Föstudagur 7.9.2012 - 08:35 - 12 ummæli

„Aðalskipulagið og raunveruleikinn“

 

 

Fyrir 33 árum, í júní 1979,  flutti Stefán Thors arkitekt, stórgott erindi um skipulagsmál á ráðstefnu á vegum Lífs & lands.  Stefán sem var félagi minn á Akademíunni í Kaupmannahöfn var ekki orðinn þrítugur þegar hann flutti erindið, varð síðar skipulagsstjóri ríkisins.

Fyrirlesturinn,  sem  Stefáns gaf nafnið  „Aðalskipulagið og raunveruleikinn“, á enn fullt erindi inn í umræðuna og leyfi ég mér því að birta örstutt brot úr honum.

Gefum stefáni orðið:

„Í Reykjavík háttar því þannig til, að um það bil 90% atvinnuhúsnæðis er vestan Elliðaáa og um 65% vestan Kringlumýrarbrautar. Ef litið er á kort af Reykjavík sést greinilega að sá hluti borgarinnar, sem er vestan Elliðaáa, er á tiltölulega þröngu nesi og því erfitt að ímynda sér það sem rétta stefnu, að stærstur hluti íbúa höfuðborgarsvæðisins þurfi að sækja vinnu sína út á þetta nes.

Þá komum við að öðrum þætti aðalskipulagsins, þar sem forsendur hafa breyst mikið, en áætlanir lítið, en það er gatnakerfið.

Í þeirri áætlun er gert ráð fyrir ótakmarkaðri notkun einkabílsins með öllu tilheyrandi. Það hefur hinsvegar komið í ljós, að aukning umferðar var ofáætluð, þannig að mörg þeirra umferðamannvirkja, sem áætluð voru eru óþörf, sérstaklega, ef stefnt verður að því að fjölga atvinnutækifærum í austurhluta borgarinnar og íbúðum í vesturhlutanum.  Að vísu kvarta margir undan því hve erfitt sé að komast akandi úr Breuiðholtinu vestur á nes á annatímum,  svo ekki sé talað um bílastæðavandamálið í miðbænum,  sem á að sjálfsögðu sinn þátt í því, að meðalnotkun á hvern einkabíl hefur minnkað.

Við verðum líka að fara að átta okkur á því, að við búum í borg og hún verður ekki lífvænlegri með stórauknum umferðamannvirkjum, hávaða og mengun, heldur með ákveðinni þéttingu byggðar,  jafnari dreifingu atvinnutækifæra, miðbæ með miðbæjarstarfssemi og verulegu átaki í almenningsvagnakerfinu.

Úr þessum vandamálum hlýtur að vera hægt að leysa, án þess að milljörðum sé varið í umferðamannvirki.“

Síðan þessi hvatningarorð Stefáns Thors um þéttingu byggðar og skynsamlegri dreifingu atvinnutækifæra hefur Grafarvogshverfið verið byggt, Grafarholtið, Norðlingaholt og byrjað á Ulfarsárdal svo einungis úthverfi Reykjavíkur séu nefnd.

Einhverstaðar áttu þó þéttingar sér stað. Ég nefni Suðurhlíðar, Laugarás og  BÚR-lóð.

Ráðstefnan sem haldin var á Kjarvalsstöðum fyrir 33 árum var fjölmenn og meðal þeirra sem fluttu þar erindi voru; Birgir Ísleifur Gunnarsson, Björn Bjarnason, Ólafur Davíðsson, Eiður Guðnason, Þórður Þ Þorbjarnarson, Bjarki Jóhannesson, Þorsteinn Gunnarsson og m.fl. Erindin í heild sinni er hægt að finna í heftinu „Maður og Borg“ sem á að vera aðgengilegt á betri bókasöfnum og gefið var út af Líf og Land.

Efst í færslunni er mynd sem sýnir hvernig höfundar aðalskipulagsins 1962 sáu fyrir sér Ingólfstorg í framtíðinni. Þekkja má Morgunblaðshúsið, Aðalstræti 6 til vinstri á myndinni.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.9.2012 - 14:30 - 21 ummæli

Hittumst á horninu-Söguvernd

 

Myndin að ofan kom í hugan þegar Stefán Örn Stefánsson arkitekt flutti erindi sitt á málþingi sem haldið var s.l. laugardag í Norræna Húsinu.

Málþingið var undir yfirskriftinni “Gamli og nýi tíminn hittast á horninu” og var þar fjallað um hvernig nýr og gamall arkitektúr mætast m.m.

Stefán Örn fór yfir merka sögu hússins Austurstræti 22 og  endurbyggingu þess.

Hann stimplaði inn í mann mikilvægi sögunnar. Maður skildi að skilti sem skrúfað er á nýbyggingi sem í stuttu máli stendur “Á þessum stað stóð……. o.s.frv” væri engan vegin ásættanlegt.  Maður þarf og verður að viðhalda sögulegu samhengi hlutanna í byggingarlistinni.

Leiðsögumaðurinn á skopmynd Bo Bojesen frá 1959 segir  “Ladies and gentlemen: Her lå Köbenhavn”. Þessi skopteikning var liður í umræðu sem gekk í Danmörku fyrir meira en 50 árum.  Umræðan breytti viðhorfum dana til sögulegrar nálgunar.  Nú eru hinsvegar blikur á lofti í þessum efnum.

Á myndinn neðst í færslunni er önnur skopmynd frá árinu 1960 eftir sama höfund þar sem gömlu húsin eru fyrir þeim nýju og er rutt burt. Þessar tvær teikningar eru á sama tíma skemmtilegar og grafalvarlegar.

Á málþinginu hélt Hjörleifur Stefánsson arkitekt erindi og fullyrti að fólki liði vel og vildi helst vera í umhverfi sem væri í sögulegu samhengi. Ég tek undir með honum og tel þetta rétt. Hann sýndi líka hvernig auka megi byggingarmagnið án þess að rífa það sem fyrir er.

Steve Christer arkitekt var einnig með erindi og tók dæmi af endurbyggðum mannvirkjum sem njóta fullkominnar aðdáunnar þeirra sem þær skoða. Það er Barcelonaskáli Mies frá 1929 og sjálft Stonhange frá því 3000 árum fyrir kristburð.

Þessir þrír arkitektar komu að uppbyggingu á horni Lækjargötu og Austurstrætis og luku þvi verki svo aðdáun vekur langt út fyrir landsteinanna.

Þessi nálgun þeirra félaga er dásömuð af leikmönnum en meðal arkitekta eru skiptar skoðanir  og hún talin sögufölsun af allmörgum. Ég skil ekki af hverju, en það læðist að manni sá grunur að þetta bil milli almennings og arkitektanna stafi að einhverjum hluta af uppeldi arkitektanna í skólunum.

Fyrir nokkrum misserum var BA verkefni arkitektúrnema í Listaháskóla Ísland  að byggja hús á horni Vonarstrætis og Lækjargötu. Nemarnir sýndu verk sitt í stóru samhengi og teiknuðu götuhlið Lækjargötu frá Tjörn alla leið norðurfyrir Hörpu. Þetta var stórt hugsað hjá unga fólkinu en ekki var að sjá á niðurstöðunni að þau tækju mikið tillit til umhverfissins í tillögugerðinni.

Það vakti líka athygli mína að í stað þess að teikna húsin á horni Austurstrætis og Lækjargötu inná myndina voru teiknaðir byggingakranar.

Þetta vakti athygli mína vegna þess að húsin voru komin nokkuð áleiðis í byggingu svo ég tók nemana tali.

Ég spurði af hverju þau teiknuðu ekki inn þessar byggingar sem voru að rísa til þess að fullkomna myndina?

Þau svöruðu því til að þau skildu ekki  nálgun arkitektanna þarna á horninu. Þar með var það afgreitt. Og þetta létu leiðbeinendur þeirra viðgangast og byggingakranar settir á teikninguna í stað fullhannaðra húsanna. Þetta átti við um tillögur allra verkanna sem voru að mig minnir 14 og sýndi auðvitað mikla einsleitni i hugarfari, kannski þröngsýni.

Ég vona að eitthvað af þessu unga fólki og leiðbeiendur þeirra hafi hlustað á erindin í Norræna Húsinu um helgina og kannski skilið eitthvað í nálguninni. Ég sá reyndar engann en það er önnur saga.

 

 

 Umræddar byggingar á horni Austurstrætis og Lækjargötu fullbúnar.

 

 Þriðju verðlaun í samkeppni um Ingólfstorg; Sögufölsun eða aðlögun?

To be or not to be Copenhagen….Reykjavík or what ever!!!

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 2.9.2012 - 16:01 - 21 ummæli

Þórsmörk

 

Það var stórkostleg upplifun eftir að hafa gengið frá Emstrum 15-17 km leið um auðnir og sanda, vaðið jökulár að koma svo í Þórsmörk þar sem allsráðandi íslenska ilmandi og kræklótt birkið tók á móti manni.  Í fjarska til suðurs voru jöklarnir og öll náttúran í einhverju óskiljanlegu náttúrulegu jafnvægi þrátt fyrir andstæðurnar.

Þetta er dásamleg upplifun sem engin ætti að láta fram hjá sér fara.

Svo þegar kom í Húsadal blasti við ljósastaur sem hannaður er til þess að standa á gangstéttarbrún í þéttbýlinu.

Þetta var antiklimax sem skemmti upplifunina.

Svo þegar nær dró tjaldstæðinu kom annað stílbrot.

Gróðursett hafði verið skjólbelti umhverfis tjáldstæðið. Og sú planta sem umsjónarmenn þessarrar náttúriperlu höfðu valið sýndist mér vera ösp (víðir!). Og ekki bara það heldur alaskaösp sem á uppruna sinn í allt annarri heimsálfu. Öspin á víða rétt á sér en ekki hér.

Það væri svo sem ekki ástæða til þess að gera mikið mál útaf þessu ef einhverjir leikmenn stjórnuðu þarna og bæru af vanþekkingu eða smekkleysi ábyrgð á götuljósastaurum og öspum í Þórsmörk. En svo er ekki.

Mér er hugsað til Björns Th. Björnssonar sem lengi mótmælti furulundinum á Þingvöllum. Fólk áttiu að hlusta á hann. Hann hafði lög að mæla.

Í raun skil ég ekki af hverju ekki er sett í skilmála sumarbústaðalanda ákvæði um hvaða trjátegundir megi gróðursetja.

T.a.m finnst mér að umhverfis Þingvallavatn ætti einungis að leyfa birki og víðiplöntur og í Flatey á Breiðafirði ætti að banna trjágróður.

En kannski er þetta bara tóm vitleysa í mér.

 

Hvað eru götuljósastaurar og aspir að gera í Þórsmörk?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 31.8.2012 - 08:41 - 12 ummæli

LHS – Kynningarferlið o.fl.

 

Í orði hefur kynningaferli vegna uppbyggingar Landspítala Háskólasjúkrahúss verið ágætt.

Fyrst var samkeppnin kynnt og þegar niðurstaða lá fyrir voru úrlausnir til sýnis á Háskólatorgi.

Í framhaldi var sérstakur kynningarfundur haldinn um vinningstillöguna.

Þá voru haldnir nokkrir opnir fundir þar sem áformin voru kynnt og rædd.

Verkefnastjórnin kallaði til sín aðila á einkafundi þar sem fólki gafst tækifæri til þess að tjá sig milliliðalaust og spyrja upplýstra spurninga.

Brugðið var út af venju þannig að auglýst var eftir formlegum athugasemdum við drögum að deiliskipulaginu. Þetta var fyrir 11 mánuðum.

Nú hefur deiliskipulagstillagan verið auglýst formlega samkvæmt lögum og geta þeir sem telja sig eitthvað hafa að segja um áformin sagt sína skoðun áður en lengra er haldið.

Þetta er allt gott og blessað, jafnvel vandað.  Sérstaklega í ljósi þess að upphaflegar hugmyndir eru afrakstur samkeppni þar sem 7  hönnunarteymum gafst kostur á að segja sitt álit.

En hver er svo ávinningurinn af öllu þessu kynningarferli.

Hann er enginn.

Gagnríni og leiðbeiningar frá fjölda aðila hafa engin áhrif haft. Hvergi á ferlinu er að sjá að hönnunarteymið eða aðrir hafi gert tilraun til þess að mæta óskum þeirra sem hafa tjáð sig um málið. Samræður eiga sér varla stað. Svar við einföldum spurningum eins og af hverju nýbyggingarmagnið á lóðinni hefur aukist úr ætluðum 50-70 þúsund fermetrum í 220 þúsund hefur ekki borist. Menningarstefnan er hundsuð o.m.fl. 

Hönnunarteymið og verkkaupi hafa spyrt sig saman og unnið marvisst áfram án þess að taka tillit til efasemdaradda. Þvert á móti hefur byggingamagnið blásið út og áhyggjur fólks af umferðamálum og staðaranda látin lönd og leið.

Verkefnið hefur öðlast sjálfstætt líf og enginn virðist hafa kjark eða dug í sér til að gera neitt.

Þetta er síðasta færsla mín í bili um þetta stóra mál.  Mörgum finnst sjálfsagt að ég hafi farið mikinn. Það kann að vera rétt enda ekki ástæðulaust. Þetta er stærsta skipulagsmál sem komið hefur upp í Reykjavík síðan Guðjón Samúelsson gerði fyrsta skipulag af borginni sem unnið var á árunum 1924-27 þar sem Hringbrautin var mörkuð.

Það vill svo til að þetta tæplega 90 ára gamla skipulag hefur haldið að mestu, þar til nú þegar umrætt skipulag er lagt fram. Bara það er ástæða til að staldra við.

Ég hvet þá sem einhverja trú hafa á lýðræði, samtalspólitík eða trúa því að athugasemdatækifærið skipti einhverju máli skrifi til skipulagsráðs fyrir 4. sept n.k. og segi sína skoðun.

Að lokum endurtek ég það sem margoft hefur komið fram.

Síðan er opin öllum þeim sem vilja tjá sig um skipulag og arkitektúr. Ef einhver þykir ég hafa farið með rangt mál eða þeir vilja koma andstæðum sjónarmiðum sínum á framfæri er sviðið þeirra.

Sérstaklega mundi ég fagna öllum þeim sem vilja verja deiliskipulag það sem er nú á lokastigi og varðar LSH.

Gjörið svo vel.

Að neðan er ljósmynd eftir Árna Sæberg sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Hún var tekin í fyrradagsmorgun kl. 8.00 þegar fólk var á leið í vesturhluta borgarinnar að sækja vinnu sína. Þessi ljósmynd hlýtur að hafa vakið upp einhverjar efasemdir þeirra sem einbeita sér að því að stækka ennfrekar stærsta vinnustað á landinu við Hringbraut. Maður veltir fyrir sér hvort ekki væri viturlegra að flytja sjúkrahúsið austar í borgina þó ekki væri nema til þess að minnka umferðaálagið og auka afkastagetu gatnakerfisins.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.8.2012 - 19:51 - 22 ummæli

LSH – Menningarstefnan

 

Á blaðsíðu 23 í “Menningarstefnu í mannvirkjagerð”,  sem er stefna íslenskra stjórnvalda í byggingarlist  stendur:

“Áhersla skal lögð á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er í og við eldri byggð. Til að tryggja heildrænt og sögulegt yfirbragð húsa, götumynda og byggðamynsturs er nauðsynlegt að stjórnvöld framfylgi skýrri stefnu þar um”

Ég geri ráð fyrir að  þetta ákvæði sé sett í stefnuna til þess að tryggt sé að þegar byggt er í eða við eldri byggð eigi yfirbragð húsa, götumyndir, byggðamynstur, heildarmynd og mælikvarði að halda sér.

Er það ekki réttur skilningur?

Fyrir tæpu ári gafst þeim sem höfðu áhuga á uppbyggingu Landspítala Háskólasjúkrahúss við Hringbraut kostur á að gera athugasemdir til skipulagsráðs um deiliskipulagsdrögin sem þá lágu fyrir.

Sextán einstaklingar og hópar notuðu tækifærið og settu fram velígrundaðar spurningar og athugasemdir sem þeim þóttu mikilvægar og óskuðu eftir skýringum á.

Ég var einn þeirra sem gerði athugasemd við deiliskipulagið og  vildi vekja athygli skipulagsráðs á ofangreindu ákvæði í menningarstefnunni.  Ég taldi og tel enn að skipulagið standist ekki Menningarstefnu hins oipinbera í mannvirkjagerð frá árinu 2007.

Það liðu rúmlega 8 mánuðir þar til svar barst frá skipulagsráði við fyrirspurnunum.  Þessi seinagangur  skapraunaði mér. Mér fannst réttur til þess að gera athugasemdir vera niðurlægður.

Þegar svar loks barst frá skipulagsráði segir það að “ekki sé hægt að gera kröfu um að byggingar á lóð spítalans séu í sama kvarða og fíngert byggðamynstur Þingholtsins”

En gengur menningarstefnan ekki eimitt út á að koma í veg fyrir að svona lagað gerist?

Bíðum  við. Hvað er skipulagsráð að segja?

Það segir að ekki sé hægt að aðlaða byggingarnar nálægri byggð.

Hvernig bregst maður við því?

Maður finnur auðvitað húsunum annan stað þar sem þær falla vel að umhverfi sem fullnægir flestum þeim óskum sem sjúkrahúsið gerir til staðsetningarinnar.

Maður getur líka hamast eins og rjúpa við staur og barið málið í gegn eða í þriðja lagi gefið nýlegri Menningarstefnunni langt nef eða jafnvel náðarhöggið og sagt að stefnan eigi ekki við í þessu tilfelli.

Það varð niðurstaða skipulagsráðs í þessu máli.

Það átti auðvitað að skoða samkeppnislýsinguna og húsrýmisáætlunina  á sínum tíma í ljósi metnaðarfullrar Menningarstefnunnar og setja það sem skilyrði að eftir henni væri farið við tillögugerðina.

Annað eru ófagleg vinnubrögð.

Er Menningarstefnan kannski endanlega dauð?  Reyndi aldrei á hana meðan hún lifði? Hér var tækifærið, þó ekki væri annað en til þess að verja stefnuna hver sem niðurstaðan yrði.

En hver átti að verja stefnuna?

Hún var samin af stjórnsýslunni og af hennar frumkvæði.  Arkitektafélag Íslands og Listaháskóli Íslands komu að samningu hennar.

Það er augljóst að í tilfelli LSH gat stjórnsýslan, sem er verkkaupi átt erfitt með að beita henni gegn sjálfri sér.

En það gat Arkitektafélagið og Listaháskólinn og áttu að gera, en gerðu ekki.

Efst í færslunni ljósmynd af viðbrögðun skipulagsráðs við fyrirspurnum sem varðaði Menningarstefnuna. Myndin að neðan sýnir nýbyggingarnarog tengsl þeirra við eldri byggð á Skólavörðuholti.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.8.2012 - 10:51 - 17 ummæli

http://www.nyrlandspitali.is

 

Prófessor við læknadeild HÍ benti í athugasemdarkerfinu í gær á hvar hægt væri að nálgast rök fyrir því hvernig aukningin á nýbyggingarmagninu á lóð Landspítalans átti sér stað. Úr 70-80 þúsund fermetrum upp í um 220 þúsund.

Hann gaf upp slóð á vefnum nyrlandspitali.is þar sem hann taldi að hægt væri að finna einhver svör við spurningunni.       

Ég fyrir minn hlut varð steinhissa á að sjá þennan texta á heimasíðu Nýs Landspítala.  Megin efni textans var svar við gagnrýni borgarfulltrúa vegna mikils byggingarmagns og var með yfirskriftinni “Aprílgabb borgarfulltrúa“. Og síðan er “hjólað í manninn” og allar tölur slitnar úr samhengi.

Ég hef notfært mér þessa síðu talsvert til þess að kynna mér málið en það hef ég gert með fyrirvara vegna þess að þessi opinbera síða er fullkomlega gagnrýnislaus á sjálfa sig og framkvæmdina . Svo segir hún á margan hátt bara hálfa söguna. Til að mynda finn ég ekki á síðunni þrívíða mynd sem sýnir lóðina alla fullbyggða eins og deiliskipulagstillagan sem nú er í kynningu gerir ráð fyrir. Aðeins er sýndur 1. áfangi.

Varðandi nefndan texta þá tel ég það óviðeigandi að á opinberri síðu sé ráðist með þessum hætti á kjörinn borgarfulltrúa sem er að vinna vinnuna sína í umboði þúsunda kjósenda.

Svona málflutningur er verri en tíðkast á nokkri fréttastofu sem ég þekki til á ekki að leyfast opinberum aðilum.

Hér er slóðin sem prófessorinn vísaði á. Dæmi svo hver fyrir sig.

http://www.nyrlandspitali.is/nyrlandspitali/islenska/fjolmidlatorg/greinasafn/?cat_id=43926&ew_0_a_id=388897

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.8.2012 - 11:17 - 31 ummæli

LHS – Verktakaskipulag?

 

Verktakaskipulag hefur verið skilgreint þannig að að það þjóni fyrst og fremst, eða eingöngu,  þeim sem fjárfesta á viðkomandi svæði. Það er að segja að skipulagið lýtur að þörfum og kröfum þess sem hefur forræði á landinu til eigin nota eða til sölu. Hagsmunir grenndarsamfélagsins eða borgarinnar sem heildar skiptir ekki meginmáli

Borgin sjálf, borgararnir, grenndarsamfélagið og menningararfurinn víkur fyrir vilja hagsmunaaðilans.

Hagsmunaaðilanum er „afhent skipulagsvaldið“.

Maður sér árangur þessa verklags víða.

Ég nefni ýmsa reiti í miðborginni svo sem  Höfðatorg þar sem verktakinn „var með miklu stærri plön (en borgin) og var á endanum  afhent skipulagsvaldið. Engar kröfur voru gerðar um að við hönnun hverfisins væri tekið mið af „byggingarhefðum og sögu staðarins“ svo vitnað sé beint í frábæra grein Hjálmars Sveinssonar :“Skipulag auðnarinnar“  sem birtist í tímariti MM fyrir nokkru *)

Nú virðist mér sem deiliskipulagsvinna vegna Landspítala Háskólasjúkrahúss hlýti svipuðum lögmálum.

Vekefnisstjórninni var „afhent skipulagsvaldið“

Hagsmunir borgarlandslagsins og sjónarmið borgaranna skipta litlu. Umræða er illa séð og athugasemdum seint eða alls ekki svarað.

Unnið er að heilindum að hagsmunum verkkaupa og engu látið skipta sjónarmið þeirra sem láta sig málið varða fyrir hönd heildarinnar.

Stjórnsýsla borgarinnar með frábært starfsfólk skipulagssviðs og  ágætir kjörnir fulltrúar borgaranna virðast ekki hafa áhrif. Að skipulaginu vinna nokkrir ágætir arkitektar.  Verkefnisstjórnin er skipuð góðu fólki sem einnig  er að gera sitt besta til þess að fleyta þessu máli áfram.

Allt vinnur þetta góða fólk af samviskusemi, dugnaði og áhuga.

En einhvernvegin sýnist mér að verkefnið sjálft hafi tekið af þessu ágæta fólki völdin og ráði nú ferðinni á eigin forsendum. Það er orðið svo stórt að enginn ræður alminlega við það. Eða öllu heldur að engin þorir í það!

Frá því að niðurstaða  samkeppninnar um sjúkrahúsið var opinberuð er ekki að sjá að bygginaraðilar hafi tekið tillit til gagnrýni og sjónarmiða þeirra sem hvatt hafa sér hljóðs.  Fólk hefur haft áhyggjur af byggingarmagni, staðaranda, umferðamálum og staðsetningu sjúkrahússins í borgarlandinu m.t.t. landsins alls o.m.fl.

Það er eins og kapp hafi hlaupið í fólkið sem að málinu hefur komið og það talið gagnrýnisraddir til trafala og ákveðið að taka ekki tillit til þeirra.  Þvert á móti hafa umferðamannvirki verið lögð af, staðarandinn hundsaður og byggingamagnið blásið út.

Þetta eru svipuð viðbrögð og eru þegar verklag svokallaðs  verktakaskipulags á sér stað eins og Hjálmar lýsir ágætlega í fyrrnefndri grein sinni.

Þess ber að geta hér að ég hef ekkert á móti því að verktakar eða hagsmunaaðilar hafi forræði í skipulagsmálum, þegar það á við. Og það getur verið að slíkt verklag eigi við í tilfelli LHS. En þegar þessi aðferð er notuð þarf álit almennings og kjörinna fulltrúa með sitt embættismannakerfi að vega mjög þungt. Kalla þarf fram sjónarmið og gagnrýni sem víðast að og henni ber að fagna. 

Hrósa ber þeim sem leggja það á sig að setja sig inn í málin og taka með þakklæti við sjónarmiðum þeirra af auðmýkt og skilningi.

Á það hefur mikið skort í skipulagsferli LSH.

*) í Greininni „skipulag auðnarinnar“ fjallar Hjálmar Sveinsson  um áhrif verktakaskipulags og tekur þar nokkur dæmi.  Þar á meðal fer hann ítarlega yfir sögu Höfðatorgs sem svipar nokkuð til atburarrásar LSH.  Slóðin að grein Hjálmars er þessi: http://www.hjalmar.is/page11/page10/page10.html

Að neðan er ljósmynd af byggingum við Höfðatorg.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 25.8.2012 - 09:21 - 8 ummæli

LSH – Skipulag auðnarinnar?

„Það er mikilvægt að gera hlutina rétt, en það er enn mikilvægara að gera réttu hlutina”

Þessi fræga kennisetning úr verkefnastjórnun kemur í huga þegar maður veltir fyrir sér  auglýstu deiliskipulagi Landspítala Háskólasjúkrahúss við Hringbraut.

Og af hverju gerir hún það.

Þegar framtíðarstaðsetning spítalans var ákveðin á sínum tíma var gert ráð fyrir um 70 þúsund fermetra nýbygginga til viðbótar við það sem fyrir var (ég rúnna tölurnar af) eða samtals um 140 þúsund fermetra byggingamagn til að fullnægja húsnæðisþörf LHS við Hringbraut til framtíðar.

Í fyrirliggjandi deiliskipulagi er verið að kynna um 280(!) þúsund fermetra byggingamagn á svæðinu þar af 220 þúsund fermetrar í nýbyggingum.

Getur þetta verið satt og rétt?

Þrír óháðir erlendir sérfræðingar sem falið var að meta húsnæðisþörf spítalans töldu  að heildarbyggingamagn sjúkrahússins þyrfti að vera milli 120 og 135  þúsund fermetrar þegar staðurinn var ákveðinn.

Danska ráðgjafafyritækið Ementor taldi að 50 þúsund fermetra nýbygging dygði þannig að heildarhúsnæðisþörfinni yrði fullnægt með 120 þúsund fermetrum.

Sænska arkitektastofan White taldi að það þyrftu 15 þúsund fermetra í viðbót við áætlun dananna eða 135 þúsund alls.

Norska arkitektastofan Momentum taldi 130 þúsund fermetra nægja til þess að fullnægja húsnæðisþörf spítalans.

Nú liggja  fyrir áætlanir um að byggja um 220 þúsund fermetra  nýbygginga á svæðinu þannig að heildarmagnið verði 280 þúsund.

 Þessir fermetrar eru að vísu ekki allir sjúkrahússins en þeir eru allir á þessari lóð og á þessum stað. Sumir fermetrarnir eru vegna HÍ og annarrar starfsemi.

Maður veltir fyrir sér hvort þessi staður hefði verið valinn ef forsendan hefði í upphafi verið 290 þúsund fermetra byggingamagn. Hefði ekki þurft að endurskoða staðarvalið í þessu ljósi. Kannski var það gert. Eða hvað?

Þótt ég hafi kynnt mér málið nokkuð og átt samtöl við þá sem að málinu koma er ég sannfærður um að betur er heima setið en af stað farið í þessu máli. Hugsanlega gæti ég látið sannfærast um að byggja nýbyggingu fyrir spítalann upp á 70-80 þúsund fermetra  þarna eins og ráðgjafarnir erlendu lögðu til, en 210 þúsund viðbótarbyggingar eru of mikið eins og allir sem skoða málið hljóta að sjá.

Ég er þeirrar skoðunnar að lóðin beri ekki þetta mikla byggingarmagn.

Þetta deiliskipulag er nú í kynningu og gefst fólki tækifæri til þess að gera við það athugasemdir til 4. september n.k.´

Ég óttast að deiliskipulgið leiði af sér einskonar skipulag auðnarinnar. Það verði einungis byggður lítill hluti þessarrar miklu áætlunar. T.d. að meðferðarkjarninn verði byggður og að svo verði hlé. Kannski um áratugi. Þá mun standa þarna ríflega  58 þúsund fermetra risabygging án nokkurra skipulagslegra tengsla við umhverfið.

Ein albesta grein sem skrifuð hefur verið um skipulagsmál undanfarin mörg ár birtist í tímariti Máls og Menningar fyrir nokkrum misserum og er eftir Hjálmar Sveinsson skipulagsráðsmann. Greinin nefnist  „Skipulag auðnarinnar“. Það er áhugavert að lesa hana með fyrirliggjandi deiliskipulag í huga. Einkum vegna þess að maður óttast að þessar stórhuga hugmyndir gangi ekki eftir vegna þess að þjóðin ráði hvorki við fjárfestinguna né reksturinn og  svæðið  fái ásýnd „skipulags auðnarinnar“ eins og Hjálmarlýsir henni í grein sinni, og svo verði um áratugi.

Grein Hjálmars  hefst svona:

„Sá sem ekkert vissi um þróun þjóðfélagsins en stæði við horn Austurstrætis og Lækjargötu í Reykjavík í ársbyrjun 2009 og virti fyrir sér malargrunn sem þar er og leifar af gömlu timburverki, horfði svo yfir Lækjartorg í átt að hálfbyggðu stórhýsi út við sjóinn, sem minnti helst á svarta klettaeyju vegna umfangs síns, mannleysis, ljósleysis og fjarlægðar frá byggðinni, myndi tæplega draga þá ályktun að þetta auðnarlega umhverfi í miðri höfuðborg væri afrakstur eins mesta velmegunarskeiðs sögunnar. Honum gæti dottið í hug að efnahagskreppa hlyti að hafa ríkt í þessu landi í langan tíma og nú færi henni vonandi að ljúka……“

Ég mæli með greininni sem hægt er að nálgast á eftirfarandi slóð:

http://www.hjalmar.is/page11/page10/page10.html

Ef einhverjar tölur eru rangar eða rangt túlkaðar í færslunni væri ég þakklátur fyrir athugasemdir.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.8.2012 - 01:22 - Rita ummæli

Katrín Sigurðardóttir mydlistarmaður

 

Í nýjasta eintaki af tímaritinu MODERN PAINTERS er aðal efnið Katrín Sigurðardóttir myndlistarmaður.

Það er alltaf ánægjulegt þegar maður verður þess var að  íslendingar og verk þeirra vekja athygli í hinum stóra heimi.

Katrín  segir í viðtali í blaðinu að hún hafi  engan áhuga á arkitektúr. („in many ways, I´m profoundly uninterested in architecture“)

Þetta kemur sérstaklega á óvart þegar verk hennar eru skoðuð því þau virðast bundin byggingalist sterkum böndum.

Til dæmis verkið, Boiseries, sem hún hefur sýnt viða (t.d. í New Yourk Metropolitan Museum of Art) sem er endursköpun rýma Hotel de Cabris í suður Frakklandi.

En hvað sem því líður þá má draga af þessum ummælum Katrínar þá ályktun að arkitektúr hefur jafnvel áhrif á fólk án þess að það viti af því eða vilja viðurkenna það.

Færslunni fylgja nokkrar myndir af verkum Katrínar.

 

Verk eftir Katrínu. Óbyggð villa frá þriðja áratugnum í Reykjavík (gert árið 2005)

Að ofan er verkið „Boiseries“,  sem er innblásið frá  Hotel de Cabris í Grasse í suður Frakklandi.

Að neðan er opnumynd úr nýjasta eintaki af MODERN PAINTERS. Efst í færslunni er forsíða tímaritsins.

Á eftirfarandi slóð má lesa umfjöllun um Katrínu í stórblaðinu New Yourk Times

http://www.nytimes.com/2010/10/29/arts/design/29katrin.html?_r=1

Annar heimsþekktur íslenskur myndlistarmaður hefur einnig sótt innblátur í byggingalistina og gert verk sem eru afar skild henni á margan hátt. Það er Ólafur Elíasson. Um hann má lesa á eftirfarandi slóð:

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/09/30/%E2%80%9Cyour-house%E2%80%9D-eftir-olaf-eliasson/

 

„Your House“ eftir Ólaf Elíasson.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.8.2012 - 06:24 - 3 ummæli

STÓLAR

 

 

Hér að neðan er skemmtilegt og fróðlegt myndband þar sem framkvæmdastjóri Design Museum, Deyan Sudjic, fjallar um sögu og tilurð nokkurra frægra stóla.

Allir þeir sem áhuga hafa á húsgagnahönnun ættu að skoða myndbandið sem tekur aðeins um 8 mínútut.

Þeim tíma er vel varið.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn