Föstudagur 30.9.2011 - 21:39 - 14 ummæli

Daniel Libeskind – Mislagðar hendur

.

Sjörnuarkitektinn Daniel Libeskind hefur hannað viðbyggingu við gamla stríðsminjasafnið í Dresden í Þýskalandi. Safnið opnar endurnýjað  þann 14. október næstkomandi eftir að hafa verið lokað í 22 ár.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum skemmir stjörnuarkitektinn freklega fallega symetríu gamla hússins. En symetrían var einmitt helsti styrkleiki þess og einkenni. Libeskind reynir að rökstyðja nálgunina á eftirfarandi hátt:

“It was not my intention to preserve the museum’s facade and just add an invisible extension in the back. I wanted to create a bold interruption, a fundamental dislocation, to penetrate the historic arsenal and create a new experience. The architecture will engage the public in the deepest issue of how organized violence and how military history and the fate of the city are intertwined.”—Daniel Libeskind

Þagar svona rökstuðingur er lesinn og maður skynjar að hann er tekinn alvarlega sér maður að það er ástæða til þess að  varast stjörnuarkitekta.

Libeskind er afar flinkur arkitekt  sem skilað hefur mörgum frábærum verkum á sínum ferli, en mér sýnist hann hafa misst tökin á þessu verki og rökstuðningurinn að ofan hljómar sem hver önnur vandræðaleg vitleysa í mínum eyrum.

Stríðsminjasafnið er frá 1897 og var í fyrstu stríðsminjasafn Saxa, síðan Nasista, þá Rússlands og í framhaldinu Austur Þýskalands. Nú er það stríðsminjasafn sameinaðs Þýskalands. Það slapp við skemmdir í seinni heimstyrjöldinni vegna þess að það stóð nokkuð utan borgarinnar Dresden sem lögð var í rúst í seinni heimstyrjöldinni.

Efnisval viðbyggingarinnar virðist á skjön við gamla húsið.

Gamla húsið er fallegt með fallegum rýmum sem hafa verið endurnýjuð með nútímalegu litavali, lysingu og fl.

Meginstoðin sem hugmynd að grunnmynd viðbyggingarinnar stendur stendur á er viljinn til þess að vera áberandi og sjálfsmiðaður. Enda talar arkitektinn um sjálfan sig og viðbygginguna í stað þess að tala um samtal gömlu byggingarinnar við viðbygginguna.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.9.2011 - 13:52 - 11 ummæli

Menningarstefnan og Landspítalinn

 

.

Flestir þeirra sem hafa kynnt sér menningarstefnu menntamálaráðuneytisins í mannvirkjagerð telja að nýtt deiliskipulag Landspítalans við Hringbraut sé ekki í samræmi við stefnuna.  Um þetta eru þeir sem vinna að tillögugerðinni ekki sammála af eðlilegum ástæðum.

Ef stefnan er skoðuð og fyrirliggjandi drög að deiliskipulagi Landspítalans á sunnanverðu Skólavörðuholti  borin saman við hana sýnist margt umhugsunarvert.

Dæmi er tekið af tilmælum á síðu 23 í menningarstefnunni þar sem stendur orðrétt:  

”Áhersla skal lögð á heildarmynd og mælikvarða þegar byggt er i eða við eldri byggð. Til að tryggja heildrænt og sögulegt yfirbragð húsa, götumynda og byggðamynsturs er nauðsynlegt að stjórnvöld framfylgi skýrri stefnu þar.”

Ef tillagan er skoðuð verður ekki séð að þarna sé þess gætt að heildarmynd og mælikvarði sé í samræmi við það sem fyrir er eða að heildrænt yfirbragð sé yfir nýbyggingum og núverandi götumynda og byggðamynsturs Skólavörðuholtsins.

Þarna ber stjórnvöldum, eins og fram kemur í tilvitnuninni, ”að framfylgja skýrri stefnu” sinni.

Þetta er bara eitt dæmi af mörgum í manvirkjastefnunni sem þarf að skoða og tengist umræddum deiliskipulagsdrögum beint.

Menningarstefnan er vandað og mikilvægt skjal þar sem lagður er grunnur að stefnu íslenskra stjórnvalda varðandi skipulag og byggingarlist.

