Sunnudagur 12.09.2010 - 16:00 - Lokað fyrir ummæli

Er ekki skylda manns að flytja?

Er ég hugsa til framtíðar og þá til framtíðar barnanna minna þá er sennilega ábyrgðarhluti af mér að flytja ekki til Noregs.  Ber mér ekki skylda til þess að sjá til þess  að börnin mín  geti alist upp  í skipulegu samfélagi,  samfélagi fjölbreyttra möguleika þar sem fagmennska ræður ríkjum en ekki geðþótti, fámenni, klíkuskapur og fúsk.  Á ég ekki að nota tækifærið meðan það gefst að  flytja í ríkt samfélag ? Líkur eru á því að Ísland verði fátækt land.  Land ríkrarar yfirstéttar sem á íbúðir í London og New York á meðan fjöldinn stritar í fiskiðjuverum og í álbræðslum.  Þetta módel er þegar til staðar.  Land okkar er þegar orðið land misskiptingar. Er ekki líka ábyrgðarhluti að ala börnin sín upp á svona litlu málsvæði þar sem óvíst er að sé fært til að halda uppi sæmilegum vönduðum fjölmiðlum sem ekki eru í klónum á hagsmunaaðilum.

Ættjörðin togar.  Það gera allar ættjarðir. En er ástæða til þess að láta það fanga sig? Erum við ekki fyrst og fremst börn heimsins?  Er ættjörðin ekki veröldin öll?  Þannig ættum við auðvitað að hugsa.

Kynslóð foreldra minna flutti úr sveit til suðvesturhornsins í leit að hlutverki og betri lífskjörum.  Er einhver ástæða til að láta þar staðar numið?

Hluti kynslóðarinnar þar á undan flutti til Vesturheims. Voru það ekki hetjurnar? Voru það ekki þeir sem brugðust rétt við þegar framtíðin öll er skoðuð?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (30)

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    „Engin velferð án velmegunar“, er slagorð í Danmörku, og er mikið til í því.

    Næsta kynslóð tekur ekki við góðu búi frá foreldrum sínum, líklega mun það verða mun verra en það bú sem foreldrar þeirra tóku við frá sínum foreldrum. Atvinnutækifæri þurfa fjármagn og það verður bæði dýrt og takmarkað í framtíðinni, þökk sé hruninu, sem fjármálamarkaðir gleyma ekki strax.

    Það er því viðbúið að næsta kynslóð verði kynslóð hinna töpuðu tækifæra. Að sitja og segja við börnin, þetta reddast, mun hljóma eins og fölsk og gömul grammifónsplata.

    Það besta sem næsta kynslóð getur gert er að læra ensku sem best og fara í framhaldsnám við erlenda hásóla. Þannig munu þau halda sem flestum möguleikum opnun.

  • Helga Sigurjónsdóttir

    Þetta er spurning sem margir velta fyrir sér þessa dagana og vikurnar. Ég svaraði henni fyrir mitt leyti meðan ég var atvinnulaus í kjölfar hrunsins. Svarið er NEI – nógu mikið hefur verið gefið eftir til sérhagsmuna og yfirstéttar. Það er margt gott í okkar samfélagi og umhverfi sem við metum mikils og megum ekki gefa eftir. Við þurfum að sameinast um framtíðarsýn þar sem við nýtum auðlindir okkar – bæði náttúru og mannauð – á skynsamlegan og sjálfbæran hátt – þá verður ákjósanlegt fyrir börnin okkar að taka við og búa hér. Núna eru tækifæri til að breyta mörgu og þeim tækifærum megum við ekki glata þó verkefnin virðist risavaxin og erfið.

  • Haukur Kristinsson

    Var það „uppgjafarhugsunarháttur“, sem kvatti Norðmenn til að sigla til eylandsins í vestri fyrir rúmum 1200 árum? Heldur Kristján Birgisson að það hafi ekki verið sárt fyrir marga þá Íslendinga, sem fluttu vestur um haf fyrir aldamótinn 1900?

    Kveð ég vini, fyrða, fljóð.
    Ferðar til ei hlakka.
    Kærleik, dyggð og kynni góð
    klökkur öllum þakka
    Sigurbjörn Jóhannesson, Fótaskinni

    Og heldur hann að menn geri það með bros á vör að panta gáminn og segja litlum börnum að til standi að flytja langt í burtu.

  • Sigþrúður Harðardóttir

    Ég þekki býsna vel til nokkurra fjölskyldna í útlöndum m.a. Noregi. Ég get ekki séð að börnin í þeim fjölskyldum alist upp við betri skilyrði en mín og þín. Og það sem skekur þjóðfélagið okkar fer blessunarlega fram hjá börnum okkar-flestum. Mín skoðun er sú að það myndi róta meira við mínum börnum að fara úr því umhverfi sem þau búa í og veitir þeim nauðsynlegt öryggi og skjól en að vera og veðja á íslenska framtíð. Það er nefnilega ekki auðvelt að flytja í annað umhverfi – það finnum við vel þegar erlend börn/fjölskyldur koma til okkar. En það þarf hver og einn að vega og meta fyrir sig.
    Ég held að grasið sé ekki grænna hinum megin við hafið 🙂

Höfundur