Sunnudagur 23.08.2015 - 00:13 - 26 ummæli

„Hvað EF menn hefðu…….“

Vilhjálmur Ari Arason læknir skrifaði aldeilis ágæta grein hér á Eyjuna fyrir stuttu þar sem hann veltir fyrir sér hvaða tækifæri byðust ef menn væru opnari fyrir betri staðsetningu Nýs Landspítala og tekur mið af nýju sjúkrahúsi í Hilleröð í Danmörku sem á að taka við gömlum spítala inni í borginni.

Vilhjálmur virðist hafna fyrirhuguðum bútasaum vegna Landspítalans við Hringbraut og segir m.a.:

„Hvað EF menn hefðu verið opnari fyrir betri staðsetningu Nýs Landspítala en á aðþrengdri Hringbrautarlóðinni, t.d. á Vífilstaðatúninu, í Elliðavogi eða jafnvel Fossvoginum?  Hvað eru önnur sveitafélög í nágrenni Reykjavíkur eiginlega að hugsa?  Sömu aðilar og unnu samkeppni um nýjan Landspítala við Hringbraut, CF Möller, unnu samskonar samkeppni í Danmörku nýlega á Norður-Sjálandi, nánar tiltekið við Nýja Hilleröd sjúkrahúsið. Um er að ræða um 140.000 fermetra húsnæði sem er svipað og heildaráfanginn allur við Hringbraut, en sem kosta á mun minna, eða rúmlega 80 milljarða umreiknað í íslenskar krónur. Það sem er ekki síður markvert að skoða er byggingahraðinn á nýju opnu svæði miðsvæðis þar. Auglýst var eftir hönnunartillögum 2014, framkvæmdir eru nú að hefjast og spítalinn á að vera tilbúinn eftir 5 ár, þ.e. 2020. Hvað EF við hefðum hugsað og farið sömu leið og Danirnir?“

Hér er færsla Vilhjálms í heild sinni:

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2015/08/12/hvad-ef-nyjum-landspitala-er-valinn-betri-stadur/#respond

++++

Það má líka velta fyrir sér til hvers landið og byggingar núverandi spítala yrðu notaðar EF menn hefðu „verið opnari“ fyrir betri staðsetningu Nýs Landspítala?

Það er ljóst á þá hefði landið verið nýtt í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkur AR2010-2030.

Núverandi byggingar fengju hlutverk sem miðbæjinn vantar og mikil eftirspurn er eftir eins og t.a.m.  fyrir hótel.  Í núverandi byggingum  gætu líka verið hjúkrunarheimili eða skrifstofur fyrir veigamikil fyritæki á borð við Landsbankann o.fl.  Gamla aðalbygging Landspítalans fengi eflaust viðeigandi mikilvægt opinbert hlutverk.

Landið sunnan Gömlu Hringbrautar yrði líklega íbúðavæði ef markmið AR2010-2030 fengju að ráða. Þar væri hægt að koma fyrir um 500 stórum lúxus sérbýlum í anda þess sem sýnt er á myndunum að neðan. Þarna gætu búið  nokkuð á annað þúsund manns sem stuðlaði að jöfnun húsnæðis- og atvinnutækifæra í borginni eins og AR 2010-2030 stefnir að.

Efst er mynd sem tekin er úr færslu Vilhjálms Ara Arasonar af nýju sjúkrahúsi í Danmörku og sýnir hvernig sjúkrahús sem byggt er á „besta stað“ (green field) gæti litið út.

Hönnun á sjúkrahúsinu í Hilleröd var boðin út á síðasta ári og byggingin verður tekin í notkun eftir 5 ár.  Alls um 140 þúsund fermetrar sem er svipað og Landspítalinn þarf.

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_16

dezeen_South-Chase-housing-by-Alison-Brooks-Architects_1sq

Víða um heim eru byggðar glæsilegar gæðaíbúðir í lágri þéttri byggð. Eitt þeirra er íbúðasvæði við Essex í Englandi eftir Alison Brooks Architects. Þessi íbúðabyggð fékk nýlega viðurkenningu sem besta nýja íbúðabyggðin í Englandi.

Þetta eru rúmgóð hús á tveim til þrem hæðum með meiri lofthæð en gengur og gerist. Þéttleikinn er 56 íbúðir á hektara sem er mjög mikið á reykvískan mælikvarða. Sérstaklega er eftir því tekið hvað íbúðirnar eru bjartar og samskipti íbúanna og götulíf þægilegt. Húsin eru laus við alla stæla og tilgerð.

Koma mætti 500 íbúðim í þessum gæðaflokki á svæðinu sunnan Hringbrautar ef Nýja Hringbraut og helgunarsvæði hennar er tekið með ásamt landinu undir „þjóðvegasjoppunni“ og umferðamiðstöðinni yrði bætt við.  Á þennan hátt mætti tengja Valssvæðið annarri byggð í borginni á eðlilegan hátt. Og HR tengdist borgarlandinu loks á eðlilegri hátt.

 Lesa má um þessa íbúðabyggð hér:

http://blog.dv.is/arkitektur/2013/07/30/deiliskipulag-i-vatnsmyri-onnur-nalgun/#comments

Myndina að ofan fann ég á veraldarvefnum og var textinn við hana: „Bílastæði-gata-gata-bílastæði-gata-bílastæði“  Myndin og textinn lýsir vel langri röð skipulagsmistaka. Þarna eru miklar götur sem lagðar voru á grunvelli skipulags sem aldrei varð og vonandi aldrei verður. Ef ný Hringbraut hefði ekki verið lögð og gamla Hringbrautin látin nægja þá væri sunnan gömlu Hringbrautarinnar nægjanlegt rými fyrir um 500 lúxus sérbýli í svipuðum gæðaflokki og myndirnar að ofan. .

http://www.nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/upload/images/islenska/verkefnid/samkeppni/samkeppni_um_forhonnun/vinningtillaga_=_spital/02-landspitali-1af%5B1%5D.jpg

http://blog.dv.is/arkitektur/wp-content/uploads/sites/58/2011/09/nyr_landsspitali_498x230.jpg

Ef fer sem horfir verður aðalsjúkrahús landsmanna (kannski það eina á höfuðborgarsvæðinu) rekið á stærsta byggingastað landsins jafnvel um áratugi með öllum þeim óþægindum sem því tilheyrir og glamrandi stórvirkum vinnuvélum og jarðvegssprengingum allt umhverfis starfandi sjúkrahús.

Þetta eftirsóknarverða land sem hentar mun betur til íbúðabygginga verður að líkindum að mestu autt næstu áratugi. Það er líklega á skjön við nýtt aðalskipulag.

Myndirnar að ofan sýnir í stórum dráttum hvernig sjúkrahúsið við Hringbraut mun líta út.

Hér að neðan er grunnmynd deiliskipulagsins sem nú er ætlunin að framkvæma.

http://blog.dv.is/arkitektur/wp-content/uploads/sites/58/2011/09/nhlsh-30082011-deiliskipulaglett.jpg

Í færslu Vilhjálms Ara Arasonar var slóði að myndbandinu a neðan. Myndbandið sýnir sjúkrahúsið við Hilleröð í Danmörku. Það er af svipaðri stærð og fyrirhugaður Nýr Landspítali. Það er augljóst að þarna er lögð áhersla á manneskjulegt um, hverfi þar sem sjúklingurinn er í algerum forgrunni.

Danir ákváðu  þarna, af margvíslegum ástæðum,  að byggja ekki við eldri byggingar inni í borginni heldur byggja á „green field“ enda væri það bæði betra, hagkvæmara og fljótelgra auk þess að flækjustig og óvissa væri minni.

Endilega skoðið þetta fallega myndband.

Það er leiðinlegt að hugsa til þess að allt bendir til  að fjárfest verði í byggingum upp á milli 80 og 120 milljarða án þess að fyrir liggi heildstætt faglegt mat á staðarvalinu. Að auki hefur verið reiknað út að Hringbrautarlóðin muni kosta landsmenn um 100 milljarða meira á núvirði en ef byggt yrði á svokölluðum „besta stað“.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (26)

  • Thanks for helpful article!

  • Thanks for your tutorial.

  • Sæll
    Myndin með textanum :

    Gata, bílastæði, bílastæði gata, gata

    er horfin. Ég man eftir henni, hún var rosaleg. Mig vantar hana en hún finnst hvergi. Getur þú nokkuð sett hana inn aftur ?

    Bkv-
    TH

  • Nýi Landspítalinn, flottur.
    Nú höfum við tækifæri á að setja hann á réttan stað.
    Ef við sjáum betri möguleika núna, þá á að nýta möguleikann.
    Þessi bygging verður minnis merki um okkur inn í framtíðina.
    Ekki gera eitthvað sem landsmenn og ekki síst heilbrigðisstéttir, verða óánægðir með.
    000

    Hér er ég að reyna að kynna þetta blog.pressan.is
    Vonandi leyfist mér það, ef ekki, tek ég þetta niður.
    000
    Ég setti þetta á bloggið hjá mér.

    http://jonasg-egi.blog.is/blog/jonasg-egi/
    http://herad.is/
    000
    Egilsstaðir, 17.10.2015 Jónas Gunnlaugsson

  • Sveinbjörn Þormar

    Það má ekki gleymast að upphaflegt staðarval spítala við Hringbraut gerði ráð fyrir miklum betrumbótum á umferð, meðal annars göng undir Öskjuhlíð til að tengja Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð betur við miðborgina og einnig göng undir miðbæin (að Sæbraut minnir mig).

    Án þessa þá verður bara viðbótar umferð og treyst á að fólk nenni að hjóla eða taka strætó til að vega á móti því.

  • Byggingakostnaður með endurbyggingakostnaði á gömlu húsnæði og sem reiknaður hefur verið út í heild að lokum upp á 140 milljarða króna 2012, en þegar NÝR og mikið fullkomnari Betri spítali á Betri stað þarf ekki að kosta nema um 80 milljarða- a.m.k. jafnstór spítali í Hilleröd (140.000 fermetrar) !!!!!!! http://www.svth.is/…/morgunblai_21.9.2012_-_bls._4.pdf

  • Þetta er mjög einkennilegt mál. Hvernig er hægt að færa 100 mijlarða af almanna fé í hendur embættismanna og arkitekta eiginlega án aðhalds?

  • Ég fór inná vefinn nyrlandspitali.is til þess að kynna mér málið. Þeir eru með aðra vogarkálina tóma og hina fulla af sjálfstrausti og áróðri fyrir Hringbrautarstaðsetningunni.

    Þetta minnir á flokksblöðin í gamladaga. Tímann, Moggann, Þjóðviljan og Alþýðublaðið…

    Eða Pravda í austurvegi.

    Engin umræða engin vafi og allt í (sýndar)lagi allstaðar.

    Ég hélt að við værum komin lengra!

    Á síðunni eru engar efasemdarraddir eða svör við gagnrýni.

    Svona ritstjórn oðpinberrar vefsíðu er hallærisleg og forneskjleg. Svona ritstjórn er hluti af landlægri þöggun hér á lndi.

    http://nyrlandspitali.is/islenska/forsida/

  • Birkir Ingibjartsson

    Án þess að vera sérstakur stuðningsaðili Spítalans í Vatnsmýrinni að þá verð ég að segja að útfrá skipulagssjónarmiðum tel ég ekki marga aðra staði í borginni sem koma til greina. Hugsanlega væri Elliðaárvogur eini staðurinn sem ég tel falla að markmiðum AR2030 um að borgarvæða höfuðborgarsvæðið.

    Í fyrsta lagi skulum við átta okkur að því að svona spítali mun alltaf verða fyrirferðamikill, sama hvar hann verður byggður. Í öðru lagi að þá er ég mjög efins um þá hugmynd að byggja spítalann á nýju og opnu „greenfield“. Hvernig getur það slík hugmynd samræmst hugmyndum um þéttingu byggðar. Það er mjög auðvelt að benda á aðrar framkvæmdir úti í heimi en oft gleymist að þær lausnir eru oft á tíðum svör við allt öðrum forsendum.

    Til að mynda gæti ég bent á nýja Karolinska sjúkrahúsið sem er verið að byggja hér í norðurhluta Stokkhólms sem verið er að byggja á mörkum gömlu miðborgarinnar rétt eins og Landspítalinn er í raun staðsettur. Að mörgu leyti algerlega ósambærilegt, að öðru leyti ekki. Svo má líka nefna Rigshospitalet í Köben sem dæmi um spítala í borg fyrst við erum byrjuð. Núverandi fyriráætlanir gera ráð fyrir spítala sem einmitt með tíð og tíma verður hluti af borginni sjálfri í stað þess að einangra sig á stað sem er einfaldari og þægilegri í framkvæmd.

    Þannig stuðlar spítali í 102 RVK að áframhaldandi borgarvæðingu höfuðborgarsvæðisins sem er grundvallarhugmyndafræðin á bakvið AR2030. Hafa ber í huga að títtnefndur samgönguás aðalskipulagsins er í raun bara tól til að stuðla að þeirri þróun en ekki grundvallandi atriði til að þau markmið náist. Hugmyndafræðin trompar einstök verkfæri og því er spítali í Vatnsmýrinni í grunninn trúr AR2030 þó hann traðki líka einstaka hugmyndum skipulagsins.

    • „Hafa ber í huga að títtnefndur samgönguás aðalskipulagsins er í raun bara tól til að stuðla að þeirri þróun en ekki grundvallandi atriði til að þau markmið náist“

      Er þetta ekki spurningin um hvað kemur á umdan, eggið eða hænan?

      Fyrst kemur infrasrúktúrinn og svo allt hitt. Eða fyrst kemur allt hitt og svo infrastrúktúrinnn. Samgönguásinn er hluti af infrastrúktúrnum og hann þarf að tengjast stærsta vinnustað landsins sem allir þurfa einhverntíma að sækja.

      Er þetta „bara tól“?

      Ég bara spyr!

    • Hilmar Þór

      Þakka þér þessa hófsömu athugasemd Birkir.

      Það er óvenjulegt að arkitekt taki þátt í þessari mikilvægu umræðu með svo uppbyggjandi hætti.

      Ég þekki ekki til Karolinska í Stokkhólmi og afskaplega lítið til Rigshospitalet í KBH. En mun kynna mér það við tækifæri.

      Það er vissulega rétt hjá þér að það koma ekki margir staðir til greina fyrir þetta mikla hús og það er alls ekki ósennilegt og jafnvel vonandi að Hringbrautarlóðin sé besti staðurinn.

      En það vitum við ekki vegna þess að faglegt óháð staðarval hefur ekki farið fram. Við í grasrótinni höfum kallað eftir fargregri staðarvalsgreiningu í ein sex ár, án árangurs.

      Þegar það liggur fyrir er rétt að taka ákvörðunina.

      Ég hef skoðað þetta allt saman nokkuð vel og get opinberað þá skoðun að mér sýnist austurendi samgönguássins vera besti staðurinn. En ég er tilbúinn að bakka með það um leið og fagleg úttekt leiðir annað í ljós.

      Þú spyrð hvernig uppbygging á “green field” geti samræmst markmiðinu um þéttingu byggðar? Í mínum huga gerir hún einmitt það. Ef byggingin er tengd samgönguásnum austast og er innan núverandi byggðarmarka. Við meigum nefnilega ekki gleyma því að Grafarvogur, Grafarholt, Úlfarsárdalur, Breiðholt og Árbær eru nánast fullbyggð hverfi svo maður tali nú ekki um nágrannasveitarfélögin og landsbyggðina. Að Byggja sjúkrahúsið við t.a.m. Keldur í sterkum tengslum við afkastamikinn samgönguás styrkir einmitt Þéttingu byggðarinnar vegna þess að sá staður er innan hennar….Ekki utan.

