Föstudagur 18.1.2013 - 09:15 - 1 ummæli

Kjósum um þetta

Fréttablaðið birtir könnun um afstöðu Íslendinga til aðildarviðræðnanna. Tæpur helmingur landsmanna virðist vilja ljúka aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.  Þriðjungur vill draga umsóknina til baka og fimmtán prósent vilja gera hlé á viðræðunum og ákveða framhaldið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég tel rétt að setja þessar þrjár spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða Alþingiskosningunum. Þjóðarvilji yrði þá skýr fyrir næstu ríkisstjórn og við getum einhent okkur í að ræða frekar önnur mun mikilvægari mál.

Svo sem verðtrygginguna, skuldamál heimilanna og atvinnusköpun.

Svona til að nefna nokkur…

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.1.2013 - 10:32 - Rita ummæli

Beggi og kartöflublómin

Beggi frændi var einn af þessum yndislegu litríku einstaklingum sem auðga samfélagið á Eyjunni grænu. Til dæmis sá hann lítinn tilgang í skrautblómum í beðum. Beðin hans stóðu þó ekki auð heldur risu þar árlega falleg kartöflugrös. Bónusinn var svo úrvalsuppskera að hausti, sem hans nánustu nutu góðs af.

Um jólin horfði ég á stórskemmtilegan breskan þátt þar sem íbúar sveitarfélags höfðu tekið sig til og plantað grænmeti og ávaxtarunnum í opinber blómabeð og garða. Öllum var svo frjálst að kippa með sér gulrótum, kartöflum, salatblöðum, rófum og laukum. Gætum við tekið þessa hugmynd enn lengra. Af hverju ekki útvíkka skólagarðana yfir í blómabeðin? Kenna unga fólkinu að rækta jörðina? Fá íbúana í þetta líka? Sveitarfélögin?

Mikið held ég að Beggi frændi yrði sáttur, að sjá blessuð beðin koma loksins að raunverulegu gagni.

Flokkar: Matur

Þriðjudagur 8.1.2013 - 12:40 - 4 ummæli

Titringur á stjórnarheimilinu

Skjálftavirkni er aftur hafin á stjórnarheimilinu.  Steingrímur J. Sigfússon talar um að endurskoða aðildarferlið.  Jón Bjarnason vill ekki bjóða sig fram lengur fyrir VG og flokkurinn frestar flokksstjórnarfundi fram yfir afgreiðslu rammans.

Er ætlunin að tryggja afgreiðslu Rammaáætlunar áður en flokkurinn snýst endanlega gegn aðildarferlinu?

Hvað gerir Samfylkingin þá?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 6.1.2013 - 12:27 - 1 ummæli

Forsetinn í Uruguay

Ein mest deilda frétt gærdagsins í NYTimes var umfjöllun um forsetann í Uruguay.

Ekki skrítið.

Sjaldgæft er að lesa um stjórnmálamann sem virðist vera nokk sama hvað öðrum finnst um hann, hans lífsstíl og skoðanir.  Hvað þá þjóðarleiðtoga.

José Mujica leiddi ofbeldisfulla baráttu gegn þáverandi stjórnvöldum í Uruguay, sat árum saman í fangelsi með bara frosk og rottur sem félagsskap, bauð sig svo fram til þings og forseta.  Hann neitaði að búa í forsetahöllinni með fullt af þjónum og valdi frekar að búa áfram í litla húsinu sínu, keyra um á  bjöllunni sinni og gefa mest af launum sínum til góðgerðamála.

Vinsældir hans hafa minnkað eftir að hann vildi lögleiða maríjúana , en hann hefur einnig barist fyrir réttindum samkynhneigðra og kvenna og umhverfisvænni orku.

Að hans mati virkar lýðræðið ekki nema kjörnir leiðtogar sýni meiri auðmýkt.

Kannski eitthvað fyrir okkur að íhuga.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 5.1.2013 - 09:08 - 5 ummæli

„Orðaskipti“ í ríkisráði

Forsetinn sýndi enn á ný fram á sveigjanleika stjórnskipunar Íslands með bókun á ríkisráðsfundi um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá.  Túlkun hans leiddi til „orðaskipta“ og uppskar aðalfrétt RÚV í gærkvöldi.

Í 16. gr. stjórnarskrárinnar er fjallað um ríkisráð. Þar segir: Forseti lýðveldisins og ráðherrar skipa ríkisráð, og hefur forseti þar forsæti. Lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skal bera upp fyrir forseta í ríkisráði.

Í reglugerð um ríkisráð er talið upp hvað eru mikilvægar stjórnarráðstafanir.  Upptalningin er ekki tæmandi, sbr. handbók um ríkisráð. Sá sem veitir ríkisráði forsæti hlýtur að geta tekið upp að eigin frumkvæði málefni sem hann telur mikilvægar stjórnarráðstafanir.

Líkt og áform stjórnvalda um breytingar á stjórnskipun lands.

Ég bíð spennt eftir næsta útspili…

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 4.1.2013 - 11:00 - 22 ummæli

Litla og stóra Samfylking?

RÚV birti nýju fylgiskönnunina.  Helstu fréttir eru að enn bætir í hjá Bjartri framtíð og stjórnarflokkarnir tapa enn.  VG hefur ekki mælst minna í tíu ár en aðrir standa í stað.

Á blogginu tóku Samfylkingarpennar vægan kipp.  Af hverju skyldi það vera?

Í Alþingiskosningunum 2009 fékk Samfylkingin 29,8% atkvæða.  Í dag mælist Samfylkingin með 19,1% og Björt framtíð með 12,3% eða samtals 31,4%, sem er innan skekkjumarka.

Svo jafnast þetta kannski allt út í næstu könnun?

Í sönnum jafnaðaranda.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.12.2012 - 15:25 - Rita ummæli

Árið 2012 í bloggpistlum

Áramót á næsta leiti.  Tími til að líta yfir farinn veg í bloggpistlum með aðstoð Google Analytics.  Ekki endilega vinsælustu pistlarnir en svo sannarlega þeir umdeildustu og mest lesnu.

Í fyrsta sæti situr pistilinn um Snorra í Betel.  Hann veldur enn miklum umræðum á heimilinu um trúfrelsi, fordóma, tjáningarfrelsi og hatur (nú síðast í morgun). Um hvenær mannréttindi eins eru farin að stangast á við mannréttindi annars.

Það var erfitt að skrifa hann, enn þá erfitt að lesa hann.

Ég ákvað að hafa listann í ár topp 20, til að ná inn á listann tveimur af mínum uppáhaldspistlum: Einelti er ofbeldi (flest „like“ á Facebook) og Líf og dauði.  Listinn er því einkar fjölbreyttur: Snorri, Salvör, legslímuflakk, Geir, skuldir, uppljóstranir, Ólafur Ragnar, skuldir, kynjapólitík, skuldir, námsmannaíbúðir.

Var ég búin að nefna skuldir?

Svo í öfugri röð topp 20 árið 2012 sérvalið af ykkur, kæru lesendur:

20. Líf og dauði.

19. Einelti er ofbeldi.

18. Von fyrir þjóðina.

17. Ódýrari námsmannaíbúðir?

16. Hann eða hún?

15. Ekki láta glepjast af úrtölumönnum.

14. „Nú getum við.“

13.  Bréf frá kjósendum.

12. Iðgjöld til lausnar skuldavandanum.

11. Ansi framsóknarleg niðurstaða.

10. Framsóknarfordómar Óttars.

9. Pólitískur forseti.

8. Hætta að rukka lán.

7. Ríkisendurskoðun gegn uppljóstrurum.

6. Synjað af umboðsmanni skuldara.

5. Framtíð á Íslandi?

4. Vonbrigði.

3. Sársauki er ekki sjálfsagður.

2. Salvör í framboð?

1. Réttur Snorra til rangra skoðana?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.12.2012 - 15:43 - 5 ummæli

Viltu kaupa verðbólgutryggingu með þessu?

Í gær bárust fréttir af hugmyndum velferðarráðherra um að flækja enn frekar frumskóg íslenskra húsnæðislána. Þó margt sé enn óljóst varðandi útfærslu þessara hugmynda virðast þær ganga út á að bjóða lántakendum að kaupa sér tryggingu gegn verðbólguskotum. Þannig gætu þeir samið við bankann, eða hvern þann sem byði upp á slíka tryggingu, að greiða árlegt tryggingagjald gegn því að þak væri sett á þær verðbætur sem lagst gætu á lánið.

Þetta hljómar kannski líkt því þaki á verðtrygginguna með almennum lögum sem við andstæðingar hennar höfum kallað eftir, á meðan unnið er í því af alvöru að afnema þetta þjóðarböl á neytendalánum. En við nánari skoðun er þetta bara enn einn plásturinn og vart til þess fallinn að auðvelda íslenskum heimilum að vinna sig út úr vítahring verðtryggingarinnar. Vítahring sem valdið hefur einhverri mestu eignatilfærslu milli kynslóða sem þekkst hefur í Íslandssögunni.

Allir eiga að bera ábyrgð

Hugmyndin um þak á verðtrygginguna snýst nefninlega um að koma hluta af ábyrgðinni á efnahag þjóðarinnar yfir á lánveitendur. Eins og staðan er nú hafa þeir engan sérstakan hag af því að halda verðbólgunni í skefjum og mætti jafnvel rökstyðja þá fullyrðingu að fáir hafi hagnast meira á verðbólgunni en einmitt fjármagnseigendur. Á vefsíðunni actuary.is hefur Jón Ævar Pálmason, verkfræðingur og tryggingastærðfræðingur, tekið saman upplýsingar um þróun eignastöðu mismunandi aldurshópa síðustu 18 ár. Þar má sjá hvernig sjálfhverfa kynslóðin, sem ágætur maður nefndi svo, þ.e. fólk sem fætt er eftir 1970, hefur tapað öllum eignum sínum á síðustu 2-3 árum og gott betur. Sjálfhverfa kynslóðin hefur þannig tapað um 200 milljörðum frá árinu 2008 og skuldar nú samanlagt yfir 80 milljarða króna umfram eignir.

Stór þáttur í þessari eignatilfærslu er einmitt verðtryggingin.

Lítið um aðgerðir

Nú er liðið vel á annað ár frá því nefnd á vegum stjórnvalda, sem ég veitti forstöðu, skilaði af sér ítarlegum tillögum um leiðir til að afnema verðtrygginguna. Meðal þeirra leiða sem meirihluti nefndarinnar lagði til var að setja þak á hækkun verðbóta, endurskoðun á ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna og nýtt húsnæðislánakerfi að norrænni fyrirmynd. Enn hefur lítið frést af aðgerðum stjórnvalda til að hrinda þessum tillögum í framkvæmd, þó Íbúðalánasjóður hafi fengið lagaheimild til að bjóða upp á óverðtryggð lán í framtíðinni. Nú stekkur svo velferðarráðherra fram á sjónarsviðið í aðdraganda kosninga og leggur til að hægt verði að kaupa tryggingar til að draga úr áhrifum verðbólgunnar á afborganir lána.

Borga núna, eða borga seinna?

En hvað þýðir þessi tillaga í raun? Af þeim litlu fréttum sem borist hafa virðist sem hægt verði að semja um tryggingagjald sem ákvarðast annars vegar af verðbólguvæntingum og hins vegar af því hversu hátt þakið á að vera. Því lægra þak og því hærri verðbólguspá, því hærra gjald. Þannig væri í raun ekki verið að koma neinni ábyrgð að ráði yfir á lánveitendur, heldur væru lántakendur að greiða hluta verðbótanna fyrirfram í formi álags á lánin og hins vegar að færa hluta yfir á þá sem selja tryggingarnar, ef verðbólgan hækkar meira en spár gera ráð fyrir. Enn verri afleiðing af þessu er svo að gegnsæi lánamarkaðarins mun minnka enn frekar. Í stað þess að fólk standi frammi fyrir valkostum um verðtryggð eða óverðtryggð lán, munu lánastofnanir keppast við að fela verðbólguáhættuna á bak við fjölbreytt tilboð um ýmiss konar verðbótaþak og tryggingagjald. Hafi einhver haldið að almenningur stæði höllum fæti gagnvart bönkunum þegar kemur að því að semja um lánskjör mun ástandið aðeins versna með þessu, því vart munu þeir missa spón úr aski sínum við þetta útspil.

Þú tryggir ekki eftir á

Og hvað með þá sem þegar hafa misst allt sitt á verðbólgubálinu? Um þá gildir hið fornkveðna, þú tryggir ekki eftir á. Ekki er gert ráð fyrir að hægt verði að kaupa tryggingu á lán sem þegar hafa verið tekin, heldur aðeins ný lán. Þeir sem þegar hafa tekið lán sitja uppi með tjónið og skulu borga það upp í topp. Og hverjir munu svo hafa efni á að kaupa sér þessa tryggingu? Jú, fyrir utan þá ríku, sem hafa bolmagn til að standa undir þessum aukakostnaði gerir ráðherrann ráð fyrir að ríkið muni aðstoða þá fátæku við að greiða trygginguna í gegn um einhvers konar bótakerfi. Eftir stendur millistéttin, hin svokallaða sjálfhverfa kynslóð og heldur áfram að borga.

Er þetta norræna velferðin?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.12.2012 - 21:55 - 4 ummæli

Flotsokka í stað Stekkjastaurs?

„Eru ekki örugglega stelpur líka jólasveinar?“ spurði sex ára gömul dóttir mín í kvöld um leið og hún skellti sérvöldum skó út í gluggann.  „Af hverju spyrðu?“ sagði ég.   „Nú, tveir strákar í bekknum sögðu að bara strákar væru jólasveinar.

Þessir tveir félagar hennar Snæfríðar minnar eru nefnilega ekki þeir einu sem vita ekki að jólasveinarnir okkar eru ekki 9 eða 13, heldur væntanlega einhvers staðar á bilinu 50-70. Og meira segja í hópi þessara hrekkjalóma má finna vígalega kvenskörunga.

Samkvæmt bókinni Saga daganna voru kvenkynsjólasveinar kallaðir jólameyjar og þær tvær sem nokkuð örugglega má telja að hafi verið kvenkyns, komu af Vestfjörðunum. Var önnur kölluð Flotsokka og kom til byggða rétt fyrir jól. Ef einhver var þá ekki búinn að prjóna sokkinn sinn, stal hún sokknum og fyllti hann af floti sem hún hljópst á brott með. Hin var úr Önundarfirði og hét Flotnös. Hún þurfti enga sokka heldur troð heilum mörtöflum upp í mjög svo víðar nasir sínar.

Svo eru einnig nokkur nöfn jólasveina sem vekja upp ákveðnar efasemdir um kyn þeirra. Úr Steingrímsfjarðarromsunni er m.a. fjallað um Reddu, Sleddu og Klettaskoru og eiga þessi nöfn sérlega vel heima með jafnskemmtilegum nöfnum karlkynsjólasveina eins og Litli Pungur, Lungnaslettir, Lækjaræsir og Bjálfansbarnið.

Það skyldi nú ekki vera Flotsokka sem stingur einhverju í skóinn í nótt,  í stað Stekkjastaurs?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.12.2012 - 14:17 - Rita ummæli

Framboðskynning SV-kjördæmi

Bréf sent á fulltrúa á tvöföldu kjördæmisþingi:

Kæri félagi,

Ungur Framsóknarmaður skrifaði opið bréf nýlega um stjórnmálamenn og traust.  Þar rifjaði hann upp samtal við úkraínska vinkonu sína, og hvernig hún hló að trú hans um að það ætti að vera hægt að treysta orðum stjórnmálamanna. Hennar val byggðist á að velja þann sem hún treysti til að vera minnst spilltur.

Eftir á sat hann hugsi, – að svona vildi hann ekki að Ísland væri. Að hann, líkt og allir aðrir Íslendingar yrði að spyrja sig hversu vel við treystum fólkinu sem er vandlega falið inn á milli „gylltra loforðanna“.

Hverjum við treystum, óháð aldri, kyni, vináttuböndum, búsetu og jafnvel flokksskírteini?

Hverjum við treystum til að bregðast rétt við, halda höfði og taka þær ákvarðanir sem þarf að taka?

Hverjum við treystum til af vinna af heiðarleika, hreinskilni og hafa auðmýkt að leiðarljósi?

Að á endanum snýst þetta um hverjir frambjóðendurnir eru og hvort við getum treyst þeim, ekki bara fyrir okkar eigin velferð, heldur velferð barnanna okkar, foreldra okkar og allra þeirra sem okkur þykir vænst um.

Undir þetta get ég tekið, og voru þessi orð líkt og töluð úr mínu hjarta.

Aðeins með því að gera það sem við segjum og segja það sem við gerum, – getum við byggt upp traust og trú fólks á samvinnu- og framsóknarstefnunni.  Á gildin okkar um samvinnu, sjálfsábyrgð, lýðræði, sanngirni, jafnrétti og samfélagslega ábyrgð,- þjóðinni  til heilla.

Þannig hef ég reynt að nálgast oft erfið og flókin viðfangsefni á þessu kjörtímabili, ekki hvað síst í baráttunni við skuldavanda heimila og fyrirtækja, verðtrygginguna, uppgjör hrunsins og baráttunni fyrir betra samfélagi.  Þannig hef ég nálgast innra starf flokksins og þannig vil ég vinna fyrir ykkur.

Það er einlæg trú mín að saman getum við náð miklum árangri, hér í kjördæminu, og á landsvísu með hugsjónir samvinnunnar að leiðarljósi.

Þar  sem við setjum ætíð manngildi ofar auðgildi og fólk í fyrirrúm.

Á morgun, laugardaginn 8. desember veljum við frambjóðendur í efstu sæti lista okkar Framsóknarmanna í Suðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar í vor.

Ég óska eftir trausti þínu til að leiða þann lista.

Eygló Harðardóttir

——————————

Upplýsingar um tvöfalda kjördæmisþingið

Greinar og pistlar

Um mig

Þingmál 141. löggafarþingi 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Eygló Harðardóttir
og lífið eftir pólitík.
RSS straumur: RSS straumur