Mánudagur 20.09.2010 - 15:56 - Lokað fyrir ummæli

Tími oratoranna liðinn!

Ég dáist að þingmönnum. Dag út og dag inn rökræða þeir. Að baki framsögum er yfirleitt mikil vinna og oft töluverð þekking.  Andsvörin bera oft ágætri greind vitni.   En yfirleitt eru þetta litlir pontukarlar og pontukonur. Hvers vegna má fólk ekki bara sitja í sætum sínum með míkrafón andspænis forseta sem dreifir orðheimildinni (aðeins einn míkrafónn virkur í einu). Þannig yrðu skoðanaskipti líflegri og fljótlegri þó að einnig yrði hægt að flytja ítarlegar ræður.  Pontan er ekkert lögmál.  Hún er fyrst og fremst kraftbirting foringjaveldis.  Staður fyrir Cícero, Churchill og Ólaf heitinn Jóhannesson. Ekki fyrir fólk sem þarf að lesa upp úr blöðum, án tilþrifa. Miklir oratorar komast ekki lengur á þing heldur fólk sem kemur vel fyrir í sjónvarpi, sitjandi.  Ekkert verra fólk en áður, sennilega betra, bara öðruvísi.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (4)

  • Þórður Víkingur

    Held að ég sé ekki alveg sammála þér þarna. Menn eins og Steingrímur J og Ögmundur Jónasson eru flugmælskir. Þá er Össur Skarphéðinsson frábær ræðumaður. Guðmundur Steingrímsson verður sterkur í framtíðinni. Katrín Jakobsdóttir sömuleiðis og fleiri ágætir pontukarlar og -kerlingar eru þarna. Mér finnst síst minni ræðumenn á þingi í dag en áður. Hugmyndin þín um að menn tali úr sætum sínum er alveg einnar messu virði.

  • Talna-Oddur reiknaði fyrir mig að þetta stólafruss (hér er átt við þann tíma sem tekur að fara í ræðustól) sé á við 10 vinnudaga á einu þingi.

  • Áslaug Ragnars

    Held að Alþingi komist ekki hjá því að fara að hugsa sinn gang og endurskoða fundarsköpin. Kannski væri til bóta að hafa bara útvarpa frá fundunum en ekki sjónvarpa. Þá yrðu þingmennirnir varla eins viljugir að æða í ræðustól í tíma og ótíma.

  • María Kristjánsdóttir

    Mér finnst þetta góð hugmynd hjá Áslaugu með útvarpið. En á þessari stundu vildi ég nú helst bara læsa dyrum alþingis og fleygja lyklinum í tjörnina eða sjóinn.

Höfundur