Mánudagur 24.9.2012 - 00:10 - 12 ummæli

Frumvarp um “sögulega byggð”

 

 Það er ánægjulegt að verða þess var að alþingirmenn bregðist við almennum umræðum um bygginga og skipulagsmál með þeim hætti sem nú hefur gerst.

Ég hvet alla sem láta sig skipulag eldri hverfa varða að lesa eftirfarandi texta sem barst síðunni:

Í nýju frumvarpi á alþingi er lagt til að „sögulegri byggð“ í borg og bæjum verði gefin sérstaða í skipulagslögum og búið þannig um hnúta að eigendur fasteigna á slíkum svæðum fái ekki sjálfkrafa skaðabætur við breytingu á deiliskipulagi sem skert gæti meinta framtíðarhagsmuni þeirra. Með þessu væri almannahagur efldur á svæðum á borð við Kvosina og Laugaveginn í Reykjavík, gömlu kjarnana á Ísafirði og Akureyri, elstu hluta Seyðisfjarðar, Þingeyrar, Flateyrar og miklu fleiri byggða. Kveikja frumvarpsins eru umræðurnar í sumar um nýframkvæmdir og hugmyndasamkeppni kringum Ingólfstorg í Reykjavík.  Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Mörður Árnason.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að sveitarstjórn geti afmarkað „sögulega byggð“ í deiliskipulagi. Á slíku svæði gildi sú regla að breytingar á skipulagi skapi fasteignareigendum því aðeins skaðabótarétt að þeir hafi áður aflað sér byggingarleyfis fyrir tiltekinni framkvæmd, en byggingarréttur rennur út eftir ár ef framkvæmdir hefjast ekki áður. Með þessu móti yrði hægara um vik fyrir kjörna fulltrúa að breyta deiliskipulagi í viðkvæmustu hlutum byggðar sinar í þágu almannahagsmuna, með verndarsjónarmið, menningarleg rök og útivistarþarfir í huga.

Söguleg byggð er þannig skilgreind í frumvarpinu að um sé að ræða hverfi eða hverfiskjarna þar sem byggð er að stofni til frá því fyrir 1920, eða þar sem byggð hefur sérstakt byggingarsögulegt gildi, eða þar sem byggð hefur sérstakt menningarsögulegt gildi. Víða erlendis er slíkum skipulagshugtökum beitt til að auka vernd gamalla byggðakjarna eða sérstæða, en í íslenskri löggjöf hefur skort á með þeim afleiðingum að um framkvæmdir og skipulag í sögulegum byggðarkjörnum hefur staðið styr áratugum saman, og margir þeirra verið eyðulagðir að hluta eða heild.

Flutningsmenn eru alls átta, úr fjórum þingflokkum auk óháðs þingmanns, allir fulltrúar í umhverfis- og samgöngunefnd alþingis sem fjallar meðal annars um skipulagsmálefni.

Sjá frumvarpið sjálft í viðhengi og um þessa slóð: http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=141&mnr=149

Það er mkilvægt að bregðast við þessu frumkvæði og fagna áhuga þingmannanna á þessu merkilega máli og styðja þá til allra góðra verka.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 22.9.2012 - 12:09 - 7 ummæli

Arkitektúr tímarit komið út.

 

Tímarítið Arkitektúr er komið út glæsilegt að venju. Allur frágangur og málfar er til fyrirmyndar. Í kynningu Arkitektafélagsins er síðasta tölublað kynnt með eftirfarandi hætti:

ARKITEKTÚR – tímarit um umhverfishönnun, 1. tölublað 2012 er komið út. Útgefandi er Arkitektafélag Íslands og Félag landslagsarkitekta, Ritstjóri er Bjarki Gunnar Halldórsson  FAÍ. Í ritnefnd eru Kristín Þorleifsdóttir FÍLA, Anna María Bogadóttir FAÍ, Lilja Filippusdóttir FÍLA og Harpa Heimisdóttir FAÍ. Um hönnun sáu Borghildur Sölvey Sturludóttir FAÍ og Anders Möller Nielsen FAÍ og MAA. Blaðið er óvenju glæsilegt að þessu sinni og hefur líklega aldrei verið efnismeira. Auk leiðara og umfjöllunar um samkeppnir um umhverfi Norræna hússins, Karastaðastígs á Þingvöllum og göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaárósa eru í blaðinu 19 greinar um arkitektúr og umhverfishönnun. Hildigunnur Sverrisdóttir arkitekt FAÍ skrifar skemmtilega og gagnrýna grein um Hörpu, Garðar Snæbjörnsson arkitekt FAÍ fjallar um hinn athyglisverða Brunareit og Kvosina, danski arkitektinn Stig Lennart Andersson MAA, MDL fjallar um þróun borgarlífs, Kristín Þorleifsdóttir, Phd. og landslagsarkitekt FÍLA fjallar um markaði svo aðeins fátt eitt sé nefnt af öllu því vandaða efni sem í blaðinu er. 

Ritstjórnin hefur augljóslega lagt hart að sér til þess að tímaritið verði sem glæsilegast. Og það hefur tekist.

Þarna er vel skrifuð umfjöllun Hildigunnar Sverrisdóttur um Hörpu. Þar veltir hún m.a. fyrir sér hvort byggingin snúi ekki öfugt. Eins og fram hefur komið í mínum pistlum þá er ég sammála þessu. Þetta sjá flestir sem kynt hafa sér málið.

Eitt vil ég þó finna að þessu tölublaði. Það er að ekki er fjallað um stærsta mál sem komið hefur upp í arkitektúr í sögunni. Það liggur fyrir að Landspítalinn Háskólasjúkrahús mun breyta ásýnd höfuðborgarinnar. Margt bendir til að aðeins hluti þessarrar miklu áætlunar verði framkvæmd á næstu áratugum.

 

Mér er fyrirmunað að skilja hvernig ritstjórn tókst að sneiða hjá þessu mikla máli í þessu tölublaði. Slíkur er þungi umræðunnar og slík eru áhrifin ef af þessu verður. Ég hefði viljað sjá ítarlega faglega umfjöllun um málið þar sem sérfræðingar úr öllu samfélaginu leggðu orð í belg. Í þessu eintaki Arkitektúrs var kjörið tækifæri til þess á faglegan hátt að upplýsa um málið hugsanlega þannig að rétta megi stöðu þeirra sem vinna að þessu verki. En það hallar nokkuð á þá um þessar mundir. Því miður. Í næsta tölublaði er það of seint.

Ef tímaritið Arkitektúr ætlar að hafa áhrif verður það að ná til almennings og fjalla þannig um málin að í það verði vitnað í öðrum fjölmiðlum.

Það verður að fjalla um mál líðandi stundar og leggja mikilvæg sjónarmið til í umræðuna.

Harpan er útrædd, byggð og búin þó mikilvægt sé að fólk tjái sig um hana öðrum til fróðleiks og skemmtunar.

Sjá einnig:

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/10/16/byggingarlistin-er-utundan/

og

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.9.2012 - 07:54 - 9 ummæli

Vandkunsten í Reykjavík

Ég má til með að kynna hér lítillega dönsku teiknistofuna Vandkunsten. Hún var stofnuð í sambandi við einhverja stærstu samkeppni sem haldin hefur verið í Danmörku fyrr og síðar. Það var samkeppni SBI um lága þétta byggð. Keppnin var gríðarlega vel undirbúin og tók á öllu sem varðaði búsetu fólks frá nánast öllum hugsanlegum sjónarmiðum.

Þetta var árið 1971 og voru þeir sem stóðu að Vandkunsten kornungir menn. Einn þeirra var félagi minn, Trolle, sem lést skömmu síðar.

Vandkunsten vann samkeppnina með því að leggja fram tillögu sem tók á nánast öllu samfélaginu; pólitískum málum, efnahagsmálum, atvinnumálum og nánast öllum félagslegum spurningum sem þá voru uppi auk þess auðvitað að leggja fram tillögu með framúrskarandi arkitektúr.

Í framhaldinu unnu þeir yfir 60 fyrstuverðlaun í opnum dönskum, norrænum og alþjóðlegum samkeppnum. Stofan hefur verið tilnefnd 5 sinnum til Mies van der Rohe verðlaunanna, fengið Eckersberg medalíuna,  CF Hansen verðlaunin, Træprisen, DAL verðlaunin og nánast öll arkitektúrverðlaun sem veitt eru í Danmörku. Alþjólegu verðlaun Kasper-Salin, Frits Schumacherverðlauni og hina virtu Alvar Aaltó medaliú fyrir utan fjölda verðlauna sem ríki og bæjarfélög hafa veitt þeim fyrir framúrskarandi arkitektur.

Flestar þessara viðurkenninga voru veitt Vandkunsten  fyrir ramma- og deiliskipulagshugmyndir og íbúðabyggingar.

Og af hverju má ég svo til með að kynna Vandkunsten sérstaklega. Jú, það er vegna þess að stofan sóttist  eftir að fá að taka þátt í lokaðri samkeppni um íbúðasvæðið í Úlfarsárdal í Reykjavík. Þeir sóttu þetta nokkuð fast en niðurstaða þeirra sem báru ábyrgð á valinu var sú að aðilar sem voru í föstum viðskiptum við skipulag borgarinnar væri þeim fremri og líklegri til þess að koma fram með nýjar og nothæfar hugmyndir sem vísuðu veginn til framtíðar í skipulagsmálum hér á landi.

Enginn veit hvernig Vandkunsten hefði nálgast lausn sína í Úlfarsárdal.  En ég tel líklegt að þeir hefðu nálgast hana í stóru samhengi hlutanna. Tillaga þeirra hefði verið önnur en við eigum að venjast, framúrstefnulegri, vistvænni og með menneskjuna í forgrunni. Þeir hefðu að líkindum skoðað allt suðvesturhornið sem eina skipulagslega heild og allt svæðið frá Akranesi til Selfoss og Keflavík sem eitt atvinnusvæði. En það fáum við aldrei að vita.

Hjálagt eru nokkrar myndir af verkum stofunnar og neðst er stutt myndband þar sem eitt verka þeirra í Grænlandi er kynnt og sýnir hvernig þau nálgast lausnir sínar. Myndbandið er fróðlegt og lýsir skíra og opna hugsun sem einkennir stofuna. Þeir sem þekkja verðlaunatillögu þeirra frá 1971 sjá skyldleikann.

Hér má kynnast verkum stofunnar nánar:

http://www.vandkunsten.com/dk/Projekter

Efst í færslunni er óbúðahverfið Tinggården þar sem er lág þett byffð sem gefur tækifæti tilþéttra göturýma en um leið opinna útivistarsvæða eins og sjá má af afstöðumyndinni að ofan.

