Sunnudagur 12.09.2010 - 16:00 - Lokað fyrir ummæli

Er ekki skylda manns að flytja?

Er ég hugsa til framtíðar og þá til framtíðar barnanna minna þá er sennilega ábyrgðarhluti af mér að flytja ekki til Noregs.  Ber mér ekki skylda til þess að sjá til þess  að börnin mín  geti alist upp  í skipulegu samfélagi,  samfélagi fjölbreyttra möguleika þar sem fagmennska ræður ríkjum en ekki geðþótti, fámenni, klíkuskapur og fúsk.  Á ég ekki að nota tækifærið meðan það gefst að  flytja í ríkt samfélag ? Líkur eru á því að Ísland verði fátækt land.  Land ríkrarar yfirstéttar sem á íbúðir í London og New York á meðan fjöldinn stritar í fiskiðjuverum og í álbræðslum.  Þetta módel er þegar til staðar.  Land okkar er þegar orðið land misskiptingar. Er ekki líka ábyrgðarhluti að ala börnin sín upp á svona litlu málsvæði þar sem óvíst er að sé fært til að halda uppi sæmilegum vönduðum fjölmiðlum sem ekki eru í klónum á hagsmunaaðilum.

Ættjörðin togar.  Það gera allar ættjarðir. En er ástæða til þess að láta það fanga sig? Erum við ekki fyrst og fremst börn heimsins?  Er ættjörðin ekki veröldin öll?  Þannig ættum við auðvitað að hugsa.

Kynslóð foreldra minna flutti úr sveit til suðvesturhornsins í leit að hlutverki og betri lífskjörum.  Er einhver ástæða til að láta þar staðar numið?

Hluti kynslóðarinnar þar á undan flutti til Vesturheims. Voru það ekki hetjurnar? Voru það ekki þeir sem brugðust rétt við þegar framtíðin öll er skoðuð?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (30)

  • Björgvin Valur

    Hvers vegna ætti það að vera uppgjöf að flytja af landi brott? Er það þá uppgjöf að flytja úr deyjandi þorpi á Íslandi til Reykjvíkur? Væri það uppgjöf að flytja úr Kolbeinsey til lands?

    Maður hlýtur að vera frjáls ferða sinna, hvað þá hugsana, án þess að einhver þjóðernisofstækismaður kalli það uppgjafarhugsunarhátt.

  • Valur B (áður Valsól)

    ,,Þetta módel er þegar til staðar. Land okkar er þegar orðið land misskiptingar.“ Þökk sé Sjálfstæðisflokknum.

  • Bjarni Karlsson

    Ein mikilvægasta spurning sem hver maður verður að svara er þessi: Hvers vegna tek ég ekki líf mitt? Sú spurning sem þú berð fram hér er skyld henni og henni þarf líka að svara. Ég ætla að veðja á Ísland og ætla ekki að unna mér hvíldar að taka þátt í uppbyggingunni úr rústum hins gamla valds sem nú er orðið bert að heimsku sinni og vangetu.
    En takk fyrir að spyrja.

  • Bjarni Karlsson

    Ég gleymdi að vísa til prédikunar minnar sem nú er í flipanum beint ofan við þig á forsíðunni. Þar er ég einmitt að tala um þetta vald og nauðsyn þess að bylta því og ég segi látum það gerast með þokka.

Höfundur