
Eins og fram hefur komið í tveim síðustu færslum var haldin opin samkeppni um skipulag og hótelbyggingu í kvosinni við Ingólfstorg.
Hér er kynnt tillaga sem hlaut fyrstu verðlaun.
Tillagan var unnin hjá ASK arkitektum ehf og voru í hönnunarteyminu arkitektarnir Þorsteinn Helgason, Gunnar Örn Sigurðsson, Páll Gunnlaugsson,Valdimar Harðarson, Vilborg Guðjónsdóttir, Una Eydís Finnsdóttir, Snædís Bjarnadóttir allt félagar í Arkitektafélagiu Íslands.
Umsögn dómnefndar um tillöguna var þessi:
„Metnaðarfull tillaga sem tekur tillit til sögu Kvosarinnar en sýnir um leið áhugaverða þróunarmöguleika. Styrkur hennar felst meðal annars í skýrri og heildrænni sýn á viðkvæmu og mikilvægu miðborgarsvæði. Hún sýnir markvissa uppbyggingu án niðurrifs eða tilfærslu á gömlum húsum.
Tillagan skiptir uppbyggingunni í þrjá áfanga. Hver áfangi hefur skýrt hlutverk.
Í Vallarstræti verður fjölbreytt verslunar og þjónustuhúsnæði. Það mun styrkja þjónustu í hjarta miðborgarinnar, auðga mannlíf og skapa áhugverða upplifun fyrir vegfarendur. Hrynjandi og form nýbygginga fellur almennt vel að nálægðri byggð. Samkomusalur við Thorvaldsenstræti 2 er endurbyggður sem skemmti- og ráðstefnusalur. Innangengt verður í veitingasal hótelsins.
Landsímahúsið er allt skipulagt sem hótelbygging með viðbættri þakhæð og nýbyggingu við Kirkjustræti. Aðalinngangur í hótel er frá Kirkjustræti og innra skipulag hótels skapar tengsl við nærliggjandi almenningsrými, Víkurgarð og Austurvöll.
Uppbygging á syðri hluta Ingólfstorgs, þar sem Hótel Ísland stóð einu sinni, skapar nýja sýn og uppbyggingarmöguleika sem vert er að skoða. Tillagan gerir ráð fyrir að þar verði menningarhús. Nýbygging á þessum reit þarfnast frekari útfærslu og almennrar umræðu. Ljóst að þar er um að ræða sjálfstæða einingu á borgarlandi sem tengist ekki hóteluppbyggingunni.
Umferðarskipulag fyrir gangandi og akandi vegfarendur er gott. Vallarstræti fær heildstæðara götuform. Það kemur til með að styrkja tengsl Austurvallar við Grjótaþorp. Með nýbyggingu á Hótel Ísland reitnum er opnað fyrir sögulega tengingu Austurstrætis við Aðalstræti. Um leið styrkist götumynd Aðalstrætis og Veltusunds.
Einn helsti veikleiki tillögunnar er sú hlið hótelsins sem snýr að Kirkjustræti. Hún verður mjög áberandi og þarfnast endurskoðunar. Sama gildir um þá hlið hótelsins sem snýr að Víkurgarði og aðkomu að hótelinu þaðan. Taka þarf tillit til uppbrots og stærðarhlutfalla eldri húsa sunnan megin Kirkjustrætis. Einnig þarf að huga betur að ásýnd nýbyggingar frá Austurvelli. Leiðir að hótelinu frá Aðalstræti og Vallarstræti orka tvímælis.
Ákjósanlegt er að hótelið verði fjögurra stjörnu með tilliti til einstakrar staðsetningar í borginni.
Lítið er unnið með Ingólfstorg og Víkurgarð og er þörf á meiri úrvinnslu, m.a. með tilliti til hæðarmunar, yfirborðsmeðhöndlunar og gróðurs.“
Ef smellt er á myndirnar stækka þær og verða skýrari.

Samkeppnissvæðið og næsta umhverfi

Ingólfstorg séð til suðurs

Skissa úr fyrra þrepi tillögunar sem sýnir nýbyggingu við Kirkjustræti sem kallast á við byggingar handan götunnar.

Grunnmynd jarðhæðar sem sýnir tengsl hennar við borgarrýmið.

Þessi nætur- eða vetrarstemming sýnir vel uppbygginguna og hvernig hlutföl húsa passa við byggðina í grendinni, Grjótaþorpið og hús annarstaðar í miðbænum.
Sýning á öllum verkunum stendur í einn mánuð frá 29. júní til 29. júlí og er hún opin frá kl 14.00-18.00 að Thorvaldssensstræti 6, Landsímahúsinu.
Það er rétt að geta þess í lok umfjöllunar um þessa miklu samkeppni að dómnefnd var fjölskipuð. Í henni voru Páll Hjaltason arkitekt, sem er formaður, Júlíus Vifill Ingvarsson borgarfulltrúi, Dr. Kristín Þorleifsdóttir landslagsarkitekt, Hilmar Þór Björnsson arkitekt, Sigrún Birgisdóttir arkitekt, Pétur Þór Sigurðsson lögfræðingur og Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi. Ritari var Lilja Grétarsdóttir arkitekt og trúnaðarmaður Haraldur Helgason arkitekt.