Mánudagur 27.09.2010 - 11:53 - Lokað fyrir ummæli

Þingmenn koma illa út!

,,Heimspekin er dauð, eðlisfræðin blívur“  segir Stephen Hawkings og satt er það að öll raunveruleg skref í vísindaþekkingu hafa komið frá eðlisfræðinni undanfarið.  Vonandi gera heimspekilegar bollaleggingar þó enn um sinn eitthvað gagn þó þær útskýri ekki tilurð heimsins og gang í bili a.m.k.

Þingmenn koma ákaflega illa út í fjölmiðlum þessa dagana.  Siðfræðileg umræða kemur illa út í stuttum setningabrotum. ,,Nú verða þingmenn að fara eftir sannfæringu sinni“ segir einn og gefur þar með í skyn að yfirleitt sé  það ekki svo.  Þetta er misskilningur.  Þingmaður hlýtur alltaf að fara eftir sannfæringu sinni.  Jafnvel þó hann fari eftir flokkslínu og taki skref sem honum líkar ekki, hlýtur sannfæring hans að vera sú að þetta sé rétt skref skoðað í heildarsamhengi.  Ergo:  Þingmenn hljóta alltaf að fara eftir sannfæringu sinni.

,,Nú verða menn að fylgja samvisku sinni og hugsa málin hver fyrir sig“, segir annar og áttar sig greinilega ekki á því að ,,sam“ viska hlýtur að vera sameiginleg viska.  Samviska verður m.ö.o. aldrei slitin úr samhengi við samtal, samráð, samvinnu, sam-eiginlega hagsmuni eða ,,sam“ eiginlegan vilja. Það afsakar sig enginn með því að samviskan leyfi honum ekki hitt eða þetta.  Þannig getur samviska þjófsins verið hrein ef hann er sykkopat.  Sú merking orðsins að samviska sé eitthvað sem menn finni þegar þeir fara á sitt eigið djúp og tengist einhvern veginn hinum æðsta sannleika er auðvitað tóm fjarstæða.

M.ö.o. hvað varðar spurninguna um landsdóm verða þingmenn að leita á nákvæmlega sömu mið og venjulega, leita í vit sitt, visku sína. Gera  það sem þeir álíta rétt og munu ekki komast upp með einhvern orðhengishátt um ,,eigin samvisku“ sem er ekki til í þeirri merkingu sem menn vilja hafa hana.

Nema þá að eðlisfræðin verði látin taka alveg yfir en það gerist ef menn verða ófærir að hugsa heimspekilega þar sem siðfræðin er undirdeild.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (1)

  • Niels Hermannsson

    Eðlisfræðin væri nú varla komin á koppinn ef heimspekingar fyrr og nú sinntu ekki heimspekilegum spurningum um tilurð, gang og eðli heimsins. Framsæknasta eðlis og lífeðlisfræði forn Grikkja, Timæjos Platóns, var samansúrruð siðfræðihugmyndum hans. Svo það er full snemmt held ég að lýsa yfir andláti heimspekinnar eða taka sem gefnu að hún og eðlisfræðin séu endanlega skilin að skiptum. Siðfræðin hvorki hefur verið, er, né verður einkamál þeirra sem gerst þykja þekkja hug guðanna. Hún verður heldur ekki afskrifuð af þeim sem pæla í heiminum helst á grundvelli stærðfræðinnar.

Höfundur