Fyrir 33 árum, í júní 1979, flutti Stefán Thors arkitekt, stórgott erindi um skipulagsmál á ráðstefnu á vegum Lífs & lands. Stefán sem var félagi minn á Akademíunni í Kaupmannahöfn var ekki orðinn þrítugur þegar hann flutti erindið, varð síðar skipulagsstjóri ríkisins.
Fyrirlesturinn, sem Stefáns gaf nafnið „Aðalskipulagið og raunveruleikinn“, á enn fullt erindi inn í umræðuna og leyfi ég mér því að birta örstutt brot úr honum.
Gefum stefáni orðið:
„Í Reykjavík háttar því þannig til, að um það bil 90% atvinnuhúsnæðis er vestan Elliðaáa og um 65% vestan Kringlumýrarbrautar. Ef litið er á kort af Reykjavík sést greinilega að sá hluti borgarinnar, sem er vestan Elliðaáa, er á tiltölulega þröngu nesi og því erfitt að ímynda sér það sem rétta stefnu, að stærstur hluti íbúa höfuðborgarsvæðisins þurfi að sækja vinnu sína út á þetta nes.
Þá komum við að öðrum þætti aðalskipulagsins, þar sem forsendur hafa breyst mikið, en áætlanir lítið, en það er gatnakerfið.
Í þeirri áætlun er gert ráð fyrir ótakmarkaðri notkun einkabílsins með öllu tilheyrandi. Það hefur hinsvegar komið í ljós, að aukning umferðar var ofáætluð, þannig að mörg þeirra umferðamannvirkja, sem áætluð voru eru óþörf, sérstaklega, ef stefnt verður að því að fjölga atvinnutækifærum í austurhluta borgarinnar og íbúðum í vesturhlutanum. Að vísu kvarta margir undan því hve erfitt sé að komast akandi úr Breuiðholtinu vestur á nes á annatímum, svo ekki sé talað um bílastæðavandamálið í miðbænum, sem á að sjálfsögðu sinn þátt í því, að meðalnotkun á hvern einkabíl hefur minnkað.
Við verðum líka að fara að átta okkur á því, að við búum í borg og hún verður ekki lífvænlegri með stórauknum umferðamannvirkjum, hávaða og mengun, heldur með ákveðinni þéttingu byggðar, jafnari dreifingu atvinnutækifæra, miðbæ með miðbæjarstarfssemi og verulegu átaki í almenningsvagnakerfinu.
Úr þessum vandamálum hlýtur að vera hægt að leysa, án þess að milljörðum sé varið í umferðamannvirki.“
Síðan þessi hvatningarorð Stefáns Thors um þéttingu byggðar og skynsamlegri dreifingu atvinnutækifæra hefur Grafarvogshverfið verið byggt, Grafarholtið, Norðlingaholt og byrjað á Ulfarsárdal svo einungis úthverfi Reykjavíkur séu nefnd.
Einhverstaðar áttu þó þéttingar sér stað. Ég nefni Suðurhlíðar, Laugarás og BÚR-lóð.
Ráðstefnan sem haldin var á Kjarvalsstöðum fyrir 33 árum var fjölmenn og meðal þeirra sem fluttu þar erindi voru; Birgir Ísleifur Gunnarsson, Björn Bjarnason, Ólafur Davíðsson, Eiður Guðnason, Þórður Þ Þorbjarnarson, Bjarki Jóhannesson, Þorsteinn Gunnarsson og m.fl. Erindin í heild sinni er hægt að finna í heftinu „Maður og Borg“ sem á að vera aðgengilegt á betri bókasöfnum og gefið var út af Líf og Land.
Efst í færslunni er mynd sem sýnir hvernig höfundar aðalskipulagsins 1962 sáu fyrir sér Ingólfstorg í framtíðinni. Þekkja má Morgunblaðshúsið, Aðalstræti 6 til vinstri á myndinni.