Þriðjudagur 28.09.2010 - 19:45 - Lokað fyrir ummæli

Alþingi fellur á prófinu!

Niðurstaðan var vonbrigði.  Tek undir með nafna mínum McQueen að Geir Haarde á eftir að standa keikur eftir, hvernig sem fer, því hann fær að standa fyrir sínu.  Hin ekki. Hvernig sem á málin er litið var þetta vond og ósanngjörn niðurstaða. Eðlilegast er, úr því sem komið var,  að öll fjögur hefðu fengið að standa fyrir máli sínu fyrir Landsdómi.  En læt hér fylgja grein eftir okkur guðfræðingana átta sem hefur verið inn á trú.is síðan í morgun og á fullt erindi sem orð í belg.

,,Enn einu sinni erum við, þjóðin, að horfa upp á stjórmálastétt okkar falla á prófi. Það er sárt. Nú sem aldrei fyrr erum við í þörf fyrir traust og samstöðu til góðra verka. Tími uppbyggingar virðist enn ekki vera genginn í garð við Austurvöll.

Vilji til siðbótar?

Þegar vönduð skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis lá fyrir virtist þingið ætla að bregðast við með ábyrgum hætti. Þingmannanefnd með fulltrúum allra flokka undir forsæti Atla Gíslasonar var fengið það vandasama hlutverk að taka afstöðu til ályktana í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um ástæður efnahagsáfalla þjóðarinnar og hvaða lærdóm megi draga af þeim. Þá var þeim falið að fylgja eftir ábendingum rannsóknarnefndarinnar um æskilegar breytingar á lögum og reglum er miða að því að hindra að slíkt endurtaki sig. Samstaða virðist um að þingmannanefndin hafi skilað góðri vinnu í þessu efni.

Framan af umræðunni um skýrslu þingmannanefndarinnar virtist ríkja almennur vilji til siðbótar í stjórnmálalífi og stjórnsýslu. En nú hefur annað komið í ljós.

Þingmannanefnd tekst á við vanda

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar var lagt mat á ábyrgð á hugsanlegum mistökum og vanrækslu stjórnvalda sem áttu þátt í Hruninu. Þingmannanefndinni var einnig ætlað að taka afstöðu til framgöngu ráðherra í aðdraganda Hrunsins gæfu niðurstöður rannsóknarnefndarinnar tilefni til slíks.

Eins og alþjóð veit varð niðurstaða rannsóknarnefndarinnar að tilteknir ráðherrar hefðu sýnt af sér vanrækslu í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 142/2008 í aðdraganda falls bankanna. Vanrækslan fólst í því að láta hjá líða að bregðast á viðeigandi hátt við hinni yfirvofandi hættu fyrir íslenskt efnahagslíf sem leiddi af versnandi stöðu bankanna. Þetta reyndist einmitt erfiðasti þátturinn í verkefni þingmannanefndarinnar. Því miður tókst henni ekki að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Meirihluti hennar komst þó að þeirri niðurstöðu að höfða beri sakamál fyrir landsdómi gegn tilteknum ráðherrum í öðru ráðuneyti Geirs H. Haarde vegna refsiverðrar háttsemi þeirra í embættisfærslum sínum á árinu 2008. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eins töldu að ekki bæri að ákæra neinn ráðherra.

Hlaupist undan ábyrgð

Því miður koma viðbrögð þingheims sjálfs þjóðinni í opna skjöldu. Hann reyndist ekki þeim vanda vaxinn að kalla ráðherra til ábyrgðar. Má segja að hlutur forsætisráðherra sé þar sýnu verstur en mánudaginn 20. sept. s.l. talaði hún mjög niður tillögur meirihluta þingmannanefdarinnar í ræðustól Alþingis.

Í 14. grein sjórnarskrárinnar segir „Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.“ Það er átakanlegt að horfa upp á ráðaleysi þingmanna þegar þeim er ætlað það erfiða hlutverk að skapa framkvæmdavaldinu raunverulegt aðhald. Í umræðunum um tillögur hins klofna meirihluta þingmannanefndarinnar um að sækja þrjá eða fjóra fyrrum ráðherra til ábyrgðar hefur hver hlaupið í sína átt og þyrlað upp ótrúlegu moldviðri um eðli málsins. Þar koma í ljós hefðbundin viðbrögð kunningjasamfélagsins sem eru gagnrýnisleysi og samtrygging.

Í þingsölum hefur framkvæmd þessa ákvæðis verið líkt við pólitísk réttarhöld. Slíkt er ekki nokkru lagi líkt. Alþingi getur samkvæmt ákvæðinu aðeins kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Í kæru felst hvorki saksókn né sakfelling. Í kæru felst aðeins það að löggjafarvaldið skýtur því til dómsvaldsins að rannsaka gjörðir framkvæmdavaldsins. — Hlýtur Hrunið 2008 ekki að gefa nægilega ástæðu til þess að slík rannsókn fari fram?

Falskt öryggi?

Viðbrögð þingmanna við fram komnum tillögum um að tilteknir ráðherrar verði látnir sæta ábyrgð vekja upp grunsemdir um það að þjóðin hafi verið blekkt.

Áratugum saman hefur verið vísað til stjórnarskrárákvæðisins um landsdóm sem tryggingu fyrir því að hægt væri að kalla ráðherra til ábyrgðar en slíkt er grundvallaratriði í lýðræðis- og réttarríkjum. Nú þegar mörgum virðist ástæða komin til að grípa til þessa öryggisloka er okkur sagt að ákvæðið sé úrelt, því það standist ekki kröfur réttarríkisins um vandaða málsmeðferð né nútímakröfur um mannréttindi.

Þeir sem einna hæst tala í þessa veru eru þingmenn sjálfir. Hvað segja slík viðbrögð úr þeirri átt? Að þingmenn hafi alls ekki sett sig inn í ákvæðið, eðli þess, tilgang og afleiðingar? Ef svo er hafa þeir sofið á verðinum. Slíkt er ekki gott.

Hitt er þó verra ef þingmenn hafa gert sér þetta ljóst en látið undir höfuð leggjast að færa ákvæðið til núverandi horfs. Slíkt flokkast undir blekkingu. Þá hafa þingmenn skapað þjóðinni flaskt öryggi en sér og foringjum sínum á ráðherrastólum þeim mun öruggari stöðu þar sem þeir hafa komið í veg fyrir að hægt sé að kalla þá til ábyrgðar.

Það skal að sönnu viðurkennt að landsdómsleiðin hefur sín miklu takmörk, m.a. þau að með henni verður ekki hægt að kalla þau til ábyrgðar sem mesta sök eiga: Ráðherrana sem sátu á tímum einkavæðingarinnar. — Þingheimur þarf að finna leið til að setja merkimiða á störf þeirra, t.d. með því að samþykkja á þau vítur af einhverju tagi.

Prófraun

Þessa dagana fylgist þjóðin með þingmönnum sínum í þeirri prófraun sem þeir takast nú á við. Ætlar löggjafarvaldið að sýna að það sé raunverulega ekki undir hæl framkvæmdavaldsins — í þessu tilviki nokkrum fyrrverandi ráðherrum — eða ætlar það að beita þeim öryggistækjum sem stjórnarskráin leggur þeim í hendur?

Við gerum okkur grein fyrir að það er erfitt að kalla fyrrum samverkamenn, vini og félaga til ábyrgðar en stundum verður ekki undan því komist. Margt bendir til þess að það sé einmitt raunin núna.“

Höfundar eru Hjalti Hugason, Anna S. Pálsdóttir, Sigurður Árni Þórðarsson, Sólveig Anna Bóasdóttir, Pétur Pétursson, Arnfríður Guðmundsdóttir, Sigrún Óskarsdóttir, auk undirritaðs.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Iceviking

    Rétt Baldur.

    Geir mun ganga frá dómnum bæði hreinni og beinni en hann er í dag.

    Þau hin og alveg sérstaklega þeir stórnmálamenn sem sökum hepnni og bjagaðs regluverks sleppa alveg Davíð og Halldór svo dæmi sé tekið munu hafa laskað mannorð allt það sem eftir er.

  • Torfi Stefansson

    Finnst ykkur ekki hæpið, sem prestar fólks í öllum flokkum, að taka þennan pól í hæðina? Hér er um að ræða flokkspólitískt mál, eins og atkvæðagreiðslan á þinginu ber ljósan vott um, og því mjög viðkvæmt fyrir marga skjólstæðinga ykkar.
    Kirkjan og prestar eiga ekki að vera dómarar heldur þvert á móti boðberar sáttar, ekki síst í máli sem þessu.
    Mér sýnsit þessi yfirlýsing ykkar áttmenninganna bera frekar vott um popularisma en um sterka réttlætiskennd.
    Auk þess vegur hún að þingræðinu og tekur þannig undir þær raddir sem vilja það feigt. Hvað fáum við þá í staðinn? Einræði fasismans?

  • Kannski er aðalmálið Torfi að við erum, eins og þú alltaf, óhrædd við að taka pól í hæðina. Bkv. B

Höfundur