Fyrir réttum mánuði, þann 1. maí, var heimssýningin EXPO 2010 opnuð undir yfirskriftinni “Better Cities – Better Life”. “Betri borgir betra líf“.
Þetta er stærsta heimssýningin frá upphafi og þekur meira en 500 hektara lands. Tæplega 200 lönd og meira en 50 alþjóðlegar stofnanir taka þátt í sýningunni. Gert er ráð fyrir að milli 70 og 100 miljónir manna heimsæki sýninguna sem stendur til 31. október í haust.
Væntingar til heimssýninga eru alltaf miklar og þær hljóta mikla kynningu. Utanríkisráðuneyti landanna og embættismenn leggja hart að sér til þess að þjóðir þeirra nái athygli heimsbyggðarinnar. Oftast er árangurinn rýr og maður veltir fyrir sér hvort ekki megi ná meiri og betri landkynningu miðað við fyrirhöfn með öðrum hætti.
Sýningarnar eru oftast mikil veisla hvað varðar byggingarlist og eru sterkustu arkitektar landanna fengnir til þess að sýna snilli sína á þessum vettvangi í samkeppni við heimsins þekktustu arkitekta á hverjum tíma.
Þrátt fyrir þetta er arkitektóniskur arfur frá heimssýningunum ekki merkilegur.
Þó eru 3 byggingar sem vert er að nefna sérstaklega og hafa haft áhrif á byggingarlistina.
Í fyrsta lagi “The Crystal Palace” frá heimssýningunni í London 1851 eftir Paxton sem var mikil bygging úr gleri og stáli. Í framhaldinu mátti sjá að hún hafði veruleg áhrif á ýmis konar byggingar víðs vegar um heim. Ég hygg að gler- og stálbyggingin á vesturhlið Ziemsenhússins í Grófinni í Reykjavík eigi uppruna sinn að rekja til Crystal Palace svo dæmi sé tekið.
Í öðru lagi Eiffelturninn sem byggður var vegna heimssýningarinnar í París árið 1889 eftir Gustave Eiffel. Turninn varð strax og er enn eitt af helstu kennileitum Parísarborgar.
Í þriðja lagi er það Barcelonaskáli Mies van der Rohe frá sýningunni 1929. Sá skáli var rifinn að sýningunni lokinni en endurbyggður aftur fyrir um 20 árum. Skáli Þjóðverja er sennilega sú bygging sem mest áhrif hefur haft á byggingarlist heimsbyggðarinnar síðustu rúmu 80 árin.
Því miður fann ég enga mynd af íslenska skálanum í Shanghai aðrar en tölvumyndir á heimasíðu íslenska skálans. Þær eru allar tölvumyndir sem gerðar voru meðan skálinn ver í hönnunarferli.
Yfirskrift íslenska skálans er “Hrein orka-heilbrigt líferni” og sýnist mér byggingin fanga yfirskriftina ágætlega.
Skálinn er hannaður af Plús Arkitektum sem valdir voru úr hópi 19 umsækjenda af valnefnd. Plús arketektar vöktu athygli þegar þeir unnu til fyrstu verðlauna í samkeppni um nýbyggingu Listaháskóla Íslands fyrir tveim árum.
Hér á eftir má sjá myndir af íslenska skálanum ásamt sýnishorn af skálum nokkurra annarra þjóða. Vefur íslenska skálans er www.expo2010.is.
Sérstakur þjóðardagur Íslands verður þann 11. september og þá er mér sagt að skipulögð sé hópferð íslenskra athafna- og embættismanna til Kína, þar sem þeim gefst kostur á að hlýða á forseta Íslands ávarpa viðstadda og skála, sennilega í hrísgrjónavíni.
Skáli Íslands eftir Plús arkitekta
Danski skálinn eftir BIG. Bjarke Ingels sem hlaut fyrstu verðlaun um höfuðstöðvar Landsbankans árið 2008.
Japanski skálinn
Skáli Kóreu
Skáli Mexico
Skáli Sviss