Sunnudagur 12.09.2010 - 16:00 - Lokað fyrir ummæli

Er ekki skylda manns að flytja?

Er ég hugsa til framtíðar og þá til framtíðar barnanna minna þá er sennilega ábyrgðarhluti af mér að flytja ekki til Noregs.  Ber mér ekki skylda til þess að sjá til þess  að börnin mín  geti alist upp  í skipulegu samfélagi,  samfélagi fjölbreyttra möguleika þar sem fagmennska ræður ríkjum en ekki geðþótti, fámenni, klíkuskapur og fúsk.  Á ég ekki að nota tækifærið meðan það gefst að  flytja í ríkt samfélag ? Líkur eru á því að Ísland verði fátækt land.  Land ríkrarar yfirstéttar sem á íbúðir í London og New York á meðan fjöldinn stritar í fiskiðjuverum og í álbræðslum.  Þetta módel er þegar til staðar.  Land okkar er þegar orðið land misskiptingar. Er ekki líka ábyrgðarhluti að ala börnin sín upp á svona litlu málsvæði þar sem óvíst er að sé fært til að halda uppi sæmilegum vönduðum fjölmiðlum sem ekki eru í klónum á hagsmunaaðilum.

Ættjörðin togar.  Það gera allar ættjarðir. En er ástæða til þess að láta það fanga sig? Erum við ekki fyrst og fremst börn heimsins?  Er ættjörðin ekki veröldin öll?  Þannig ættum við auðvitað að hugsa.

Kynslóð foreldra minna flutti úr sveit til suðvesturhornsins í leit að hlutverki og betri lífskjörum.  Er einhver ástæða til að láta þar staðar numið?

Hluti kynslóðarinnar þar á undan flutti til Vesturheims. Voru það ekki hetjurnar? Voru það ekki þeir sem brugðust rétt við þegar framtíðin öll er skoðuð?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (30)

  • Jón B G Jónsson

    Góð grein Baldur. Oft var rætt um þá sem fluttu úr þorpum á landsbyggðinni í þéttbýlið sv-lands í leit að betri tækifærum sem flóttamenn í niðrandi tón.
    Vandamálið í dag á Íslandi er að það breytist svo skelfilega lítið. Sumir þeir sem mesta ábyrgð báru á hruninu eru enn í lykilstöðu. Setjast jafnvel aftur á alþingi og rífa bara kjaft eins og Þorgerður Katrín. Það er frustrerandi.
    Hvar í vestrænu ríki yrði útvöldum hópi fólks færð eign þjóðar eins og hér hefur gerst með fiskinn í sjónum? Það er verið að búa til forréttindastétt sem varð rík á því að fá gefins gríðarmikil verðmæti. Þessu virðist bara ekki hægt að breyta. Halda menn t.d að lífeyrir okkar verði burðugur næstu áratugina? Tap lífeyrissjóða er ofboðslegt . Samt sitja þeir sömu þar áfram. Hvað þarf til að ná fram alvöru breytingum? Virðist nánast vonlaust.

  • Þóra Óladóttir

    Það er eflaust farsælast að fólk búi þar sem því líður vel og er sátt við samfélag og umhverfi. Og það er óþarfi að setja sig á háan hest vegna skoðanna sinna á því. Spörum áfellisdómana. Takk fyrir góða hugleiðingu, Baldur.

Höfundur