Stefnan var unnin af nefnd sem skipuð var af fulltrúa ráðuneytisins Halldóru Vífilsdóttur arkitekt sem var formaður, Steve Christer, arkitekt sem skipaður var af Arkitektafélagi Íslands, Hrafni Hallgrímssyni arkitekt, sem skipaður var af umhverfisráðuneytinu, Óskari Valdimarssyni frá Framkvæmdasýslu Ríkisins og Jóhannesi Þórðarsyni deildarforseta hönnunardeildar Listaháskóla Íslands.

Ég geri ráð fyrir að aðstandendur menningarstefnunar séu nú þessa stundina að skrifa umsögn um skipulagsdrögin sem send verða til hlutaðeigandi aðila. Því ef þeir gera það ekki og láta þetta tækifæri ónotað til þess að styrkja og festa menningarsefnuna í sessi má telja hana andvana fædda. Það er mikil synd vegna þess að hún er vönduð og vel  samin.

Síðasti dagur til þess að gera athugasemdir við drögin er á morgun.

Ég geri ráð fyrir að fyrirpurnir og umsagnir frá aðilum eins og Menntamálaráðuneytinu, Umhverfisráðuneytinu, Framkvæmdasýslu Ríkisins, Arkitektafélagi Íslands og Listaháskólanum vegi þungt þegar slipulagsráð fjallar um umsagnirnar.

Nú er tilefni og tækifæri til þess að meta deiliskipulagið frá sjónarhóli menningarstefnunnar  og ”framfylgja” henni hver sem niðurstaðan kann að vera.

Hér er slóð að menningarstefnunni. Ég ráðlegg fólki að kynna sér þetta merkilega og vandaða þarfaþing.

http://www.fsr.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=6051

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.9.2011 - 09:56 - 8 ummæli

Byggingalistasaga Íslands

Þótt byggingalistin sé ómflýjanlegust allra listgreina er lítið um hana fjallað hvort sem  litið er til skólakefisins,  prentmiðla, ljósvakamiðla eða almennrar umræðu.

Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt FÍLA, hefur sent síðunni eftirfarandi pistil þar sem hann kallar eftir því að skrifuð verði sagan um hvernig Íslendingar hafi komið sér fyrir hér á landi um aldirnar.

Einar spyr;  Af hverju er saga bygginga og manngerðs umhverfis hér á landi enn óskrifuð?

Þetta er áhugaverður pistill sem tekur á mikilvægu máli sem hefur verið og er vanrækt.

Gefum Einari orðið:

Það  fæddist hugmynd  í kolli mínum fyrir framan skjáinn að horfa á Kiljuna í síðustu viku þegar Listasaga Íslands var kynnt og hefur ekki vikið frá mér síðan.  Stór  askja með 5 bókum sem spanna mismunandi tímabil myndlistarsögu okkar og þá vaknaði spurningin; hvar er Byggingarlistasaga Íslands?

Er ekki  komið að því að bókaútgefendur, fagstéttir,  safnamenn og sagnfræðigrúskara að leggja af stað í nýjan leiðangur og gera Byggingarlistasögu Íslands jafn góð skil?

Söguna um  það, hvernig Íslendingar hafa komið sér fyrir á Íslandi (áhersla t.d. á sl. 200 ár).  Byggt yfir sig hús til margvíslegra nota til að búa í og sinna daglegu lífi.  Ennfremur hús  til þess að þjóna samfélaginu skólahús, sjúkrahús, kirkjur og atvinnuhúsnæði.  En einnig hvernig Íslendingar hafa innréttað sig í húsunum eftir tíðaranda, notagildi og tískustefnum og síðast en ekki síst hvernig Íslendingar hafa mótað nánasta umhverfi sitt garðinn til yndis og nytja. Einnig skipulagssögu byggða.

Þegar þessir hversdagslegu þættir eru skoðaðir  rennur upp fyrir manni að þessi samfléttun  lífs okkar og barátta við óblíð náttúruöfl hefur aldrei verið skráð á  tímaás sem saga húsnæðis, húsa og umhverfis hvað þá sett í samhengi við aðrar listir.

