Sunnudagur 12.09.2010 - 16:00 - Lokað fyrir ummæli

Er ekki skylda manns að flytja?

Er ég hugsa til framtíðar og þá til framtíðar barnanna minna þá er sennilega ábyrgðarhluti af mér að flytja ekki til Noregs.  Ber mér ekki skylda til þess að sjá til þess  að börnin mín  geti alist upp  í skipulegu samfélagi,  samfélagi fjölbreyttra möguleika þar sem fagmennska ræður ríkjum en ekki geðþótti, fámenni, klíkuskapur og fúsk.  Á ég ekki að nota tækifærið meðan það gefst að  flytja í ríkt samfélag ? Líkur eru á því að Ísland verði fátækt land.  Land ríkrarar yfirstéttar sem á íbúðir í London og New York á meðan fjöldinn stritar í fiskiðjuverum og í álbræðslum.  Þetta módel er þegar til staðar.  Land okkar er þegar orðið land misskiptingar. Er ekki líka ábyrgðarhluti að ala börnin sín upp á svona litlu málsvæði þar sem óvíst er að sé fært til að halda uppi sæmilegum vönduðum fjölmiðlum sem ekki eru í klónum á hagsmunaaðilum.

Ættjörðin togar.  Það gera allar ættjarðir. En er ástæða til þess að láta það fanga sig? Erum við ekki fyrst og fremst börn heimsins?  Er ættjörðin ekki veröldin öll?  Þannig ættum við auðvitað að hugsa.

Kynslóð foreldra minna flutti úr sveit til suðvesturhornsins í leit að hlutverki og betri lífskjörum.  Er einhver ástæða til að láta þar staðar numið?

Hluti kynslóðarinnar þar á undan flutti til Vesturheims. Voru það ekki hetjurnar? Voru það ekki þeir sem brugðust rétt við þegar framtíðin öll er skoðuð?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (30)

  • Hörður Halldórsson..

    Góður punktur hjá þér Baldur.Noregur og Svíþjóð gengu í gegnum villikapítalista tímabil fyrri hluta síðustu aldar ,en urðu svo krataríki.Munum eftir sögunni um Bör Börsson
    tilvitnun í grein um Noreg
    „Vorið 1923 er ástandið orðið alvarlegt. Síðar hefur komið í ljós að seðlabankinn, sem einn sá um eftirlit, fékk rangar upplýsingar um stöðu bankana. Hún var mun verri en bankamenn létu uppi. Þeir fölsuðu bókhaldið.

    Fjármálaráðherra var Abraham Berge, kennari að mennt, og kominn á efri ár. Um miðjan maí þetta ár kemur bankastjóri Handelsbankans á hans fund og biður um leynilegt neyðarlán. Bankinn sé kominn í þrot.

    Berge er ljóst að neitun getur þýtt að allir bankanir hrynji samtímis.

    23. maí deyr forsætisráðherrann skyndilega. Stjórnin er forystulaus en fjármálaráðherrann situr á leyndamáli, sem getur skipt sköpum fyrir þjóðina. Einn helsti banki landsins er gjaldþrota en bara hann og nokkrir menn í bankanum vita það.

    30. maí tekur Abraham Berge við forsætisráðuneytinu og er áfram fjármálaráðherra. Daginn eftir veitir hann bankanum leynilega neyðarlánið og ákvörðunin er ekki skráð í gerðarbækur ríkisstjórnarinnar. Svo líða nokkrir mánuðir en í janúar 1924 er bankinn enn á ný kominn í þrot og nú er ný neyðaraðstoð lögð fyrir þingið og samþykk enda búið að setja flesta bankana undir opinbera stjórn.

    En Berge forsætis- og fjármálaráðherra segir enn ekki frá leyniláninu.

    Og enn líður til vors og nú er ríkissjóður að fara í þrot. Berge leggur til að sett verði upp áfengiseinkasala ríkisins, áfengisbann aflétt, og þannig aflað tekna fyrir ríkissjóð í neyð. Áður var búið að leggja á sykurskatt til að afla tekna.

    Stjórnin féll á tillögunni um áfengið og nýir ráðherrar uppgötva leynilánið. Það er ákveðið að draga Abraham Berge fyrir ríkisrétt, sem þá var skipaður þingmönnum og hæstaréttardómurum. Nú er rétturinn óháður þinginu en hefur aldrei, hvorki fyrr né síðar, verið beitt í líku máli. Rétturinn deildi um málið í þrjú ár en sýknaði að lokum hinn aldna Berge því málið væri þá fyrnt. Einnig að ráðherra hefði gengið gott eitt til þrátt fyrir stjórnarskrárbrot og þrátt fyrir að kunnáttuleysi hans um fjármál hefði leitt til gjaldeyriskreppu, atvinnuleysis og landflótta til Ameríku “ tilvitnun endar

    Þannnig að Íslendingar hljóta að geta lært af reynslunni svipað og Norðmenn,Vonandi.

  • Nei, fjandakornið …

  • Kristján Birgisson

    Sé þetta þín framtíðarsýn fyrir Ísland þá styð ég brottför þína af landinu heilshugar.

    Takk fyrir komuna og vonandi hafa börnin þín ekki erft þennan uppgjafarhugsunarhátt (svo ekki sé notað sterkara orð).

  • Sig. Pétur

    Frjálshyggjutrúboðið í Sjálfstæðisflokknum er komið vel á veg með að eyðileggja íslenska samfélagið.

    Það fólk virðist líka ákveðið í að halda þeirri stefnu áfram.

    Að því leyti er alvöru álitamál hvort ástæða sé til að flýja land.

    Hin leiðin er að reyna að vinna bug á þessari óværu sem frjálshyggjutrúboð auðhyggjunnar er.

Höfundur