 

 

 

 

 

Hér að neðan er lýst skemmtilegri hugmynd vandkunsten varðandi þinghús dana.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.9.2012 - 15:57 - 4 ummæli

Chicago -“That is Wright all right”

 

 

Því var haldið fram í gamla daga á Akademíunni í Kaupmannahöfn að maður gæti ekki orðið almilegur arkitekt nema að hafa „gengið suður“, til Rómar.

Auðvitað gerðu það flestir. Rómaborg var álitinn heppilegur staður til þess að læra að lesa anda staðanna.

Það var einkum vegna þess að borgin er gömul og sagan mikil. Í Forum Romanum má skoða fjölbreytilegt múrverk, í Hadrians Villa má skoða form án þess að vita funktionina. Það er að segja að sjá hreina fagurfræði nytjalistarinnar sem arkitektúr er án þess að vita hvaða tilgangi byggingarnar áttu að þjóna.

Ég hef komið nokkru sinnum til Chicago. Í fyrsta sinn gagngert tilað skoða verk Louis Sullivan þó Frank Lloyd Wright hafi fengið að fljóta með.

Í byrjun sumars fór ég svo enn einu sinni til Chicago. Borgin brást ekki frekar en fyrri daginn. Mínar uppáhaldsborgir í USA eru Boston, San Fransisco,Seattle og Chicago sem er á toppnum. Ofmetnasta stórborg Bandaríkjanna sem ég þekki til er Los Angeles. Enda er LA í sjálfu sér ekki borg heldur stórt úthverfi samansett af einum 90 sveitarfélögum 

Hjálagt eru nokkrar myndir sem ég tók á ferðalaginu til Chicago og sýna fjölbreytileikann. Í borginni er frábær arkitektúr hvarvetna. Öflugt götulíf (á sumrin) fjölbreytt leikhúslíf, mikið um tónlist og aldeilis frábær myndlistasöfn.

Ég mæli með að fólk sem hefur áhuga fyrir arkitektúr og staðaranda fari í heimsókn til Chicago í næstu ferð sinni til stórborgar eftir að þeir hafa farið til Rómar að sjálfsögðu.

Ég skoðaði ein 10 hús á preriunni vestur af Chicago.  Allt lítil og millistór einbýlishús sem Wrigth teiknaði á árunum 1890-1910. Sum áður en hann var rekinn frá meistara sínum Sullivan. Sullivan líkaði ekki að Wright væri að harka á kvöldin og um helgar meðan hann var í vinnu hjá sér og rak hann. Þetta var hið versta mál fyrir FLW af því að hann var ekki útskrifaður arkitekt.

Efst er mynd úr gömlum hluta miðborgarinnar. Að neðan koma myndir úr miðborginni og í framhaldinu nokkrar myndir af húsum Frank Lloyd Wright í Oak Psem er rétt vestan við miðborgina.

 Spegilskúlptúr í Millenium Park. Þar í garðinum er vark eftir Gehry og stórgott myndlistarsafn.

 Hin þekktu hús á Lake Shore Drive eftir Mies van der Rohe. Þessi hús voru afskaplega ódýr í bygging en eru með þeim vinsælustu í borginni í dag. Byggingaframkvæmdum lauk árið 1951 eða fyrir 61 ári.

 

Sears stórverslunin eftir Sullivan. FLW teiknaði allt ornamentið á fyrstu og annarri hæð. Sullivan hálfpartinn jarðsetti húsið í bók sinni „An autobiografi of an idea“ þar sem hann fjallar um funktionalisman og kennisetningu sína  „Form must always follow function“  ( sumir eru svo óforskammaðir að eigna FLW þetta gullkorn) og spyr hvað búðargluggar séu að gera uppi á 11 hæð í verslun?   Hver ætti svo sem að horfa inn um þá?

 

Hancock Center efti SOM með iðandi mannlífi á „Golden Mile“. Húsið var klárað árið 1965.

Sumir garðarnir eru „franskir“ aðrir „enskir“ og svo eru garðar sem eru skipulagðir eins og þeir séu villtir.

 Hér að neðan koma myndir af nokkrum húsa Frank Lloyd Wright sem öll eru í Oak Park. Lifshlaup Wright var sögulegt. Hann leit stórt á sig og var áberandi hvar sem hann kom. Hann bar kápuna á báðum öxlum í bókstaflegri meiningu og bar barðastóran hatt. Sagt var að ára hans væri svo mikil að hann fór ekki framhjá neinum sem var nálægt honum. Því var jafnvel haldið fram að ára hans væri svo plássfrek að kristalljósakrónurnar í loftinu á anddyrinu  á Waldorf Astoria hótelinu í New York  hafi skolfið og hrists  þegar hann gekk þar um.

 

 Húsið að ofan er vinnustofa og heimili Frank Lloyd Wright  í Oak Park. Að neðan eru svo ljósmyndir af nokkrum húas hans.

 

 

Að neðan er kapella í Oak Park. Ég held hún sé frá 1905. Þegar byggingin er skoðuð nánar þá sér maður að það er nokkuð mikið Dudoc yfirbragð þarna (Hilversum) og þá auðvitað um leið Guðjón Samúelsson.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.9.2012 - 12:16 - 6 ummæli

Hljómalindarreitur og Brynjureitur í kynningu

 

 

 

Síðdegis á morgun verður haldinn kynningafundur um ný deiliskipulög á svokölluðum Brynjreit og Hljómalindarreit í miðborg Reykjavíkur. 

