Mánudagur 13.10.2014 - 21:43 - 7 ummæli

Ónotað íbúðahúsnæði – Fjólublár fullkomleiki

Fjólublár fullkomleiki

Aðgerðarsinnar hafa sent síðunni myndband með myndum af einum 200 tómum og niðurníddum húsum í Reykjanesbæ. Þeir kalla myndbandið „Fjólublár fullkomleiki“ eftir myndinni efst í færslunni.

Ráðist í myndbandagerðina til að vekja athygli á stöðu húsnæðismála á landinu.  Aðstandendur segja hana vera meinsemd í íslensku samfélagi. Fjölskyldur sem lent hafa á vanskilaskrá fá ekki leigt húsnæði, og bankarnir og Íbúðalánasjóður sjá ekki hag sinn í því að halda húsum við og leigja þau út. Og mörg eru að grotna niður. Á sama tíma og hundruð íbúða standa tómar er skortur  á leiguhúsnæði.

Aðstandendur myndbandsins segja að ekki sé til húsnæðispólitík á Íslandi sem passar við láglaunapólitíkina sem nú er rekin í landinu. Húsnæðismálapólitíkin sofnaði þegar fjármálastofnanirnar settust í framsætið.

Þeir upplýsa líka að um fjörutíu prósent fasteigna Íbúðalánasjóðs (ÍLS) eru á Suðurnesjum, en sjóðurinn átti þar 831 fasteign í lok ágúst s.l.

Í myndbandinu sem gert er af Guðmundi Guðmundssyni sjómanni koma fram 304 ljósmyndir Styrmis Barkarsonar grunnskólakennara af tómum húsum í Reykjanesbæ. Alls munu vera vel á annað þúsund auðar íbúðir og einbýlishús á svæðinu. Mörg húsanna eru áhugaverð frá t.d. fagurfræðilegu og byggingarsögulegu sjónarhorni að þeirra sögn. Og allt þetta á sér stað þrátt fyrir að skortur sé á íbúðahúsnæði fyrir leigumarkað eins og áður segir.

++++

Myndin efst í færslunni er tekin á augnabliki út um bílglugga á ferð fyrir meira en hálfu ári. Flestar myndanna eru þannig teknar. Fyrir nokkrum dögum var húsið ennþá autt og númerslaus bíllinn enn á sama stað.

Það er eins og tíminn hafi frosið.

Í lok myndbandsins kemur eftirfarandi texti.:

„Úr stjórnarsáttmálanum 2013: Ríkisstjórnin leggur áherslu á að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum i samræmi við þarfir hvers og eins og hafi raunverulegan valkost um búsetuform“

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.10.2014 - 10:46 - 4 ummæli

Lúxus í loftinu – Fljúgandi höll

 

 

 

Í ársbyrjun 2007 bað prins Alwalid bin Talal,  sem býr í Riyadh í Saudi Arabíu, hönnuðinn Edese Doret um að innrétta Airbus 380 flugvél, sem fjúgandi höll!.  A380 er stærsta farþegaflugvél í heimi. Hann bað hönnuðinn um að breyta flugvélinni sem er tveggja hæða í þriggja hæða höll sem gæti flogið. Efst eru einkarými farþega. Næst koma stofur og almenn rými og neðst er svokallað „wellbeing room“ þar sem er heitur pottur og gólf sem er heill skjár sem sýnir landslag og þau ský sem flogið er yfir.

Í þriggja hæða höll er auðvitað lyfta, setustofur, borðstofa fyrir 14 manns auk svefnherbergja og á neðstu hæð er heitur pottur eins og fyrr segir. Potturinn er fylltur og tæmdur á nokkrum sekúntum.

Prinsinn greiddi 485 milljónir dollara fyrir herlegheitin ef marka má kjaftasögur. Hann vildi selja flugvélina fyrir nokkru og fékk boð uppá 268 milljónir en hafnaði því boði og gerði gagntilboð upp á 300 milljónir dollara.

Manni finnst þetta vera lyginni líkast, en þetta er víst dagsatt allt saman. Það eru til tugir svipaðra flugvéla um allan heim. Menn sem nota samgöngur af þessu tagi eru auðvitað umhverfissóðar sem vita sennilega ekki hvað samfélagsleg ábyrgð er. Spurning er hvort alþjóðasamfélagið eigi að taka á móti svona flugvélum. Hvort það eig að gefa þeim yfirflugsheimildir og lendingarleyfi. En það er önnur saga.

Að neðan eru nokkrar ljósyndir innan úr vélinni. Strax hér að neðan er skýringarmynd  og neðst mynd af samskonar vél í flugtaki.

Neðst kemur svo myndband úr A380 vél eftir Edese Doret sem starfar í New York og er sennilega vinsælasti einkaþotu og snekkjuhönnuður í heimi. Einkaþotan á myndbandinu er settlegri og smekklegri en einkaþota saudans bin Talal.

 

 

 

ILA_2008_Airbus_A380_body

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.10.2014 - 23:04 - 9 ummæli

Fækkun matvöruverslanna.

 

verslun í Reykjavík 2001

 

Myndin að ofan er fengin úr  nýútkominni bók, „Borgir og borgarskipulag“, eftir Dr. Bjarna Reynarsson skipulagsfræðing, og sýnir fjölda og staðsetningu matvöruverslanna í Rekjavík árið 2001.

Árið 1981 voru matvöruverslanir í borginni 127 en voru aðeins 85 árið 2001 eins og myndin sýnir. Verslunum fækkaði um 42 eða 33% á þessum 20 árum.

Síðan myndin var gerð og til dagsins í dag  hefur matvöruverslunum fækkað enn frekar. Gera má ráð fyrir að matvöruverslunum hafi fækkað niður í helming frá árinu 1981. Og þetta á sér stað þrátt fyrir að borgarbúum hafi fjölgað um 35 þúsund frá 1981 til 2013. (úr 84 þúsund í rúm 119 þúsund).

+++++++

Það má velta fyrir sér hvað hafi valdið þessari þróun og hvort hún hafi verið til góðs?

Það komu athafnamenn sem vildu stuðla að lækkuðu matarverði. Stór liður í því var að selja vöruna í stórum ódýrum skemmum, á hafnar- og iðnaðarsvæðum, langt frá neytandanum. Þessa hugmynd keyptu stjórnmálamenn enda erfitt fyrir þá að standa gegn lækkun matarverðs.

Skipulagsyfirvöld áttu auðvitað að vita betur og spyrna við fótum. Ef hár matarkostnaður skrifaðist af einhverjum orsökum á húsnæðiskostnað eða skort á bifreiðastæðum þá áttu skipulagsyfirvöld að bregðast við því innan íbúðahverfanna en ekki færa verslunina í algjöru skipulagsleysi eitthvert þangað sem voru ódýrar lóðir, ódýr hús og gnægð bílastæða.

Það hefði sennilega verið hægt að nota verkfæri skipulagsins sem eru margvísleg. T.d. taka á samgöngum (t.d. hjóla- og gönguleiðum) og  þróa verslunarkjarnana inni í hverfunum til þess að mæta þessu. Með opnun verslunar við Hallveigarstíg, þar sem er þröngt um og fá bifreiðastæði, sannaði Bónus að þetta er hægt.

Það hefði líka verið hægt að grípa til ívilnandi ráðstafanna og lækka til að mynda fasteignagjöld og gefa hverfisverslununum tækifæri til að veita betri þjónustu en stórmarkaðarnir á iðnaðarsvæðunum með einhverjum hætti. Til dæmis hefði verið hægt að leyfa sölu léttvína og bjórs í litlum búðunum (t.d. undir 300 m2) en ekki í þeim stóru.

Þó svo verðlag sé hugsanlega eitthvað lægra í stórverslununum utan íbúðahverfanna þá er mun dýrara að nálgast vöruna þegar búðirnar eru langt frá heimilunum þar sem neyslan fer fram. Þetta fyrirkomulag kallar á meiri akstur og meira skutl, jafnvel fjölskyldubíl nr. 2 fyrir  heimilin.

Svo er auðvitað miklu skemmtilegra að versla í hverfisbúðinni. Að versla í hverfisbúðinni þar sem kaupmaðurinn kannast við andlitið á manni og maður hittir nágranna sína er eiginlega hin besta skemmtun. Þetta þekki ég úr minni verslun, Melabúðinni, þar sem starfsmaðurinn kastar á mann góðri kveðju, og meinar það.

Og svo röltir maður eftir að hafa verslað  í hverfisbúðinni á hverfiskaffistofuna „Kaffi Vest“ og hittir góða nágranna og spjallar.

Aðalskipulag Reykjavíkur AR2010-2030 kallar eftir svona sviðsmynd og stefnir á breytingu á þessu skipulagi matvöruverslunnar. Við skulum vona að aðalskipulagið gangi eftir.

++++

Viðbót 09.10.2014:  Í viðtali í Tímariti Landsbankans, sem kom út í morgun, upplýsir Hjálmar Sveinson, formaður skipulagsráðs, að árið 1950 voru matvöruverslanir í borginni 370 en voru einungis 79 árið 2008. Á ráðstefnu íHörpu í morgun um fjárfestingatækifæri í verslun og þjónustu komu fram miklar efasemdir um þessa hugmynd um að færa matvöruverslun í skemmur á hafnar- og iðnaðarsvæðum. Það vekur bjartsýni um betri borgarbrag.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.10.2014 - 20:33 - 4 ummæli

Ný bók: BORGIR og BORGARSKIPULAG

10646995_741255269279214_6024410086170778689_n

Út er komin bókin BORGIR OG BORGARSKIPULAG. Þetta er vel skrifuð bók eftir Dr. Bjarna Reynarsson skipulagsfræðing.

Bjarni hefur hefur ekki bara djúpa þekkingu á skipulagsmálum almennt heldur býr hann yfir mikilli reynslu vegna starfa sinna að skipulagsmálum.

Bók Bjarna sem gefin er út af bókaforlaginu Skruddu er uppá einar einar 300 síður.í stóru broti.  Í bókinni eru um 500 ljósmyndir, skýringarmyndir og kort.

Bókin skiptist í þrennt.

Fyrst er sögulegt yfirlit yfir þróun borga undanfarin 10 þúsund ár. Þar er fjallað um upphaf borganna  og þróun þeirra um þúsundir ára. Síðan er hluti sem fjallar  um Kaupmannahöfn, sem var höfuðborg Íslands um aldir og að lokum er fjalllað um  fyrstu skipulagshugmyndir Reykjavíkur og þróun skipulags borgarinnar fram á okkar dag. Og ekki bara það heldur er í lokin fjallað um nýtt aðalskipulag Reykjavíkur AR-2010-2030.

Það er einnig ánægjulegt að sjá að höfundurinn gerir ekki skýr mörk milli skipulags og byggingalistar eins og oft einkennir málflutning skipulagsfræðinga. Heldur er í máli Bjarna óljós mörk þarna á milli.

Ég frétti það fyrir nokkrum árum að Dr. Bjarni Reynarsson vær að skrifa bók um skipulagsmál. Þetta þóttu mér góð tíðindi vegna þess að Bjarni er hógvær og kann að miðla af þekkingu sinni. Hann hefur reynslu, sér út fyrir rammann og kann kann sitt fag. Nú þegar ég sá að bókin var komin í búðir leið mér eins og þegar ný bítlaplata kom í plötubúðir fyrir áratugum síðan. Slík var eftirvæntingin og ég varð ekki fyrir vonbryggðum frekar en þá. Bókin stóðst allar væntingar og ég er fullviss um að hún á eftir að hafa áhrif á skipulagsumræðuna um áratugi. Ég tel að þetta verk eigi eftir að verða til þess að kennsla í skipulagi og byggingalist verði hafin í barna- og framhaldsslólum innan tíðar. Hér er kominn grundvöllur þess að skapa upplýsta neytendur skipulags- og byggingalistar þannig að arkitektar, sjórnmálamenn og embættismenn fái upplýst aðhald frá notendum hins svokalaða „manngerða umhverfis“. Þessi bók hjálpar fólki til þess að, skilja samhengi hlutanna og þarf að vera til á hverju heimili. Að neðan koma nokkrar opnumyndir úr bókinni. Ef tvísmellt er á þær verða þær stórar og skýrar:   borgir 260-261 borgir 26-27 borgir 154-155   borgir 244-245 borgir 270-271     photo B53

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 29.9.2014 - 15:37 - 11 ummæli

Mókollar – Einbýlishús við Esjurætur

VA arkitektar — Mókollar House

Hér er kynnt framúrskarandi nýlegt einbýlishús sem byggt hefur verið við Esjurætur þar sem áður hét Kjalarneshreppur.

Það sem gerir húsið sérstakt eru kannski sjálfsagðir hlutir sem höfundinum, Ólafi Axelssyni arkitekt, hefur tekist að fanga og skila í sérlega góðu húsi. Þegar ég segi þetta á ég við að það sé auðvitað sjálfsagt að allar byggingar taki mið af umhverfi sínu. Nýti kosti umhverfisins og dragi úr göllum þess, endurspegli staðarandann og bæti umhverfið.

Ólafi, sem er einn af rekstraraðilum VA arkitekta, hefur hér tekist að draga umhverfið inn í húsið og opna tækifæri þeirra sem þarna eru til þess að njóta umhverfisins innanfrá.

Þetta er ekki auðvelt og ekki á færi allra að fanga umhverfið með þessum hætti. Sumir virðast jafnvel ekki taka eftir því umhverfi sem þeir eru að teikna inn í.

Húsið er laust við alla nútíma „stæla“ byggingarlistarinnar, er engin tískubóla og mun því standast tímans tönn um ókomin ár.

Það er steypt á staðnum og er 252 m2 á stærð og stendur á 1,5 ha landi.

Endilega skoðið afstöðumyndina, grunnmyndir og snið hér að neðan.

Myndirnar sem fylgja færslunni eru teknar af  Gunnar Sverrisson og eru fengnar af eftirfarandi slóð þar sem fjallað er nánar um húsið:

http://europaconcorsi.com/projects/270606-VA-arkitektar-Mo-kollar-House

 

VA arkitektar — Mókollar House

 

VA arkitektar — Mókollar House

VA arkitektar — Mókollar House

VA arkitektar — Mókollar House

VA arkitektar — Mókollar House

VA arkitektar — Mókollar House

Kistufellið blasir við út um eldhúsgluggann

VA arkitektar — Mókollar House

Húsið virðist stannda á stalli í landslaginu þannig að útsýni og sólargandur nýtist til fulls. Aðkoman er bæði frá austri og vesturs. Maður genguir út í sólina á morgnana og kemur heim með sólinni siðdegis.

VA arkitektar — Mókollar House

VA arkitektar — Mókollar House

 

VA arkitektar — Mókollar House

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 24.9.2014 - 18:23 - 25 ummæli

Þingholtin fyrir 1940

 

375+

Að ofan er frábær ljósmynd eftir Vigfús Sigurgeirsson ljósmyndara sem sonur hans Gunnar Vigfússon ljósmyndari sendi síðunni nýverið.

Myndin er sennilega tekin stuttu fyrir seinni heimstyrjöldina.

Hún sýnir byggingar eftir framúrskarandi íslenska byggingameista og arkitekta sem teiknuðu hús í bænum á þessum tíma. Þar er fyrsta að telja þá Gunnlaug Halldórsson og Sigurð Guðmundsson. Þarna eru auðvitað líka byggingar eftir Guðjón Samúelsson og fl.

Ég leyni því ekki að ég hef alla tíð verið mikill aðdáandi Gunnlaugs og fundist hann standa hinum snillingunum tveim framar. Það er einkum vegna þess hversu leitandi hann var og hve höfundareinkennin voru sterk. Verkamannabústaðirnir við Hringbraut, Búnaðarbankinn við Austurstræti, Háskólabíó o.m.fl. Mörg ólík verk sem standa á grunni nytjastefnunnar og bera höfundi sínum sterk vitni.

++++

Fyrir einum 35 árum spurði ég Gunnlaug hvort  hann gæti gefið ungum arkitekt einhver ráð sem gætu hjálpað honum við að fóta sig í íslensku umhverfi.

Hann svaraði um hæl „Ungi maðurinn þarf að koma sér upp verndara“

„Verndara?“ Spyr ég.

„Já einhvern áhrifamann eða afl sem gætir hans og sér um að útvega honum verkefni þannig að hann geti einbeitt sér að sínu fagi“ svarað Gunnlaugur Halldórsson arkitekt.

Þó Gunnlaugur hafi ekki sagt það beint þá áttaði ég mig á að þarna var hann líklega að hugsa til íslensks klíkusamfélags og sérstaklega sambands þeirra Jónasar frá Hriflu og Guðjóns Samúelssonar. Guðjón fékk beint og óbeint mörg verk í gegnum Jónas. Hann fékk jafnvel fleiri verkefni en hann gat valdið frá þeim sem höfðu samböndin meðan aðrir arkitektar höfð lítið og stundum ekkert að gera. Guðjón var auðvitað afburða arkitekt en við meigum ekki gleyma því að hann fékk fleiri tækifæri en nokkur annr arkitekt hefur nokkurntíma fengið.

++++

Það sem gerir ljósmyndina  að ofan alveg einstaka er annars vegar að hún sýnir hverfið nánast í heild sinni og ekki síður að húsin sem nú eru hulin trjágróðri sjást á myndinni. Þarna er auðvitað engin Hallgrímskirkja en Hljómskálinn, fyrsta sérhannaða tónlistarhús íslendinga, er á sínumn stað.

Ef smell er tvisvar þá á hún að stækka.

 

Hér er hægt að finna fleiri slóða að gömlum ljósmyndum Vigfúsar Sigurgeirssonar af húsum og götum í Reykjavík á fyrrihluta síðustu aldar. Afskaplega forvitnilegt:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/05/09/fleiri-gamlar-myndir-fra-reykjavik/

http://blog.dv.is/arkitektur/wp-admin/post.php?post=6896&action=edit

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/05/06/gamlar-myndir-ur-landakotsturni-fra-um-1930/

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/01/04/kennarabustadir-vid-egilsgotu/

 

Ég var að átta mig á því að i gær var þessi vefsíða búin að vera gangandi í fimm ár.

Upphaflega tók ég þetta að mér til reynslu til þriggja mánaða og ætlaði að  meta stöðuna að þeim liðnum. Þetta hefur verið óskaplega skemmtilegt allan tímann. Lestur er umfram væntingar og í síðuna hefur verið vitað í dagblöðum og á ljósvakamiðlum og auðvitað á öðrum vefsíðum. Skrifin hafa að mestu gengið út á að setja á netið efni sem vakti athygli mína, samtöl sem ég hef átt hér á teiknistofunni og við þá sem ég hef mætt á förnum vegi.

Allt ósköp óhátíðlegt.

Dægurmál skipulagsmála hafa einnig flotið með.

Ég hef líka oft sett fram algeng sjónarmið án þess að vera þeim sérstaklega sammála sjálfur.

Hér hafa líka birst allmikið af aðsendum pistlum og  pistlar eftir menn sem ekki hafa viljað láta nafn síns getið af einhverjum ástæðum. Allt í þágu umræðunnar um arkitektúr, skipulag og staðarprýði sem verið hefur í skötulíki hérlendis.

Ég hef að mestu verið ánægður með athugasemdir þar sem lesendur hafa sagt skoðuun sína. Af þeim tæplega 6600 athugasemdumsem komið hafa, hef ég aðeins þurft að hafna 11, sem einkenndust allar af einhverri heift út í einstaklinga og hinsvegar vegna ósæmilegs málfars.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 15.9.2014 - 21:02 - 23 ummæli

Mannvirkjastofnun, íþyngjandi reglugerð.

untitled

 

Þann 1. janúar 2015 tekur gildi ný reglugerð Mannvirkjastofnunar sem segir til um að hönnunarstjórar,  byggingastjórar og iðnmeistarar skulu hafa gæðastjórnunarkerfi.

Gerð gæðastjórnunarkerfisins og virkni þess þarf að vera vottað/samþykkt af „faggiltri“ vottunarstofu eða Mannvirkjastofnun fyrir 1. janúar 2015.

Ég er búinn að reka reiknistofu í um 40 ár. Fyrst með námi í Danmörku og svo hér á Íslandi síðan fyrir 1980. Við höfum teiknað meira en hálfa miljón fermetra í byggingum og tugi hektara skipulags. Við höfum að sjálfsögðu verklagsreglur og ágæta stjórn á vistun ganga og traustar boðleiðir og feril ákvarðanna.

En við höfum aldrei haft vottað gæðakerfi og tölvuforrit á borð við Revit eða nýtt okkur BIM aðferðafræðina. Við þurfum þess ekki og viðskiptavinurinn aldrei beðið tjón vegna skorts á þessu.

Á öllum þessum árum hafa aldrei komið upp þau vandamál sem vottað gæðakerfi eða hin flóknu teikniforrit hefðu afstýrt.  En nú er verið að  þröngva þessum kröfum upp á aðila byggingariðarins sem þeir hafa engann anna kost en að tileinka sér.

En spurningin vaknar um hverjum þessi reglugerð eigi að þjóna og hverju á hún að bjarga?

Ég þykist vita að hún hjálpar ekki neytandanum, ekki litlu verktökunum, ekki litlu verkfræðistofunum eða litlu arkitektastofunum.

Ég tel líka að reglugerðin geri ungu fólki nánast ógerlegt að komu undir sig fótunum sem sjálfstætt starfandi sérfræðingar í fagi sínu i ráðgjöf  eða sem verktakar í öllum iðngreinum sem tengjast byggingariðnaði. Sumir velja sjálfsagt að hætta að praktísera og leggja niður  blómlega  starfssemi og einhverjir leggja drauma sína um að starfa sjálfstætt á hilluna. Einkum vegna skrifræðis og rglugerða af þessum meiði. Og það sem verra er að þessar kröfur koma einkum frá opnberum stofnunum sem eiga einmitt að gæta hagsmuna okkar minnstu bræðra en ekki sérstaklega stóru strákanna.

En hitt veit ég líka að þessi reglugerð þjónar stóru verktökunum, stóru verkfræðistofunum og stóru arkitektastofunum og ekki síður embættismönnum og eftilitskerfinu.

Er þetta skynsamlegt?

Þetta er íþyngjandi fyrir byggingariðnaðinn og mun ekki skila sér til neytanda að neinu marki. Þvert á móti öfugt. Þetta grynnir samkeppnisumhverfið og fækkar aðilum bygingariðnaðarins.

Ég hélt  að þetta væri eitthvað sáraeinfalt sem maður gerði bara svona í „forbifarten“.  En annað hefur komið í ljós. Gæðakerfið skal vottað af faggiltri vottunarstofu og boðið er uppá námskeið í fræðunum í Háskólanum í Reykjavík fyrir þá sem þurfa.

Þeir sem ekki hafa fengið vottað/samþykkt gæðakerfi fyrir 1. janúar 2015 verða að hætta starfssemi sinni ef ég skil þetta rétt.

Er þetta ekki eins og að nota fallbyssu til að skjóta spörfugl?

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.9.2014 - 10:56 - 13 ummæli

Fléttað inn í finnska hefð.

SKMBT_C652D14091009200_0002

 

Gunnlaugur Stefán Baldursson arkitekt, sem hefur alla sína tíð starfað á meginlandi Evrópu, skrifar hér grein um finnska hefð í byggingalistinni. Gunnlaugur er flinkur og reryndur praktiserandi arkitekt sem er meðvitaður um fræðimennsku byggingalistarinnar þar sem hann hugsar mikið um anda staðanna og regionalismann. Hann hefur áður skrifað nokkrar greinar hér á vefinn og vek ég sérstaklega á færslurnar „Fléttað inn í borgarvefinn“ og hina sem heitir „Fléttað inn í landslagið“. Greinarnar má finna með því að slá þeim upp í leitarvél hér til hliðar.

Gefum Gunlaugi orðið:

 

Fléttað inn í finnska hefð.

Finnskur regionalismi.

Finnum tókst að tengja modernisma 20. aldar og  byggingahefð sína í heilsteypta, frjóa og lifandi heild, regionalisma,  sem gerir landið einstakt hvað nýja byggingalist snertir.

Þessi sameining af klassískri hefð, notkun timburs og funktionalisma var farsæl og hefur gefið borgum og umhverfi landsins öryggi og þann styrk, að engin þörf var og er fyrir  nýjungasveiflum að utan.

Með Aalto í fararbroddi byrjuðu Finnar á 30/40. áratug síðstu aldar að skapa sín eigin sérkenni, sem enn í dag eru öruggur grunnur fyrir  einstakan arkitetkúr, lífrænar og vistrænar  byggingar , sem verka eðlilega og vel á sálarlíf fólks. Hér varð til módernismi, sem ekki þurfti  að hafna öllum hefðum.

 

Suoni seven 2014

Kynning á verkum 7 ungra finnskra fagmannahópa, sem fylgir í kjölfar bókmenntaráðstefnunnar í Frankfurt 2014  (Suomi seven í DAM, Þýska Arkitektasafninu í Frankfurt til 18.01.15), sýnir vel, að þetta unga fólk er algjörlega óháð öllum tískusveiflum þó  það loki sig ekki af gangvart nýjungum.

Vel  er haldið utan um þann þráð, sem Aalto, Pietilä, Siren og aðrir módernistar þróuðu í efnismeðferð og þeirri fullvissu að góðar hugmyndir „vaxi útfrá eðlilegu lífi fólks“.

Athyglisvert er að sjá hvernig kynslóð, sem er fædd á milli 1970/80  fléttar bæði eðlilega og um leið frísklega inní finnska hefð með efnis og rýmiskennd Aaltos og annara finna sem fyrirmyndir.

A.m. k. Í Helsinki virðist heimsspekileg nálgun Louis I. Kahn ekki fjarri:  ströng,klassísk,táknræn og skýr.

Slíka nálgun má t.d. greina í  kjarnamyndun nýja alþjóðskólans Opinmäki í Espoo,(sú borg vex svotil saman við höfuðborgina),eða uppbyggingu og útliti nýja háskólabókasafnsins „Kaisa“ (Anttinen Oiva Architects),sem fléttað er mjög frumlega og vel inní strangan borgarkjarna Helsinkis.

Kjarni  borgarinnar er algjörlega í anda „nýklassík“ Schinkels ,reistur á 19.öld.

Í því umhverfi koma hugsanir Kahn ósjálfrátt upp í hugann.

Á óvart kom mér reyndar hvað „hinn lífræni“ Aalto er strangur þegar hann fléttar nýstárleg verk  sín inní þennan klassíska kjarna.Miðborgin öll er a.m.k fyrir mig algjör „upphefð“: og ekkert stress, engar ódýrar túristasjoppur!

Og í þessu umhverfi kemur uppí hugann: hvaða áhrif hefði klassísk „Skólavörðuháborg“ Guðjóns Samúlessonar haft á stöðugleika og uppbyggingu Reykjavíkur, hefði hún hefði orðið að veruleika?

 

Fyrimyndar skipulagsyfirvöld.

Sýnilegt er, að  ungir fagmenn fá í Finnlandi tækifæri til að hafa áhrif á ný borgahverfi og þéttingu byggðar bæði í og umhverfis miðborg. Og að „fjárfestar“ virðast auðsýnilega ekki hafa nein veruleg áhrif á borgareinkennin.

Hvers vegna er það svo?

Vegna þess að hefðin í skipulagspóltík og opnum samkeppnum arkitekta stendur á afar öruggum jarðvegi.

Skipulagsyfirvaldið í Helsinki er mjög sterkt, bæði er vaxin hefð til staðar og  lang stærsti hluti lóða er eign borgarinnar. Prívatkapítal hefur mjög takmarkað vald því að borgin sjálf „leigir“ jafnvel bestu lóðinar til langs tíma og getur þannig haft veruleg áhrif á ,að borgasvipurinn og hefðin haldi sér í þágu borgarbúa.Þannig tekst að skipuleggja og byggja „borg  fólksins“ og forðast afbrigði af „borg kapítals“.Yfirvöldin hafa að auki séð um að tengja afar vel umferðamöguleika milli borgarhluta svo að einkafarartæki eru svotil óþörf innan borgar,líka í framtíðinni.

Vert er að nefna að svo til öll opinber verkefni eru boðin út í  opinum samkeppnum (allra!) arkitekta.

Finnska hefðin í skipulagi og húsagerð er þannig á margan hátt til fyrirmyndar í dag.

 

Íslenskur regionalismi ?

Arkitektúrsafnið í Frankfurt hafði 2011 álíka kynningu á íslenskri byggingalist síðstu ára: nokkuð tilviljunarkenndur þverskurður.

Ýmis áhugaverð verkefni voru  valin m.a. verk Studio Granda og Sigríður Sigþórs með stef um landslag og innblástur.

En fyrsti og besti fulltrúi „nútíma regionalisma“ á Íslandi var ekki kynntur: Mannfreð Vilhjálmsson.

Nokkrar  byggingar Manfreðs hafa augljósar tilvitnanir í íslenska hefð: menning og landslag kristallast  mjög eðlilega saman í nýja  Fuglasafninu við Mývatn og fjöldamörgum fyrri verkum hans.

Að þessu sögðu finnst mér einsýnt, að íslendingar þurfa að eignast stofnun til að rannsókna á leiðum til að nálgast „regional“ bygginarlist. Stofnun, sem bendir á nýjar slóðir en heldur  jafnramt utan um fortíðina.

Í höfuðborg landsins eru peningar til að „byggja stórt og dýrt“ og  „flottustu hótel“ í Evrópu, en á sama tíma eru engir peningar til fyrir eina persónu,sem ræktar Byggingalistardeild í Listasafni Reykjavíkur:  dapurleg staðreynd fyrir móður allra lista!

 

Hér að neðan eru myndir af  háskólabókasafninu í Helsink i(Kaisa).Þar sem er Louis I. Kahn nálægur, en líka rómversk „barokkklassík“  Þetta bókasafn er „,hressandi, ekki ofhlaðið, organískt finnsk flétting inní borgarkjarna í anda  „Borromini+Kahn.  Svo er tölvumynd af Wood City Helsinki 2016 sem er nálægt miðri borginni og við sjóinn og er í byggingu.Þetta eru 2 íbúðarkomlexar+hótel+skrifstofur,alls ca.32.000 ferm. allt byggt úr trékonstr.

Ég minni á að fólk getur slegið upp nafn8i gunnlaugs hé í leitarvélinni til hliðar til þess að lesa fyrri pistla hans hér á vefnum.
SKMBT_C652D14091009320

SKMBT_C652D14091009200_0001

SKMBT_C652D14091009330_0001

 

SKMBT_C652D14091009330_0003SKMBT_C652D14091009330_0002

Övertorneå_05_west-facade_1_200

 

 

konsthall tornedalen vitsamieni

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 6.9.2014 - 23:55 - 6 ummæli

Hundruð fermetra byggðir á 10 tímum.

50475beb80895.preview-620

Scott Miller íbúi í Ohio í Bandaríkjunum tók myndina að ofan fyrr á áriunu þar sem fram kemur að Amish fólkið á svæðinu tókst að byggja fleiri hundruð fermetra hlöðu og gripahús á aðeins 10 tímum. Þetta tókst þó fólkið tæki sér meira en klukkutíma til hádegirverðar og án tölvuteikninga og forrita á borð við allt það sem nútíma fólki finnst ómissandi í dag.

Engin gæðakerfi, engar tölvur, engin forrit og algert traust meðal þeirra sem að verkinu kom. Engar tryggingar og engar kröfur vegna græðgi og/eða vanefnda.

Allt virðis ganga upp.

Maður veltir fyrir sér hvort við göngum götuna til góðs.

Kíkið á myndbandið.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.9.2014 - 11:13 - 20 ummæli

Istanbul – Frakkastígur

 

Coming down … The OnaltiDokuz towers in Istanbul, shown here looming above the Suleymaniye mosque, now face demolition after a court order.

 

Ég var einusinni staddur i Gund Hall þar sem The GSD  (Harvard Graduate School of Design) í Harvard er til húsa.

Þar er masterað og doktorerað í arkitektúr, borgarskipulagi, landslagsarkitektúr og hönnun.

Ég var viðstaddur umræður um borgarprófil (skyline) Bostonborgar.

Þetta var fyrir svona 15 árum og ég verð að segja að mér fannst umræðan ekki sérlega merkileg. Aðspurður lét þá skoðun mína í ljós að megin vandamál borga almennt væri ekki hvernig þær mættu himninum heldur frekar samgöngur, sjálfbærni og lífið á götunum og milli húsanna.

Nú mörgum árum seinna hef ég áttað mig á að borgarprófíllinn skiptir verulegu máli. Og umræðurnar um Boston skyline  á GDS áttu fullan rétt á sér.

Þetta rifjaðist upp þegar ég las að stjórnvöld í Istanbúl hafa ákveðið að láta rífa nýleg háhýsi þar í borg vegna þess að þau skemma borgarprófílinn og gera áhrif Hagia Sophia og fleiri bygginga sem móta borgarlandslagið minni.

Skipulagsyfirvöld í París áttuðu sig á þessu um miðjan sjöunda áratuginn þegar þeir tóku að undirbúa viðskiptahverfið La Defence þar sem háhysi voru leyfð. Háhýsið á Montparnass var þá risið og byrjað var á uppbyggingu 20-25 hæða íbúðahúsa við Quai de Grenell við Signu skammt frá Effelturninum.

Parísarbúar ákváðu í byrjun áttunda áratugarins að ekki skyldi byggja fleiri háhýsi innan Periferíunnar og nú er talað í alvöru um að rífa Montparnasse turninn.

Þessi vakning sem mér sýnist vera að eiga sér stað víða um lönd þótt hægt fari á vonandi eftir að skila sér hingað.

Ég spái háhýsinu sem nú er að rísa neðst við Frakkastíg ekki langlífi. Og reyndar tel ég líklegt að það verði búið að rífa öll svörtu háhýsin í Skuggahverfinu löngu áður en þau hús sem eru í umræðunni að Laugarvegi tvö og fjögur verða látin víkja.

Já, það er margs að gæta í borgarskipulaginu.

Skoðið pistil arkitektúrbloggarans Oliver Wainwright um efnið :

 the Guardian

Að neðan koma nokkrar myndir frá Istanbúl og svo ein af Montparnasse turninum sem talað er um að rífa og svo neðst háýsi við Frakkastíg sem vonandi fær sem fyrst sömu örlög og húsin í Istanbul og í París.

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2014/03/03/mikilvaeg-sjonlina-skert-i-reykjavik/

 

 

Borgarprífíll Istanbul er ógnað með nýbyggingum

Þessi hús eiga að víkja fyrir borgarlandslaginu.

Overlooking-the-most-beautiful-Paris-on-the-Montparnasse-Tower-15

Rætt er um að rífa þennan turn sem byggður var innan Periferíunnar í París.

Frakkastígur-myndir-640x281

Nýbygging við Frakkastíg skerðir mikilvæga sjónlínu til sjávar og fjalla.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn