
Það eru margir góðir hlutir að gerast í skipulagsmálum í Reykjavík þessi misserin. Ég nefni aðra áherslur en ríkt hefur í samgöngum, þéttingaráform við Þverholt, studentagarðar við Sæmundargötu og uppbyggingu við Ingólfstorg.
Merkilegasta skipulagið sem nú er til umfjöllunar var kynnt í borgarráði fyrr í dag. Það er rammaskipulag fyrir hafnarsvæðið sem kynnt var í borgarráði um hádegið.
Þetta er skipulag sem unnið er í nánu samstarfi milli Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna. Rammaskipulagið er unnið á grundvelli tillögu Graeme Massie, skoskum arkitektum sem unnu hugmyndasamkeppni um hafnarsvæðið fyrir fáum árum.
Þetta er viðamikið verkefni sem fjallar um viðkvæman stað í borginni, sjálfa Reykjavíkurhöfn. Eftir að hafa kynnt mér þetta nokkuð sýnist mér hér vera fetuðð skynsamleg slóð sem færir miðborgina nær höfninni þannig að hún og borgin færa hvoru öðru líflegt umhverfi þar sem manneskjan og hafnarstarfsemi fá notið sín. En það er mjög mikilvægt að starfssemin tengist höfninni og að þau hús sem þarna komi taki mið af staðaranda Kvosarinnar.
Hér birtast nokkrar myndir ásamt formála sem Hjálmar Sveinsson formaður Faxaflóahafna og varaformaður skipulagsráðs skrifar.
Gefum Hjálmari orðið:
„Á ljómyndum sést að miðborg Reykjavíkur var hafnarborg lengst af á 20 öldinni. Þar áður hafnlaust sjávarpláss. Götur og sund teygja sig alveg að sjónum og húsin standa á hafnarbakkanum. Landfyllingar, plássfrek hafnsækin starfsemi og hönnun Geirsgötu sem borgarhraðbrautar rufu þessi tengsl borgar og hafnar.
Breytt skipulag hafnarstarfseminnar, aukinn áhugi borgarbúa og ferðamannaá hafnarsvæðinuog breytt viðhorf til borgarumhverfisins hafa á undanförnum árum myndað ný tengsl. Segja má að nú sé stöðugur straumur fólks niður að höfninni við verbúðirnar í Suðurbugt og að Hörpu yst á Austurbakka. Gamla hafnarsvæðið er að verða ný þungamiðja borginni.
Markmið rammaskipulagsins er að gera borgina að hluta af höfninni og höfnina hluta af borginni. Húsin standa aftur á hafnarbakkanum og göturnar teygja sig að sjónum. Við það opnast þægilegar leiðir niður að hafnarkantinum og skemmtilegir sjónásar niður að sjó verða til. Til að það takist er lykilatriði að Geirsgötu verði breytt úr fráhrindandi hraðbraut í aðlaðandi borgargötu með hægri umferð. Sú umbreyting ein og sér er mikilvægur liður í því að byggja upp borg fyrir fólk frekar en bíla. Hún er mikilvæg yfirlýsing um nýja stefnu í skipulagsmálum borgarinnar
Rammaskipulagið gefur borgarbúum kost á að njóta þeirra eftirsóttu lífgæða sem góð hafnarhverfi skapa. Svæðinu milli Sjóminjasafns og Hörpu er skipt upp í fjögur hafnarhverfi sem kallast: Vesturbugt, Suðurbugt, Miðbakki og Austubakki. Skipulagið leggur áherslu á að hvert þessara hverfa hafi sinn karakter en öll einkennast þau af fjölbreytni, skemmtilegum almenningsrýmum og greiðum leiðum fyrir fótgangandi vegfarendur og hjólandi. Bílastæði eru nær alfarið í bílakjöllurum og kveðið er á um að þau skuli vera að hámarki eitt á íbúð.
Uppbyggingnýju hafnarsvæðanna fellur vel að markmiðum endurskoðaðs aðalskipulags borgarinnar til ársins 2030. Þar er gegndarlausri útþennslu borgarinnar snúið við. Borgin á ekki lengur að byggjast út á við heldur inn á við. Gert er ráð fyrir að allt að 90% nýrra íbúða rísi innan núverandi þéttbýlismarka. Eingöngu verður byggt á auðum og illa nýttum svæðum. Hafnarsvæðið er vestast á mikilvægum þéttingarás sem teygir sig frá höfininni og austur að Elliðaárósum.
Með rammaskipulaginuer ennfremur snúð frá þeirri stefnu að rífa allt sem fyrir er og byggja allt nýtt frá grunni. Áhersla er lögð á að byggja inn í það sem fyrir er og sýna því tilhlýðilega virðingu. Gömlu verbúðirnar við Suðurbugt halda sé allar sem ein og spilhúsin í Slippnum. Og Slippurinn sjálfur verður fyrst um sinn áfram á sínum gamla stað. Einnig er vandlega passað upp á að húsahæðir séu í klassískum reykvískum skala: þrjár til fimm hæðir. Götur er hafðar fremur þröngar, eins í Grjóaþorpinu, og inn á milli húsanna eru hér og hvar lítil og nett torg.
Mikil áhersla er lögð á fjölbreytni eins og fyrr segir, og byggðin á að vera sem blönduðust: Íbúðir, verslanir, handverkstæði, skrifstofur, hótel, slippur, ferðaþjónusta, söfn, kaffihús, gallerí, veitingastaðir, fiskmarkaður og jafnvel útisundlaug. Félagslegur margbreytileiki er ekki síður mikilvægur. Þetta eiga ekki að vera hverfi þar sem eingöngu sterkefnað fólk hefur efni á að búa. Mikilvægt er að tryggja það í deiliskipulagsskilmálum og úthlutun lóða.
Í deiliskipulagsvinnu er einnig mikilvægt að gerðar verði sem vandaðastar úttektir á skuggavarpi og vindstrengjum.
Mikilvægt er að hafa í huga að í næsta nágrenni við þessi svæði eru nokkrar stórar, auðar lóðir sem bíða eftir uppbyggingu. Á næstu árum gætu byggst þarna upp samanlagt 1000 til 1500 íbúðir. Það kallar augljóslega á lausnir varðandi leikskóla og grunnskólapláss.
Uppbyggingin á hafnarsvæðinu er áfangabundin. Reiknað er með að vestasta svæðið, milli Slipps og Sjóminjasafns, byggist fyrst upp. Þar gætu risið allt að 250 íbúðir.
Vegna uppbyggingaráforma samkvæmt gildandi deiliskipulagi á austasta svæðinu, Austurbakka, var ákveðið að taka það svæði út fyrir sviga og skila auðu. Engu að síður liggur einnig þar fyrir rammskipulagstillaga í þeim anda sem hér hefur verið lýst. Hugsanlega mun hún einhvern tíma koma að notum“.
Ég mun birta frekari upplýsingar um þetta metnaðarfulla skipulag á næstu dögum.
Lesa má um Reykjavíkurhöfn á þessum slóðum:
http://blog.dv.is/arkitektur/2009/12/18/gamla-hofnin-samkeppni/
http://blog.dv.is/arkitektur/2010/11/18/reykjavikurhofn/
http://blog.dv.is/arkitektur/2011/08/15/reykjavikurhofn-myrargotuskipulagid/
http://blog.dv.is/arkitektur/2011/10/06/matarmarkadur-vid-reykjavikurhofn/

Geirsgata eins og hún er nú

Geirsgata eftir breytingu. Þarna er nýja byggðin á Miðbakka sýnd til vinstri. Til hægri má sjá að búið er að byggja í skarðið vestan við Borgarbókasafnið. Samkvæmt hugmyndunum hefur Geirsgötu verið breytt í borgarstræti með gróðri vaxinni eyju í miðjunni. Samkvæmt útreikningum á flutningsgetan að aukast við þessa aðgerð fyrir utan hvað gatan er öll manneskjulegri.

Hér sést austur yfir hafnarsvæðið. Næst eru stölluð hús í anda þeirrar byggðar sem fyrir er og einkenna svæðið. Slippurinn og gömlu verbúðirnar eru á sínum stað. Sjá má að stefnt er að lifandi hafnarstarfssemi í bland við íbúðabyggð og margskonar þjónustu.

Á nokkrum stöðum er gert ráð fyrir að fólk geti nálgast sjóinn á göngu. Gönguleiðir og áningarstaðir eru klæddir bryggjutimbri. Mismunandi hæð húsanna við höfnina tryggir að sólin nær að slá geislum sínum á svæðið á mismunandi stöðum háð sólagangi.

Fyrr á tímum var borgin og húsin mjög tengd höfninni eða lendingunni. Þessar aðstæður eru einn þáttur í hugmyndinni sem að baki rammaskipulagsins liggur.

Eitt af fjölmörgum torgum sem gert er ráð fyrir í skipulaginu.