Getur ekki orðið til list úr aðlögun mannsins að náttúruröflum, byggingarlist sem skapar okkur sérstöðu, ekki bara í gamalli fortíð okkar? Höfum við ekki tekið sérstöðuna með okkur inn í nútímann, lært af reynslunni?  Svo má spyrja hvað er list?   Sprettur listsköpun bara úr jarðvegi auðs og velmegunar?     Getur list ekki sprottið af nægjusemi og útsjónarsemi og haft áhrif á og mótað okkur?

Af hverju er saga bygginga og manngerðs umhverfis óskrifuð?

Það sem er einkennir byggingarsögu Íslands er að það hefur ávallt verið mikil áskorun að reyna nýja hluti við þau óblíðu ytri náttúruskilyrði sem við búum við.  Í  þeirri staðreynd er fólgin mikil sérstaða sem þarf að halda á lofti.  Aðstæður  sem hafa haft áhrif og mótað hús, híbýli og umhverfi.

Nú á háskólasamfélagið, faghóparnir og ríkið að starta langhlaupi sem endar með nýjum bókakassa með Byggingarlistasögu Íslands.  Fyrst þarf að móta ramma fyrir verkið og ákveða hverjum tökum það verði tekið.  Einnig þurfa fagfélög innan arkitektúrs að tilnefna í hópinn faglega fulltrúa.  Stefna að því að skrifa nokkrar bækur sem næðu yfir allt svið þeirrar byggingarlistasögu, sem ég tel að vanti algjörlega og  er mestur fengur í.  Til nota við kynningu á Íslenskri menningu og fræðslu um land og þjóð en ekki síður fyrir unga Íslendinga á öllum skólastigum.

Mikil grunnvinna liggur fyrir, m.a. í ritum Harðar Ágústssonar, Hjörleifs Stefánssonar og Péturs H. Ármannssonar,  safnaheimsins ofl. á sviði byggingarsögunnar.  Kannski er minna til um  þróun húsgagna og híbýlahátta.  Garðsaga Íslands hefur verið kennd við Umhverfisskipulagsdeil LBHÍ á Hvanneyri s.l 10 ár og liggur fyrir kennsluhefti og ýtarlegt kennsluefni.

Fyrir réttum 73 árum gaf Mál og menning út ritið „Húsakostur og híbýlahættir“.  Þar birtust níu ritgerðir sem ætlaðar voru til þess,  eins og segir í lokaritgerðinni eftir Halldór Kiljan Laxness, að  „ef ritgerðir þær sem hér birtast mættu verða til þess að fleiri en áður fengju augun opin fyrir híbýlaprýði og yrðu til þess að segja drabbaranáttúrunni stríð á hendur þætti M og M vel hafa tekist til“.  Hópur ungra arkitekta og húsgagnateiknara, eins og þeir eru titlaðir, auk Laxness rita bókina.

Þarf ekki núna að kveða niður drabbaranáttúruna í þeim skilningi að sögu þessara merku menningarþátta Íslandssögunnar, Byggingarlistasaga verði sett í það kastljós sem hún verðskuldar?

Nú er komið að því að hefjast handa.

EES

.
Garður við Alþingishúsið

Hús eftir Högnu Sigurðardóttur arkitekt.

Teikning eftir Skarphéðinn Jóhannsson úr 1. verðlaunatillögu í samkeppni um innréttingu sveitaheimila frá 1939.

Efst er mynd eftir Louisu Mattíasdóttur sem heitir „Sjálfsmynd í landslaginu“. Myndin sýnir himinn, haf, grundir, fjöll og konu ásamt fé á beit.  Allt baðað í íslenskri birtu með íslenskum litum.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 25.9.2011 - 23:06 - 28 ummæli

Deiliskipulag íbúðahverfa – Þá og síðar

.

Fyrir 25-30 árum voru skipulögð íbúðahverfi í Reykjavík þar sem manneskjan var sett í fókus. Ég nefni dæmi um Suðurhlíðar sem eru milli Kringlumýrarbrautar  og Fossvogskirkjugarðs. Síðar var eitt skipulag í sama anda gert í framhaldi af deiliskipulagssamkeppni. Það var á svokölluðum BÚR reit vestur í bæ þar sem nú heitir Aflagrandi.

Deiliskipulögin miðuðu við þarfir íbúana við leik og störf. Húsin voru fjölbreytileg og það var beinlínus hvatt til fjölbreytni. Í Suðurhlíðum er að finna raðhús með fimm íbúðum sem teiknaðar eru af fimm mismunandi arkitektastofum.  Húsin mynduðu manneskjuleg rými sín á milli.

Göturnar voru mjóar og sveigðust til þess að hægja á bifreiðaumferð og gefa götulífinu meira svigrúm. Einkabíllinn var víkjandi og seitlaðist eftir húsagötunum innan um gangandi vegfarendur. Bílarnir voru víkjandi. Börn að leik og gangandi áttu réttinn. Þarna voru engar gangstéttar og göturnar voru það sem kallað er “shared streets” í dag en voru þá kallaðar “vistgötur”.

Þessi skipulög virka vel og stuðla að auknum samskiptum íbúanna með nágrannavörslu og fleiri félagslegum gæðum.

Á þeim var þó einn galli sem rekja má til þess að borgin vildi ekki að Skipulagsstjóri Ríkisins staðfesti deiliskipulögin. Af einhverjum ástæðum komst borgin upp með þetta á þeim tíma. Af þessum sökum var opnuð leið til þess að lóðarhafar gætu byggt stærri hús en höfundar skipulagsins gerðu ráð fyrir.

Það var synd.

Í framhaldinu þegar skipulagsvinna í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal hófst var af einhverjum ástæðum vikið frá þeim hugmyndum sem lágu að baki Suðurhlíða og BÚR lóðar. Önnur áratuga gömul hugmyndafræði tók við.  Það var hugmyndafræði sem var í anda þess sem gerðist 40-50 árum áður t.d. á Högunum, í Vogunum og Leitunum í Reykjavík.  Sú hugmyndafræði byggðist á því að einkabíllinn væri fyrirferðameiri í íbúðahverfunum í stað þess að styrkja mannlífið milli húsanna í anda Jan Gehl.

Ég skildi aldrei hversvegna þetta afturhvarf til fortíðar varð ofaná. Sennilega var ástæðan sambland af þekkilngarleysi, áhugaleysi, kjarkleysi og þýðlyndis. Maður saknaði einskonar „skipulagsástríðu“ og hugmyndaauðgi.

Deiliskipulagið sem tók við var líka með LEGO kubbalegri húsum þar sem lífið á götunni og grenndarsamfélagið skipti ekki eins miklu máli. Skilmálar kölluðu eftir einsleitari húsum og svonefndur “gámastíll” tók við af fjölbreytileikanum.

Maður skynjaði vaxandi skilningsleysi á manneskjunni og lífinu milli húsanna.

.

Húsin sem eru á myndinni að ofan eru teiknuð af  Birni H. Jóhannessyni arkitekt  eru í Suðurhlíðum. Húsin að neðan eru teknuð af Finni Björgvinssyni og Hilmari Þór Björnssyni arkitektum standa við Aflagranda. Ekki er vitað hver teiknaði önnur hús á myndunum.

Deiliskipulagið við Suðurhlíðar var unnið af Valdísi Bjarnadóttur arkitekt. Skipulagið á BÚR lóð var unnið í samkeppni af arkitektastofu Finns Björgvinssonar og Hilmars Þórs Björnssonar.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 25.9.2011 - 10:16 - 4 ummæli

Harpa logar

Helsti örlagavaldur húsa á braut frægðarinnar er ekki hvað þau líta vel út heldur hversu vel þau myndast, hversu „fótogen“ þau eru. Tónlistarhúsið Harpa er “fótogen” og það er rúmt um hana.  Það sér maður á þeim fjölda mynda af húsinu sem verða á vegi manns.

Harpan er sýnd í misjöfnu ljósi og sýnir á sér mörg andlit.

Akitektúrinn vekur blendnar tilfinningar og er umdeildur en ljómyndirnar eru fallegar og fjölbreytilegar.

Mér barst mynd af húsinu sem tekin er frá stað sem fæstir berja það augum. Myndin er tekin af Karli Gunnarssyni um borð í skútu sem var að sigla inn í höfnina eitt þriðjudagskvöld fyrir skömmu. Sólarlagið speglast í glerveggnum sem sýnist brenna.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.9.2011 - 12:02 - 19 ummæli

Íbúafundur um Nýjan Landspítala

.

Siðastliðinn þriðjudag boðuðu íbúasamtök í Miðborg og Hlíðum, Holtum og Norðurmýri til opins íbúafundar um Nýjan Landspítala. Guðlaugur Gauti Jónsson arkitekt, sem sat fundinn, hefur sent síðunni eftirfarandi pistil til birtingar þar sem hann fjallar um fundinn.

Guðlaugur Gauti skrifar: 

Yfir 100 manns mættu á kynningarfund um væntanlega uppbyggingu á Landspítalalóð sem Íbúasamtök í Miðborg og Hlíðum, Holtum og Norðurmýri héldu í Ráðhúsinu 20. sept. s.l. Frummælendur voru formaður verkefnisstjórnar fyrir Nýjan Landspítala, fulltrúi og hönnunarstjóri arkitektateymisins sem hannar spítalann og formaður skipulagsráð Reykjavíkur. Þeir ásamt fleirum  sátu svo í panel og svöruðu fyrirspurnum að kynningu lokinni.

Þar kom m.a. fram að kynningin sem nú stendur yfir á drögum að deiliskipulagi fyrir lóðina er forkynning og óformleg að því leyti að hún er ekki hin formlega kynning sem skylt er að framkvæma að lögum. Einnig sagði formaður skipulagsráðs frá því að hann reiknar með að deiliskipulag verði samþykkt næsta vor að lokinni formlegri kynningu og tilheyrandi umfjöllun í ráðum og nefndum.

 Það sem vakti athygli mína umfram annað var það hvernig Gunnar Svavarsson, formaður framkvæmdanefndar um Nýjan Landspítala-Háskólasjúkrahús (NLSH), skilur verkefni sitt og nefndarinnar. Vegna athugasemda úr sal kom t.d. ítrekað fram hjá honum að hann telur það ekki vera hlutverk sitt eða nefndarinnar að svara málefnalegum athugasemdum og ábendingum varðandi framkvæmdina. Þetta á m.a. við um vel rökstudda gagnrýni Katrínar Ólafsdóttur prófessors frá því í janúar s.l. sem ekki hefur verið svarað. Þar segir hún t.d. að skýrslur sem unnar hafa verið vegna verkefnisins veki fleiri spurningar en þær svari.

Einnig kom margoft fram í máli hans að verkefnið felist í skipulagi innviða hins nýja spítala og að koma fyrir starfseminni í húsunum sem þarna muni rísa. „Við erum að horfa til framtíðar og byggjum á notendastýrðri hönnun þar sem meginverkefnið eru innviðir spítalans, það sem á að fara fram inni í húsunum….” sagði hann. Ég held að hann hafi ekki minnst einu orði á umferð eða umhverfi.  Þá kom fram sú gagnrýni úr sal að fræðilegt  staðarvalsmat hafi ekki átt sér stað, sem Gunnar lét ósvarað.

Flestir sem gagnrýna staðsetningu NLSH við Hringbraut gera það vegna umhverfisins og umferðarinnar. Þeir lenda því í báðum flokkunum sem Gunnar telur ekki vera  á sínu sviði að sinna; þeir tilheyra flokknum sem tjáir sig um verkefnið og Gunnar telur ekki þurfa að svara og í hópnum sem hefur áhuga og áhyggjur af verkþáttum sem Gunnar telur vera utan síns verksviðs.

Það er alltaf miður þegar menn sem eru á launum hjá borgurunum telja sig ekki þurfa að sinna upplýsingagjöf til þessara sömu borgara. Þannig vinnubrögð eru það sem kallað hefur verið „rosalega 2007.” Reyndar er þetta verkefni allt og deiliskipulagsdrögin sem liggja fyrir „rosalega 2007.” Síðasti áratugur skilaði okkur alvarlegum mistökum hvað varðar skipulag og umhverfi. Um það ber t.d. uppbygging við  Borgartún í Reykjavík vitni.

Uppbygging á landspítalalóðinni samkvæmt deiliskipulagsdrögunum verður miklu verri en það m.a. vegna nándar við sum fegurstu og eftirsóknarverðustu hverfi borgarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.9.2011 - 11:45 - 7 ummæli

Skemmtilegt götulíf í Kaupmannahöfn

 

.

Að ofan gefur að líta skemmtilega kvikmynd frá Kaupmannahöfn sem sýnir götulíf sem alla dreymir um. Þarna fer fólk um í sporvögnum eða gangandi og hjólandi. Bíllinn er víkjandi fyrir reiðhjólum og gangandi. Þarna sjást læknar og lögfræðingar hjólandi ásamt ástföngnum sem leiðast meðan þau hjóla.

Höfnin er full af lífi. Sjómennirnir koma síðdegis og selja afla  sinn gestum og gangandi. Bændur mæta með afurðir sínar og selja á torgum.

Þetta er auðvitað liðin tíð og allt mjög rómantískt.

Við getur samt lært af þessu. Þó ekki væri nema að opna augu okkar fyrir þeim tækifærum sem liggja í höfnum landsins. Ég nefni Hafnarfjarðarhöfn og Reykjavíkurhöfn þar sem verið er að leggja dauða hönd á bryggjulífið þar sem hafnarstarfsemi tekur til fótanna og leggur á flótta undan lúxusíbúðum, hótelum, verslunar- og menningarhúsum.

Að neðan er svo stutt stemmingsmynd frá Kaupmannahöfn 74 árum seinna þegar um helmingur íbúa borgarinnar (um 500 þúsund manns) nota reiðhjól á hverjum degi til þess að komast leiðar sinnar.

.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.9.2011 - 19:42 - 2 ummæli

ARKITEKTÚR tímarit

Nýlega kom út tímaritið ARKITEKTÚR sem gefið er út af Arkitektafélagi Íslands og Félagi Íslenskra Landslagsarkitekta.

Að þessu sinni er sjónum beint að ferðamannastöðum á Íslandi þar sem einkum er litið aðbúnaðs og aðstöðu til þess að taka á móti fólki.  Þá er fjallað um nokkrar glæsilegar nýbyggingar svo sem sundlaugina á Hofsósi, Menningarhúsið Hof á Akureyri, Skála Íslendings í Reykjanesbæ o.m.fl.

Þarna er líka merkilegt viðtal við Reyni Vilhjálmsson og Manfreð Vilhjálmsson um ferðaþjónustu og arkitektúr ásamt greinum um merkingar á ferðamannastöðum o. fl.

Þarna eru líka áhugaverðar greinar um landslagshönnun og vöruhönnun.

Þetta er spennandi blað sem ætti að liggja frammi í öllum betri stofum landsmanna.

Blaðið kostar aðeins  kr. 1250.- og fæst í öllum betri bókabúðum

22.09.2011

Mér hefur verið bent á að ég nefndi ekki að ofan að í ritinu er ágæt yfirferð yfir arkitektasamkeppnir sem voru haldnar á síðastliðnu ári hér á landi.

Þar er  fyrst að telja Nýjan Landspítala þar sem er fjallað um allar innsendar tillögur. Þá er fjallað um samkeppni um framhaldsskóla í Mosfellsbæ þar sem birtar eru teikningar af  öllum  verðlaunuðum og innkeyptum tillögum.

Um þriðju samkeppnina sem dæmd var á síðasta ári er ekki fjallað en það er hjúkrunarheimili á Eskifirði.  Ekki veit ég hver ástæðan er, en þetta vekur athygli vegna þess að það er mikilvægt að jafnræði sé gætt og að arkitektar fái umfjöllun um verk sín.  Þessi efnistök skekkja myndina af samkeppnismálum á síðasta ári.

Ef fjalla átti um samkeppnir á annað borð hefði hjúkrunarheimilið átt að vera fremst í forgangsröðinni vegna þess að hjúkrunarheimili eru mikið á dagskrá hér á landi um þessar mundir.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.9.2011 - 09:23 - 5 ummæli

Íbúafundur um Nýjan Landspítala í kvöld

 

.

Það er megintilgangur þessarar vefsíðu að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðum um efnið.

Í samræmi við það er hér minnt á opinn fund í Ráðhúsi Reykjavíkur  kl. 20.00 í kvöld um Nýjan Landsspítala.

Þetta verður vonandi fróðlegur fundur þar sem aðstandendum deiliskipulagsins tekst að sannfæra fundarmenn um ágæti þess.

Fundarboðið á heimasíðu borgarinnar hljómar svona:

.

“Íbúar í Miðborg og Hlíðum, Holtum og Norðurmýri.

Opinn íbúafundur um Nýjan Landspítala

á vegum hverfisráða Miðborgar og Hlíða og Íbúasamtaka Miðborgar og Íbúasamtaka 3. hverfis, verður haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur, þriðjudaginn 20. september kl. 20.

Dagskrá:

1.Formaður verkefnisstjórnar spítalans ræðir um markmiðið með byggingu Nýs Landspítala

2.Fulltrúi arkitektanna kynnir lausn þeirra til að mæta markmiðunum

3.Formaður skipulagsráðs Reykjavíkur ræðir um aðkomu Reykjavíkurborgar

4.Pallborðsumræður með framsögumönnum ásamt varaformanni umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkur.

Mætum öll og kynnum okkur stöðu málsins og fáum svör við spurningum okkar.

Hverfisráð Miðborgar, Íbúasamtök Miðborgar, Hverfisráð Hlíða, Íbúasamtök 3. hverfis”.

.

Það er mikilvægt að mæta á svona kynningar og setja sig inn í málin, spyrja spurninga og fá svör.

Sérstaklega þegar fjallað er um meiriháttar skipulag eins og hér. Hér er um að ræða mikið inngrip í borgarlandslagið sem er umsvifamesta deiliskipulag og það viðkvæmasta sem nokkru sinni hefur verið kynnt fyrir borgarbúum svo ég viti til.

Ég sakna fulltrúa íbúa meðal frummælenda. En þeir láta að líkindum sitt ekki eftir liggja í almennum umræðum.

Ég hvet alla til að mæta, hvar sem þeir búa, enda er á dagskrá spítali allra landsmanna, Landsspítalinn.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.9.2011 - 11:46 - 17 ummæli

Demanturinn á Hótel Loftleiðum

 

Flest hús hafa eitthvað í sér sem er einstakt. Það er demanturinn í húsinu. Stundum er hann stór og stundum er hann svo lítill að enginn tekur eftir honum. Þetta er eins og með fólk. Allir hafa eitthvað til brunns að bera þó þeir finni ekki alltaf fjölina sína.

Á Hótel Loftleiðum,  þar sem Hotel Reykjavík Natúra er til húsa er að  finna sérlega fallegan stiga. Stiginn er demanturinn í þessu húsi. Hann er ekki bara fallegur heldur er hann líka sérstakur hvað burðarvirki varðar o. fl. Þarna er fagurlega formaður steinsteyptur kjálki með léttilegum tréþrepum. Allt mikið augnayndi.

Ég hef trú á því að reglugerðarriddarar nútímans hefðu komið í veg fyrir svona hönnun í dag, því miður. 

Stiginn ber af öllu sem fyrir augu ber í húsinu og engu breytir hversu mörg  „facelifts“  eru gerð í anddyrinu, alltaf stendur stiginn uppi sem demanturinn.

Hótel Loftleiðir var teiknað á Teiknistofunni Tómasarhaga 31, sem var fyrirrennari núverandi TARK arkitekta. Í þá daga voru eigendurnir, þeir Gísli Halldórsson, Jósep Reynis og Ólafur Júlíusson. Ég man þegar Ólafur sýndi mér, táningnum, húsið  hafði hann mörg orð um stigann. Ólafur sá um bygginguna fyrir hönd teiknistofunnar og var stoltur af verki sínu. Hótelið sem var hannað og byggt á rúmlega einu og hálfu ári var opnað 1, maí 1966. Allt gekk vel þó engin væri gæðahandókin, tölvan eða BIM.

Ólafur Júlíusson var afar fær í sínu fagi, kátur, skemmtilegur og hvers manns hugljúfi.

Hann fóst í flugslysi á leið úr eftirlitsferð vegna byggingar flugstöðvarinnar á Akureyri, tæplega fimmtugur að aldri.  Auk Ólafs voru í vélinni þeir Björn Pálsson sjúkraflugmaður, Haukur Claessen starfsmaður hjá flugumferðastjórn og Knútur Óskarsson flugmaður. Þeir létust allir.

Ég kýs að kalla húsið Hótel Loftleiðir þó svo að nú um stundir sé þar rekið hótel undir öðru nafni samanber að hús Nathan & Olsen hefur alltaf heitið svo þó þar hafi verið til húsa margvísleg starfssemi ótengd byggjandanum.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn