Þriðjudagur 26.10.2010 - 13:58 - Lokað fyrir ummæli

Hent út í yztu myrkur!!

Í gær var mér hent út í yztu myrkur. Daginn áður opnaði ég tölvuskeyti frá að því er virtist  tveimur kærum vinum og hleypti þar með ógeðslegum ormi inn í tölvuna mína sem samstundis  sendi á vinalista minn í Facebook tilvísun á Youtube með orðunum: Ert þetta Þú? Kvöldið fór í það að útskýra og afsaka þetta ónæði í mínu nafni og tóku mér allir vel. Nokkrir hringdu og vinskapur jafnvel endurnýjaðist.

Nú bregður svo við að síðunni minni er lokað.  Henni er eytt með öllum vinalistanum. Mér meinaður aðgangur. Ég facebook tröllið með 300 vini er ekki til.  Varpað út í ystu myrkur.  Fékk smá dauðatilfinningu. Hvað er hún Halla í Ásum að aðhafast?  Hvaða ritningarlestri er Solveig Lára að veifa í dag? Hvar eru hin brosandi andlit Árna Svans og Kristínar Þórunnar, eitursnjöllkomment Hafsteinsog Gunnars Þórs? Já, hvar eru börnin mín, ættmenn, sveitungar, Dalamenn, Hornfirðingar. Saknaðatilfinningin nísti inn að beini og nístir enn.

Ég fór á einhvern facebook link þar sem stóð hryssingslega á ensku: veistu af hverju var lokað á þig? Þar skildist mér að ég hefði að verið að dreifa spami sem eru einhvers konar óhreinindi.  Ég reyndi að verjast en fékk engin viðbrögð.  Ég var greinilega að tala við einhverjar vélar. Mér leið eins og sovéskum andófsmanni gagnvart stjórnvöldum. Mér leið eins og Sjálfstæðismanni sem hafði talað illa um Davíð: Ekki virtur viðlits.

Ég er sem sagt dæmdur og tekinn af lífi saklaus.  Engin vörn leyfð. Enginn málskotsréttur. Engin mannréttindi virt.

Sem betur fer er ég sá sem ég er og lifi þetta af. Þetta jafnvel auðveldar mér að setja mig í spor hins útskúfaða, en af því hef ég vinnu.  En ég set mig í spor unglings eða uppburðalítillar manneskju og ég sé í hendi mér að þetta getur fólk upplifað sem höfnun og verið mikill áfall.

Þess vegna segi ég. Bindum ekki trúss okkar við Sovét netheima.  Þar eins og á öllum öðrum sviðum eigum við rétt á að komið sé fram við okkur eins og persónur af holdi og blóði, að mannréttindi sé virt, enginn sé dæmdur saklaus a.m.k. ekki án réttarhalda. Ég mun halda áfram að byggja upp mitt vinanet með heimsóknum og símaviðtölum og á Eyjunni, það er verst hvað margir eru viðskotaillir við mann þar.  Það voru allir svo góðir á Facebook.  Þannig man ég hana. Þannig er um það sem farið er. Vinir sendið mér línu. Skiljið mig ekki einan eftir hér út í yztu myrkrum.

Eftirskrift: Því miður þá var ég ekki í framboði til Stjórnlagaþings. Þá hefði ég getað talað um pólitískar ofsóknir og jafnvel komist á stjórnlagaþing sem fórnarlamb.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Baldur Kristjánsson

    Hvað er Linux? Getur það orðið vinur manns? Hvar er hann?

  • „Sem betur fer er ég sá sem ég er og lifi þetta af. Þetta jafnvel auðveldar mér að setja mig í spor hins útskúfaða, en af því hef ég vinnu. En ég set mig í spor unglings eða uppburðalítillar manneskju og ég sé í hendi mér að þetta getur fólk upplifað sem höfnun og verið mikill áfall.“

    Já, það er fúlt að vera útskúfaður. Eins og þegar maður er lítið barn og allir í skólanum fá frí til að fara í fermingarfræðslu, eða einhver fullorðinn maður kemur og segir þeim að trúa á miðaldarkukl út af því að allir aðrir trúa á það…

    Þið prestar eruð ekkert að grínast í hræsninni er það nokkuð?

  • Baldur Kristjánsson

    Daði! Þú veist greinilega ekkert við hvern þú ert að tala. Ég hef unnið að því (innan Evrópuráðsins)að börn verði ekki sett út/skilin eftir nema það sem þau taka sér fyrir hendur sé jafngilt. Ég vil t.d. að trúfræðsla sé með þeim hætti að allir geti/eigi að vera. Kirkjuheimsóknir eiga að vera þannig einnig að allir geti tekið þátt enda eiga þær að vera á forsendum skólans. Kynntu þér málin Daði. BKv. B

Höfundur