Þetta eru mikilvægir staðir í hjarta borgarinnar. 

Reitirnir liggja báðir að Laugavegi og samanlagt eru þeir um fjórðungur lengdar Laugarvegar frá Bankastræti inn að Snorrabraut.

Það er ánægjulegt að vera vitni að því að byrjað sé á að endurskoða reitina innan gömlu Hringbrautar. Gildandi skipulög eru flest mjög umdeild og telja margir að þau hafi valdið grenjavæðingu víða á svæðinu. Menn hafa hætt að halda húsum sínum við vegna fyrirheita um mun meiri nýtingu á lóðum sínum samkvæmt heimildum sem falin voru í skipulagsgerðinni.

Með kynningunni á morgun er brotið blað í þessum málum, það kveður við nýjan tón og því ber að fagna.

Í aðalatriðum felast breytingarnar í því að minnka byggingarmagnið, minnka niðurrif eldri húsa ásamt því að vernda götumyndir og yfirbragð þannig að  “íbúar þekki borgina sína á ný og séu sáttir við umhverfið”  eins og það er orðað. Þá er lögð áhersla á vistvæna bakgarða og gönguleiðir innan reitanna.

Manni sýnist að reitirnir báðir hafi batnað mikið frá fyrra skipulagi þó ég átti mig ekki á því af hverju þurfi að láta húsin Laugaveg 27 víkja ásamt Laugaveg 29 sem verslunin Brynja er í. En reiturinn hefur uppá síðkastið verið nefndur eftir þeirri starfsemi sem þar hefur verið í tæp 100 ár.

En svör við þeirri spurningu og fleirum fæst á fundinum á morgun sem haldinn verður að Hverfisgötu 33  milli kl 16.00 og 18.15

Ágætt myndefni og nánari skýringar er að finna á eftirfarandi slóð:

https://www.facebook.com/#!/media/set/?set=a.10151199072940042.499308.405625165041&type=3

Sjálft skipulagið er að finna á eftirfarandi slóð:

Brynjureitur, deiliskipulag (PDF)  
Brynjureitur, skýringaruppdráttur (PDF)  

Hljómalindareitur, deiliskipulag (PDF)  
Hljómalindareitur, skýringaruppdráttur (PDF) 

Frá þessari hugmyndafræði um mikið niðurrif og mikla uppbyggingu virðist borgin vera að hverfa, góðu heilli.

Að skipulaginu standa Reykjavíkurborg og Fasteignafélagið Reitir sem hafa unnið skipulagið í nánu samstarfi við hagsmunaaðila á svæðinu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.9.2012 - 14:07 - 8 ummæli

Andrík skrifstofurými

 

Ég rakst á vef sem fjallar er um andrík skrifstofurými þar sem samvinna og upplysingaflæði milli starfsmanna er í lykilatriði. Þegar horft er á myndirnar sér maður nokkuð rökrétta þróun skrifstofuhúsnæðis frá þeim tíma þegar allir voru lokaðir af inni á sinni skrifstofu yfir í opna skrifstofurýmið og hingað.

Þar var oftast of lítið hugað að samtalssvæðum starfsmanna og fundaraðstöðu. Vönduðum húsgögnum var bara raðað upp í rými án veggja og að því er virtist einkum til þess að spara fermetra. Fundarherbergi voru fá og yfirmenn voru gjarna lokaðir af á sinni einkaskrifstofu.

Á þeim skrifstofum sem hér er lýst er mikið gert úr svæðum og aðstöðu til samskipta og skoðanaskipta. Ekki er verið að spara fermetra. Þvert á móti er gott pláss fyrir flæði, fundarherbergi og þ.h.

Eftirtektarvert er hvað lítil áhersla er lögð á allskonar innréttingar og frágang. Rýmin virðast vera í e.k. iðnaðarhúsnæði þar sem ekkert er kerfisloftið og gólfefni af billegustu gerð. Allar lagnir og loftræsingar eru sýnilegar og svegjanlegar. Húsgögn virka sem einhver samtínigur.

Þetta er þveröfugt við það sem maður upplifir víðast á skrifstofum hérlendis þar sem sýndarmennska ríkir og  hvað varðar val á húsgögnum og byggingarefnum.

Nöfn fyrirtækjana koma fram við myndirnar.

Slóðin að umræddum vef er þessi:

http://myturnstone.com/blog/21-inspirational-collaborative-workspaces/

22Squared

BGT Partners

Cheil

Dreamhost

Facebook

Google

Google

Headvertising

Horizon Media

JWT

Kiva

Microsoft

Mono

One & Co

Pensar

Quid

Skype

Skype

Skype

Three Drunk Monkeys

TNT Express

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.9.2012 - 22:54 - 10 ummæli

Rammaskipulag hafnarinnar – bakgrunnur og hugmyndir

 

Í  rammaskipulaginu sem kynnt var í borgarráði í fyrradag komu fram nokkur atriði sem hafa áhrif á nálgunina og lausnina. Í fyrsta lagi er það  sögulegt samhengi hlutanna sem hafa afgerandi áhrif eins og lesa má um í síðustu færslu og í öðru lagi óskin um að tengja höfnina betur miðborginni og blása meira lífi í svæðið.

Búið var að byggja gjá milli miðborgarinnar og hafnarinnar með ýmsum aðgerðum, t.a.m. Geirsgötu sem er fráhrindandi hraðbraut sem ekki á að eiga heima í nokkurri miðborg.

Rammaskipulagið gerir ráð fyrir að breyta þessu  og færa miðborgina og höfnina nær hvorri annarri bæði starfrænt og myndrænt  eins og var á árum áður. Þá er sóst eftir að styrkja sjónása til sjávar sem eru með sterkari einkennum gatnaskipulags Reykjavíkur inan Hringbrautar.

Hjálagt eru nokkrar myndir sem skýra þetta betur en mörg orð. Efst er mynd sem sýnir nánast allt svæðið. Þar sést slippurinn og sundstaður við hafflötinn ásamt líflegri hafnarstarfsemi. Hafa ber í huga að þetta eru skipulagshugmyndir sem eiga eftir að fá hús sem væntanlega falla betrur að borginni og starsseminni þegar frá líður.

 

Það sem einkennir gatnakerfi Reykjavíkur er að það opnar með reglulegu millibili útsýn til sjávar og til Esjunnar.  Þessir sjónásar eru einkennandi í mörgum hafnarborgum á Norðurlöndum. Myndin að neðan er frá Stokkhólmi en sú efri frá Klapparstíg.

 

 

Í hugmyndafræðinni er lögð áhersla á að hafnarstarfssemi verði mikil á svæðinu. Höfn án skipa er ekki höfn. Margir telja til dæmis að höfn Kaupannahafnar sé ekki lengur höfn heldur „waterfront“ . Höfundar skipulagsins og Faxaflóahafnir eru meðvituð um þetta. Á Miðbakka verður ekki sportbátalægi heldur er ætlast til þess að stærri skip leggi þar upp, ísbrjótar, skólaskip, minni skemmtiferðaskip og rannsóknarskip.

 

Hér er mynd sem sýnir svipað fyrirkomulag og stefnt er að nema að ekki verður hraðbraut sem skilur milli hafnarinnar og byggðarinnar.

 

Hér er mynd af  hafnarbaði í Kaupmannahöfn svipuðu og lagt er til að verði í Reykjavíkurhöfn. (laugin er eitt af fyrstu verkumstjörnuarkitektsins Bjarke Ingels nú hjá BIG, áður PLOT).

Takið eftir að þarna eru engin skip. Það voru hræðileg og ófyrirgefanleg mistök að úthýsa skipum úr höfninni þar á bæ. Það vissu allir að steft var í ranga átt. Arkitektarnir Halldor Gunnlögsson prófessor og Jörn Utzon vöruðu við þessu. En stórfyritæki sem vildu byggja höfuðstöðvar sínar á svæðinu höfðu betur.

 

Yfirlitsmynd yfir miðborgina. Fara ber ofurvarlega hvað varðar allar skipulagsákvarðanir innan Hringbrautar og sérstaklega á viðkvæmasta staðnum, Reykjavíkurhöfn og Kvosinni.

Hugmyndin er að í skipulaginu verði lítil borgartotg af svipaðri stærp og gerð og myndin að ofan lýsir.

Að ofan er ljósmynd tekin norður Mjóstræti í Grjótaþorpi . Þar eru húsin tveggja til fjögurra hæða svipað og stefnt er að á Miðbakka þar sem húsin verða tveggja til fimm hæða. Göturnar á Miðbakka verða álíka breiðar og þar sem Mjóstræti er þrengst. En á móti kemur að á Miðbakka verða lítil borgartorg með jöfnu milllibili.

 

Gert er ráð fyrir að bifreiðastæðin á svæðnu sé max eitt á íbúð og öll niðurgrafin að fullu eða hálfu.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.9.2012 - 21:18 - 18 ummæli

Nýtt rammaskipulag-Reykjavíkurhöfn

 

Það eru margir góðir hlutir að gerast í skipulagsmálum í Reykjavík þessi misserin. Ég nefni aðra áherslur en ríkt hefur í samgöngum, þéttingaráform við Þverholt, studentagarðar við Sæmundargötu og uppbyggingu við Ingólfstorg.

Merkilegasta skipulagið sem nú er til umfjöllunar var kynnt í borgarráði fyrr í dag.  Það er rammaskipulag fyrir hafnarsvæðið sem kynnt var í borgarráði um hádegið.

Þetta er skipulag sem unnið er í nánu samstarfi milli Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna.  Rammaskipulagið er unnið  á grundvelli tillögu Graeme Massie, skoskum arkitektum sem unnu hugmyndasamkeppni um hafnarsvæðið fyrir fáum árum.

Þetta er viðamikið verkefni sem fjallar um viðkvæman stað í borginni, sjálfa Reykjavíkurhöfn. Eftir að hafa kynnt mér þetta nokkuð sýnist mér hér vera fetuðð skynsamleg slóð sem færir miðborgina nær höfninni þannig að hún og borgin færa hvoru öðru líflegt umhverfi þar sem manneskjan og hafnarstarfsemi fá notið sín. En það er mjög mikilvægt að starfssemin tengist höfninni og að þau hús sem þarna komi taki mið af staðaranda Kvosarinnar.

Hér birtast nokkrar myndir ásamt formála sem Hjálmar Sveinsson formaður Faxaflóahafna og varaformaður skipulagsráðs skrifar.

Gefum Hjálmari orðið:

„Á ljómyndum sést að miðborg Reykjavíkur var hafnarborg lengst af á 20 öldinni. Þar áður hafnlaust sjávarpláss. Götur og sund teygja sig alveg að sjónum og húsin standa á hafnarbakkanum. Landfyllingar, plássfrek hafnsækin starfsemi og hönnun Geirsgötu sem borgarhraðbrautar rufu þessi tengsl borgar og hafnar.

Breytt skipulag hafnarstarfseminnar, aukinn áhugi borgarbúa og ferðamannaá hafnarsvæðinuog breytt viðhorf til borgarumhverfisins hafa á undanförnum árum myndað ný tengsl. Segja má að nú sé stöðugur straumur fólks niður að höfninni við verbúðirnar í Suðurbugt og að Hörpu yst á Austurbakka. Gamla hafnarsvæðið er að verða ný þungamiðja borginni.

Markmið rammaskipulagsins er að gera borgina að hluta af höfninni og höfnina hluta af borginni. Húsin standa aftur á hafnarbakkanum og göturnar teygja sig að sjónum. Við það opnast þægilegar leiðir niður að hafnarkantinum og skemmtilegir sjónásar niður að sjó verða til. Til að það takist er lykilatriði að Geirsgötu verði breytt úr fráhrindandi hraðbraut í  aðlaðandi borgargötu með hægri umferð. Sú umbreyting ein og sér er mikilvægur liður í því að byggja upp borg fyrir fólk frekar en bíla. Hún er mikilvæg yfirlýsing um nýja stefnu í skipulagsmálum borgarinnar

Rammaskipulagið gefur borgarbúum kost á að njóta þeirra eftirsóttu lífgæða sem góð hafnarhverfi skapa. Svæðinu milli Sjóminjasafns og Hörpu er skipt upp í fjögur hafnarhverfi sem kallast: Vesturbugt, Suðurbugt, Miðbakki og Austubakki. Skipulagið leggur áherslu á að hvert þessara hverfa hafi sinn karakter en öll einkennast þau af fjölbreytni, skemmtilegum almenningsrýmum og greiðum leiðum fyrir fótgangandi vegfarendur og hjólandi. Bílastæði eru nær alfarið í bílakjöllurum og kveðið er á um að þau skuli vera að hámarki eitt á íbúð.

Uppbyggingnýju hafnarsvæðanna fellur vel að markmiðum endurskoðaðs aðalskipulags borgarinnar til ársins 2030.  Þar er gegndarlausri útþennslu borgarinnar snúið við. Borgin á ekki lengur að byggjast út á við heldur inn á við. Gert er ráð fyrir að allt að 90% nýrra íbúða rísi innan núverandi þéttbýlismarka. Eingöngu verður byggt á auðum og illa nýttum svæðum. Hafnarsvæðið er vestast á mikilvægum þéttingarás sem teygir sig frá höfininni og austur að Elliðaárósum.

Með rammaskipulaginuer ennfremur snúð frá þeirri stefnu að rífa allt sem fyrir er og byggja allt nýtt frá grunni. Áhersla er lögð á að byggja inn í það sem fyrir er og sýna því tilhlýðilega virðingu. Gömlu verbúðirnar við Suðurbugt halda sé allar sem ein og spilhúsin í Slippnum. Og Slippurinn sjálfur verður fyrst um sinn áfram á sínum gamla stað. Einnig er vandlega passað upp á að húsahæðir séu í klassískum reykvískum skala: þrjár til fimm hæðir. Götur er hafðar fremur þröngar, eins í Grjóaþorpinu, og inn á milli húsanna eru hér og hvar lítil og nett torg.

Mikil áhersla er lögð á fjölbreytni eins og fyrr segir, og byggðin á að vera sem blönduðust: Íbúðir, verslanir, handverkstæði, skrifstofur, hótel, slippur, ferðaþjónusta, söfn, kaffihús, gallerí, veitingastaðir, fiskmarkaður og jafnvel útisundlaug. Félagslegur margbreytileiki er ekki síður mikilvægur. Þetta eiga ekki að vera hverfi þar sem eingöngu sterkefnað fólk hefur efni á að búa. Mikilvægt er að tryggja það í deiliskipulagsskilmálum og úthlutun lóða.

Í deiliskipulagsvinnu er einnig mikilvægt að gerðar verði sem vandaðastar úttektir á skuggavarpi og vindstrengjum.

Mikilvægt er að hafa í huga að í næsta nágrenni við þessi svæði eru nokkrar stórar, auðar lóðir sem bíða eftir uppbyggingu. Á næstu árum gætu byggst þarna upp samanlagt 1000 til 1500 íbúðir. Það kallar augljóslega á lausnir varðandi leikskóla og grunnskólapláss.

Uppbyggingin á hafnarsvæðinu er áfangabundin. Reiknað er með að vestasta svæðið, milli Slipps og Sjóminjasafns, byggist fyrst upp. Þar gætu risið allt að 250 íbúðir.

Vegna uppbyggingaráforma samkvæmt gildandi deiliskipulagi á austasta svæðinu, Austurbakka, var ákveðið að taka það svæði út fyrir sviga og skila auðu. Engu að síður liggur einnig þar fyrir rammskipulagstillaga í þeim anda sem hér hefur verið lýst. Hugsanlega mun hún einhvern tíma koma að notum“.

Ég mun birta frekari upplýsingar um þetta metnaðarfulla skipulag á næstu dögum.

Lesa má um Reykjavíkurhöfn á þessum slóðum:

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/12/18/gamla-hofnin-samkeppni/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/11/18/reykjavikurhofn/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/08/15/reykjavikurhofn-myrargotuskipulagid/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/10/06/matarmarkadur-vid-reykjavikurhofn/

Geirsgata eins og hún er nú

Geirsgata eftir breytingu. Þarna er nýja byggðin á Miðbakka sýnd til vinstri. Til hægri má sjá að búið er að byggja í skarðið vestan við Borgarbókasafnið. Samkvæmt hugmyndunum hefur Geirsgötu verið breytt í borgarstræti með gróðri vaxinni eyju í miðjunni. Samkvæmt útreikningum á flutningsgetan að aukast við þessa aðgerð fyrir utan hvað gatan er öll manneskjulegri.

Hér sést austur yfir hafnarsvæðið. Næst eru stölluð hús í anda þeirrar byggðar sem fyrir er og einkenna svæðið. Slippurinn og gömlu verbúðirnar eru á sínum stað. Sjá má að stefnt er að lifandi hafnarstarfssemi í bland við íbúðabyggð og margskonar þjónustu.

Á nokkrum stöðum er gert ráð fyrir að fólk geti nálgast sjóinn á göngu. Gönguleiðir og áningarstaðir eru klæddir bryggjutimbri. Mismunandi hæð húsanna við höfnina tryggir að sólin nær að slá geislum sínum á svæðið á mismunandi stöðum háð sólagangi.

Fyrr á tímum var borgin og húsin mjög tengd höfninni eða lendingunni. Þessar aðstæður eru einn þáttur í hugmyndinni sem að baki rammaskipulagsins liggur.

Eitt af fjölmörgum torgum sem gert er ráð fyrir í skipulaginu.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.9.2012 - 01:23 - 3 ummæli

Hörgull og sköpun á Höfuðborgarsvæðinu

 

 

Arna Mathiesen arkitekt sem starfað hefur erlendis  hefur hvatt sér hljóðs í umræðu hér á landi um skipulagsmál  í stóru samhengi. Hún hefur fjallað um skipulagsmál í aðdraganda hrunsins og velt fyrir sér hvar ábyrgðin liggur og hver ætli að axla hana. Nú leggur hún enn í hann með alþjóðlega vinnusmiðju og málstofu sem hún kallar „EDGE URBANISM“  og er í tengslum við alþjóðlegt rannsóknarvekefni.

«Hörgull og sköpun í byggðu umhverfi“,  er alþjóðlegt rannsóknarverkefni sem hefur m.a. Reykjvíkursvæðið fyrir og eftir kreppuna sem viðfangsefni, hleypir af stokkunum vinnusmiðju um helgina. Vinnusmiðjan er í boði skipulagsdeildar Landbúnaðarháskólans. Íslenskir nemendur munu vinna í hópvinnu við hlið erlendra nemenda frá EMU (European Postgraduate Master of Urbanism). Með EMU koma professor Tjallingii frá Amsterdam og Prófessor Paola Viganó frá Feneyjum sem hafa vistfræðilega áherslu í skipulagi. Vinnusmiðjan, sem fer fram á ensku, hefst á Keldnaholti á laugardag með málstofu þar sem aðgangur er frjáls svo lengi sem húsrúm leyfir, og henni lýkur með yfirferð og sýnignu í Norræna húsinu 24. September. Frekari upplýsingar má sjá hér:  http://scibereykjavik.wordpress.com/articles/about/urban-workshop-2/. Þetta er önnur vinnusmiðja verkefnisins, en sú fyrri var í boði Arkitektadeildar Listaháskólans Íslands síðasta haust og einnig má lesa um hana á blogginu.

Einnig er boðið er til málstofu um hörgul og sköpun í byggðu umhverfi laugardaginn 22. September. Reynt verður að gera því skil hvernig hið byggða umhverfi var mótað fyrir hrun og hvaða kostir eru í stöðunni. Reynt verður að leita svara við því hvernig hægt væri að þróa áfram borgina á þann hátt að fólkið í henni verði í stakk búið til að lifa góðu lífi þótt að sverfi. Málstofan er hluti af alþjóðlegu rannsóknarverkefni um hörgul og sköpun í hinu byggða umhverfi (Scarcity and Creativity in the Built Envirionment SCIBE, www.scibereykjavik.com<http://www.scibereykjavik.com/> og www.scibe.eu<http://www.scibe.eu/>). Hún verður í Íslenska Bænum í Austur-Meðalholti í Gaulverjarbæ, og veitingar verða seldar á staðnum. Málstofan verður á ensku og öllum heimill aðgangur svo lengi húsrúm leyfir.

Sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og Skipulagsstofnun er þakkað veittan stuðning.

Lesa má um fyrri innlegg Örnu í umræðuna á þessari slóð:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/04/29/skipulagsmal-hver-axlar-abyrgdina/

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.9.2012 - 00:20 - 11 ummæli

Þétting byggðar – BÚR lóðin við Aflagranda.

 

Í síðasta pistil nefndi ég þrjú þéttingarsvæði vestan Elliðaá sem skipulögð voru eftir að Stefán Thors hélt sitt erindi fyrir meira en 33 árum.

Það var sameiginlegt með þeim öllum að fetuð var ný og nútímaleg leið í hugmyndafræðinni. Hugmyndin gekk út á meiri áherslu á lífið milli húsanna og minni áherslu á að skipulagið þjónaði einkabílnum.

Eitt svæðanna var íbúðabyggð sem reist var á fyrrum lóð Bæjarútgerðar Reykjavíkur vestur í bæ.

Borgin ákvað fyrir um aldarfjórðungi að bjóða til arkitektasamkeppni um þetta 3,7 hektara svæði og var þáttakendum gefnar nokkuð frjálsar hendur í tillögugerðinni.

Sú tillaga sem varð ofaná í samkeppninni gerði ráð fyrir mjög þéttri byggð með um 64 íbúðum á hektara eða samtals 236 íbúðum á svæðinu. Höfundar hefðu viljað sleppa bílskúrum og fækka bifreiðastæðum hefði þá eflaust verið hægur vandi að fjölga íbúðum upp í um 80 á ha. En tíðarandinn var ekki tilbúinn til þess þegar þetta var.

Til samanburðar er ekki óalgengt að fjöldi íbúða í einbýlishúsahverfum sé milli 13 og 20 á hektara.

Vinningstillagan á BÚR lóðinni gerði ráð fyrir þéttasta hverfi landsins þegar fjöldi íbúða á hektara er talinn. Þess ber þó að geta að á svæðinu er fjölbýlishús ætlað öldruðum.

Eitt af markmiðum höfunda var að skapa hverfi sem væri félagslega þannig samsett að sem breiðasti hópur samfélagsins geti fundið þarna húsnæði við sitt hæfi og að félagsleg einsleiti væri í lágmarki.

Gatnakerfið samanstendur af einni safngötu og svo stuttum vistgötum (shared streets) til sitt hvorrar handar.  Á vistgötunum voru, eðli málsins samkvæmt, engar gangstéttar enda áttu þær að þjóna að jöfnu bílum, gangandi og börnum að leik. Gatan átti að vera samkomustaður og leiksvæði barna og fullorðinna.

Einkalóðir voru litlar en nægjanlegar stórar til þess að fólk gæti notið þar útivistar og stundað minniháttar garðrækt.  Í hverfinu miðju er svo stærra útivistarsvæði ætlað öllum íbúum þar sem þeir geta komið saman og stundað plássfrekari iðju svo sem boltaleiki og annað.

Hús voru aðeins öðru megin við vistgöturnar til þess að draga úr umferð og áhrifum bílanna á götunum. Þetta átti líka að hvetja til samskipta íbúa milli gatna..

Stór hluti húsanna voru sérbýli, síðan komu lítl fjölbýlishús á jaðrinum og loks þjónustuíbúðir aldraðra.

Þessi nálgun sem hér er lýst var í anda þeirrar umræðu sem átti sér stað á þessum tíma í Evrópu og hefur verið í þróun allar götur síðan.  Af einhverjum ástæðum hefur hún ekki náð fótfestu hér á landi. Af hverju það gerðist ekki veit ég ekki nákvæmlega.

Þegar við vorum að vinna að deiliskipulaginu fundum við þó fyrir tortryggi í garð nálgunarinnar hjá yfirmönnum borgarskipulagsins. Mér fannst þeir ekki trúa á hugmyndina og vildu frekar feta hefðbundnar leiðir í skipulagi borgarinnar. Kannski skildu þeir ekki hugmyndafræðina alminlega. Að líkindum er það ástæðan fyrir því að ekki varð framhald á þessari þróun og útþennslu borgarinnar gefinn laus taumurinn þar sem þarfir einkabílsins réð ferðinni.

En hverfið er þarna, þéttast allra, vistvænt og félagslega huggulegt öllum til mikillar ánægju eftir því sem mér skilst.

Efst í færslunni er yfirlitsmynd yfir hverfið. Hvíta byggingin sem sést til hægri er stærri en deiliskipulagið gerði ráð fyrir. Húsbyggjendur þess húss og nokkurra annarra notfærðu sér að deiliskipulagið var ekki staðfest hjá Skipulagsstjóra Ríkisins og stækkuðu byggingareitinn í óþökk höfunda. Höfundar lögðu mikla áherslu á að skipulagið yrðu staðfest en fengu því ekki framgengt svo ótrúlegt sem það kann að virðast.

Það ber að taka fram að skipulagið á BÚR lóð var unnið af arkitektunum Finni Björgvinssyni og pistlahöfundi.  Þótt teiknistofa mín hafi hannað mörg hundruð þúsund fermetra húsnæðis af öllum gerðum og skipulagt tugi hektara þá hefur mér tekist að sneiða framhjá mínum verkum í pistlum þessum sem eru orðnir eitthvað á þriðja hundrað. Hér er undantekning á ferðinni.

 

 

Hverfið er fíngerð blanda af sérbýlum og litlum fjölbýlishúsum ásamt vernduðum þjónustuíbúðum fyrir aldraða.

 

 

 

 

Í miðju hverfinu er safngata. Við safngötuna stendur ekkert hús. Húsagöturnar eru vistgötur með engri gangstétt. Ætlast er til þess að þarna hafi bílar og gangandi sama rétt (shared street). Höfundar vonuðust til að gantan yrði leiksvæði um leið og hún væri aðkoma að húsunum. Einn íbúinn notfærir sér tækifærið eins og sést á þessari mynd og sett upp körfuboltaspjald nánast á götunni.

 

Sameiginlegt útivistarsvæði er í miðju hverfisins þar sem rýmra er um og fólk getur safnast saman til leikja og anarra athafna. Eins og sést á myndinni er gangstétt með safngötunni en ekki í vistgötunum/húsagötunum.

 

Sumstaðar hafa menn byggt gróðurskála við hús sín.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn