaka okkur upp úr kreppunni.  Þessi einkunnagjöf mín hefur hins vegar farið fyrir brjóstið á mörgum sem eru aldir upp við það að prestar geti aðeins verið pólitískir til hægri.  Annað hvort blessað með þögninni eða með því að sitja í flokksráðum og kjördæmisráðum.  Gamlir Framsóknarmenn vinir sem hafa ævilangt verið aldir á því fóðri að kratar væru illþýði hafa hins vegar sagt mér að ég væri að ganga af göflunum.  Sagt hef ég þeim að enn kynni ég vel við Hriflu Jónas en teldi tímabært að taka ný skref. Hins vegar tek ég ég það aftur að stjórnarandstaðan sé sú versta frá landnámi en er á því að hún sé sú ósanngjarnasta sem setið hefur.  Hún er eins og strákahópur sem rústar kastalanum og hrópar svo í sífellu að þeim sem eru að byggja hann upp aftur í stað þess að fara heim og gráta svolítið.  Sjálfum stjórnarsinnunum finnst svo skrítið að þeir skuli vera við völd að þeir eru hálf vandræðalegir nema Steingrímur J. Sigfússon sem er auðvitað á góðri leið með að verða samtímahetja og þess vegna verður einskis látið ófreistað að koma honum á kné.  Ég sé hann fyrir mér sem leiðtoga öflugs miðju-vinstri bandalags þar sem Guðmundur Steingrímsson kæmi einnig við sögu ásamt hugsanlega Guðbirni tenór.  Menn eiga að losa sig undan fjötrum fortíðar með því að berja afsér steypuna sem bindur þá við húsgrunna sem ættu með réttu fyrir löngu að vera komnir úr alfaraleið.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.12.2010 - 11:49 - 6 ummæli

Úr prédikun dagsins í Strandarkirkju!

,,Mér finnst að það hafi verið svona skilyrði eins og í dag  sem þeir hrepptu sjómennirnir sem byggðu þessa kirkju, myrkur, fimbulkuldi, rok, hríð eða rigning, ógnvænleg ölduhæð og hvert er síðasta ráðslag mannsins. Biðja Guð um hjálp.  Þegar ekkert virðist framundan nema hin kalda gröf.  Þegar smæð mannsins er átakanleg gagnvart hinum heljarþrungnu náttúruöflum.  Þá er ekki nema eitt viðbragð eftir.  Að ákalla Guð sinn og það gerðu menn, held ég, af innsta hjartans grunni enda hafði hann fylgt þeim frá fyrstu bernsku, bænir og húslestra og skilyrðislausa trú höfðu þeir fengið í uppeldisarf.  Og ljósið kom. Að þessu sinni þessa heims. Kannski kemur ljósið alltaf þessa heims eða annars. Sú er trú okkar og mér finnst hún hafa styrkst á undanförnum árum þegar vísindamenn stíga fram með nýjar og nýjar upplýsingar um mikilleik veraldarinnar.  Hinn þekkti heimur telur nær óteljandi stjörnur og ljósið er mörg þúsund ár að berast.  Sé þessi heimur endanlegur geta verið margir slíkir heimar þar fyrir utan í það óendanlega því að EKKERT er vitaskuld ekki til eða hvernig ætti það að vera? Hnötturinn okkar, já sólkerfið allt með Merkur, Venus, Jörð, Mars, Júpiter, Satúrnus, Úranus og Plútó og Sólinni er eins og bátur mannanna hér fyrir utan fyrir augnabliki á mælikvarða eilífaðarinnar, óendanlega lítill í hinu mikla hafi.

Ég fékk trefil í jólagjöf, seðlaveski, bókina svar við bréfi til Helgu, sem er snilld, helling af föndri úr skóla og frístund.  Nytsamlegt var sumt af þessu en best var bara að fá gjafirnar.  Finna það að þú áttir einhverja að sem gáfu þér gjafir.  Þú hafðir að vísu búið flest af þessum gefendum til en hvað um það.  Þeir voru þarna, hluti af þér og með þér og svo gjafir og póstkort frá vinum nær og fjær.  Yfir mann fellur elskuværð að vita af öllum þessu fólki svo nánu.  Vonandi hafið þið kirkjugestir upplifað svipaða elsku.  Þannig eru Jólin og eiga að vera. Við sýnum hvort öðru kærleika og allt um vefjandi samstöðu.  Maðurinn er ekki einn og við skulum vona að enginn hafi gleymst og allir hafi lagt á hilluna gamlan ágreining, frosna samskiptafarvegi.  Maðurinn er ekki einn eins og við erum örugglega ekki ein í alheimi.  Trú mín á það að ekki sé allt sem sýnist íveröldinni hefur a.m.k. styrkst við að heyra um ómælisvíddir himingeimsins og hugmyndir um að mannsheilinn skynji bara þrjár víddir af níu sem þýðir með öðrum orðum að fjöldamargt er að gerast hér mitt á meðal vor. Kannski erum við nákvæmlega hér í stórborg annarrar víddar nema 17. öldin sé hér mitt á meðal vor líka eða veröldin eftir hálftíma og messan nýbúin í þeirri vídd og útskýrir allt þetta hvers vegna sumir sjá og heyra það sem aðrir sjá ekki og heyra.

Þessar vísindalegu staðreyndir þ.e. a.s. stærð alheimsins, sem auk þessa hefur tímavídd sem er okkur óskiljanleg útrýma ekki Guði. Þvert á móti kalla þessar staðreyndir ekkert síður á svör um tilgang, þær sýna enn betur en fyrr mikilleik sköpunarinnar, ótrúlega vídd hennar og mikilfenglegheit. Víddir heimingeimsins virðast óendalegar en sjálfsagt er allt einfalt og auðskilið þegar allt lýkst upp fyrir mönnum eins og er um allt.“

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 25.12.2010 - 12:02 - 1 ummæli

Úr jólaprédikun í Hjallakirkju í Ölfusi

,,Hér ríkir ekki fátækt á Afríkanskan mælikvarða þar sem fólk borðar grauta mánuðum saman en hér er félagsleg fátækt. Fólk getur ekki veitt sér það sem það telur að það eigi að geta veitt sér á jólum og það telur að aðrir geti veitt sér og daglega horfir fólk í sjónvarpi á glæsilegan neysluheim.  Víða er veskið tómt fyrir miðjan mánuð.  Hér hefur eftir hrun myndin orðið sú aðþeir sem eru á lægstu laununum eða bótunum geta ekki tekið þátt í þeirri veröld sem miskunnarlaust er otað að okkur og okkur talin trú um að sé normið.  Af þessu sprettur lífsharmur. Þetta er ekki bara vandamál tiltekins fólks heldur samfélagsins alls ekki síst með tilliti til barnanna sem við sem gamlir og góðir Íslendingar viljum að vaxi upp við svipaðan hlut. Við erum að lifa tíma Íslendingar sem eru örlagaríkir.  Tekst okkur að komast upp úr öldudal hrunsins sæmilega sátt við hvort annað í samfélagi sem við getum verið stolt af eða mun hér ríkja skálmöld, óeining og ósætti um ófyrirsjáanlega framtíð.  Þar mun ráða miklu hvort að kristin kirkja fær að njóta sín með grundvallargildi sín um trú, von og kærleika og jafnan rétt allra.  Sá trúar- og menningararfur sem þjóðin á í kristninni gæti reynst okkur dýrmætur þegar á bjátar.  Jafnt í blíðu og stríðu er hann hollt veganesti.  Ekki vegna þess endilega að hann sé betri en einhver annar arfur, heldur vegna þess að þetta er okkar arfur, okkar leið til að tengjast hvort öðru, tengjast fortíðinni, tengjast almættinu, okkar aðferð til að hugsa um lífið og verðmætustu gildin, okkar saga, okkar veruleiki  sem jafnframt skal vera þannig að hann meti til fulls jafnræðis lífsýn annarra sem aldir eru upp í öðrum trúarkerfum eða vilja standa utan slíkra.“

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.12.2010 - 18:43 - 4 ummæli

Jólakveðja

Sendi öllum vinum mínum og kunningjum firnagóðar jólakveðjur með þakklæti fyrir samskiptin á árinu sem er að líða og með von um farsæl samskipti á ári komanda Kv.  baldur

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.12.2010 - 13:14 - 5 ummæli

Skortur á virðingu fyrir börnum?

Sonur minn átta ára hefur farið í sund með vinum sínum allt þetta ár eða einn í sund eins og það er kallað.  Nú um áramótin ganga í gildi reglur sem kveða á um 10 ára aldursmark.  Skynsamlegt hjá Svandísi Svavarsdóttur – hún óttast það eins og ég að börnin fari sér að voða.  Frá áramótum má sonur minn sem sagt ekki fara ,,einn“ í sund allt næsta ár, þó hann hafi elst um eitt ár á árinu svo sem vera ber,  þangað til að hann verður 10 ára.  Og nú er ég loksins kominn að efni pistilsins. Ef þetta hefðu verið reglur fyrir fullorðna þá hefði sennilega komið aðlögunartímabil þ.e. a.s. þeir sem voru komnir menn réttinn til að fara í sund  héldu honum.  Þannig hefði aldursbilið verið fært upp um eitt ár núna og annað næst.  Athugull starfsmaður sundlaugar, sem er líka á því að hækka beri aldurmarkið,  benti mér á að þetta væri dæmi um hugsanlega ólíka framkomu gagnvart börnum annarsvegar og fullorðnum hins vegar.  Hér væri sem sagt dæmi um kerfislægan skort á virðingu gagnvart börnum að ræða. Er þetta ekki rétt athugað?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.12.2010 - 10:50 - 12 ummæli

Leikskólakirkjuferð á aðventunni

Leikskólinn er að koma í Kirkjuheimsókn.  Að frumkvæði leikskólans. Þetta hefur gengið svona fyrir sig síðan ég kom hér. Leikskólinn kemur á aðventunni. Ég spjalla við krakkana í svona tuttugu mínútur, síðan syngjum við nokkur lög. Við kunnum marga sameiginlega söngva, mörg hafa verið í sunnudagaskólanum, önnur lög eru úr sameiginlegum jóla eða aðventuarfi þjóðarinnar.  Fimmtungur til fjórðungur barnanna eru af erlendu bergi brotin. Sum þeirra hafa sótt kirkju.  Foreldrar þeirra eru kaþólskir.  Önnur eru alin upp við Allah, þarna er Hindúi og svo eru börn alin upp án trúar þ.e. foreldrarnir vilja komast hjá því að nokkrar trúarklisjur setjist að í huga barnsins.  Allt þetta er í huga prestsins þegar hann segir söguna af Jósef og Maríu og hirðunum og vitringunum og talar um jólin meginhátíðina í vestrænum kultúr.  Börnin verða að fræðast um frásagnir þessar og um jól og jólasiði og það getur verið eðlilegur liður í uppeldi og fræðslu barna að sýna þeim kirkjuhúsið og gefa þeim innsýn í það sem þar fer fram, ekki síst í aðdraganda jólanna þegar samfélagið fer á jólahvolf. Það má segja að það sé hluti af þeim samhristingi (integration) sem fram fer í fjölmenningarsamfélagi.  þetta er a.m.k. skilningur þess skólafólks sem ég hef kynni af og um leið skilningur minn, félagsfræðingsins sem fór í guðfræði.

En þetta er auðvitað vandmeðfarið eins og flest og ekki sama hvernig þetta er gert.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.12.2010 - 19:52 - 2 ummæli

Þegar líður að jólum…..

 Það liggur við að ég verði trúaður þegar líður að jólum, barnatrúaður.  Trúi bæði á Jesú og jólasveinana.  Í þriðja bekk Grunnskólans í Þorlákshöfn eru menn á því að jólasveinarnir séu ekki til lengur en hafi verið til í gamla daga. Þeir, spekingarnir þar, eru ekkert farnir að velta fyrir sér Jesú.  Hann er ennþá fastur í sessi, öruggur í sínu hásæti.  Á Egilsbrautinni er fók almennt á því að jólasveinarnir hafi aldrei verið tilí alvöru en það er aftur farið að taka Jesú í sátt eftir volk manndómsáranna þegar unnið var myrkranna á milli fyrir fæði og klæðum og híbýlum.  Sumir misstu reyndar aldrei barnatrúna, hjá öðrum lá hún í dái og enn aðrir höfnuðu henni algjörlega. Í Háaleiti sér frúin um það að útrýma efanum þegar hann gerir vart við sig hjá honum sem fær borgað fyrir að trúa.  Hún ætti að vita þetta dýralæknirinn, stöðugt að aflífa.  Segir ekki Guðmundur Kristinsson í fyrri bók sinni að öll dáin dýr fari í sama himnríkið, svona skepuhimnaríki, nema heimilsihundarnir, kettir og páfagaukar  og uppáhaldshestar sem fylgja eigendum sínum.  Dásamlegt ekki satt og ekkert svo erfitt að trúa því að nóg er plássið.  Hinn þekkti heimur telur margar trilljónir stjarna og ljósið er mörg þúsund ár að berast og fer þó ekki hægt.  Sé þessi heimur endanlegur geta verið mörg trilljón slíkra heima þar fyrir utan í það óendankega því að EKKERT er vitaskuld ekki til eða hvernig ætti það að vera?

Þar fyrir utan geta verið til óteljandi heimar á öðrum bylgjusviðum oni okkar heimi sem sagt. Þarna kemur skammtafræðin til sögunnar sem enginn maður skilur.  Forseti hins konunglega breka vísindafélags komst í fréttirnar á árinu þegar hann hélt því fram að við áttuðum okkur svipað lítið á heiminum og fiskur í fiskbúri í stofunni hjá okkur áttaði sig á samfélaginu fyrir utan stofuna.  Getu mannsheilans til að átta sig á veröldinni væru sem sagt takmörk sett. Það má því trúa ýmsu og það kýs ég að gera á meðan aðrir kjósa að trúa engu öðru en því sem sanna má vísindalega eða sjá eða þreifa á eða heyra í.

Með þessu er ég ekkert að segja að jólaguðpspjallið lýsi hlutunum eins og þeir gerðust í raun og veru, En þetta er ákaflega falleg saga og ég var á jólaskemmtun Grunnskólans um daginn og krakkarnir í þriðja bekk,  þessi sem efast um að jólasveinninn sé til lengur, léku þetta listavel. Mikið eru nú þetta duglegir kennarar sem sjá um börnin, að nenna þessu.  Líklega hefði þetta verið bannað í Reykjavík.  Það var gott að við sameinuðumst ekki Reykjavík en Hveragerði er enn laus.

Við skulum sem sagt gefa okkur jólunum á vald. Leggjast í þau eins og við leggjumst í heitan pott.  Ekki til að éta og drekka heldur til að lauga sálina, kjarnann í okkur.  Gefa okkur fegurðinni og gleðinni á vald.  Leyfa engu öðru en því góða að komast að.  Og hringja bara í lækninn eða prestinn eða besta vininn ef þetta ætlar að verða okkur ofviða.

Svo stökkvum við á fætur á nýju ári og heimtum réttlátt samfélag. Þegar öllu er á botninn hvolft fjallar jólaboðskapurinn um réttlæti.

Og af því að þetta er áramótablað líka þá vil ég þakka Bæjarlífi gott samstarf árinu.

(Birtist í Bæjarlífi, blað gefið út í Þorlákshöfn)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 19.12.2010 - 11:48 - 4 ummæli

Hugvekja í aðdraganda jóla!

Framarlega á aðventunni var ég viðstaddur í Skálholtsdómkirkju útför sómamanns,  Sigurðar Sigurðarsonar vígslubiskups og er það svo sem ekki í frásögu færandi þar sem Sigurður er látinn og ég þekkti hann nægilega vel til þess að bregða mér í Skálholt til að fylgja.

Sigurður hafði bæði útlit, yfirbragð og menntun til að verða biskup og þess vegna biskup Íslands ef aðstæður hefðu leitt til þess.  Hann menntaði sig ágætlega í guðfræðum, hafði mastergráðu frá virðulegum Bandarískum háskóla en lagði sig jafnframt alla ævi eftir siðum og venjum kristinnar kirkju, var manna best að sér í því hvernig fara ætti að í helgiathöfnum, fyrir altari, við skírnarrfont, dánarbeð og gröf svo nefndir séu helstu staðir helgiþjónustunnar.  Hann hafði forskot á flesta verandi biskupssonur og fékk því atferlið í æð eða frá fyrstu bernsku.  Að vera biskupsbarn, jafnvel bara prestsbarn, er að breyttu breytenda eins og að vera leikarabarn og fá að fara í leikhúsið á kvöldin þegar aðrir krakkar eru reknir í rúmið.  Þegar góðar gáfur bættust á það sem að ofan er talið var ekki að undra þó Sigurði væri lyft til æðstu metorða innan kirkjunnar. 

Sigurður stóð ávallt með prestum sínum og var þeim góður ráðgjafi og eins og séra Geir Waage komst að orði í líkræðu sinni oft beinlínis vitur í ráðgjöf sinni.

Þetta áttu ekki að verða minningarorð um séra Sigurð.  Ég nefni hann til þess að leiða huga okkar að nauðsyn þess að þekkja og virða og tileinka sér hefðir og venjur en segja má að það hafi verið kjölfestan í lífi og starfi Sigurðar.  Jafnframt því að höndla nýja tíð eigum við að vita hvað var gert, hvernig og hvers vegna. Á aðventunni er ég með jólin í huga skiljanlega. Við eigum að rifja upp og halda við gömlum og gildum íslenskum jólasiðum, aðventusiðum og jólasiðum. Hvert okkar á að rifja upp sín bernskujól og taka það besta með sér áfram.  Okkur Íslendingum hættir til að verða aðeins sambland af ólíkum siðum heimsbyggðarinnar og gleyma okkar eigin enda erum við með lítið sjálfstraust og slæmt minni eins og allir vita.

Ég spyr fermingarbörnin um ótalmargt og horfi mjög gagnrýninn á framkomu þeirra.  Því miður eru þau mörg hver ákaflega illa að sér um hefðbundna umgegnishætti, siði og venjur.  Þau vita lítið í þessa veru og þá er ég ekki bara að tala um kirkjusiði. Ég held að þau börn sem nú eru súpi seyðið af því að þau hafa alist upp í allt öðrum heimi en foreldrarnir sem aftur ólust upp í allt öðrum heimi en þeirra foreldrar.  Það er vinsælt að tala um siðrof. Á tveimur/þremur kynslóðum verður má segja siðrof í samfélaginu.  Samhengið í siðnum rofnar. Það gleymist sem var og enginn veit hvað verður.  Það er ekki lengur ástæða til þess að leggja eyrun við því sem aldinn segir vegna þess að það er úr takt við daglegan raunveruleika. Stökkbreyting hefur orðið í því hvað við fáumst við í vinnu og utan hennar og tæknin sem við notum úreldist næstum því daglega og maður sjálfur um leið.  Ég hef t.d. í allan dag verið að reyna að kveikja á ipad sem ég keypti í búð og er fjarri heimili mínu þannig að sonur minn átta ára hefur ekki getað hjálpað mér.

Þið sjáið hvernig ég nota orðið orðið siðrof bara eftir orðanna hljóðan, siður rofnar.  Má nota um helgisiði, menningu og venjur svo lengi sem menn skilgreina notkun sína en þetta er eitt af þeim orðum sem nú er notað í tíma og ótíma um hvaðeina.

En hvað er nú hættulegt við þetta. Eiga menn að vera fastir í gömlum hjólförum og fjandskapast við allar nýjar hugmyndir sem óneitanlega er venja sumra.  Nei, en segja má að betra sé að fóta sig ef maður veit hver maður er og ótalmargt má læra af feðrunum og mæðrunum.  Kynslóðir vita nokk hvað þær syngja og tóm steypa að kasta því öllu fyrir borð. Sumir spekingar hafa orðað þetta þannig að að fortíð skuli hyggja er framtíð skal byggja. Maður á því að taka það besta með sér og halda þannig vel búinn til huga og handar á nýjar lendur tímans.

Ég var að kenna krökkunum að taka ofan húfuna þegar þau koma í kirkju í virðingarskyni við helgidóminn og viðstaddar konur eins og ég orðaði það svo fagurlega.  Ég hins vegar varð alveg mát þegar þau spurðu mig afhverju stelpurnar þyrftu ekki að taka ofan húfurnar. Nú þykist ég vita svarið.  Undanfarið hef ég verið að reyna að koma mér upp heldri manna útliti með því að ganga um með hatt.  Þetta er allt í lagi úti við einkum í kuldum. En verandi með bónuspoka í annarri og tölvutösku í hinni og ipod milli upphandleggs og rifbeina, eitthvað sem fyrri tiðar menn þurftu ekki að hafa áhyggjur af, hef ég neyðst til að hafa hattinn á mér í Kringlunni og öðrum slíkum mollum. Og það verður að segjast eins og er að það er verulega óþægilegt.  Þér hitnar á hausnum þannig að upp úr sýður næstum.  Ergo:  það er hluti af kvennakúgun aldanna, hluti af áráttu karla að gera líf kvenna eins örðugt og mögulegt er, að láta þær bera hattana úti sem inni. Á meðan við, karlar, gátum um frjálst höfuð strokið hvenær sem við hittum einhvern eða fórum inn þurftu þær blessaðar í samræmi við siðinn að hafa hattinn á sér frá morgni til kvölds. Enda eru konur hættar að hafa hatta og allar hattabúðir búnar að loka.  Áður vann önnur hver kona í Reykjavík í hattabúð og hinar komu og mátuðu. Hattaburður kvenna er dæmi um siðvenju sem lítileftirsjá er í.

Sigurður biskup var nútímamaður en hann lagði rækt við helgisiði og gamla tónsöngva enda tónaði hann vel.  Minningu hans verður best sýndur sómi með rækt við það svið en við almenningur mættum í hans stíl gefa gaum að því sem okkur ætti að vera heilagt án tillits til trúarstigs – gefa gaum að því besta og notadrýgsta sem var.

(Birtist í Dagskránni, blað á Suðurlandi, 16 des. 2010)

Flokkar: Óflokkað

Höfundur