      Sjúkrahusið við Keldur mun einmitt leggja grundvöll að sterku almenningssamgöngukerfi innan þéttbýlisins.

      Ég þakka aftur málefnalega athugasemd frá kollega.

    • Birkir Ingibjartsson

      Denni:
      Já, samgöngu- og þróunarásinn er fyrst og fremst verkfæri innan skipulagsins til að knýja áfram þau markmið AR2030 að borgarvæða höfuðborgarsvæðið. Aðalskipulagið hefur fyrst og fremst gildi sem takmarkandi en um leið leiðbeinandi plagg fyrir þróun borgarinnar. Það getur aldrei stjórnað því beint hvernig einstaka verkefni eru implementuð. Í því samhengi má nefna samgönguásinn. Í grunninn mjög góð hugmynd sem hefur alla burði til að virka en nú eru það önnur öfl sem hafa tekið til leiks sem munu hugsanlega hrinda þessu í framkvæmd. Hugsanlega ekki.

      Hilmar:
      Í fyrsta lagi vil ég taka fram að ég horfi á málið útfrá hreinum skipulagsforsendum og hvað áhrif uppbygging spítalans gæti haft á þróun borgarinnar.

      Ég er ekki viss um að ég geti samþykkt Keldur sem ákjósanlegan stað, þar erum við komum of langt í burtu til að uppbygging myndi hafa styrkjandi áhrif á almenningssamgöngur í heild sinni. Það verður að ná upp einhverjum skriðþunga í kerfið svo komi til með að virka. Elliðaárvogar gætu hinsvegar virkað.

      Ég verð líka að viðurkenna að ég er farinn að efast stórlega um að lausninn við samgönguvandræðum borgarinnar sé að snúa umferðinni á rönguna. Hugmyndafræðilega virðist það virka að fletja út mismuninn í atvinnu versus íbúðarhúsnæði innan borgarinnar en ég velti því fyrir mér hvort með því sé ekki verið að tvöfalda í raun vandann? Traffík á morgnana. Traffík á kvöldin.

      Miklu frekar ætti að beina kröftunum í það að byggja íbúðirnar sem næst atvinnunni frekar en öfugt. Reykjavík er eins og allir vita alveg gríðarlega gisinn og hálfbyggð og nægt svæði að finna hvar sem litið er. Þannig tel ég að vel mætti koma fyrir áætlaðri íbúafjölgun höfuðborgarsvæðisins fyrir innan Elliðárvoga og Fossvogs fram til 2030. Jafnvel þó flugvöllurinn verði áfram í 102 RVK með tvær brautir.

      Með því móti yrði byggður upp nægjanlegur þéttleiki innan þessa svæðis sem myndi leggja grunninn að mögulega góðum almenningssamgöngum.

      Þetta er að auki mun nær hinni náttúrulegu þróun sem er að gerast í dag með vaxandi íbúðarverði miðsvæðis. Þar er mest ásókn í að búa og mun vera áfram.

    • Hilmar Þór

      Þarna erum við sammála. Við horfum báðir á málið útfrá hreinum skipulagslegum forsendum.

      Og sviðsmyndin eru sýnist mér svipuð hjá okkur báðum.

      Ég er líka sammála því að Elliðaárósar séu heppilegri en Keldur.Og það er næstavíst að staðsetning fjölmennasta vinnustaðar landsins við Elliðaárósa mun ná upp einhverjum skriðþunga á almenningsvagnakerfið eftir samgönguásnum.

      Sennilega er staðsetning spítalans við Elliðaárósa nú eina sýnilega vonin til þess að þessi fína hugmynd, samgönguásinn, gangi eftir.

      Og ég er sammála því að það sé sem mest jafnvægi milli atvinnutækifæra og búsetu. Það er annað tveggja hægt að gera með því að auka búsetutækifæri þar sem mikið framboð er af atvinnutækifærum eða hitt að færa atvinnutækifærin þangað sem mikið framboð er af búsetutækifærum.

      Með því að byggja sjúkrahúsið við Elliðaárvog og byggja íbúðir og miðborgarstarfssemi á Landspítalalóðinni, eins og lýst er í pistlinum, er stuðlað að nægjanlegum þéttleika sem lagt gæti grunninn aðgóðum almenningssamgöngum.

      Ég þakka þér aftur fyrir uppbyggilega þáttöku í samtalinu.

    • Áhugamaður

      Vil árétta að flugvöllurinn er í 101, ekki 102. 102 Reykjavík er pnr. fyrir alþjóðaflokkunarpóststöð og Gísli Marteinn er búinn að rugla í fólki með 102 bullinu og það tekur það upp eftir honum

  • Ingunn Loftsdóttir

    Þetta er grátleg einföldun á þeirri stöðu sem er uppi á húsnæðismarkaði í Reykjavík í dag. Það vantar ekkert litlar íbúðir, þær eru bara það eina sem fólk hefur efni á.

    Það vantar miklu meira íbúðir fyrir fjölskyldufólk sem eru ekki fáránlega dýrar. Þá myndi markaðurinn fyrir litlu íbúðirnar breytast og þeir sem þær þurfa geta keypt.
    Eins er húsnæði fyrir eldri borgara fáránlega dýrt sem veldur því að fólk flytur ekki úr fjölskylduvænum eignum – afhverju að selja fínt hús til að flytja í jafn dýra eða jafnvel dýrari fjöldaframleidda blokkaríbúð?

  • Pétur Örn Björnsson

    Þetta er mál af þeirri stærðargráðu að eðlilegt væri að Kastljóss þáttur RÚV tæki það upp til umræðu. Þetta er mál sem varðar alla þjóðina.

  • Gísli Rafn Guðmundsson

    Mikið sem ég er alltaf þakklátur fyrir Hilmar og þetta blogg.

    Það er einkennilegt að við séum eina þjóðin sem ráðgerum að reisa spítala í miðborg, en aðrar þjóðir sjá að það er best að byggja á nýju landi, utan miðborgarinnar. Þurfum við alltaf að finna upp hjólið á Íslandi? Mér finnst almennt ekki gert nógu mikið af því að skoða hvernig hlutirnir eru gerðir erlendis og þeir heimfærðir eða mátaðir hér á landi (á fræðimáli svokölluð ,,case studies“). Sem er nákvæmlega það sem greinin hér að ofan gerir, og er það vel.

    Samgöngumálin í Vatnsmýrinni tel ég mjög mikilvægt sjónarmið varðandi nýjan spótala sem hefur ekki farið nógu hátt að mínu mati. Eins og staðan er í dag eru of margir að ferðast frá austri og til vesturs á morgnana, og svo öfugt sídegis. Við þurfum að leita leiða til þess að fá fleiri vinnustaði austar í borginni (eða höfuðborgarsvæðinu) svo það séu ekki allir að ferðast í sömu átt á sama tíma. Spítalinn er stærsti vinnustaður landsins og gæti vel nýst til þess að ná fram breytingum í því samhengi.

  • Njörður

    Allir sem fylgjast með sjá að það vantar hótel og litlar/meðalstórar (billegar) íbúðir í miðborgina. Bæta þarf úr því.

    Það vantar líka nýtt sjúkrahús á höfuðborgarsvæðið en miðborgin öskrar ekki eftir því að það verði byggt í miðbænum.

    Getum við ekki bara einusinni verið skynsöm og farið að ráði dananna og byggt sjkrahús utan miðborgarinnar á miklu betri stað?

  • Það má líkja Hilmari pistlahöfundi við hrópandann í eyðimörkinni sem hafði þó áhrif þegar frá leið. Þeim fjölgar stöðugt sem hafna uppbyggingu Landspítala við Hringbraut og vilja annan stað þar sem landrými er meira og liggur betur við umferðaræðum. Í þessum hópi eru læknar, verkfræðingar og jafnvel arkitektar. Nýjasta innleggið er nýja Hilleröd sjúkrahúsið á Sjálandi. Staðarvalið utan borgarmarka þar sem landrými er nægt, umfang svipað og áætlað er með nýjan Landspítala en uppbyggingin samt sem áður miklu ódýrari. Danir kunna ýmislegt fyrir sér í skipulagsmálum og í meðferð fjármuna og viska fólgin í því að sækja sér fróðleik og góð ráð út fyrir túnfótinn. Pistlahöfundur spyr í örvilnan: Hvað ef við hefðum hugsað og farið svipaða leið og Danir? Í þessum orðum er einhver uppgjafartónn sem er með öllu ástæðulaus. Verkefnið er að ná eyrum ráðamanna og þeirra sem fara með fjárveitingavaldið. Forsætisráðherrann sem státar af menntun á tengslum hagrænnar þróunar og skipulagsmála gerir sér grein fyrir því skipulagsslysi sem er í uppsiglingu við Hringbraut og kom fram með hugmyndir um aðra staðsetningu. Af einhverjum ástæðum fylgdi hann málinu ekki eftir innan ríkisstjórnar og er það umhugsunarefni.
    Verkefni þess stóra hóps sem vill nýjan Landspítala á betri og hagkvæmari stað en við Hringbraut er að velja málsmetandi menn til viðræðna við forsætisráðherra, fjármálaráðherra, heilbrigðisráðherra, landlækni og forystusveit innan heilbrigðisgeirans. Aðeins þannig er hægt að hreyfa við málinu. Skrif á bloggsíðum eru góðra gjalda verð en það verður að stíga skrefið til fulls. Ræða beint við ráðamenn og fá afdráttarlaust fram vilja þeirra og skoðanir í málinu enda þeirra að ráðstafa tugum milljarða til verksins. Þessi nefnd málsmetandi manna þarf engu að kvíða í þeim viðskiptum. Til þess eru röksemdir þeirra um óhagkvæma staðsetningu nýs Landspítala við Hringbraut flestum augljósar.

  • Jane Jacobs

    Nú ertu búinn að missa það! Lúxus sérbýli! Það er enginn skortur á bankamannahúsum hér á landi, það er hins vegar skortur á tveggja herbergja íbúðum, sem og stúdíóíbúðum. Mikið nær væri að byggja svoleiðis og það þétt. En ef maður þekkir Íslenska arkitekta rétt, og þá sem í kringum þá starfa, þá myndu aðeins vera byggðar rússablokkir með miklum grasbeiðum í kring auk bílastæða. Ég hlæ alltaf og græt þegar ég keyri í gegnum austurhluta Kópavogs, því þar sést svart á hvítu að við höfum ekkert lært í borgarskipulagi!

    • Hilmar Þór

      Gaman að þú skulir taka þátt í umræðunni „Jane Jacobs“. Þú ert einn virtasti aðgerðasinni í skipulagsmálum frá upphafi. Bjargaðir fullkomlega Manhattan í NY á sínum tíma og með óbeinum hætti Reykjavík. Allt með óþekkt grastótarinnar og stuðningi hennar. Ég vildi að það væru fleiri eins og þú. Þín sjónarmið urðu ofaná þegar leggja átti hraðbraut í gegnum Grjótaþorðið hér í borg. og bjargaðir borginni.

      En varðandi athugasemd þína þá er hún auðvitað hárrétt. Ég setti þetta með lúxusíbúðirnar inn til þess að tengja það breska íbúðahverfinu sem ég tek til viðmiðunar. En auðvitað er þetta rétt hjá þér. En forvinna vegna hverfaskipulags borgarhlutans mun leiða í ljós hvaða gerð íbúða er mest þörf fyrir í borgarhlutanum. Svo yrði auðvitað byggt samkvæmt því.

  • Sigrún Sigurðard.

    Landeyjarhöfn, Vaðlaheiðargöng, Hellisheiðarvirkjun, Landspítali og svo framvegis.

    Hvenær lagast þetta?

    • Það er einhver veruleikafyrring í gangi. Það má bæta Húsavíkur vitleysunni við á listann

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn