Mánudagur 31.5.2010 - 21:29 - 4 ummæli

Expo 2010

 

expo2010[1]

 

Fyrir réttum mánuði, þann 1. maí, var heimssýningin EXPO 2010 opnuð undir yfirskriftinni “Better Cities – Better Life”. “Betri borgir betra líf“.

Þetta er stærsta heimssýningin frá upphafi og þekur meira en 500 hektara lands. Tæplega 200 lönd og meira en 50 alþjóðlegar stofnanir taka þátt í sýningunni. Gert er ráð fyrir að milli 70 og 100 miljónir manna heimsæki sýninguna sem stendur til 31. október í haust.

Væntingar til heimssýninga eru alltaf miklar og þær hljóta mikla kynningu. Utanríkisráðuneyti landanna og embættismenn leggja hart að sér til þess að þjóðir þeirra nái athygli heimsbyggðarinnar. Oftast er árangurinn rýr og maður veltir fyrir sér hvort ekki megi ná meiri og betri landkynningu miðað við fyrirhöfn með öðrum hætti.

Sýningarnar eru oftast mikil veisla hvað varðar byggingarlist og eru sterkustu arkitektar landanna fengnir til þess að sýna snilli sína á þessum vettvangi í samkeppni við heimsins þekktustu arkitekta á hverjum tíma.

Þrátt fyrir þetta er arkitektóniskur arfur frá heimssýningunum ekki merkilegur.

Þó eru 3 byggingar sem vert er að nefna sérstaklega og hafa haft áhrif á byggingarlistina.

Í fyrsta lagi “The Crystal Palace” frá heimssýningunni í London 1851 eftir Paxton sem var mikil bygging úr gleri og stáli. Í framhaldinu mátti sjá að hún hafði veruleg áhrif á ýmis konar byggingar víðs vegar um heim. Ég hygg að gler- og stálbyggingin á vesturhlið Ziemsenhússins í Grófinni í Reykjavík eigi uppruna sinn að rekja til Crystal Palace svo dæmi sé tekið.

Í öðru lagi Eiffelturninn sem byggður var vegna heimssýningarinnar í París árið 1889 eftir Gustave Eiffel. Turninn varð strax og er enn eitt af helstu kennileitum Parísarborgar.

Í þriðja lagi er það Barcelonaskáli Mies van der Rohe frá sýningunni 1929. Sá skáli var rifinn að sýningunni lokinni en endurbyggður aftur fyrir um 20 árum. Skáli Þjóðverja er sennilega sú bygging sem mest áhrif hefur haft á byggingarlist heimsbyggðarinnar síðustu rúmu 80 árin.

Því miður fann ég enga mynd af íslenska skálanum í Shanghai aðrar en tölvumyndir á heimasíðu íslenska skálans.   Þær eru allar tölvumyndir sem gerðar voru meðan skálinn ver í hönnunarferli.

Yfirskrift íslenska skálans er  “Hrein orka-heilbrigt líferni” og sýnist mér byggingin fanga yfirskriftina ágætlega.

Skálinn er hannaður af Plús Arkitektum sem valdir voru úr hópi 19 umsækjenda af valnefnd. Plús arketektar vöktu athygli þegar þeir unnu til fyrstu verðlauna í samkeppni um nýbyggingu Listaháskóla Íslands fyrir tveim árum.

Hér á eftir má sjá myndir af íslenska skálanum ásamt sýnishorn af skálum nokkurra annarra þjóða. Vefur íslenska skálans er www.expo2010.is.

Sérstakur þjóðardagur Íslands verður þann 11. september og þá er mér sagt að skipulögð sé hópferð íslenskra athafna- og embættismanna til Kína, þar sem þeim gefst kostur á að hlýða á forseta Íslands ávarpa viðstadda og skála, sennilega í hrísgrjónavíni.

Isllett

 Isllett2

 islett3

 Skáli Íslands eftir Plús arkitekta

Danmörk

Danski skálinn eftir BIG. Bjarke Ingels sem hlaut fyrstu verðlaun um höfuðstöðvar Landsbankans árið 2008.

Japan

Japanski skálinn

Korea

Skáli Kóreu

Mexico

Skáli Mexico

Sviss 3

Skáli Sviss

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.5.2010 - 13:48 - 6 ummæli

101 TÆKIFÆRI

IMG_2232léttrett

Veit fólk að 98,8% húsa á höfuðborgarsvæðinu eru innan við 100 ára gömul?  Að miðborgin og allt svæðið innan Hringbrautar er aðeins 5% af skipulagssvæði Reykjavíkur?  Að  ekki er nauðsynlegt að rífa hús þó starfsemin breytist?  Veit fólk að Listaháskólinn í Helsinki er í gamalli keramikverksmiðju?  Að Tate gallerí í London er í gamalli kolarafstöð og Musée d´Orsay í París er í gamalli járnbrautarstöð?

Allt þetta og margt margt fleira má lesa í nýútkominni bók eftir Snorra Frey Hilmarsson, “101 TÆKIFÆRI”,  sem fjallar um húsvernd og tækifæri gamalla húsa.

Í bókinni er minnt á vönduð hús sem nú eru horfin og hefðu getað fullnægt fjölda hlutverka ef skilningur hefði verið á gæðum þeirra og tækifærum á sínum tíma. Kveldúlfsskálarnir(rifnir um1984) við Skúlagötu hefðu líklega hentað listaháskóla, Ölgerðarhúsin (rifin um 2002) við Njálsgötu hefðu  kannski hentað listasafni, Landsmiðjan við Sölvhólsgötu hefði verið hægt að aðlaga starfsemi ráðuneyta (rifið um 2001(?)  Völundarhúsin við Klapparstíg og m. fl.

Í Reykjavík er stefnan að rífa nokkur eldri hús til þess að rýma fyrir Listaháskóla Íslands.  Er það ekki óþarfi? Fellst ekki verkefnið í því að aðlaga gömlu húsin nýju hlutverki og hýsa það sem á vantar í nýbyggingum á svæðinu?

Á fundi sem haldinn var fyrir skömmu um málefni húsafriðunar og hverfafriðunar sátu fulltrúar stjórnmálaflokkanna sem nú bjóða sig fram til borgarstjórnar fyrir svörum.  Fulltrúarnir voru skilningsríkir á húsfriðun og verndun anda og sérkenna miðborgarinnar og gamalla húsa hvar sem þau standa.  Það var að mestu sátt og einn vilji varðandi málið hjá fulltrúunum.

Aðeins einn fulltrúa flokkanna, sjöundi maður á lista Besta flokksins talaði á annan veg og sagði að löngu væri búið að varða (vernda!) þau gömlu hús sem hafa eitthvað menningargildi og að góðu húsin eigi að standa en hin eigi að víkja fyrir nýjum. Hann taldi borgina hafa gefist upp gagnvart “öfgafriðunum”. Og hann sagði að þetta væri ekkert grín.

Þrátt fyrir allan velvilja, góð fyrirheit og skilning stjórnmálamanna á málefninu þá er eins og þegar á hólminn er komið og staðið er frammi fyrir ákvörðun um að fórna byggingararfleifðinni, oftast fyrir peninga, þá er önnur og verri stefna tekin og niðurrif heimiluð.  Skrýtið.

Ég hef sagt það áður og segi það aftur að skoða þarf alvarlega þá hugmynd að friða öll hús og allt umhverfi innan gömlu Hringbrautar. Þetta er svipað og er við lýði í Parísarborg innan Periferíunnar og í Rómaborg.  Mér er sagt að þetta eigi einnig við um innri bæ Kaupmannahafnar þar sem ekkert deiliskipulag  er til  heldur er krafan sú að nýbyggingar falli alls staðar að hinu gamla. Þarna er ekki verið að segja að engu megi breyta og stoppa eigi þróunina heldur að allar breytingar verði gerðar eftir vandaða skoðun og mikil sátt sé um þær nýbyggingar og breytingar sem standa fyrir dyrum.

Tíðarandinn hefur oft ráðið ferðinni í skipulagsmálum miðborgarinnar og ekki alltaf verið byggingararfinum hagstæður. Tíðarandinn hefur verið miðborginni slæmur. Því miður. Í miðborginni þarf að varast tíðarandann og hugsa í 100 árum eða svo.

Bókin “101 TÆKIFÆRI”  er í senn létt og fjörug, fróðleg, skemmtileg og krefjandi sama hvar er gripið niður í hana. Hún er ríkulega myndskreytt með ljósmyndum og teikningum og skemmtilegri samtvinnun teikninga, ljósmynda og texta. Það gengur kannsi of mikið á í layoutinu stundum miðað við efni bókarinnar en það er í góðu sambandi við tíðarandann.

Bókin ætti að vera er skyldulesning fyrir fagmenn og stjórnmálamenn, nauðsynleg fyrir alla sem hugsa um skipulagsmál og menningararfleifð og ætti að vera kennslubók í hverjum framhaldsskóla. Arkitektanemar ættu að taka próf í efni hennar.  Arkitektar sem ekki kunna að lesa umhverfið eða skynja og skilja anda staðarins eru engir arkitektar.

Aðalstrætið-eftir-breytingar-á-nr.10-Ljósmynd-Guðmundur-Ingólfsson

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.5.2010 - 16:23 - 4 ummæli

Mjólkurkýrin í stað blikkbeljunnar

sjamp4

Fyrir mörgum árum var fólk að velta fyrir sér hvað yrði um allar göturnar þegar einkabíllinn væri búinn að renna sitt skeið sem aðalsamgöngutæki borganna?

Þegar ég heyrði um frumkvæði franskra bænda nú um hvítasunnu rifjaðist þetta upp fyrir mér.

Í Reykjavík fer meira en þriðjungur landrýmisins undir stofnbrautir og húsagötur.

Talað var um að nota landrýmið sem nú  nýtist undir stofnbrautir til atvinnu- og stofnanastarfssemi og færa þá starfsemi með þeim hætti nær íbúðasvæðunum.

Ein hugmyndin var að gera Miklubraut, Breiðholtsbraut og Vesturlandsveg að samhangandi svæði fyrir matjurtarækt.  Bæði fyrir matjurtarækt heimilanna og til fyritækjareksturs í grænmetisrækt.

Ef allar stofnbrautir yrðu teknar undir matjurtarækt og með helgunarsvæðum og smá viðbót var talið að hægt væri að rækta stóran hluta af því  grænmeti sem borgarbúar þurfa á að halda á svæðinu. Þetta væri afarhentugt hér á jarðhitasvæðinu í sterkum tengslum við markaðinn.

Þetta var að hluta til framkvæmt í París um helgina þegar Champs Elysees var breytt í landbúnaðarsvæði.  Þarna var að sjá margskonar ræktun auk þess að svín, geitur og nautgripir gengu um í beitarhólfum. Vegna öflugs Metrokerfis þolir Parísarborg sæmilega að ein helsta stofnbraut borgarinnar sé lokuð í nokkra daga.

Hjálagt eru myndir sem teknar voru í París um helgina.

sj8

sj7

FRANCE-FARMING-UNIONS-CHAMPS-ELYSEES

Sjamp5

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.5.2010 - 22:33 - 10 ummæli

Reiðhjól

kolelinia_1[1]

Ég tek eftir að nú í vor að algengara er að sjá fólk í borginni gegna erinda sinna á reiðhjóli en undanfarin ár. Reiðhjólið er að verða áberandi samgöngutæki.

Í minni æsku voru reiðhjól leiktæki og ekki með gírum. Brekkurnar og vindurinn ollu miklum erfiðleikum.  Nú er þessu öðruvísi farið. Það eru 10-20 gírar á reiðhjólunum.

Ég sé fólk hjóla á móti miklum vindi áreynslulaust og það hjólar jafnvel sitjandi upp Túngötuna.

Við erum að upplifa endurkomu reiðhjólsins sem samgöngutæki um víða veröld.

Hönnun reiðhjóla hefur tekið stakkaskiptum undanfarin ár og nú er farið að huga að reiðhjólinu í hönnun gatna í Reykjavík. Og ekki bara það heldur eru hönnuðir í hinum stóra heimi að glíma við verkefni sem hafa það að leiðarljósi að greiða götu reiðhjólsins í samgöngukerfinu með margvíslegum og oft nýstárlegum hætti.

Mér var bent á slóð á veraldarvefnum þar sem lögð er fram tillaga að sérstökum reiðhjólaleiðum þar sem hinn hjólandi svífur yfir gatnakerfinu og er laus við núningspunkta þar sem bifreiðar og hjólandi mætast.

Slóðin er:  http://kolelinia.com/en/kolelinia/ 

Þetta er auðvitað á hugmyndastigi, nokkuð framúrstefnulegt og ekki gallalaust, en forvitnilegt. Þarna eru gerðar brautir þar sem hinn hjólandi svífur yfir annarri umferð og er óháð duttlungum og oftast forgangi þeirra sem eru akandi í bifreiðum.

Gaman væri að sjá svona hjólabraut frá Háskólanum í Reykjavík niður í miðbæ. Hugsanlega mætti hengja þetta á ljósastaurana þar sem það er hægt með styrkingum eftir þörfum.

Ég mæli með að áhugasamir skoði slóðina þar sem fjallað er um ýmis öryggisatriði og þ.h..

a_07

a_06

a_04

a_05

kolelinia_15[1]

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.5.2010 - 19:41 - 12 ummæli

Vísinda- og stúdentagarðar við HÍ

 

05141-05-greinargerd-torgx

Í sýningarsal Skipulags- og byggingasviðs Reykjavíkur stendur nú yfir kynning á nýrri deiliskipulagstillögu við Sturlugötu nálægt Háskóla Íslands. Svæðið er vestan við Íslenska erfðagreiningu og sunnan Norræna hússins.  Tillagan er unnin af arkitektastofunni ASK í Reykjavík.

Markmiðið er að beina ákveðnum þáttum tækni- og rannsóknarsamfélagsins ásamt súdentagörðum inn á svæðið og tengja það starfssemi Háskóla Íslands.

Ég var að skoða tillöguna og þótti hún athyglisverð. Þarna eru öll hlutföll manneskjuleg og það er búið til umhverfi þar sem verður iðandi götulíf á togum og strætum. Þetta er blönduð byggð með rannsóknar- og kennslustarfssem ásamt rúmlega 300 íbúðum í stúdentagörðum. Stórkallalegum skýjaborgum sem áður voru á teikniborðinu á þessum stað hefur verið sópað til hliðar. Nú eru aðrir og huggulegri tímar og góðærishugmyndir eru farnar veg allrar veraldar.

Miðsvæðis í skipulaginu er gert ráð fyrir torgi þar sem verður þjónustuhús með fyrirlestrarsölum bóksölu, kaffihúsi o.s.frv.

Alls er um að ræða rúmlega 70 þúsund fermetra húsnæðis. Til viðmiðunar þá er það svipað magn og nýbyggingar þær sem fyrirhugað er að byggja við Landspítala Háskólasjúkrahús við Hringbraut eða tvöfalt það byggingarmagn sem Háskólinn í Reykjavík hefur í huga að byggja í Nauthólsvík.

Í greinargerð skipulagsins er lýst umhverfisstefnu þar sem áhersla er lögð á umhverfi, heilsu, borgarbrag.

Einnig er athyglisvert að í greinargerð er ætlast til að allar byggingar verði vistvænar og vottaðar samkvæmt alþjóðlegum stöðlum þar sem áherslan er lögð atriði á borð við heilsu, vellíðan, orkunotkun, samgöngur, byggingarefni, úrgang, landnotkun og mengun.  Þá er gerð grein fyrir ”vistvænni samgöngustefnu”,  þ.e.a.s. ferðamáta gangandi og hjólandi ásamt almenningssamgöngum. Gjald verður tekið af bílastæðum samkvæmt skipulaginu.

Eftir að ákveðið hafði verið að byggja Háskólann í Reykjavík í Nauthólsvík var Páll Skúlason fyrrverandi rektor Háskóla Íslands spurður í sjónvarpsviðtali hvað honum fyndist um að fá Háskólann í Reykjavík svona nálægt HÍ?  Hann svaraði því til að hann hefði gjarna viljað hafa hann enn nær.

Ég hef oft velt þessu svari Páls fyrir mér og þetta kemur aftur upp í hugann nú þegar maður sér að það er hægt með hógværum hætti að koma þarna fyrir byggingarmagni sem telur rúmlega 70 þúsund fermetra. Þetta er,  eins og áður er getið,  helmingi meira en HR hefur áform um að byggja í Nauthólsvík enn sem komið er. 

Bygging Háskólans í Reykjavík sem er eins og oft hefur komið fram og rökstutt, eitt af stærstu skipulagsslysum borgarinnar. Það má halda því fram að svar Páls og hugmyndin um að byggja HR nær HÍ hafi verið raunhæf og synd að skipulagsyfirvöld hafi ekki skoðað þennan möguleika á sínum tíma þegar staðarvalið var ákveðið

Hér að neðan koma tvær teikningar. Önnur sem sýnir byggðina úr lofti.  Efst til vinstri sést Oddi sem er bygging Háskóla Íslands. Að ofan er Norræna Húsið og Askja. Til hægri sést bygging Íslenskrar erfðagreiningar.

Á neðri teikningunni sést torg þar sem verða verslanir og kaffihús ásamt þjónustuhúsi fyrir fyrirlestrarsali og fl.

Loftmynd

Torg

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.5.2010 - 18:34 - 9 ummæli

LOS ANGELES

Lett getty

Vita menn að Los Angeles er í raun ekki borg,  heldur hérað sem samanstendur af tæplega 90 sveitarfélögum með 13 milljónum íbúa?

Í LA er glæpatíðni hærri en víðast,  lítið um opin græn svæði og einkabíllinn er allsráðandi í samgöngumálum,  þó til sé ófullkomið og mjög ódýrt almenningssamgöngukerfi. Fargjaldið kostar sáralítið og fólk yfir sextugt greiðir fjórðung af fullu gjaldi fyrir ferðina.

Borgin er afar illa skipulögð og þegar horft er á þau tækifæri sem lesa má úr landslaginu verður maður hryggur. Borgin er margskorin í sundur af gríðarlegum hraðbrautum og margskipta borgarmiðju.

Fátt er um fína drætti í byggingalistinni þegar á heildina er litið.  Þarna virðast mér vera mun færri fermetrar af góðum byggingum á hverja þúsund íbúa en í Reykjavík, svo dæmi sé tekið.  Þetta er að mestu einkennalaus arkitektúr þar sem öllu ægir saman.

Það verður þó að halda því til haga að þarna er líka að finna sumar af albestu byggingum veraldar. Bæði nýjar og gamlar.  Sumar hverjar í gæðaflokki sem sjást ekki á mörgum stöðum.  Ég nefni “Disney Concert Hall” eftir Frank O. Gehry og “Paul Getty Center” eftir Richard Meier sem er eins og himnaríki á jörðu,  með útsýni yfir alla borgina.

Þarna er að finna ný hús sem byggð eru í anda þeirra húsa sem byggð voru í Evrópu fyrir meira en 100 árum.  Þetta er kostulegt í því ljósi að ekki er um “inn fill” að ræða eða samræmingu við eldri byggð sem gæti réttlætt þessa nálgun fullkomlega.

Ég var þarna í síðustu viku og þessi fleyga setning kom mér í huga:  “It is a nice place to visit, but I would not like to live there”

Getty 2lett

Getty Center er hannað útfrá kennisetningunni um að arkitektúr tilheyri ákveðnum stað og noti þau tækifæri sem þar eru um leið og hann er í sterkum tengslum við umhverfið.  Richard Meier notar mátkerfi  úr gatnakerfi LA svæðisins annars vegar og stefnu hraðbrautar við hlið bygginganna hins vegar til þess að ákveða stefnu húsanna. Til viðbótar opnar hann og lokar á víxl útsýni yfir borgina og til fjalla og hafs.

Gehry lett

gehry2lett

Þetta er „Disney Concert Hall“ eftirFrank O. Gehry  Það verður ekki fram hjá þessu húsi litið og það verður að viðurkennast að það er tilkomumikið og vel gert. Því hefur verið haldið fram að í sumum húsum Gehry fylgi formið ekki funktioninni heldur fylgi funktionin forminu.  Það vill samt þannig til að þetta hús fullnægir öllum þeim starfrænu kröfum sem til þess eru gerðar.

Gamalt Beverly

Hér má sjá nýleg hús í Bevely Hills sem byggð eru í anda löngu liðins tíma.  Jafnvel ljósastaurarnir eru í stíl gaslukta liðinna alda og granitsteinarnir í götunni eru lagðir eftir gamalli hefð.  Þarna eru dýrustu verslanir LA svæðisins.

UCLAlett

UCLA campusinn er eins og vin í eyðimörk.  Húsunum er komið fyrir á svæði þar sen engir bílar eru og þetta er eitt af örfáum grænum svæðum sem þarna er að finna.

Perloff Hall lett

Í Perloff Hall er arkitektaskóli UCLA.  Þetta er lítill skóli með skólagjöldum sem eru milli 14 og 25 þúsund dollarar. (1,8-3,2 milljónir króna). Fastir fyrirlesarar og prófdómarar þarna eru menn á borð við Tadao Ando, Peter Eisenman,  Frank O. Gehry,  Zaha Hadid,  Steven Holl,  Bjarke Ingels, Rem Koolhaas, Richard Meier, Glenn Murcott,  Jean Nouvel, Bernhard Tschumi og marga fleiri.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.4.2010 - 11:03 - 8 ummæli

Framhaldsskóli í Mosfellsbæ

Aðkoma

Nú stendur yfir sýning á tillögum í samkeppni um nýjan framhaldsskóla í Mosfellsbæ á Torgi í Kjarna, Þverholti 1 í Mosfellsbæ.

Ég ætla hér að kynna stuttlega þá tillögu sem hlaut 1. verðlaun í keppninni og atti þar kappi við 38 aðrar vel útfærðar tillögur sem flestar báru höfundum sínum gott vitni.

Þegar hugsað er um Mosfellsbæ þá koma fyrst upp í hugann iðagrænar grundir, rósarækt og fjölbreytt landslag með fellunum, Lágafelli, Úlfarsfelli, Helgafelli, Mosfelli, Reykjaborginni og svo eru þar auðvitað hestamennska og Halldór Laxness.

Höfundar fyrstu verðlaunatillögunnar nálgast tillögu sína í samræmi við þetta og leggja út af setningu úr Höll sumarlandsins eftir sveitungann Halldór Laxness sem segir á einum stað:“…og blómin vaxa á þakinu …Landslag verður að byggingu sem verður að landslagi..” og í samræmi við þetta samfléttast byggingin landslaginu með “villtum” gróðri, mosa og steinum á þökum sem eru í beinni snertingu við landslagið.

Auk þess að hafa sterk tengsl við staðinn og hnökralausa skipan rýma, er lögð áhersla á félagslega virka byggingu.

Hinn félagslegi þáttur skólabygginga hefur ekki fengið þá athygli sem honum ber.  Á menntaskólaárum myndast tengsl milli nemenda sem endast alla ævi. Þetta er ekki síður mikilvægt en sjálft námið. Í vinningstillögunni er hugað að þessu á óþvingaðan hátt. Félagslegu rýmin eru staðsett á réttu stöðunum, þeim er dreift um bygginguna á afslappaðan hátt og eru þannig, að þau eru dregin léttilega til hlés. Flest eru velhugsuð og vel staðsett og vel hönnuð.

Ég bendi á upphækkun við suðurgarð gegnt inngangi. Þar er upphækkun, ”hangs-svæði” sem veit inn að anddyri, matsal og skáparými. Þetta er staður til þess að hittast, hangsa um leið og góð yfirsýn er yfir það sem fram fer. Þessi trappa er líka utan dyra og veit þá til suðurs og gefur tækifæri til þess að njóta góða veðursins þegar þannig stendur á.

Tillagan er sterk í öllum aðalatriðum og hefur að geyma gullmola á borð við þann sem ég  nefndi. En auðvitað er tillagan ekki gallalaus og sýnist sitt hverjum. T.d. leiðist mér þetta litaða gler sem þarna er fyrirhugað að nota. Ég skil það ekki enda er þarna sennilega um stundarfyrirbæri tískunnar að ræða.

Höfundar tillögunnar eru Aðalheiður Atladóttir, arkitekt FAÍ, Falk Kruger, arkitekt og Filip Nosek, arkitekt. Ráðgjafi var Árni Þórólfsson arkitekt FAÍ.

Sýningin er opin alla daga og stendur til og með fimmtudeginum 29. apríl n.k.

Afstodumynd

Ef afstöðumyndin er ekki í lagi verður allt annað unnið til einskis. Öll grundvallaratriðin koma fram þar. Hér sést hvernig skólinn tengist byggðinni til austurs og hvernig aðkoman er og bílsatæði. Tillit er tekið til vinda, sólargangs og útsýnis til norðurs.

gr 02 1-200

Jarðhæð með aðkomu, stjórnun, matsal, skáparými og tengsl við útisvæði til suðurs.

gr 02 1-200Önnur og þriðja hæð hýsa kennslurými.

Sneidingarcrop

Á  sniðinu má sjá upphækkun sem nefnd er að ofan og mynda stigabrekku innandyra og utan til félagslegra athafna og samskipta. Þarna sést líka hvernig húsið mætir landslaginu. Snið bygginga er yfirleitt vanmetið. Það má geta þess hér til gamans að Alvar Aalto byrjaði oft á sniðinu þegar hann hóf skissugerðina. Maison Louis Carré í Frakklandi er gott dæmi um það.

Utlit

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.3.2010 - 14:23 - 25 ummæli

“Meðan skynsemin blundar”

nota[1]

Nú er liðið rúmlega hálft ár síðan ég byrjaði að skrifa hér um arkitektúr, skipulag og staðarprýði. Þá var dag tekið að stytta og tími innandyra tómstundavafsturs genginn í garð.

Nú er daginn aftur tekið að lengja og önnur tækifæri lífslistarinnar að banka uppá með öðrum áherslum.

Ég ætla að hvíla lyklaborðið til haustsins og kannski lengur. Það kann þó að vera að ég setji inn stöku færslu á næstu mánuðum en það verður ekki í sama mæli og undanfarið.

Ég lagði í upphafi út af málverkinu “L´enigma di una giornata” (gáta dagsins) eftir ítalann Chirico.

Mig langar að ljúka þessu með því að skoða annað málverk.  Málverkið sem varð fyrir valinu er eftir einn af bestu málurum landsins, Sigurð Örlygsson.

Málverkið heitir “Meðan skynsemin blundar” og sýnir mann sem er að stökkva upp á einhvern stall eða dökkan, veraldlegan metorðastiga. Eða kannski að falla af honum? Rétt hjá er annar stigi, ljós og gegnsær, kannski huglægur himnastigi. Stekkur maðurinn upp á rangan stiga eða sér hann betri tækifæri í veraldlega stiganum en hinum háa gegnsæja og bjarta?

Maðurinn hefur fyrir andliti sínu trekt. Spurningin er hvort þetta er sjónauki sem snýr öfugt? Öfugur snjónauki gerir allt minna en það er í raun. Og þá gildir einu hvort um tækifæri eða vandamál er að ræða. Kannski er þetta öfugt gjallarhorn sem gerir allt sem maðurinn segir að litlu eða engu? Eða er þarna þöggun í gangi? Er maðurinn múlbundinn?

Og þokan umhverfis allt þetta. Er þetta þoka óvissunnar eða doðans í kjölfar efnahagskreppu eða sálarkreppu? Eða leynist einhver von í þokunni?

Hver er svo maðurinn? Er hann táknmynd einhvers? Stjórnvalda kannski?  Táknmynd örlagavalda eða geðlurða? Er hann fulltrúi þeirra sem segja skoðanir sínar en enginn heyrir vegna trektarinnar eða tregðunnar?  Sennilega er hann viljalaus og skoðanalaus arkitekt, án fótfestu og svífur þarna eins og fjöður í loftinu, allt eftir því hvernig vindurinn blæs.

Og hann er aleinn.

Og svo er það kvörnin, er þetta kannski púðurkvörn? Full af orku?

Þetta frábæra málverk setur fram milljón spurningar sem ég ætla ekki að reyna að bera upp. Spurningarnar og svörin er einungis að finna í augum þeirra sem á horfa og kunna að sjá.

 

 Málverkið er 180x240cm að stærð og er málað árið 1988

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 29.3.2010 - 14:32 - 11 ummæli

Víkingaheimar

IMG_8236lett

Þegar ég gekk á Akademíunni í Kaupmannahöfn fórum við með jöfnu millibili að skoða gamla danska byggingararfleifð frá hinum ýmsu tímabilum. Til viðbótar voru reglulega fyrirlestrar um efnið innan skólans. Þetta var gert til þess að ala með nemendunum meðvitund um sögu byggingarlistarinnar í Danmörku og styrkja tilfinningu þeirra fyrir fortíðinni og arfinum.

Einu sinni fórum við að skoða fornar byggingar skammt frá Slagelse á Sjálandi. Þar voru fornar minjar um víkingabyggð og þar hafði verið byggt tilgátuhús frá tímum víkinga.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég fór að skoða Víkingaheima í Reykjanesbæ s.l. haust þar sem byggt hefur verið utan um víkingaskipið Íslending.

Þetta er glæsileg bygging hönnuð af færum arkitekt, Guðmundi Jónssyni og er vel til hennar vandað á flesta lund.

Það vakti samt athygli mína hvað atkitektúrinn var yfirborðskenndur þegar hafðar eru í huga þær djúpu rætur sem víkingaskipið á í sögu þjóðarinnar. Hvar eða hvernig kallast byggingin á við söguna? Hún er tengd gömlum torfbæ og umhverfi í næsta nágrenni sem bauð upp á aðra nálgun en gert var.

Hér á landi hafa verið byggð nokkur tilgátuhús. Ég nefni Stöng í Þjórsárdal, Eiríksstaði, Auðunarstofu, Rönd í Mývatnssveit, Líkanið af Skálholtskiurkju í þjóðminjasafni o. fl.  Hefði ekki verið styrkur í því að velja Víkingaheimum form eða efnisval sem tengdist á einhvern hátt tilefninu?

Hér fylgja nokkrar myndir af Víkingaheimum og í lokin myndir af tilgátuhúsinu í Slagelse og umhverfi þess. Upphafsmyndin sem er af Víkingaheimum með gömlu torfhúsin í forgrunni gefur tilefni til vangaveltna um nálgun arkitektsins á verkefninu.

IMG_8240lett

IMG_8243lett

IMG_8244lett

Trelleborg

3665118085_d57ea6380d[1]

3301023339_ca52c2ea24[1]

Hér í blálokin kemur svo loftmynd af Trelleborg sem er fyrir vestan Slagelse. Glöggir sjá að tilgátuhúsið er byggt utan fonminjanna í tengslum við safnið austur af víkingamannvirkjunum.

trelleborgcrop2

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.3.2010 - 15:55 - 20 ummæli

Tryggvagata

Tollhusid2lett

Þegar arkitektar taka þátt í samkeppnum þá líta þeir á samkeppnisverkefnið í stóru samhengi. Langt út fyrir samkeppnismörkin. Þetta er auðvitað sjálfsagt og nauðsynlegt. Þessu vinnulagi fylgja oft ýmsar smáhugmyndir sem falla utan sjálfs samkeppnisverkefnisins og eru auðvitað ekki teknar til dóms.

Myndin að ofan er einmitt af þeim toga.

Þegar samkeppni var haldin um Listasafn Reykjavíkur fyrir nokkrum árum gat að líta  hugmynd um endurmótun Tryggvagötu í einni samkeppnistilögunni. Þetta tengdist hugmyndum arkitektanna á teiknistofunni ARGOS, um aðkomu að safninu.

Hugmynd ARGOS er afar einföld og gengur út á að færa meginþorra bílastæða yfir götuna í skugga og opna solríkt svæði framan við mynd Gerðar Helgadóttur á suðurvegg Tollhússins sem yrði um leið hluti af Listasafni Reykjavíkur. Þannig opnast rúmgott svæði fyrir fólk og listaverkið fær loks notið sín.  Nú er ástandið þannig að bílarnir eru baðaðir í sól um leið og þeir skyggja á listaverkið og fólkið gengur handan götunnar í skugganum.

Þegar horft er á skissuna veltir maður fyrir sér af hverju ekki er löngu búið að framkvæma þessa sjálfsögðu og fyrirhafnarlitlu aðgerð til fegrunnar götunnar og öllum til ánægju og hagsbóta?

tollhus08

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn