Fimmtudagur 16.8.2012 - 10:06 - 24 ummæli

“Vansagt um Vatnsmýrarskipulag”

 

“Í starfi borgarfulltrúa felast eflaust margar ánægjustundir. Sagt er að þar ofarlega á blaði sé úthlutun nýrra byggingalóða. Kunnugt er,  að Reykjavík telur sig þar vera í harðri samkeppni við nágrannasveitarfélögin um búsetu nýrra íbúa,  þ.e. nýrra skattgreiðenda. Þótt enginn skortur sé á lóðum af ýmsu tagi þegar litið er á höfuðborgarvæðið sem eina heild, telja sumir borgarfulltrúar Reykjavíkur að megintromp þeirra hljóti að vera að geta boðið upp á nýja íbúðabyggð á flugvallarsvæðinu.

Af hverju stoppa þar?

Væri ekki tilvalið að fylla upp í Reykjavíkurhöfn og bjóða einnig þar upp á nokkrar nýjar íbúðablokkir, – fyrst greiðar, hagkvæmar og nútímalegar samgöngur við höfuðborgina skipta engu máli?”

Þetta er hluti lokaorða í athyglisverðri grein sem Leifur Magnússon verkfræðingur skrifaði í Morgunblaðið í gær.

Leifur er vel kunnugur öllu sem varðar flugmál og hefur starfað að flugmálum fyrir einkaaðila og hið opinbera í áratugi.   Þetta er rökföst grein sem allir þeir sem láta sig skipulagsmál varða ættu að lesa.

 Að ofan er mynd sem sýnir hvernig tengja má miðborg Reykjavíkur um Skerjafjörð þar sem er að finna milli 700 og 800 hektara byggingalands sem er landfræðilega miðsvæðis þegar á höfuðborgarsvæðið allt er litið. Þetta er kjörland til bygginga á láglendi við sjóinn og  með tiltölulega litlum tilkostnaði er hægt að tengja það náið miðbæjarkjarna Reykjavíkur og sveitarfélaganna í nágrenninu.

Er ekki kominn tími til að sameina þessi sveitarfélög að einhverju marki?

Hér eru slóðar að fyrri færslum um Vatnsmýrina:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/07/26/tharf-flugvoll-a-reykjavikursvaedid/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/12/08/reykjavikurflugvollur-flokkusaga/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/03/16/vatnsmyrin-%e2%80%9cnull-lausn%e2%80%9d/

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/11/02/framtid-reykjavikurflugvallar/

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.8.2012 - 12:26 - 5 ummæli

Grunnskólinn hefst í næstu viku

 

 

Framkvæmdastjóri danska arkitektafélagsins, Jane Sandberg, vekur athygli á því í nýlegu fréttabréfi, að þúsundir ungra barna eru um þessar mundir að hefja skólagöngu sína. Á Íslandi hefst grunnskólinn einnig á flestum stöðum í byrjun næstu viku.

Hún segir að þetta séu mikilvæg tímamót hjá þessum börnum sem munu verða fulltrúar landsins í framtíðinni og skapa hana.

Framkvæmdastjórinn telur að það sé úrslitaatriði  að grunnskólinn taki  á móti þeim þannig að þau fái  skapandi menntun sem tryggir áframhaldandi þróun og vöxt samfélagsins.

Hún segir að ef  við drögum verklag arkitektúrs inn í skólastarfið munum við fá einstaklinga út úr grunnskólanum sem geta leyst vandamál á skapandi og upplýstan hátt þar sem í fyrirrúmi er þjálfun í samstarfi og þolinmæði er sýnd hvað fjölbreyttar þarfir og mismunandi sjónarmið varðar.

Í samræmi við þetta vinnur danska arkitektafélagið hörðum höndum að því að arkitektúr og hönnun fái meira rými í grunnskólanum því þar liggur krafturinn sem hefur áhryf á hvernig landið byggist í framtíðinni. 

Danska arkitektafélagið er meðvitað um að í vel menntuðum og upplýstum neytendum felast tækifæri til þess að skapa góða framsækna byggingarlist.

Þessar hugleiðingar danska framkvæmdastjórans eru tímabærar og eiga ekki síður við hér á landi. Það hefur margt verið skrifað um þessi mál hér á landi en lítið gert annað en að árétta þetta í nýlegri Menningarstefnu hins opinbera í Mannvirkjagerð.

Hér eru slóðir að færslum þar sem fjallað er um arkitektúr í grunnskólanum:

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/04/13/arkitektur-i-grunnskolunum/

http://blog.dv.is/arkitektur/2011/04/30/arkitektur-og-grunnskolamenntun/

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/09/21/fraedsla-i-byggingarlist/

http://blog.dv.is/arkitektur/2009/10/16/byggingarlistin-er-utundan/

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.8.2012 - 09:08 - 7 ummæli

Kollgátan í Lystigarðinum

 

 

 Það er  eitt meginverkefni arkitektsins að lesa staðinn sem hann er að fara að vinna með.

Arkitektinn þarf að skynja staðarandann og átta sig á sérstöðu hans með virðingu og í víðu samhengi.

Arkitektastofan Kollgátan á Akureyri tók sér vandasamt verk á hendur . Það var að hanna lítinn veitingastað í Lystigarðinn á Akureyri sem einmitt varð aldargamall á þessu ári.

Ég átti leið þarna um í síðustu viku og naut þess að skoða garðinn og fá hressingu í nýbyggingunni sem var opnuð fyrir um tveim mánuðum.

Mér fannst húsið afskaplega vel heppnað og skýrskotun til staðarins og sögunnar vel útfærð á nútímalegan hátt. Þetta er skólabókardæmi um hvernig nútímaarkitektúr nýtir sér það sem fyrir er til þess að skapa heildstætt og harmóniskt umhverfi.

Arkitektarnir hafa skynjað staðarandann og látið hann ráða för.

Þarna í garðinum er eitt af elstu húsum Akureyrar Eyrarlandshús, sem er svart á lit með 45° þakhalla og litlu þakskeggi. Þessi atriði ásamt fleirum gera arkitektarnir að samnefnara húsanna tveggja með góðri útkomu.

Svo er bætt við  “dassi” af nútímalegum skemmtilegheitum eins og gaflgluggunum tveim sem taka mið af trjágróðrinum. Það er líka skemmtilegt að geta þess að öll húsgögn innandyra voru framleidd fyrir áratugum á Akureyri meðan þar var öflug iðnaðarstarfssemi.

Það er alltaf gaman þegar maður verður þess var að arkitektar skynji staðarandann á svipaðan hátt og maður sjálfur.  Því er nefnilega þannig háttað að menn virðast oft ekki skilja staðina á sama hátt. Þetta á bæði við um fagmenn og leikmenn.

Til að mynda sýnist mér að í Reykjavík sjái menn tækifærin og staðarandann á afskaplega mismunandi hátt eins og dæmin sanna.

En niðurstaða mín er að í Lystigarðinum á Akureyri áttu arkitektarnir kollgátuna.

 

Eyrarlandsstofa er eitt elsta hús Akureyrar er staðsett í Lystigarðinum.

 Afstöðumyndin vekur athygli þar sem græn flöt er framan við veitingastaðinn

 

 Afstöðumynd

 

 Sneiðingin sýnir hvernig arkitektarnir tóku á húsdýptinni og þakforminu.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.8.2012 - 12:07 - 3 ummæli

Atvinnuleysi arkitekta í Danmörku,

Nú þegar sumarfríjum er að ljúka í Danmörku lét danska arkitektafélagið gera mælingu á atvinnuástandi nýútskrifaðra arkitekta þar í landi.

Niðurstaðan sýndi talsverða aukningu frá síðasta ári og er atvinnuleysi nýútskrifaðra  nú  58,6 %

Það er svakalegt til þess að hugsa að tæp 60% ungra nýútskrifaðra, velmenntaðra og metnaðarfullra arkitekta skuli vera utan vinnumarkaðarins.

Danska arkitektafélagið ráðleggur þessu unga fólki að gæta þess að ekki komi gat í ferilsskránna. Það ráðleggur fólkinu að nota tímann, og ferðast, auka við menntun sína sækja námskeið eða annað. Danska arkitektafélagið biður fólkið um að setja sig í samband við félagið sem býður fram aðstoð sína.

Þetta er sennilega svipað ástand og var þegar ég útskrifaðist fyrir margt löngu. Þá fengu nemendur afhent umsóknareyðublað um atvinnuleysisbætur um leið og þeir fengu brottfararskírteini sitt frá Akademíunni.

Svo liðu árin og einhvernvegin gekk þetta allt saman hjá flestum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.8.2012 - 12:17 - 2 ummæli

Studio Granda á Louisiana

 

 

 

Listasafnið Lousiana í Danmörku er af margvíslegum ástæðum þekkt fyrir sýningar á byggingalist.  Ég nefni sýninguna um Utzon fyrir allnokkrum árum og sýningu sem hét “Arkitektúr framtíðarinnar er grænn”.

Listasöfn eru oft á tíðum afskaplega vel gerð hvað arkitektúr varðar. Þar er unnið með rými og birtu, samspil rýma og flæði milli þeirra. Og þegar tilefni gefst eins og   í Louisiana spilar landslag og útsýni mikilvægt hlutverk.

Það er því vel viðeigandi að sýna byggingarlist á slíkum stöðum

Á Louisiana stendur nú yfir sýning sem kölluð er „New Nordic“ (arkitektúr og sjálfmynd) sem fjallar um þann fjölbreytileika sem ríkir í norrænni byggingalist  á okkar dögum.

Sýningin spyr hvort til sé sérstök norræn einkenni í byggingarlistinni? Getur maður þrátt fyrir globaliseringu byggingarlistarinnar fundið sameiginleg norræn einkenni? Hvernig við byggjum og hvernig við innréttum okkur bæði sem manneskjur og samfélag?.

Það er gaman að segja frá því að íslensku arkitektarnir hjá Studio Granda, þau Margrét Harðardóttir og Steve Christer eru þáttakendur þarna. Þeim er sýndur með þessu mikill og verðskuldaður heiður.

Auk verka norrænu arkitektanna hafa verið reistir fimm skálar sem eiga að sýna einkenni eða sýnishorn af  byggingalist í löndunum fimm: Svíþjóðar, Noregs, Finnlands Danmerkur og Íslands.

Færslunni fylgja nokkrar ljósmyndir af verki Studio Granda þar sem bárujárnið og litir eru dregnir fram sem einkenni ásamt rauðamöl.

Neðst eru svo tvö myndbönd. Annað um sýninguna og hitt er með viðtali við þau Margréti og Steve.

Sjá einnig kynningu á teiknistofunni Studio Granda hér.:

http://blog.dv.is/arkitektur/2010/02/16/studio-granda-kynning/

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 29.7.2012 - 07:05 - 8 ummæli

Hvert á að stefna? – Skipulagsmál í Reykjavík

 

 

Guðríður Adda Ragnarsdóttir hefur sent síðunni eftirfarandi texta um skipulagsmál:  Greinin er unnin uppúr grein sem birtist í Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum.

Í tilefni umræðu um niðurstöðu samkeppni um Ingólfstorg og nágrenni langar mig að rifja upp grein sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum í Morgunblaðið og virðist enn í fullu gildi. Þar spurði ég m.a. hver færi með sigur af hólmi þegar keppni yrði haldin um fallegustu gömlu byggðina á Íslandi?

Verður það Stykkishólmur, Flatey á Breiðafirði, Neðsti-kaupstaður á Ísafirði, Innbærinn á Akureyri, Seyðisfjörður eða Eyrarbakki? Er Hafnarfjörður búinn að glata forskoti sínu og sérkennum? Á Reykjavík ennþá möguleika á að skapa sér slíka ímynd?

Iðandi mannlíf

Heillandi borgir þróast í tímanna rás eftir lífi og starfi fólksins sem í þeim býr. Reynslan sýnir að gamlir borgarhlutar draga til sín fólk vegna þess að því líður vel í slíku umhverfi. Fólk á ferli laðar að sér fleira fólk og verslun og þjónusta dafnar. En hver er sýn stjórnenda Reykjavíkurborgar um bæjarbrag? Ef markmiðið er að sjá mannlíf á götum, kaupmenn á hornum og lítil þjónustufyrirtæki inni í hverfunum, er þá leiðin rétt sem valin var til þess? Hótel, háhýsi og bankar, hraðbrautir, himinháar girðingar fyrir flug og fótbolta, skuggasund, virkisveggir og vindgöng skapa ekki góð skilyrði fyrir iðandi mannlíf. Það gerir hins vegar vandað handverk sem birtist í fínlegum arkitektúr, hófstilltum mælikvarða, hlýlegum litum, vinalegum strætum og stígum, torgum, görðum og gróðri, ásamt góðum almenningssamgöngum.

Kynningar til almennings, nýtt verklag

Við verðum að vita hvert á að stefna. Vita hvaða markmið skulu sett til að stika stefnuna, og hvaða leiðir og verkfæri eru tæk til að ná þeim markmiðum. Hver er staðan í dag? Hvaða þættir skulu mældir? Miðar í rétta átt? Erum við föst, eða hrekjumst við af leið? Getum við rétt af kúrsinn og samhæft aðgerðir? Skiljum við hugtök, sem notuð eru, öll á sama hátt?

Þrátt fyrir að ákveðnar verkreglur gildi um kynningar til almennings vegna skipulagsbreytinga hefur oft verið bent á að borgararnir andmæli ekki framkvæmdum í tíma, jafnvel ekki fyrr en þær eru hafnar. En þótt farið sé eftir settum reglum um kynningar virðist sem þær skili sér ekki sem skyldi og nái ekki til fólks. Eða hitt, að ekki er á fólkið hlustað eins og þegar gamalli ákvörðun um færslu Hringbrautar var hrint í framkvæmd. Þetta sýnir að endurskoða þarf fyrirkomulagið á kynningunum og auðvelda og styrkja leiðir almennings að ákvarðanatökunni.

Ný heildarsýn og stefna

 

Þegar hús eða húsaraðir hér og hvar um Reykjavík eru valdar til friðunar vegna tiltekinnar sérstöðu þeirra, sögulegs- og listræns gildis, hafa menn hingað til gefið sér að allt annað megi víkja. Afleiðingin er sú að gamli bæjarhlutinn er berskjaldaður fyrir hvers konar raski, yfirgangi og vandalisma. Slíkt fyrirkomulag felur einnig í sér meginhugsun um einhvers konar söfnun eða geymslu einstaka minja sem sýnidæma. Það er sú stefna sem þarf að endurskoða. Gefum okkur aðrar forsendur. Leggjum frekar upp með að gróin hverfi borgarinnar og þá sérstaklega gamli miðbærinn, séu sjálfkrafa vernduð. Í þessu sambandi má einnig minna á nauðsyn þess að settar verði skýrar reglur um varðveislu innréttinga og tréverks. Friðun húsa og mannvirkja yrði þá í raun eins og hún er hugsuð, algjör undantekning, ef nokkurn tíma þyrfti til hennar að grípa. Sú forsenda að gamli bærinn sé verndaður kemur í veg fyrir framvinduklemmu og ágreiningsefni af því tagi sem á undan eru gengin og enn blasa við. Verkefnin hófust ekki með Laugavegi 4-6. Þar birtust afleiðingar rangra skipulagsákvarðana sem teknar voru af fyrri stjórnvöldum Reykjavíkurborgar. Og tíu hús við Laugaveg til friðunar, flutnings eða niðurrifs eru aðeins einn dropi í þá allsherjar aðför við gömlu Reykjavík sem enn er yfirvofandi.

Nær væri að snúa dæminu við. Uppbygging og mikil tækifæri sem bíða gömlu Reykjavíkur geta falist í því að flytja húsin ofan úr Árbæ og „heim“ til sín aftur. Bílastæði borgarinnar eru augntóttir þessara húsa og Minjasafn Reykjavíkur hefur ekki síður mikilvægu hlutverki að gegna við þau þar þótt í þeim búi og starfi fólk.

Við þurfum aðra stefnu og nýja sýn.

Höfundur er atferlisfræðingur og býr í Reykjavík

Efst í færslunni er mynd sem sýnir tvö hús sem standa hlið við hlið. Annað gamalt og hitt nýtt.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.7.2012 - 12:13 - 5 ummæli

Bestu arkitektaskólar í heimi?

 Hin virta síða “Gratuate Architecture”  hefur valið bestu arkitektaskóla veraldar og raðað upp eftir gæðum þeirra. Það vill svo skemmtilega til að minn gamli skóli, Konunglega Listaakademían í Kaupmannahöfn er þar í 4 sæti.  Fleiri íslenskir arkitektar hafa útskrifast frá Akademíunni í Kaupmannahöfn en annarstaðar.

Arkitektaskóla í heiminum má vafalaust telja í þúsundum. Því er þetta mikill heiður fyrir þá sem ná toppsætunum.

Niðurstaðan er að eftirtaldir 5 skólar eru taldir bestu skólar heims:

1.  SCI-Arch,Southern CloiforniaInstitute of Architecture

2.  Architectureal Assosiation,  AA  í London.

3.  MIT í Boston

4.  The Royal Danish Academi of Fine Arts í Kaupmannahöfn.

5.  University of  Tokyo í Tokyo.

Þeir sem vilja kynna sér þetta betur er bent á eftirfarandi slóð þar er hægt að skoða stöðu arkitektaskólanna í heiminum eftir heimsálfum og hver er meginástæðan fyrir vali þeirra:

http://www.graduatearchitecture.com/ARCHSCHOOLS/archschools_en.html

Stuttorð rök fyrir heildarniðursöðunni má finna á slóðinni.

Af sérstakri virðingu við Akademínuna í Kaupmannahöfn birti ég með færslunni nokkrar myndir af verkum míns leiðbeinanda á akademíunni, professors Jörgen Bo, sem kenndi þar um áratugaskeið. Sum verkanna vann hann í samstarfi við Wilhelm Wohlert. Efst er safn í Lubeck.

 Raðhúsaþyrpingin Kristineparken

 Listasafnið Louisiana

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 16.7.2012 - 13:01 - 14 ummæli

Ingólfstorg – umræðan.

Það ber að fagna allri umræðu um skipulags- og byggingamál, enda hollt fyrir borgarskipulagið að fólk horfi til málanna með gagnrýnum augum.  Mikilvægt er þó að gagnrýnin sé fagleg og lausnamiðuð.

Undanfarið hafa þáttakendur í umræðunni farið mikinn og gagnrýt á tillögur í nýafstaðinni samkeppni um Ingólfstorg og nágrenni.

Það sem einkum hefur verið fjallað um í umræðunni og fundið að, er fernt.

Í fyrsta lagi er því mótmælt að þarna séu áætlanir um að starfrækja hotel. Í öðru lagi hefur folk efasemdir um byggingarmagnið. Í þriðja lagi hafa menn áhyggjur af skemmtistaðnum NASA og loks eru aðilar sem vilja ekki að byggt verði nýbygging við Kirkjustræti.

Mér sýnist þessar gagnrýnisraddir ekki vega þungt og langar til þess að skýra út af hverju mér finnst það.

Í fyrsta lagi hefur hótelstarfssemi í miðborginni haft veruleg áhrif á hag og velgengni smávöruverslunnar og veitingastarfssemi í miðbænum. Hótelstarfssemi eykur og bætir mannlíf á götum og torgum miðborgarinnar og henni ber að fagna að svo stöddu.

Í öðru lagi er auðvitað mikilvægt markmið að auka starfssemi í miðborginni og það er helst gert með að auka byggingamagn. Við aukið byggingamagn eykst aðdráttaraflið fyrir atvinnustarfssemi og mannlíf eykst á götum og torgum. Aukið byggingamagn er í sjálfu sér ekki ógn við miðborgina heldur getur hin arkitektóniska nálgun skemmt hana. Í því sambandi er mikilvægt að vernda staðarandann. Markmiðið á að vera “að menningarverðmæti glatist ekki heldur að þau séu upphafin”   í skipulaginu.

Rétt er að minna á að í verðlaunatillögunum er ekki mikil breyting á því byggingarmagni sem heimild er fyrir í staðfestu deiliskipulagi frá 1987. Það er því ósanngjarnt að mótmæla tillögunum á þeim grunni nú 25 árum seinna. Gefin var kostur á að mótmæla byggingamagninu fyrir 25 árum. Ég vil hinsvegar bæta því við sem oft hefur komið fram áður að ég tel að deiliskipulög eigi að hafa takmarkaðan gildistíma. En það er önnur saga.

Í þriðja lagi eru nokkrar háværar raddir sem sakna skemmtistaðarins NASA eða sakna starfseminnar sem þar var. Allar verðlaunatillögurnar gera ráð fyrir að samkomusalurinn verði þarna áfram í þeirri mynd sem hann er nú. Vandamálið með NASA er að mér skilst frekar rekstrarlegs eðlis en borgarsipulagslegs. Það er því ósanngjarnt að mótmæla tillögunum á þessum grunni.

Og í fjórða lagi gerir fólk alvarlegar athugasemdir við nýbyggingu við Kirkjustræti. Þessi bygging er einnig á staðfestu deiliskipulagi frá 1987. Ég er á móti þessari ákvörðun og tel að það hefði þurft að fella hana úr gildi áður en samkeppnin var auglýst. En það var ekki gert og það vita allir sem kynnt hafa sér málið.

Ég hef verið fjarverandi undanfarið og sá í morgunn athugasemd forseta Alþingis vegna þessarar byggingar þar sem hann talar um virðingu fyrir löggjafanum og þeim byggingum sem hann starfar í. Forsetinn mátti vita að í gildi er 25 ára gamalt skipulag sem gerir ráð fyrir byggingu þarna. Hann hefði getað beitt sér fyrir málinu hátt á þriðja áratug og gert atlögu að því að fella þessa heimild niður.

Nú er í auglýsingu deiliskipulag Landspítalans. Af þessu tilefni vil ég biðja áhugasama um að skoða það vel og segja sitt alit áður en athugasemdafresturinn rennur út þann 4. September n.k. Það er of seint að mótmæla deiliskipulagi Landspítalans eftir 25 ár.

Í lokin vil ég vísa á tillöguna í 3. sæti sem á meðvitaðan hátt gerir ekki ráð fyrir byggingu við Kirkjustræti.

Efst er mynd af fyrsteverðlaunatillögunni opg neðst er mynd af tillögu þeirri sem hlaut 3. sætið.

Fjallað var um tillögurnar þrjár á þessum vef fyrir nokkru. Þær er hægt að finna á eftirfarandi slóðum:

1. verðlaun:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/07/02/ingolfstorg-1-verdlaun/

2. verðlaun:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/07/01/ingolfstorg-2-verdlaun/

3. verðlaun:

http://blog.dv.is/arkitektur/2012/06/29/ingolfstorg-3-verdlaun/

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 6.7.2012 - 14:45 - 6 ummæli

Betri tíð í skipulagsmálum Reykjavíkur?

 

 

Fyrir örfáum misserum breyttist umræða um skipulagsmál í Reykjavík. Það var í tíð Júlíusar Vifils Ingvarssonar formanns skipulagsráðs og að mér skilst að frumkvæði Ólafar Örvarsdóttur skipulagsstjóra að borgin kallaði til kynningar vegna endurskoðunar aðalskipulags.

Frummælendur voru ekki viðhlæjendur valdsins eins og áður hafði tíðkast, heldur aðilar sem gagnrýndu ríkjandi stefnu. Þarna hélt núverandi formaður skipulagsráðs Páll Hjaltason eftirminnilega ræðu þar sem hann gaf skipulaginu breiðsíðu. Annar ræðumaður var Sigrún Helga Lund sem talaði gegn einkabílismanum sem hafði verið meginforsenda borgarskipulagsins um áratugaskeið. Það var opnað fyrir skoðanaskipti og gagnrýni sem reyndar allt of fáir hafa notfært sér.

Í framhaldinu hefur umræðan orðið sýnilegri, málefnalegri og lausnamiðaðri en áður þó enn vanti mikið uppá að hún sé eins mikil og tilefni er til.

Fólk er farið að taka meira þátt í umræðunni, fundir eru haldnir  og fleiri greinar eru birtar.

Bara í þessari viku hafa verið birtar þrjár stórgóðar greinar um efnið í öðru dagblaðanna.

Ég leyfi mér að vísa á þær og birta stutt brot.

Allar eru greinarnar lausnamiðaðar og blása manni von í brjóst um betri tíð í skipulagsmálum.  Úrdrættirnir eru birtir hér í réttri tímaröð

Páll Hjaltason arkitekt og formaður skipulagsráðs skrifar mánudaginn 2. júlí m.a.
Reykjavík stendur á vissum tímamótum í skipulagsmálum. Kyrrstaða síðustu ára hefur gefið tóm til að endurmeta margar fyrri ákvarðanir í ljósi breyttra sjónarmiða og setja fram markvissari sýn til framtíðar. Aukin áhersla á umhverfisgæði, vistvænar samgöngur og almannahagsmuni leiðir fram nýjar lausnir. Þétting byggðar á auk þess ávallt að vera á forsendum þess byggðamynsturs sem fyrir er á hverjum stað og styrkja mannlífið í borginni. Sú niðurstaða sem samkeppni um Ingólfstorg leiddi af sér varðar veginn fyrir aðra uppbyggingu í miðborginni þar sem fólk á alltaf að vera í fyrirrúmi.

Slóðin að grein Páls er þessi:

http://www.visir.is/ingolfstorg—kvosin/article/2012707029955

Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi skrifar fimmtudaginn 5. júlí m.a.:

Á kynningar- og umræðufundum, sem hafa verið haldnir í öllum hverfum borgarinnar undanfarið, hefur komið skýrt fram að nýtt aðalskipulag felur í sér róttæka stefnubreytingu. Skipulagið hverfur frá dreifbýlisstefnu undanfarinna ára og áratuga. Engin ný úthverfi verða byggð í Reykjavík næstu áratugi. Reykvíkingar, og íbúar höfuðborgarsvæðisins alls, eiga nú þegar mikið af ágætum úthverfum. Nú er komið að innhverfunum.

…………..

Í kynningarbæklingi, sem skipulags- og byggingarsvið borgarinnar hefur gefið út, er gert ráð fyrir að Reykvíkingum fjölgi um 25.000 manns til ársins 2030. Það þýðir að byggja þarf um 12.000 íbúðir á tímabilinu. Skipulagið gerir ráð fyrir að uppbyggingin eigi sér fyrst og fremst stað á þéttingarási sem teygir sig frá Mýrargötu upp í gegnum Hlemm, meðfram Suðurlandsbraut, inn að Elliðaárósum og að Ártúnshöfða. Gert er ráð fyrir öflugum almenningssamgöngum á þessari leið og góðum hjólabrautum.

……………

Mikilvæg forsenda þess að Reykjavík verði í framtíðinni vistvæn og sjálfbær, og um leið manneskjuleg, er að umferðin verði meira borgarmiðuð þar sem gangandi og hjólandi njóta forgangs og hlutur almenningssamgangna verði stóraukinn.

Slóð að grein Hjálmars er þessi:

http://www.visir.is/nytt-upphaf-i-reykjavik/article/2012707059989

Björn Stefán Hallsson arkitekt skrifar föstudaginn 6. júli og segir m.a.:                                           

Fíngert yfirbragð gömlu húsanna í miðborginni og Þingholtunum eru einstök og algerlega sérstök menningarverðmæti. Þau tilbrigði sem í þeim felast og umhverfi þeirra eru það sem vekur áhuga í byggð Reykjavíkur og skapar aðdráttarafl. Þetta þarf að efla og upphefja með öllum tiltækum ráðum. Hús af sömu gerð verða aldrei byggð aftur í borginni.

………..

Fyrir það fyrsta þá væri það ekki hægt miðað við gildandi mannvirkjalög og byggingarreglugerð. Þau hús sem þar eru nú eru allt sem við eigum að þessu leyti. Gera þarf eins mikið úr tilvist þeirra og framast er kostur þannig að þeirra verði notið sem best í borgarumhverfinu. …………… Það er komið að algerri nauðsyn á sátt um verðmæti gömlu byggðarinnar, stöðva verður frekara niðurrif og ómarkvissa uppbyggingu og upphefja þau menningarverðmæti sem enn eru til í eldri byggðinni.

…………

Það er engu líkara en að fólk hafi ekki lært neitt af offari og óraunhæfum framkvæmdaáætlunum innan gömlu byggðarinnar í Reykjavík í aðdraganda hrunsins. Í verðlaunuðum tillögum samkeppninnar um uppbyggingu við Ingólfstorg er offarið endurvakið í anda 2007. Síðastliðin ár hefur umræðan um byggðina verið með þeim formerkjum að verið væri að snúa af þeirri leið, snúa deiliskipulögum frá ofuráætlunum í átt til byggingarmagns og stærða í eðlilegu samræmi við byggðarmynstrið, að snúa við blaði til sáttar við fíngerð einkenni byggðarinnar.

Slóðin að grein Björns er þessi:

http://www.visir.is/ad-glata-menningarverdmaetum-eda-upphefja/article/2012707069981

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.7.2012 - 14:55 - 17 ummæli

Ingólfstorg 1. verðlaun

 

Eins og fram hefur komið í tveim síðustu færslum var haldin opin samkeppni um skipulag og hótelbyggingu í kvosinni við Ingólfstorg.

Hér er kynnt tillaga sem hlaut fyrstu verðlaun.

Tillagan var unnin hjá ASK arkitektum ehf og voru í hönnunarteyminu arkitektarnir Þorsteinn Helgason, Gunnar Örn Sigurðsson, Páll Gunnlaugsson,Valdimar Harðarson, Vilborg Guðjónsdóttir, Una Eydís Finnsdóttir, Snædís Bjarnadóttir allt félagar í Arkitektafélagiu Íslands.

Umsögn dómnefndar um tillöguna var þessi:

Metnaðarfull tillaga sem tekur tillit til sögu Kvosarinnar en sýnir um leið áhugaverða þróunarmöguleika. Styrkur hennar felst meðal annars í skýrri og heildrænni sýn á viðkvæmu og mikilvægu miðborgarsvæði. Hún sýnir markvissa uppbyggingu án niðurrifs eða tilfærslu á gömlum húsum.

Tillagan skiptir uppbyggingunni  í þrjá áfanga. Hver áfangi hefur skýrt hlutverk.

Í Vallarstræti verður fjölbreytt verslunar og þjónustuhúsnæði. Það mun styrkja þjónustu í hjarta miðborgarinnar, auðga mannlíf og skapa áhugverða upplifun fyrir vegfarendur. Hrynjandi og form nýbygginga fellur almennt vel að nálægðri byggð. Samkomusalur við Thorvaldsenstræti 2 er endurbyggður sem skemmti- og ráðstefnusalur. Innangengt verður í veitingasal hótelsins.

Landsímahúsið er allt skipulagt sem hótelbygging með viðbættri þakhæð og nýbyggingu við Kirkjustræti. Aðalinngangur í hótel er frá Kirkjustræti og innra skipulag hótels skapar tengsl við nærliggjandi almenningsrými, Víkurgarð og Austurvöll.

Uppbygging á syðri hluta Ingólfstorgs, þar sem Hótel Ísland stóð einu sinni, skapar nýja sýn og uppbyggingarmöguleika sem vert er að skoða. Tillagan gerir ráð fyrir að þar verði menningarhús. Nýbygging á þessum reit þarfnast frekari útfærslu og almennrar umræðu. Ljóst að þar er um að ræða sjálfstæða einingu á borgarlandi sem tengist ekki hóteluppbyggingunni.

Umferðarskipulag fyrir gangandi og akandi vegfarendur er gott.  Vallarstræti fær heildstæðara götuform. Það kemur til með að styrkja tengsl Austurvallar við Grjótaþorp. Með nýbyggingu á Hótel Ísland reitnum er opnað fyrir sögulega tengingu Austurstrætis við Aðalstræti. Um leið styrkist götumynd Aðalstrætis og Veltusunds.

Einn helsti veikleiki tillögunnar er sú hlið hótelsins sem snýr að Kirkjustræti. Hún verður mjög áberandi og þarfnast endurskoðunar. Sama gildir um þá hlið hótelsins sem snýr að Víkurgarði og aðkomu að hótelinu þaðan. Taka þarf tillit til uppbrots og stærðarhlutfalla eldri húsa sunnan megin Kirkjustrætis. Einnig þarf að huga betur að ásýnd nýbyggingar frá Austurvelli. Leiðir að hótelinu frá Aðalstræti og Vallarstræti orka tvímælis.

Ákjósanlegt er að hótelið verði fjögurra stjörnu með tilliti til einstakrar staðsetningar í borginni.

Lítið er unnið með Ingólfstorg og Víkurgarð og er þörf á meiri úrvinnslu,  m.a. með tilliti til hæðarmunar, yfirborðsmeðhöndlunar og gróðurs.“

Ef smellt er á myndirnar stækka þær og verða skýrari.

Samkeppnissvæðið og næsta umhverfi

Ingólfstorg séð til suðurs

 

Skissa úr fyrra þrepi tillögunar sem sýnir nýbyggingu við Kirkjustræti sem kallast á við byggingar handan götunnar.

 

 

 

 

 

Grunnmynd jarðhæðar sem sýnir tengsl hennar við borgarrýmið.

Þessi nætur- eða vetrarstemming sýnir vel uppbygginguna og hvernig hlutföl húsa passa við byggðina í grendinni, Grjótaþorpið og hús annarstaðar í miðbænum.

Sýning á öllum verkunum stendur í einn mánuð frá 29. júní til 29. júlí og er hún opin frá kl 14.00-18.00 að Thorvaldssensstræti 6, Landsímahúsinu.

Það er rétt að geta þess í lok umfjöllunar um þessa miklu samkeppni að dómnefnd var fjölskipuð.  Í henni voru Páll Hjaltason arkitekt, sem er formaður, Júlíus Vifill Ingvarsson borgarfulltrúi, Dr. Kristín Þorleifsdóttir landslagsarkitekt, Hilmar Þór Björnsson arkitekt, Sigrún Birgisdóttir arkitekt, Pétur Þór  Sigurðsson lögfræðingur og Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi. Ritari var Lilja Grétarsdóttir  arkitekt og trúnaðarmaður  Haraldur Helgason arkitekt.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn