Er ég hugsa til framtíðar og þá til framtíðar barnanna minna þá er sennilega ábyrgðarhluti af mér að flytja ekki til Noregs. Ber mér ekki skylda til þess að sjá til þess að börnin mín geti alist upp í skipulegu samfélagi, samfélagi fjölbreyttra möguleika þar sem fagmennska ræður ríkjum en ekki geðþótti, fámenni, klíkuskapur og fúsk. Á ég ekki að nota tækifærið meðan það gefst að flytja í ríkt samfélag ? Líkur eru á því að Ísland verði fátækt land. Land ríkrarar yfirstéttar sem á íbúðir í London og New York á meðan fjöldinn stritar í fiskiðjuverum og í álbræðslum. Þetta módel er þegar til staðar. Land okkar er þegar orðið land misskiptingar. Er ekki líka ábyrgðarhluti að ala börnin sín upp á svona litlu málsvæði þar sem óvíst er að sé fært til að halda uppi sæmilegum vönduðum fjölmiðlum sem ekki eru í klónum á hagsmunaaðilum.
Ættjörðin togar. Það gera allar ættjarðir. En er ástæða til þess að láta það fanga sig? Erum við ekki fyrst og fremst börn heimsins? Er ættjörðin ekki veröldin öll? Þannig ættum við auðvitað að hugsa.
Kynslóð foreldra minna flutti úr sveit til suðvesturhornsins í leit að hlutverki og betri lífskjörum. Er einhver ástæða til að láta þar staðar numið?
Hluti kynslóðarinnar þar á undan flutti til Vesturheims. Voru það ekki hetjurnar? Voru það ekki þeir sem brugðust rétt við þegar framtíðin öll er skoðuð?
Þetta hef ég hugsað um þó mín börn séu uppkomin. Eldri sonur okkar og kona hans tóku þessa góðu ákvörðun sl vetur og 22. júlí á 15 ára brúðkaupsafmæli þeirra flaug hún út með börinin þeirra þrjú. Hann er með góða iðnmenntun, fær á sínu sviði og hafði byrjað að vinna hjá Norsku fyrirtæki mánuði fyrr.
Hér í hlaði stendur bíllinn þeirra svona myntkörfubíll sem enginn veit á þessari stundu hver á – þau eða lánafyritæki sem er jafnvel á leið í gjaldþrot.
Þeim gengur vel að fóta sig að nýju og eru í sambandi við fleiri landa sína. Það er góður hópur þar sem hver heldur utanum annan.
Fín og þörf hugleiðing. „Harma“ (vona að mér sé fyrirgefið að nota þetta orð) ummæli, sem fela í sér ásökun um einhvers konar „uppgjöf“, og þá veltir maður fyrir sér í hverju uppgjöfin felst.
Grunneðli og þörfum mannsins er fyrst og fremst fullnægt innan fjölskylduveggjanna, og þá skiptir ekki endilega máli hvar þeir veggir eru staðsettir á jörðinni. Sé þessum þörfum ógnað á einhvern hátt mun fólk meðvirkt, ofvirkt, vanvirkt eða óvirkt, svara þessari ógn á sinni hátt.
Sumir flytja búferlum til annarra landa og heimsálfa, aðrir bíta á jaxlinn, keyra jafnvel hausinn oní bringu og herja á móti af þrjósku og jafnvel elsku fyrir landinu og veggjunum.
Þegar allt kemur til alls, (og þetta vita þeir sem flutt hafa búferlum, skipt hafa um vinnu, misst heilsuna og fleira) er það fjölskyldan heill hennar og hamingja sem skiptir öllu máli. Að brigsla fólk sem flytur af landinu við uppgjöf og skort á ættjarðarást, er ekki fallegt né djúpt hugsað. Grundvallarmannréttindi fela í sér að allir hafi rétt til fæðis, klæðis og húsnæðis, og ef samfélagið getur ekki boðið upp á slíkt, er ekki við íbúana að sakast.
Færeyingar og Finnar vöruðu okkur sérstaklega við þessari brottflutningaþróun unga fólksins í upphafi kreppunnar. Flestir búa nú við þá staðreynd að fjórir eða fleiri innan stórfjölskyldunnar hafa flutt búferlum s.l. ár, eingöngu vegna bágs efnahagsástand og framtíðarhorfa.
Þó þetta sé nokkurs konar „survival element“ í frumskógi lögmála, er það ekki endilega survival of the fittest að flytjast af landi brott.
Þetta er spurning um val, og þeir sem hafa val og geta valið, gera það, burt séð frá staðsetningu fjögurra veggja á jarðarkringlunni.
Sæl Öllsömul.
Skil vel þau sem flytja úr landi í leit að meiri stöðugleika en hérlendis.
Einhvert val höfum við um það líf sem við sköpum okkur.
Suma veit ég um, er fluttu út, sem komu sér sjálfir í vandræði efnhagslega með óráðsíu, skipulagsleysi og bruðli.
Það er flótti, og ég efast um að þeir fóti sig betur annarstaðar, nema þeir taki upp nýja siði.
Aðrir gjalda fyrir óskipulag, stjórnleysi og getuleysi íslendinga í efnahagsmálum.
Mín skoðun er sú, að best komum við ráðandi fólki frá með því að ganga í sterk sambönd við útlönd. Öðruvísi náum við aldrei efnahagslegum stöðugleika.
Varðandi framtíð Íslands og þá sem það byggja, þá hef ég eitt að segja: „Notið verjur, Sjálfstæðismenn fæðast á hverjum degi.“
Kveðja,
Heimir H. Karlsson.
Faðir minn er fæddur 1930 og ólst upp í Fnjóskardalnum fyrir norðan. Bærinn sem hann bjó í var hluti úr steini og hluti torfbær. Þannig var þetta á þessum árum.
Móðir mín sem er fædd 1939 hefur oft sagt mér hvernig ástandið var þegar hún var að alast upp í Reykjavík. Það var nærri engin lýsing í Reykjavík og einungis malargötur.
Þegar við tölum um kreppuna í dag minnir mamma mig á það að þegar hún var að alast upp var svakaleg fátækt og mjög erfitt að fá vinnu. Ástandið í dag er gott miðað við hvernig það var.
Fjöldi manna fór út á bryggju á hverjum degi og vonaðist til þess að fá vinnu við uppskipun en fáir voru valdir. Þá var ekki komið sama öryggisnet og er nú.
Ísland var eitt fátækasta land í heiminum fyrir rúmlega 100 árum. Ég er fæddur 1964 og hef upplifað miklar breytingar á Íslandi. Það er búið að byggja hér upp flott samfélag með mikilli velmegun.
Margir íslendingar fóru algeru offari árin fyrir hrun og héldu að svona ætti lífið að vera. Landcruser var mest seldi bíllin og flestir fengu mest lánað þegar hann var keyptur.
Fólk keypti allt mögulegt sem það þurfti ekki og flestir fengu lánað fyrir því. Lífsgæðin árin fyrir hrun voru feik vegna þess að þau byggðust á lántökum en ekki raunverulegri framleiðslugetu landsins.
Nú þegar ekki er hægt að halda uppi þessum gerfi lífsstandard eru margir ósáttir og pistlahöfundur veltir fyrir sér hvort betra sé að flytja út til þess að fá réttlátt líf.
það tekur tíma fyrir Ísland að jafna sig á mesta efnahagshruni í sögunni. Menn geta ekki búist við því að allt verði eins rétt á eftir.
Ég þekki fólk sem hefur flutt út og talar um hvað mikið auðveldara sé að búa úti. Þetta fólk er að flytja úr stórum einbýlishúsum héðan frá Íslandi í litlar íbúðir í útlöndum. Hér hafði það tvo bíla til afnota en er ekki með neinn bíl útil
Það eru allskonar svona hlutir sem skekkja samanburðinn á milli landa.
Ég hef búið Danmörku verið þar bæði í námi og vinnu. Það er allt annar standard á Íslendingum og Dönum. Flestir vinnufélagar komu með smurt rúgbrauð með kæfu og borðuðu það alla daga. Fáir voru á bíl. Danir skrúfa fyrir vatnið þegar verið er að vaska upp og fara mjög sparlega með vatnið í sturtunum. Orkuverð er um fjórum sinnum hærra þar en hér.
Það er gott að búa á Íslandi. Það verður eflaust erfitt fyrir marga næstu árin meðan landið er að jafna sig eftir hrunið.
Margir sem vilja flytja út og vonast eftir betra lífi vita hreinlega ekkert um hvað þeir eru að tala.
Útflutningsgreinarnar okkar hafa ekkert haggast við hrunið. Undirstöður þjóðfélagsins eru í lagi.
Ég bið þá sem eru að tala um hvað allt sé vonlaust hér að minnast fyrri kynslóða og hvernig landið hefur verið byggt upp úr algerri fátækt.
Það sem íslendingar þurfa að temja sér er meiri nýtni og hófstilltari lífsmáti.